Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:32:05 (4965)

1998-03-19 17:32:05# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi sami ágæti maður, Václav Havel forseti, sagði við mig þegar ég kom í heimsókn til hans ágæta ríkis, Tékklands: ,,Ég stóð að því og var í fremstu röð við að leggja Varsjárbandalagið niður. Og ég ætlast til þess, vegna þess að ég hafði forustu um að taka þar tappann úr þannig að það varð að leggja niður starfsemi sína, að mitt land fái aðild að Atlantshafsbandalaginu.`` Hann ætlaðist til þess þannig að það var alveg ljóst að Václav Havel var mikill áhugamaður um að hans land gengi í Atlantshafsbandalagið sem Alþb. er að vísu á móti. Og það er slæmt til þess að vita að hann og hans þjóð skuli fá þær móttökur af þeim.

Ég vil að lokum segja um þetta mál að það er ágreiningur milli mín og Alþb. um þau einföldu sannindi að ég er þeirrar skoðunar að þessum vopnum verði útrýmt eftir leið samninga en ekki eftir leið einhliða yfirlýsinga eða lagasetningar í einstökum löndum. Þetta er grundvallarskoðanamunur. Við erum hins vegar sammála um það markmið að útrýma þessum vopnum. Verulegur árangur hefur orðið á þessum sviðum, t.d. stórveldasamningar, NPT-samningurinn sem hér hefur verið nefndur, bann við tilraunasprengingum og efnavopnasamningurinn. Ég vil líka geta þess að Atlantshafsbandalagið og lönd þess hafa hjálpað til og unnið að því að hreinsa til á Kolaskaga og vonandi munu þjóðir heimsins halda áfram að reyna bægja frá þeirri miklu vá sem þar er.