Íslenskt sendiráð í Japan

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:37:15 (4967)

1998-03-19 17:37:15# 122. lþ. 91.4 fundur 94. mál: #A íslenskt sendiráð í Japan# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:37]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um íslenskt sendiráð í Japan. Flm. að þessu máli ásamt mér eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Kristín Ástgeirsdóttir. Tillagan er stutt, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót íslensku sendiráði í Japan á árinu 1998.``

Þessi tillaga var fyrst flutt á 115. löggjafarþingi og þá stóðu að tillöguflutningi með þeim sem hér talar hv. þáv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, Jón Helgason og Kristín Einarsdóttir. Veigamikil röksemd fyrir flutningi tillögunnar þá og er enn er sífellt aukin samskipti og mjög mikilvæg samskipti Íslendinga og Japana, bæði á sviði menningar og einnig á sviði viðskipta.

Við sem flytjum þetta mál hér enn og aftur erum þeirrar skoðunar að þrátt fyrir opnun sendiráðs í Kína í ársbyrjun 1995 þá mæli brýnir hagsmunir með því að opnað verði íslenskt sendiráð í Japan vegna mikilvægis tengsla Íslands og Japans og vegna vaxandi samskipta og markaðsmöguleika í öðrum fjölmennum ríkjum Austur-Asíu.

Þessari tillögu er ekki teflt á neinn hátt gegn því sendiráði sem hefur verið opnað í þessum heimshluta. Það var auðvitað álitamál þegar það var gert og ég hefði haft aðrar áherslur uppi í þeim efnum á þeim tíma. En hér er sem sagt þessi tillaga flutt og fyrir henni eru færð rök í greinargerð frekar en ég hef þegar mælt fyrir. Ég ætla ekki að fara yfir einstakar talnalegar staðreyndir sem eru hér raktar í sambandi við þróun viðskipa og önnur samskipti lands okkar við Japan en undirstrika gildi þess að þarna verði um jákvæða þróun að ræða í samskiptum ríkjanna sem af Íslands hálfu væri undirstrikað eins og sem tillagan gerir ráð fyrir.

Í fskj. með tillögunni er að finna skrá yfir íslensk sendiráð og starfsmannafjölda þeirra erlendis. Þessi skrá er unnin upp úr Handbók utanríkisráðuneytissins og er út af fyrir sig fróðlegt gagn sem slíkt að hafa það yfirlit hér til hliðsjónar.

Ég hef vænst þess að hæstv. ríkisstjórnar tæki þá ákvörðun að stíga það skref sem þessi tillaga gerir ráð fyrir. Vaxandi undirtektir hafa verið við þetta mál og þessa stefnu sem er að finna í þessari tillögu. Ég minni á leiðara í Morgunblaðinu 9. janúar 1997 þar sem tekið var undir með hæstv. forsrh. í sambandi við gildi þess að byggja upp utanríkisþjónustuna og að opnað verði sendiráð í Japan og hugsanlega einnig aukið við annars staðar þar sem við höfum haft lítil samskipti, þó að reynt hafi verið að rækja þau héðan, m.a. að heiman, utan það að ýmis okkar sendiráð erlendis skipta með sér verkum að gæta hagsmuna sem víðast. Þar er mikið og gott starf unnið af fámennri utanríkisþjónustu okkar. En ekki verður yfir allt komist og það er mjög þýðingarmikið að við stígum þarna frekari skref í að byggja upp okkar utanríkisþjónustu.

Ég hef oft hugsað til þess hvort unnt væri að fjölga diplómatískum sendimönnum okkar erlendis með enn minni kostnaði í einhverjum tilvikum en gerist með þeim sendiráðum sem nú eru starfrækt. Ég skal ekki leggja mat á hvað raunhæft er í þeim efnum en auðvitað hljótum við að leitast við að halda sparlega á um leið og við náum sem bestum árangri fyrir hönd okkar lands og í samskiptum við aðrar þjóðir með starfrækslu utanríkisþjónustu okkar.

Ég teldi æskilegt að fá heyra frá hæstv. utanrrh. hvert mat utanrrn. sé á þessu máli. Ég hef heyrt þetta viðrað öðru hverju á undanförnum árum og metið það svo að raunverulegur vilji og ásetningur væri fyrir því að stíga þetta skref og að þessi hugmynd sem var upphaflega flutt á Alþingi af þingmönnum úr fjórum flokkum sem höfðu raunar þá nýlega verið í heimsókn í Japan --- það var kannski kveikjan að því að þessi tillaga var upphaflega flutt --- gæti orðið lóð á þá vogarskál að ríkisstjórnin tæki þetta skref.