Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 23. mars 1998, kl. 17:39:17 (5036)

1998-03-23 17:39:17# 122. lþ. 92.17 fundur 489. mál: #A þjóðhagsstofnun# frv., Flm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 122. lþ.

[17:39]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 832 er flutt frv. til laga um breytingu á lögum um Þjóðhagsstofnun, nr. 54/1974. Flutningsmenn eru fjórir. Auk mín eru það hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Gísli S. Einarsson.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um Þjóðhagsstofnun. Meginbreytingin er að stofnunin er færð frá forsætisráðuneyti og mun framvegis heyra undir Alþingi ef frumvarpið nær fram að ganga. Vegna hlutverks stofnunarinnar er talið nauðsynlegt að hún sé að öllu leyti óháð stjórnvöldum. Telja verður óheppilegt og jafnvel óeðlilegt að Þjóðhagsstofnun skuli heyra undir forsætisráðuneytið jafnframt því að stofnunin eigi að fylgjast með efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma og leggja mat á árangurinn. Má benda á að Alþingi ákvað fyrir rúmum áratug að færa Ríkisendurskoðun frá framkvæmdarvaldinu undir yfirstjórn Alþingis, m.a. vegna þeirra sjónarmiða að ekki þótti eðlilegt að Ríkisendurskoðun heyrði undir aðila sem stofnuninni var falið að hafa eftirlit með. Breyting þessi var til þess fallin að styrkja starfsaðstöðu Alþingis, m.a. við gerð fjárlaga, og er þinginu opnuð leið til þess að láta stofnunina gera á eigin vegum rannsóknir og athuganir á einstökum málum.

Í samræmi við þessi sjónarmið er lagt til í frumvarpinu að beiðnir til Þjóðhagsstofnunar um skýrslur eða athuganir verði að vera innan almennra reglna sem forsætisnefnd Alþingis setur. Rétt er að slíkar reglur geri Þjóðhagsstofnun kleift að meta fyrir stjórnvöld áhrif efnahagsaðgerða og lagabreytinga og nýta þannig sérfræðikunnáttu og dýra reiknigetu, sem einungis er til staðar í stofnuninni.

Þá er gert ráð fyrir að áfram geti alþingismenn og einstakar þingnefndir snúið sér beint til stofnunarinnar og óskað eftir upplýsingum eða skýrslu um efnahagsmál, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna um Þjóðhagsstofnun.

Þriðja meginbreytingin er að við verkefni Þjóðhagsstofnunar er bætt að stofnunin skuli gera þjóðhagsáætlun til langs tíma og taka mið af vernd og nýtingu auðlinda, svo og umhverfismálum, þegar metin eru áhrif tiltekinna aðgerða á þjóðarbúskapinn. Er þessi breyting gerð til þess að stuðla að vandaðri áætlanagerð og markvissri efnahagsstjórn.

Í 1. gr. frv. er lagt til að Þjóðhagsstofnun heyri undir Alþingi í stað forsætisráðherra, eins og nú er. Í samræmi við þá breytingu er gert ráð fyrir að forsætisnefnd Alþingis ráði forstjóra stofnunarinnar. Til viðbótar koma ákvæði þar sem kveðið er á um að forstjóri ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar, að hann sé starfsmaður Alþingis og beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart því og loks að forsætisnefnd Alþingis geti að fengnu samþykki Alþingis vikið forstjóranum úr starfi.

Í 2. gr. er mælt fyrir um að Þjóðhagsstofnun sé engum háð í störfum sínum og enn fremur um rétt forsætisnefndar Alþingis til að krefjast skýrslu um einstök mál er falla undir starfsemi Þjóðhagsstofnunar.

Í 3. gr. frv. eru lagðar til breytingar á 2. gr. gildandi laga. Í fyrsta lagi er kveðið á um gerð áætlana til langs tíma og að leggja beri áherslu á verndun og nýtingu auðlinda, svo og umhverfismál, í þeim áætlunum. Í öðru lagi að Þjóðhagsstofnun geti annast verkefni fyrir aðra aðila, svo sem ríkisstjórn, Seðlabanka Íslands og alþjóðastofnanir, en þó innan þeirra marka sem forsætisnefnd Alþingis setur. Er það til samræmis við þá breytingu að Þjóðhagsstofnun starfi á vegum Alþingis í stað ríkisstjórnar. Loks er bætt við greinina ákvæði um að skýrslur Þjóðhagsstofnunar skuli teknar til umfjöllunar í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, í hvorri um sig eða báðum, eftir því sem við á.

Í 4. gr. frv. er lagt til að 4. gr. laganna falli brott, enda er það hlutverk sem Þjóðhagsstofnun er ætlað samkvæmt þar til greindum lögum fallið brott og greinin því óþörf.

Í 5. gr. frv. er lagt til að ríkissjóður greiði allan kostnað af starfsemi Þjóðhagsstofnunar, en nú greiðir ríkissjóður helming og Seðlabanki Íslands hinn helminginn. Þar sem sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar er lykilatriði í breytingum frumvarpsins þykir ekki eðlilegt að stofnunin eigi fjármögnun starfsemi sinnar að hálfu undir Seðlabanka Íslands og er því breytingin lögð til. Þess í stað er gert ráð fyrir að fjárhæðin sem Seðlabankinn greiðir nú til Þjóðhagsstofnunar renni í ríkissjóð.

[17:45]

Í 6. gr. frv. er lagt til að sambærilegt ákvæði og er að finna í lögum um Ríkisendurskoðun um gerð skýrslu sem lögð skal fyrir Alþingi verði í lögum um Þjóðhagsstofnun.

Loks er í 7. gr. frv. kveðið á um gildistöku laganna, ef samþykkt verða, og gert ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1999.

Þá er að lokum þess að geta, herra forseti, að í ákvæði til brábirgða er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. gr. frv. um ráðningu forstjóra Þjóðhagsstofnunar gildi skipun núv. forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Ekki er því gert ráð fyrir að það ákvæði frv. taki gildi fyrr en næst verður ráðinn forstjóri Þjóðhagsstofnunar.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir efnisatriðum þessa frv. sem flutt er af fjórum þingmönnum úr tveimur stjórnarandstöðuflokkanna, Alþfl. og þingflokki jafnaðarmanna.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.