Frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 13:58:23 (5306)

1998-03-31 13:58:23# 122. lþ. 99.92 fundur 288#B frétt DV um umræður á Alþingi um vistun ungra afbrotamanna# (aths. um störf þingsins), Flm. JónK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 122. lþ.

[13:58]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Margt hefur verið sagt í þessari umræðu og ég hlýt að rifja upp hvað varð tilefni hennar. Ég spurði um hvaða reglur hefðu verið og undir hvað formerkjum utandagskrárumræðan hefði verið háð í gær. Hæstv. heilbrrh. var ekki kallaður til hennar, það hefur verið upplýst hér, og vörn þeirra hv. alþýðuflokksmanna sem hafa talað hér er sú að fara út í almennar umræður um geðheilbrigðismál í fangelsum, eins og það hafi verið það sem ég talaði um. (ÖS: Vertu ekkert að draga í land.) Eins og það sé ekki alvarlegt mál, hv. þm. Vörnin er í því.

En ég er aðeins að tala um umgengnisreglur í hv. Alþingi. Það er vitað að utandagskrárumræður eru háðar samkvæmt sérstöku samkomulagi um tíma og hverjir eiga að vera við. Það er ákveðinn tími sem hver hefur í þeirri umræðu, það er neglt niður fyrir fram. Ég er að tala um það og upplýst hefur verið hér að viðkomandi ráðherra var ekki boðaður til umræðunnar.

[14:00]

Ég er ekki að beina máli mínu til hæstv. ráðherra en það hefur verið gert mikið úr því að hann sé ekki viðstaddur. Ég hef ekkert við hann að tala um þetta. Ég var að beina máli mínu til hæstv. forseta og hann hefur svarað spurningum mínum og það hefur verið upplýst sem ég vildi fá fram að ráðherrann var ekki boðaður með venjulegum hætti til umræðunnar og hafði ekki skyldu til þess að vera viðstaddur hana umfram almenna þingskyldu sína. Það er upplýst og þetta er niðurstaða og það er það sem ég vildi fá fram.