Útgáfa reglugerðar um sölu áfengis

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:24:58 (5392)

1998-04-06 15:24:58# 122. lþ. 102.91 fundur 296#B útgáfa reglugerðar um sölu áfengis# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli þingsins á þeim fáheyrða yfirgangi sem hæstv. fjmrh. hefur sýnt Alþingi með útgáfu reglugerðar um ÁTVR sl. föstudag. Sú reglugerð gerbreytir verslunarháttum með áfengi frá því sem tíðkast hefur í 76 ár og hefur verið grundvöllur áfengisstefnu Íslendinga. Reglugerðarbreytingunni hefur ákaft verið fagnað af Verslunarráði Íslands. Með henni er ÁTVR bannað að annast innkaup á áfengi til landsins og veita heildsölum þannig virkt aðhald. Með henni er jafnframt gengið út frá því sem vísu að Alþingi samþykki ný áfengislög sem nú eru í meðförum þingsins og eru þar mjög umdeild. Með öðrum orðum telur framkvæmdarvaldið, hæstv. fjmrh., að það geti reitt sig á að meiri hluti Alþingis sé nánast viljalaust verkfæri.

Staðreyndin er sú að Alþingi hefur ekki lokið umræðu um þetta umdeilda mál og af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna hafa komið fram miklar efasemdir um stefnu hæstv. fjmrh. í þessu máli. Það eru helber ósannindi, sem haldið hefur verið fram í fréttatilkynningu frá fjmrn., að hér sé farið að kröfu Samkeppnisráðs eða í fótspor frænda vorra á Norðurlöndum. Þetta er fáheyrð framkoma við löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Hér er komið aftan að Alþingi og ég leyfi mér að mælast til þess við hæstv. forseta þingsins að hann taki þessi mál til sérstakrar skoðunar. Að öðrum kosti er ljóst að efnt verði til mikillar umræðu um þetta málefni og ekki síður þessi vinnubrögð, þegar Alþingi kemur saman að nýju. Á þessu stigi skulum við láta það liggja á milli hluta að framkvæmd reglugerðarinnar er erfiðleikum háð með þeim skamma fyrirvara sem ætlaður er og við skulum líka láta liggja á milli hluta að tveimur tímum eftir að reglugerðin var undirrituð komu helstu fjárstuðningsmenn Sjálfstfl. saman, þar á meðal eflaust nokkrir valinkunnir brennivínsheildsalar, til þakkargjörðar í boði Sjálfstfl. Tilefnið kann að hafa verið annað en það er alltaf gott að geta glaðst í góðra vina hópi.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að hlutur Alþingis verði réttur í þessu máli.