Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:53:51 (5841)

1998-04-28 18:53:51# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:53]

Kristján Pálsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi þetta mál og að þingmenn Sjálfstfl. komi ekki múlbundnir út af þingflokksfundum og tali einum rómi þá kemur mér mjög á óvart að slík yfirlýsing skuli koma úr munni hv. formanni Alþfl. því ég veit ekki til þess að þeir hafi hingað til talað öðruvísi en hver með sinni tungu og helst aldrei verið sammála, alla vega ekki þegar þeir voru í stjórn, ef ég man rétt. Það kemur mér því mjög á óvart að heyra hann koma með yfirlýsingar sem þessa.

Það er ekkert óvenjulegt við að frumvörp sem koma í þingið séu send til nefndar og svo til umsagnar úti í þjóðfélaginu. Það hefur alla tíð tíðkast að frumvörp eins og þetta fái einhverja umsögn í þjóðfélaginu, hjá sveitarstjórnum, hjá hagsmunaaðilum og öðrum slíkum sem um þessi mál fjalla að ósk þingsins. Ég tel að þetta sé það stórt mál að það eigi heima í umræðu úti í þjóðfélaginu nákvæmlega eins og sveitarstjórnarlögin hafa haft góðan tíma úti í þjóðfélaginu til umræðu. Það er því ekkert tortryggilegt við það að þetta mál verði tekið aftur upp næsta haust. Ég held að enginn sé að draga neinn á asnaeyrunum með þeim vinnubrögðum. Það er fyrst og fremst verið að styrkja niðurstöðuna og efla trú á því að menn ætli sér að gera það sem í þessu frv. felst í meginatriðum. En að sjálfsögðu er ekkert endilega víst að það verði orði til orðs nákvæmlega eins. Það sem menn eru fyrst og fremst að tryggja er að miðhálendið sem slíkt verði með svæðisskipulagi og það verði ekki ákvörðun eða geðþóttaákvörðun ráðherra að þarna verði svæðisskipulag heldur verði það lögfest. Það er aðalatriðið.

Síðan er það spurningin hverjir verði í slíkri nefnd. Og þeir gætu orðið fleiri en fulltrúar frá sveitarfélögunum.