Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:42:01 (5961)

1998-04-29 22:42:01# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði í ræðu sinni fyrr í kvöld að með því að Reykvíkingar hefðu fulltrúa í samvinnunefndinni væri tryggt að viðhorf þeirra kæmu að vinnunni. Það er einfaldlega ekki fullnægjandi fyrir mig og það er ekki heldur fullnægjandi fyrir kjósendur þessa hv. þm. Það er ekki nóg að viðhorf okkar komist inn á einhvern fund í nefndinni. Það kemur að því að ólíkir hagsmunir takast á og það þarf að skera með einhverjum hætti úr þeirri deilu. Hvernig er það gert? Það er gert lýðræðislega, með atkvæðagreiðslu, og þá sættir þessi hv. þm. sig við það að kjósendur hans hafa tvo af 18. Það er einfaldlega ekki fullnægjandi.

Hv. þm. opinberaði skilningsleysi sitt á eðli málsins sem við erum að ræða með því að nota það sem einhver rök að landsbyggðin hafi ekki möguleika til að hafa áhrif á skipulag Reykjavíkurborgar. Ja, heyr á endemi! Þar er um gjörsamlega ósambærilegt mál um að ræða, herra forseti. Við erum að tala um náttúruperlur, dýrustu gersemar íslensku náttúrunnar sem er að finna á miðhálendinu. Það er bara eitthvað allt annað en malbikið á Miklubrautinni. Ef hv. þm. skilur það ekki, þá finnst mér að hann ætti ekki að tala mikið í þessari umræðu. Ég verð að segja það, herra forseti. Síðan opinberar hv. þm. skilningsleysi sitt á eðli málsins með því að horfa fram í tímann og segja: Fyrir 35 árum var nánast einn rútubíll á einhverjum tilteknum tíma sem kom þarna inn eftir. Nú er þarna veruleg umferð og hann spyr eðlilega: Hvað eftir önnur 35 ár? Þá spyr ég: Hver á t.d. að annast stjórnsýsluverkefni eins og löggæslu? Eru það þessir litlu hreppar sem hv. þm. ber svo mikið traust til? Ég ber traust til þeirra líka. Þau eru bara ekki fær um að valda því verkefni og við verðum að horfa fram í tímann. Það þarf á þessum tíma, að þessum tíma liðnum sem hv. þm. nefndi, að takast á við allt önnur og flóknari verkefni vegna miklu meiri ferðamennsku og straums manna, innlendra og útlendra, inn á miðhálendið. Hvernig ætlar hv. þm. þá að láta þessi litlu sveitarfélög takast á við verkefni eins og löggæsluna? Það er ekki hægt, herra forseti, og það er ekki síst þess vegna sem við erum að tala um að það þurfi að hafa miðhálendið undir einni stjórnsýslu.