Aðgerðir vegna starfsþjálfunar

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:55:35 (6106)

1998-05-04 10:55:35# 122. lþ. 116.3 fundur 669. mál: #A aðgerðir vegna starfsþjálfunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:55]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er misskilningur sem kemur fram í fyrirspurninni að um þingsályktun hafi verið að ræða sem samþykkt hafi verið vegna þess að menntmn., sem fékk málið til umfjöllunar, lagði til að því tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og var sú afgreiðsla samþykkt. Að öðru leyti er svarið þetta.

Á vegum iðn.- og viðskrn. sem er annað af tveimur ráðuneytum sem fékk málið síðan til meðferðar hefur eftirfarandi m.a. gerst:

Í reglugerð nr. 367/1997 er kveðið á um viðurkenningu á starfi og starfsþjálfun í iðnaði í öðru EES-ríki sem sett er á grundvelli 2. gr. iðnaðarlaganna. Iðn.- og viðskrn. greindi hagsmunaaðilum frá nýju reglugerðinni. Iðn.- og viðskrn. hefur stuðlað að aukinni þátttöku námsmanna í atvinnulífinu og veitti ráðuneytið fjárveitingu að upphæð 1,5 millj. kr. í gegnum átak til atvinnusköpunar til stuðnings við eftirfarandi verkefni hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna:

1. Söguleg sérstaða Austur-Húnavatnssýslu með tilliti til ferðaþjónustu.

2. Félagsleg og efnahagsleg áhrif samgöngubóta: Óseyrarbrú og byggð í nágrenni hennar.

3. Skriðufallavá með tilliti til skipulags byggðar og verklegra framkvæmda: Rannsóknir á skriðuföllum í Vatnsdalsfjalli og Reynisfjalli.

4. Tengsl Háskólans á Akureyri og Akureyrarbæjar við nýsköpun í atvinnulífinu.

5. Samtenging bókasafna á Austurlandi.

6. Ástands- og þarfagreining bruna- og umhverfismála íslenskrar fiskvinnslu.

7. Þróun fræðsluafþreyingar í Mývatnssveit.

8. Rannsókn á lægri mörkum súrefnisstyrks í vatni fyrir bleikjueldi.

9. Arfgreining á sauðfé.

10. Samanburðarrannsókn á grunnaðstæðum hjá villtum þorski og eldisþorski.

Þá er iðn.- og viðskrn. sjálft að jafnaði með einn til tvo laganema í starfsþjálfun. Ýmsar undirstofnanir ráðuneytisins hafa einnig sinnt starfsþjálfun nemenda.

Sumarið 1995 hóf Landsvirkjun rekstur starfsmenntaskóla sem ætlaður er unglingum í sumarvinnu og er þar áhersla lögð á fræðslu um vinnuvernd og verklag, orkumál, umhverfismál, jarðfræði og náttúrufræði. Þá hafa Iðntæknistofnun, Orkustofnun, Rarik og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins leitast við að ráða námsmenn sem eru í námi tengdu starfsemi stofnananna.

Á vettvangi menntmrn. má geta eftirfarandi:

Í fyrsta lagi. Frv. til laga um framhaldsskóla var til meðhöndlunar á Alþingi þegar þáltill. kom fram varð að lögum í júní 1996.

Í öðru lagi. Samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi samkvæmt lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, tók til starfa í byrjun árs 1997. Nefndin er ráðgefandi um mótun almennrar stefnu í málefnum starfsmenntunar, þar með talið starfsþjálfun í atvinnulífinu.

Í þriðja lagi hefur verið sett ný reglugerð um námssamninga og starfsþjálfun, nr. 280 frá 17. apríl 1997. Á grundvelli þeirrar reglugerðar hefur menntmrn. samið við fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um að hafa umsjón með gerð námssamninga og framkvæmd sveinsprófa. Með því að færa slík verkefni út úr ráðuneytinu og til aðila vinnumarkaðarins er m.a. verið að auka ábyrgð atvinnulífsins á starfsþjálfun iðnnema og námslokum þeirra.

Í fjórða lagi. Á þessu ári hafa verið skipuð starfsgreinaráð samkvæmt lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, á eftirtöldum 14 starfsgreinasviðum: Bygginga- og mannvirkjagreinum, farartækja- og flutningsgreinum, heilbrigðis- og félagslegri þjónustu, hönnun, listum og handverki, matvæla- og veitingagreinum, málm-, véltækni- og framleiðslugreinum, náttúrunýtingu, persónulegri þjónustu, rafiðngreinum, sjávarútvegsgreinum, uppeldis- og tómstundagreinum, upplýsinga- og fjölmiðlagreinum, verslunar- og skrifstofustörfum, öryggisvörslu, björgun og löggæslu. Verkefni starfsgreinaráða er að skilgreina þarfir atvinnulífsins fyrir menntun og hæfni í viðkomandi starfsgreinum, setja fram markmið fagnáms og móta námskrá bæði fyrir nám í skóla og starfsþjálfun í fyrirtækjum svo og að setja reglur um framkvæmd starfsþjálfunar.

Í fimmta lagi. Á undanförnum tveimur árum hefur menntmrn. gengist fyrir stóraukinni þátttöku Íslands í erlendu samstarfi á sviði starfsmenntunar, þar með talið starfsþjálfunar í fyrirtækjum með aðild að Leonardo da Vinci-áætlun Evrópusambandsins og Cedefop, þróunarmiðstöð Evrópusambandsins í málefnum starfsmenntunar.

Á þeim grunni sem hér hefur verið lýst verður áfram byggt og ekki er ráðgert að hið opinbera sinni starfsþjálfun í fyrirtækjum með takmarkaðri hætti.