Jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 14:06:46 (6176)

1998-05-04 14:06:46# 122. lþ. 116.18 fundur 684. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[14:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir fyrirspurn sinni. Það má kannski segja réttilega, eins og fram kom í máli hans, að ýmsar reglur sem varða landbúnaðinn okkar, atvinnugreinina, og stuðning við hann hafa verið flóknar og ekki öllum auðskiljanlegar. Á þessu hefur verið reynt að ráða bót á undanförnum missirum að einhverju leyti þó sjálfsagt megi enn ýmislegt betur fara og sumt þarf að skoða nokkuð gaumgæfilega til að átta sig á forsendum eða hvað á bakvið kann að vera.

Þegar þessi fyrirspurn, sem lögð hefur verið fram um jöfnun á flutningskostnaði á sláturfé, er skoðuð kemur í ljós að um það fjalla tvær reglugerðir sem landbrh. hefur gefið út, önnur frá 26. ágúst 1996 og er nr. 469, um greiðslu verðmiðlunargjalds af kindakjöti, og hin frá 24. júlí 1996, nr. 422, um útflutning á kindakjöti. Heimildir til útgáfu beggja þessara reglugerða eru í búvörulögunum svokölluðu, eða lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum. Í báðum þessum reglugerðum er ákvæði um flutningsjöfnun á sláturfé. Um ráðstöfun verðmiðlunargjalds til flutningsjöfnunar segir í reglugerðinni sem ég fyrr nefndi, nr. 469/1996, með leyfi forseta:

,,Flutningsjöfnun samkvæmt þessari grein nær aðeins til svæða þar sem meðalflutningskostnaður hefur hækkað vegna fækkunar afurðarstöðva frá árinu 1987. Reikna skal hámark flutningsjöfnunar frá framleiðendum til afurðarstöðva á eftir\-farandi hátt:

1. Allir framleiðendur skulu sjálfir bera kostnað sem nemur kr. 6,50 pr. kg kjöts.

2. Greiða skal að hámarki 80% af þeim kostnaði sem er umfram kostnað samkvæmt 1. tl. Aldrei skal greiða hærri flutningsjöfnun en nemur 50% af flutningskostnaði.

3. Fari styrkþörf samkvæmt þessari grein fram úr ráðstöfunarfé eftir skiptingu samkvæmt 2. gr. skal lækka styrki hlutfallslega jafnt til allra aðila.

Aldrei skal jafna kostnað vegna flutninga sláturfjár lengri leið en að næstu afurðarstöð. Þó er heimilt vegna förgunar haustið 1995 að jafna flutning að afurðarstöðvum með ESB-leyfi.``

Ég vek athygli á að hér var sérákvæði um flutningsjöfnun til húsa með ESB-leyfi og aðeins fyrir eitt ár, þ.e. haustið 1995.

Um ráðstöfun sérstaks 30 kr. útflutningsgjalds til flutningsjöfnunar segir í d-lið 6. gr. reglugerðar nr. 422/1996, með leyfi forseta:

,,Í stað jöfnunar milli sláturhúsa eftir markaðsmöguleikum við útflutning, getur landbúnaðarráðherra ákveðið, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, að greiða framlag til jöfnunar á flutningskostnaði sláturfjár, sem nemur allt að kr. 0,80 á kind á km sem flutt er umfram 100 km vegalengd, sé flutt í næsta sláturhús með ESB eða USA leyfi.`` Það er leyfi til Bandaríkjanna.

Eins og fram kom í máli frsm. er hér að nokkru leyti að finna rót þess meinta mismunar sem hann gerði grein fyrir í sinni ræðu. Ekki er í gangi nein vinna til að endurskoða reglugerð nr. 469, fyrri reglugerðina sem vitnað er til um greiðslu verðmiðlunargjalds af kindakjöti með tilliti til þess sem fyrirspyrjandi spyr, enda má um hana segja að hún tryggi ákveðinn jöfnuð milli framleiðenda og þar sitji allir við sama borð. Flutningsjöfnun, eða niðurgreiðslur á flutningskostnaði, hefur verið notuð til að greiða niður þann aukna kostnað sem framleiðendur verða fyrir við fækkun sláturhúsanna. Með jöfnun er ekki verið að hækka skilaverð til framleiðandans heldur er verið að greiða hluta þess nýja kostnaðar sem varð til við lokun sláturhúss næst honum. Enn fremur er jöfnun aldrei greidd fyrir lengri vegalengd en að næsta sláturhúsi. Þetta hefur verið samstaða um enda talið að það gæti flýtt þeirri margumtöluðu hagræðingu sem þarf að verða í slátrun sauðfjár.

Tímabundið ákvæði var í þessari reglugerð, sem ég reyndar gat um áðan, en heimilt var samkvæmt henni vegna förgunar haustið 1995 að jafna kostnað við flutning á afurðarstöðvar með ESB-leyfi. Jöfnun hliðstæð þessari var síðan haldið áfram með ákvæðum í reglugerð nr. 422/1996, um útflutning á kindakjöti.

Ég sé nú, hæstv. forseti, að tíminn er að hlaupa frá mér. Ég á dálítið eftir enn. Hvað varðar reglugerð nr. 422 og samræmi milli hennar og hinnar fyrri reglugerðar, þá tel ég að framleiðendur sitji í raun einnig við sama borð séu þeir að flytja til sláturhúss með útflutningsleyfi, svo fremi sem þeim sé sama við hvaða sláturhús þeir eiga viðskipti. En færa má fyrir því rök að sláturhúsin sitji ekki við sama borð því ekki fæst flutningsstyrkur nema til sláturhúss sem hefur ESB- eða USA-leyfi.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, af því að sérstök fyrirspurn frá flm. kom í lok málsins, að gera aðeins betur grein fyrir þessu aftur. Eftir stendur sá möguleiki að taka aftur upp sams konar ákvæði og var tímabundið í reglugerð nr. 469 og heimilaði flutningsjöfnun til afurðarstöðva með ESB-leyfi. Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun og ekki er vinna við það í gangi. En ég vil ekki útiloka það hér og nú enda segir í lögunum um ráðstöfun þess fjár, með leyfi forseta:

,,Áður en ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun tekna af verðmiðlunargjöldum skal leita tillagna frá Framleiðsluráði landbúnaðarins og samtaka þeirra afurðastöðva sem um ræðir.``

Hvort framhald verður á þessu fyrirkomulagi fer því að mestu eftir vilja bænda sjálfra.