Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:40:09 (6198)

1998-05-04 16:40:09# 122. lþ. 117.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:40]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Þegar ég flutti fyrri ræðu mína og helgaði hana að mestu leyti umræðu um 1. gr. þessa frv. sem og bráðabirgðaákvæði þess, þá kynnti ég það að í síðari ræðu minni mundi ég fara yfir hinar ýmsu greinar frv., það efnislega sem lýtur að sveitarstjórnarlögunum í heild sinni og sem við hefðum rætt mjög ítarlega ef ekki hefði komið til að svo rammpólitískt ákvæði sem 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið er hefði verið í þessu frv.

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hugsa um það núna í miðri umræðunni að þegar þetta mál var afgreitt úr nefnd, þrátt fyrir að það væri afgreitt úr nefnd í ágreiningi og ósætti við einn nefndarmanninn sem óskaði eftir fresti til næsta dags, var það þó þannig að mikill meiri hluti var fyrir bæði afgreiðslu frv. og meirihlutastuðningur var við frv. í heild sinni og breytingartillögurnar. Sú staða var því uppi að af hálfu nefndarmanna í félmn. var eingöngu sú er hér stendur í ágreiningi við nefndina og skilaði sérstöku nefndaráliti. Athyglisvert er að hugsa til þess nú þegar staðan er jafnbreytt og raun ber vitni og það er athyglisvert að það er stjórnarmeirihlutinn sem hefur sett málið í uppnám fyrir sjálfum sér með alveg fádæmaklaufalegum vinnubrögðum að mati undirritaðrar. Nú er staðan því orðin sú að gjörvöll stjórnarandstaðan hefur lýst því yfir að hún telji að þessu máli eigi að vísa frá og að vinna eigi það nánar í sumar og koma með það sem lýtur að miðhálendinu og stjórnun þess í öðrum og nýjum búningi að hausti.

Mér finnst full ástæða til þess, virðulegi forseti, að reifa þetta nú í upphafi máls míns vegna þess að vissulega var það nokkuð sterk staða fyrir stjórnarmeirihlutann að njóta þessa stuðnings. Auðvitað voru ýmsar efasemdir hjá stjórnarandstöðunni allri um það hvernig skyldi fara með miðhálendið en mjög margir voru tilbúnir að teygja hönd sína til samkomulags og sátta og reyna að gera það skásta úr stöðu sem aðrir voru búnir að setja upp. En eins og fyrr hefur verið sagt er sú staða breytt og stjórnarmeirihlutinn stendur nú einn að því að vilja knýja þetta mál í gegn í valdi meiri hluta á Alþingi og í krafti stöðu sinnar.

Ég mun koma nánar síðar í þessari ræðu að því er lýtur að miðhálendinu og afstöðu okkar í því máli, en leggja höfuðáherslu á það í upphafi ræðu minnar að fara yfir þau atriði í frv. og breytingartillögum sem mér finnst mikilvægt að fjallað sé um og reyna að varpa ljósi á stöðuna í hinum ýmsu greinum og breytingum.

1. gr. er sú sem mestu fjaðrafoki hefur valdið og ræður því hversu mikill ágreiningur er um afgreiðslu þessa máls. 1. mgr. 1. gr. hljóðar svo, virðulegi forseti:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.``

[16:45]

Virðulegi forseti. Strax í upphafi máls míns ætla ég að minna á þá brtt. sem liggur fyrir frá okkur jafnaðarmönnum og var flutt með minnihlutaáliti félmn. en sú brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. 1. gr. orðist svo:

Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð utan miðhálendis Íslands sem verður sjálfstæð stjórnsýslueining sem lýtur sérstakri stjórn. Forsætisráðherra skipar níu manna stjórn miðhálendis til fjögurra ára að fengnum tilnefningum. Umhverfis-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmálaráðherra tilnefna einn fulltrúa hver og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa. Forsætisráðherra skipar einn fulltrúa og er hann jafnframt formaður stjórnarinnar.

Sveitarfélög eru lögaðilar.

Hver maður telst íbúi þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.

2. Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Miðhálendið markast af línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta, línu sem miðað var við í tillögum svæðisnefndar að skipulagi hálendisins frá 1997.``

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég ætli að geyma umfjöllun um miðhálendismálin þar til síðar í máli mínu ætla ég að leyfa mér að koma örlítið inn á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær og heitir ,,Miðhálendið. Ákall``. En þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Í gildandi sveitarstjórnarlögum segir í 1. grein að byggðin skiptist í sveitarfélög. Í nýja frumvarpinu er búið að bæta um betur því þar er þetta nú orðað þannig að landið skiptist í sveitarfélög. Þetta virðist sakleysislegt en felur í sér, ef samþykkt verður, að öllu miðhálendinu, þar með talið jöklum, verði skipt upp milli aðliggjandi sveitarfélaga. Félagsmálaráðherra bendir gjarnan á 3. mgr. 3. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga þar sem segir að afréttir tilheyri sveitarfélögum. Augljóst er vegna þess að afréttir tilheyra oft mörgum sveitarfélögum að þetta ákvæði er viðbragð við þeirri þörf að nauðsynlegu eftirliti sé komið á á þessum afréttarsvæðum en þýðir ekki að afréttarlandið ætti að bætast við eitt af þeim sveitarfélögum sem eiga hlut í viðkomandi afrétti. Fyrsta greinin í núgildandi lögum sýnir meginskilning laganna að það er aðeins byggðin sem skiptist í sveitarfélög.``

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem þarna kemur fram. Í þessari grein er kveðið á um að það er byggðin sem skiptist í sveitarfélög og það hefur oft komið fram í umræðunni að afréttirnar sem eru nýttar af hinum ólíku sveitarfélögum liggja margar þannig að þær ná inn í önnur sveitarfélög eða yfir fleiri sveitarfélög enda kveður bráðabirgðaákvæði frv., sem við erum að fjalla um, einmitt á um það hvernig skuli fara með slík svæði sem liggja víðar en í einu sveitarfélagi. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að það hefur gerst í umræðunni að menn hafa leyft sér að koma og segja að búið sé að skipta öllu landinu upp í sveitarfélög, það séu aðeins örlitlar ræmur í kringum jökla sem hefur ekki verið skipt.

En ég mun koma síðar að því hvernig lagasetningin um að afréttum skuli skipað innan sveitarfélaga kom til árið 1971 vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir alþingismenn að gera sér grein fyrir því.

Virðulegi forseti. Áður en ég vík frá þessari grein sem ég var að vitna í, ,,Miðhálendið. Ákall`` ætla ég að nefna tvö önnur atriði sem komu einnig fram í þessari grein. Þar segir nefnilega:

,,Nú liggur einnig fyrir þinginu frumvarp um þjóðlendur sem segir að land, þar sem ekki verði sannaður einkaeignarréttur á, verði sameign þjóðarinnar sem þýðir að nær allt miðhálendið verður þjóðareign.``

Höfundur greinarinnar nefnir hversu það komi spánskt fyrir sjónir að miðað við hve gífurlegan stuðning þetta frv. eigi, að það skuli þá eiga að skipta þjóðareigninni upp á milli hreppa sem liggja að miðhálendinu. Og höfundur segir:

,,Spyrja má hvort hér sé ekki komin hliðstæða við eign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni en í lögum segir að hún sé sameign þjóðarinnar en síðan ákveði löggjafinn að aðeins lítill hluti þjóðarinnar fái hana til yfirráða sem nánast jafngildir eignarhaldi.``

Höfundur að þessari grein er skipulagsfræðingur.

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er fremur dapurt að loksins eftir áratugaumfjöllun var náð niðurstöðu um hvernig skyldi fara með ágreining um eignarhald á hálendi Íslands. Forsrh. bar gæfu til að halda þannig á málum að hingað inn í þingið kom frv. sem nær allir þingmenn tjáðu sig um að þeir mundu geta stutt þrátt fyrir einhverjar minni háttar breytingar sem einhverjir höfðu skoðun á.

Bara þetta, að ná því á stjórnarferli sínum að ná sátt um svo stórt mál, hefði átt að vera svo mikilvægt fyrir sitjandi forsrh. að ekki mundi hvarfla að honum að setja slíkt mál í uppnám með því að samhliða bæri ríkisstjórn hans inn í þingið frv. til sveitarstjórnarlaga þar sem tekið er á málum með þeim hætti sem við höfum verið að ræða.

Ég lýsi því yfir, virðulegi forseti, hve ánægjulegt hefði verið að enda þennan vetur á Alþingi Íslendinga með því í bróðerni að ræða frv. forsrh. og hvaða framtíðarsýn við sæjum með lögfestingu þess en í þess stað skulum við dögum saman ræða þetta hörmulega sveitarstjórnarfrv. þar sem kippt er allri gleði út úr annars góðu máli.

Virðulegi forseti. Á það hefur verið bent og það reyndar gagnrýnt réttilega að frv. sem við erum að ræða sem slíkt væri mjög mikilvægt. Það eru sveitarstjórnarlögin sem hitt stjórnsýslustigið hefur til að vinna eftir. Ákvæði þess er það sem sveitarstjórnarmenn um allt land hafa sér til halds og trausts og það ætti að vera stórmál á Alþingi hvernig þessum málum er skipað og hvort breytingar sem felast í frv. eru til góðs og hvort brtt. félmn. eru betri eða verri.

En þannig erum við ekki að ræða málið. Við erum svo upptekin af miðhálendinu og því sem felst í 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu að frv. allt víkur til hliðar. Fæstir sem heyra fréttir frá Alþingi um umræðuna sem á sér stað hér og hefur átt sér stað frá því að nál. félmn. voru tekin á dagskrá, hafa nokkra hugmynd um að í þessu frv. sé að finna þau lagaákvæði sem þeir er sinna nánasta fjölskylduumhverfinu eiga að vinna eftir. Flestir telja að við séum að ræða sérstakt sveitarstjórnarfrv. sem fjalli eingöngu um að skipta miðhálendinu upp á milli sveitarfélaga.

Það er mjög mikilvægt að ná eyrum landsmanna eins og við höfum gert, að fólk skuli gera sér grein fyrir að stórmál sem varðar hvern einasta Íslending skuli vera til umræðu hér, að tekist skuli vera á um svo stórt mál eins og það sem hér er. En það er líka frekar dapurt að fæstir skuli gera sér grein fyrir því að þetta stóra ágreiningsmál er tvær litlar greinar inni í stórum lagabálki sem getur skipt hverja einustu fjölskyldu í landinu máli.

Virðulegi forseti. Ég ætla einmitt að fara um það nokkrum orðum áður en ég vík mér að lagagreinunum og brtt. hversu mikilvægt stjórnsýslustig sveitarstjórnarstigið er. Það hefur borið við í umræðunni að þingmenn hafa haldið því fram að þeir sem vilja ekki skipta miðhálendinu upp, alveg upp á jökla, milli sveitarfélaga séu óvinir sveitarfélaga í dreifbýli. Þeir séu óvinir sveitarfélaga, þeir vantreysti sveitarfélögum, að þar sé eitthvað lakara fólk að pólitískum störfum en á Alþingi sjálfu.

Þetta er vond umfjöllun. Þetta er líka alröng umfjöllun vegna þess að flestir þeirra úr þingflokki mínum sem hafa talað í þessu máli er fólk sem ber sveitarstjórnarstigið alveg sérstaklega mikið fyrir brjósti. Fjölmargir eru fyrrverandi sveitarstjórnarmenn, fjölmargir hafa setið um árabil í meiri hluta, vita hversu mikilvægt það er að vel sé haldið á málum á sveitarstjórnarstiginu og vita að sveitarstjórnarpólitíkin mun fyrst og fremst móta umhverfi fjölskyldunnar á Íslandi á nýrri öld. Það er þingflokkur jafnaðarmanna, jafnaðarmenn í ríkisstjórn og jafnaðarmenn á Alþingi sem hafa barist fyrir því að verkefni sem móta umhverfi fjölskyldunnar séu flutt til sveitarfélaganna, hafa barist fyrir því að sveitarfélög sem eru of fámenn til að ráða við bæði fjárhagslega og jafnframt á annan hátt þar sem kallar eftir uppbyggingu, ráða illa við þau verkefni sem verið er að boða, að þar sé stuðlað jákvætt að sameiningu smærri sveitarfélaga á viðkomandi svæði þannig að þau verði í stakk búin til að taka við verkefnum, til þess að sinna þeim verkefnum sem svo mikilvægt er að séu sterk í heimahéraði.

Þetta hefur verið meginstefna jafnaðarmanna, þetta er stefna þeirra í sveitarstjórn og þetta er stefna þeirra á Alþingi Íslendinga og þetta er stefna sem þeir hafa ekki bara talað um. Nei, þeir hafa færst í fang, þeir hafa komið þessum málum í verk í ríkisstjórn og vegna verka þeirra er búið að skapa grundvöll fyrir fjölmörg verkefni sem hafa þegar farið til sveitarfélaganna og það er búið að skapa grundvöll fyrir því að hægt sé að flytja önnur mjög mikilvæg verkefni til sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að leggja áherslu á þetta í upphafi máls míns vegna þess að í hita umræðunnar hafa þessir ómaklegu palladómar fallið um jafnaðarmenn sem hafa beitt sér mjög í umræðunni um miðhálendið og að það skuli lúta einni skipulags- og stjórnsýsluheild.

Ég ætla þá að víkja að þeim frumvarpsgreinum sjálfum sem mér finnst ástæða til að staldra við í framhaldi af þessari stóru 1. gr. sem ég hef þegar reifað örlítið og mun aftur gera að meginmáli mínu síðar í ræðunni.

Fyrsta brtt. sem er flutt af meiri hluta félmn. lýtur að 4. gr. og hún er um nafn eða heiti sveitarfélaga. Nú skyldi maður ætla að það að setja í lög hvernig heiti sveitarfélags skuli ákveðið væri ekki stórt mál en það er svo vegna þess að ákvæði hafa verið um nöfn sveitarfélaga sem hefur verið nokkurt ósætti um. Þegar sveitarfélög hafa sameinast og nafni sveitarfélags hefur verið breytt hefur mönnum ekki líkað að vera bundnir af sumum ákvæðum núgildandi sveitarstjórnarlaga. Nú hefur það gerst að 4. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

[17:00]

,,Sveitarstjórn ákveður nafn sveitarfélags og skal nafnið samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Eigi má breyta nafni sveitarfélags nema með staðfestingu ráðuneytisins. Birta skal staðfestingu á nafnbreytingu sveitarfélags í Stjórnartíðindum.``

Þarna er í raun verið að gefa sveitarstjórn talsvert frelsi í nafngift. En í brtt. félmn. segir svo:

,,Sveitarstjórn ákveður nafn sveitarfélags að fenginni umsögn örnefnanefndar. Ef könnun er gerð á viðhorfi íbúa sveitarfélags til breytingar á nafni þess, t.d. vegna sameiningar sveitarfélaga, skal leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem kjósa skal um. Nefndin skal skila áliti sínu innan þriggja vikna. Nafn sveitarfélags skal samrýmast íslenskri málfræði og málvenju.``

Ég held að við séum öll sammála um að nafn sveitarfélags skuli samrýmast íslenskri málfræði og málvenju, en spurning er hvort örnefnanefnd hafi eitthvað annað að fara eftir en eingöngu að nafnið skuli samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Af því að ég kom ekki að tilurð brtt., virðulegi forseti, hef ég áhuga á því að oddviti stjórnarmeirihlutans svari því í ræðu sinni hér síðar hvað það sé sem örnefnanefndin eigi að hafa að leiðarljósi í umsögn sinni. Er hugsanlegt að örnefnanefnd mundi synja um nafn þrátt fyrir að nafnið samrýmdist íslenskri málfræði og málvenju? Og í öðru lagi, ef umsögn er neikvæð þýðir það að sveitarfélagið hefur ekki leyfi til að nota það nafn eða láta kjósa um það nafn? Tvær spurningar varðandi þessa brtt.

Í 5. gr. er fjallað um byggðarmerki. Þar er sveitarstjórn heimilt að ákveða byggðarmerki fyrir sveitarfélag og á að tilkynna um þá ákvörðun til byggðarmerkjanefndar. Í frv. var ákvæði í greininni um að ráðherra mundi skipa þriggja manna nefnd til að fjalla um útlit byggðarmerkja og önnur tengd atriði en ráðuneytið mundi setja almennar reglur um byggðarmerki og hlutverk byggðarmerkjanefndar. Síðan átti iðnrn. að setja nánari reglur um skráningu byggðarmerkjanna og þau yrðu skráð hjá Einkaleyfastofunni.

Um þetta ákvæði varð talsvert mikil umræða. Það sem virtist svo sakleysislegt í upphafi var alls ekki eitthvað sem menn komu sér saman um. Ég var t.d. fylgjandi því að við mundum halda áfram að kjósa þessa byggðanefnd. En menn töldu að hún væri óþarfi og það væri nær að eingöngu Einkaleyfastofan mundi skrá byggðarmerkin, veita umsögnum viðtöku og kanna skráningarhæfi merkjanna. Þegar við tölum um skráningarhæfi merkjanna erum við m.a. að tala um það sem þótti mjög mikilvægt í félmn. að skjaldarmerkjareglur giltu um byggðarmerki. En þegar ég les brtt. við 5. gr. virðist sem fallið hafi verið frá því að byggðarmerki skyldu lúta skjaldarmerkjaákvæðum því að brtt. orðast svo:

,,Sveitarstjórn er heimilt að ákveða byggðarmerki fyrir sveitarfélag.

Byggðarmerki skulu skráð hjá Einkaleyfastofunni sem veitir umsóknum viðtöku og kannar skráningarhæfi merkjanna. Umsókn skal fylgja tilskilið gjald.

Skráning byggðarmerkis veitir sveitarfélagi einkarétt á notkun þess.

Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um skráningu byggðarmerkja, m.a. varðandi umsóknir og meðferð þeirra, skilyrði fyrir skráningu, ógildingu, birtingu og gjöld fyrir umsóknir og vottorð úr byggðarmerkjaskrá.``

Ein helsta röksemdin fyrir því að vera með sérstaka byggðarmerkjanefnd var að hún var með sérfræðing innan vébanda sinna í lögum, það eru reyndar ekki lög heldur í skjaldarmerkjareglunum, og það væri mjög mikilvægt að litið væri til þess. Ég hlýt því að líta svo á að iðnrn. verði falið að setja það í reglur sínar. Miðað við hversu umræðan var sterk um þennan þátt í nefndinni hljóti það að vera þannig að þó að það sé ekki sett í lögin þá verði iðnrh. falið að gera kröfu um að byggðarmerki falli að reglum um skjaldarmerki.

Í þessari breytingu gerist það að farið er að tillögum varðandi byggðarmerkin og vísað til þess hvernig þessum málum er háttað m.a. í Danmörku og fyrirmyndin er í raun og veru tekin þaðan og niðurstaðan að það skuli ekki vera sérstök byggðarmerkjanefnd á vegum félmrn. Þetta er mjög athyglisvert vegna þeirrar umræðu sem þar fór fram.

Ég ætla að staldra við 6. gr. og ég vek athygli á því að ekki er nein brtt. við hana. Þessi 6. gr. er um lágmarksíbúatölu í sveitarfélagi. Lágmarksíbúatala sveitarfélags er 50 íbúar og segir í greininni:

,,Nú hefur íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt og skal ráðuneytið þá eiga frumkvæði að því að sameina það nágrannasveitarfélagi. Einnig má þá skipta hinu fámenna sveitarfélagi milli nágrannasveitarfélaga.

Undantekningu frá þessu ákvæði skal gera ef sérstakar aðstæður hindra það að mati ráðuneytisins að íbúar hins fámenna sveitarfélags geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélags.``

Mikill vilji hefur verið til að stækka sveitarfélögin en með sameiningu án lagatilskipunar og það er oft búið að ræða það hvort að það eigi að koma með lagatilskipun um að sveitarfélög skuli vera stærri en þetta. Niðurstaðan hefur alltaf verið sú að það væri slæmt að fara með valdi gegn sveitarfélögunum. Niðurstaða allra sem um hafa fjallað hefur verið að láta þetta gerast jákvætt, láta sveitarfélögin finna það sjálf að þau séu betur komin ef þau sameini krafta sína, að stærri sveitarélög eru öflugri en smærri, að þau ráða betur við verkefni sín ef þau sameinast öðrum og eru þá aðeins við því búin að taka við stórum verkefnum frá ríkinu að þau séu stærri en 50 íbúar.

Það er athyglisvert að nokkrar athugasemdir komu um þessa 6. gr. Þær voru frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Borgarbyggð, Akureyrarbæ, bæjarstjóranum á Akranesi og Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandi vestra. Þar kom þetta fram, hvort ekki væri full ástæða til að breyta lágmarkstölu íbúa til hækkunar. Að það væri vafasamt að telja að sveitarfélög sem fari niður undir þennan íbúafjölda valdi þeim verkefnum sem lög bjóða og enn síður að takast á við fleiri verkefni. Í umsögn Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandi vestra segir:

,,Frá því að lágmarksíbúatalan 50 var sett inn í sveitarstjórnarlögin 1986 hefur orðið nokkur breyting á sveitarfélögum til stækkunar. Þó eru á milli 120--130 sveitarfélög enn með íbúatölu undir 1.000. Samkvæmt nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun um byggðaþróun kýs meiri hluti íbúa í sveitarfélögum með íbúatölu að 1.000 íbúum að búa í stærri samfélögum.``

Þeir telja því að skýrslan endurspegli vilja fólks til breytinga á þessu ákvæði. Það er athyglisvert að þarna er búið að gera könnun, oft skortir okkur nefnilega að gerðar séu úttektir um mikilvæg mál. Við erum að deila um hvað fólkið vilji og hvað sé æskilegt en þarna er búið að gera könnun og niðurstaðan er sú að meiri hluti íbúa í sveitarfélögum með íbúatölu undir 1.000 íbúum kjósa að búa í stærri samfélögum. Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að ég held að þó að við séum öll enn þá þeirrar skoðunar að vilja ekki fara með valdi á sveitarfélögin verðum við að finna einhverja leið til þess að það verði hvati hjá þeim sveitarfélögum sem eru enn þá svo smá að þau sameinist öðrum, að þau verði að þeirri stærð að þau ráði við lagaskyldur og séu tilbúin að taka við nýjum verkefnum. Ég held að við alþingismenn eigum að reyna að skoða það saman með opnum huga hvað við getum gert til að hvetja til þess að innan skamms tíma verði engin sveitarfélög með minna en 1.000 íbúa úr því að við treystum okkur ekki til að fara fram gegn slíku með lagavaldi. Það held ég að gildi um alla flokkana á Alþingi.

Virðulegi forseti. Í 7. gr. er svolítið sérstakt ákvæði og um 7. gr. varð jafnframt talsverð umræða. 7. gr. er um almennar skyldur sveitarfélaga og í 4. mgr. greinarinnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.``

Þetta var svolítið sérstakt orðalag og sérstaklega í ljósi þess að í mörgum sveitarfélögum, sem kaupa þjónustu af öðrum sveitarfélögum, hefur verið urgur um gjaldskrá. Þá var mjög mikilvægt að ræða þetta mál og hvað í því fælist. Ég get nefnt Kópavog af því að ég þekki umræðuna þar.

Kópavogur og reyndar fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu njóta þjónustu Reykjavíkurborgar, t.d. hvað varðar heitt vatn og hafa gert samning við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan selji íbúum í Kópavogi heitt vatn. Þess hefur gætt mjög að menn hafa verið ósáttir við það að Reykjavíkurborg, alveg óháð því hver hefur stjórnað þar, sem hefur haft miklar tekjur af þessari stofnun inn í borgarsjóð og inn í borgarsjóð hafa verið miklar arðgreiðslur frá Hitaveitunni. En Hitaveitan hefur líka oft farið sjálf í miklar framkvæmdir, stundum hafa það verið framkvæmdir sem hafa miðað að því að auka þjónustu eða gera hana betri eða til að geta örugglega viðhaldið þjónustunni til þeirra íbúa í öðrum sveitarfélögum sem kaupa hana. En í öðrum tilvikum hafa þetta verið allt annars konar verkefni. Það má t.d. nefna það glæsilega mannvirki sem Perlan er.

[17:15]

Ég held að allir taki undir það að þetta er glæsilegt mannvirki. Nú þegar það er komið held ég að allflestir bendi á það með stolti, sem dæmi um hugvit og hæfileika Íslendinga og fólk fer þangað með gesti sína, ekki síst erlenda, til að láta þá njóta. Í þetta verkefni runnu hins vegar miklir peningar frá Hitaveitunni í Reykjavík af þeim þjónustugjöldum sem fólk innti af hendi, jafnvel fólk í öðrum byggðarlögum. Ég ætla að staldra við þetta.

Ágreiningurinn um það hvort eðlilegt sé að eitt sveitarfélag taki það hátt gjald fyrir þjónustu sína, líka til annars sveitarfélags, að það beri umtalsverðan arð og geti eytt ávöxtuninni að eigin vild hefur m.a. gert það að verkum að hingað inn á Alþingi kom eitt sinn frv. um að nágrannasveitarfélög ættu að fá hlutdeild í þeim arði, sem næmi notendafjöldanum hjá sér. Annað var talið óeðlilegt vegna stöðu sveitarfélaganna í innbyrðis. Það náði nú aldrei lengra en á borð þingmanna.

Ég tók eftir því að þeir sem gáfu kost á sér til setu á listum til sveitarstjórnar, bæði fyrir Sjálfstfl. og Framsfl., skrifuðu greinar í blöðin þar sem þessi skoðun birtist aftur. Þar mátti sjá að ef viðkomandi yrði falið sæti ofarlega á lista og þeir fengju sæti í sveitarstjórn þá mundu þeir beita sér fyrir því að þetta notendagjald yrði ekki hærra en sem næmi kostnaðinum við að framleiðsluna.

Þess vegna, virðulegi forseti, komst ég strax á þá skoðun, þegar þessi grein var sett inn, að sveitarfélög skuli hafa sjálfstæða tekjustofna og forræði yfir gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast. Ég gat ekki skilið þetta á annan veg en að slíkt þjónustufyrirtæki mætti hafa gjaldskrá sem væri nægilega há til þess að mæta kostnaði við framkvæmd verkefnanna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast. Í félmn. spurði ég hvort þarna væri verið að setja hömlur á það að sveitarfélög gætu selt þjónustu sína eins og ég hef þegar lýst. Svörin við því voru ekki mjög skýr. Svarið var að þessi málsgrein útilokaði ekki að t.d. Hitaveita Reykjavíkur gæti áfram tekið sér þær arðgreiðslur sem hún kysi í sveitarsjóð.

Þegar við fórum að fá umsagnir um sveitarstjórnarfrv. þá kom t.d. ábending um að rétt væri að taka inn í lögin ákvæði varðandi tekjustofnana og þetta. Annars vegar var talið rétt að taka inn í lögin ákvæði um að óheimilt væri að fela sveitarstjórn ný verkefni, t.d. með lagasetningu, án þess að áður lægi fyrir áætlun um kostnað og að tekjustofnar væru tryggðir. Þetta var t.d. mikið hjartans mál hjá Akureyrarbæ og bent var á að slíkt ákvæði væri í dönskum lögum.

Við ættum líka að staldra aðeins við. Það er ekki undarlegt að sveitarfélögin séu dálítið hrædd við að hér á Alþingi séum við að setja lög eftir lög þar sem verkefni flytjast til sveitarfélaganna, án þess að ljóst sé hvort sveitarstjórnirnar fá nægar tekjur til að sjá um verkefnið. Þetta snýst ekki einungis um að reka starfsemina, heldur einnig um að þróa verkefnið í framtíðinni, sem oft er á þróunarbraut þegar það fer til sveitarfélaganna og nægir að nefna málaflokk fatlaðra.

Jafnframt þessu var bent á annað í tengslum við 7. gr. Varðandi svokallaða þjónustusamninga eða samninga um einstök rekstrarverkefni benti Ríkisendurskoðun á að setja þyrfti grundvallarreglur um heimildir sveitarfélaga til þess annars vegar að taka að sér slíka samninga og hins vegar gera samningana. Bent var á 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins til hliðsjónar. Ríkisendurskoðun taldi að mjög nauðsynlegt væri að samsvarandi reglur lægju fyrir um heimildir sveitarfélaga til slíkrar samningsgerðar. Einnig var bent á hvaða réttarreglur gildi á Norðurlöndunum um þetta efni og að þær væru í grundvallaratriðum þrengri en reglur hér á landi. Það er dálítið athyglisvert að við höfum mikið rætt um þetta frv. sem með reglum sínum og lagaákvæðum þrengir að sjálfræði sveitarfélaganna og hinu pólitíska sjálfstæði sem mörgum sveitarstjórnarmönnum finnst grundvöllur þess að þeir geti starfað óháðir og byggt upp í sveitarfélagi sínu. Ég á eftir að koma að öðru slíku síðar.

Það er hins vegar umhugsunarefni að við höfum talið eðlilegt að setja reglur um þjónustusamninga ríkisins. Við settum t.d. lagaákvæði um slíka þjónustusamninga inn í lögin um málefni fatlaðra fyrir einum sex árum. Þá höfðum við það einnig í huga að ríkið gæti samið við sveitarfélögin um að taka að sér ákveðin verkefni. Það er ábyggilega full ástæða til að skoða hvað það þýðir að hafa ekki nein ákvæði varðandi þjónustusamninga. Hvað er það hjá okkur sem veldur því að við hliðrum okkur fremur hjá því en hitt að setja fastar reglur um starfsemi sveitarfélaganna?

Í þessu frv. er á sumum sviðum jafnvel tekið fram fyrir hendurnar á sveitarfélögum, eins og með eftirlitsnefndinni sem ég kem að síðan. Hins vegar skirrast menn við að setja reglur sem fyrst og fremst væru leiðbeinandi varðandi aðra þætti eins og það sem Ríkisendurskoðun bendir á.

Það komu ekki miklar athugasemdir varðandi málsgreinina, virðulegi forseti, sem ég var að lýsa, um heimildir sveitarstjórna til að taka arð af söluþjónustu stofnana sinna. Samt sem áður var ákveðið að við 7. gr. skyldi bætast ný málsgrein. Auðvitað er sveitarfélögum þar ótvírætt heimilað að setja sér arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja og ákveða sér afrakstur af fjármagni sem bundið er í fyrirtækjum. En brtt. meiri hluta félmn. hljóðar svo, virðulegi forseti:

,,Við 7. gr. bætist ný málsgrein er orðist svo:

Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.``

Og þarna er ákvæðið sem tryggir að sveitarfélög sem selja öðrum sveitarfélögum þjónustu hafi leyfi til þess að ákveða sjálf þann arð sem þau telja sig eiga að hafa af þessu fyrirtæki sínu og geti miðað þjónustugjöld sín við það.

Ég vil taka það sérstaklega fram að einmitt í sambandi við þetta sveitarstjórnarfrv. var rætt um það hvenær þjónustugjald hætti að vera þjónustugjald og yrði skattur. Þetta hefur nokkuð verið rætt í umræðu þingmanna um þetta frv., þ.e. þeirra sem tök hafa haft á því að fara inn í hinar ýmsu greinar þess. Ég vek athygli á því að margir þingmanna t.d. í þingflokki jafnaðarmanna hafa, þrátt fyrir ákveðnar skoðanir á því sem lýtur að miðhálendinu, farið sérstaklega ofan í þessar greinar frv. Þar get ég vísað til allra þeirra þingmanna sem verið hafa í sveitarstjórnum. Þeir hafa farið yfir þessar greinar og ýmis álitamál og eins aðrir sem þekkja vel til sveitarstjórnarstigsins. Við eigum auðvitað að fara yfir þessar greinar samhliða því að ræða hið stóra pólitíska álitamál.

Virðulegi forseti. Ég hef miklar efasemdir um þessa brtt. við 7. gr. Ég hef reyndar lýst því yfir að þingflokkur jafnaðarmanna mun fara yfir það áður en þessari umræðu lýkur, hvaða afstöðu hann tekur til hinna ýmsu greina frv. og brtt. Ég mun ræða þá skoðun sem menn láta í ljós eftir umræðuna en hún verður væntanlega mjög upplýsandi fyrir þá sem taka þurfa afstöðu.

Lögð er fram brtt. við 13. gr. Þar segir afdráttarlaust:

,,Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag.

Sá kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórninni kveður hana til fyrsta fundar eigi síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar og stýrir fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn. Hafi tveir eða fleiri fulltrúar í sveitarstjórn átt jafnlengi setu í sveitarstjórninni fer aldursforseti þeirra með verkefni samkvæmt þessari málsgrein.``

Þarna er verið að gera tvennt. Þetta lagaákvæði er samræmt lagaákvæði í nýsettum kosningalögum en eins og þingmenn vita þá voru kosningalögin klofin út úr sveitarstjórnarlögunum fyrr á þessu þingi. Þau mál fengu sérstaka umfjöllun í félmn. og sett voru sérstök lög um kosningar til sveitarstjórna. Þess vegna er lög um kosningar til sveitarstjórna ekki lengur að finna í sveitarstjórnarlögunum sem slíkum. Þar var tekin ákvörðun um að sveitarstjórn taki við störfum 15 dögum eftir kjördag og þess vegna er ákvæðið alveg eins.

Ég vek athygli á því að ekki eru allir á einu máli um þetta. Ýmsir telja að sveitarstjórn eigi að taka við strax eins og þegar kosið er til Alþingis. Umboð alþingismanns fellur niður á þeim degi sem nýkjörnir alþingismenn hafa meðtekið umboð sitt. Að vísu situr ríkisstjórn nokkuð umboðslítil, meira eins og framkvæmdahópur til þess að sinna brýnustu málum. Þegar maður lítur á sveitarstjórnarastigið og nálægðina milli kjörinna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins þá má réttilega benda á að einfaldast væri að nýkjörin sveitarstjórn tæki strax við. Þetta var hins vegar niðurstaðan í kosningalögunum, og þar sem ákveðið var að hafa þetta þannig þar þá er mjög eðlilegt að hið sama gildi í lögum til sveitarstjórnar.

Seinna ákvæðið sem ég nefndi er hins vegar mjög athyglisvert vegna þess að þar er það fest í lög að aldurforseti sé sá sem lengsta setu á að baki í sveitarstjórninni. Á sínum tíma tókum við upp úr dönskum lögum ákvæði um hvernig fara skyldi með þegar ekki væri búið að kjósa forseta, m.a. í sveitarstjórn. Sumir halda því fram að það hafi beinlínis verið slök þýðing á dönskum lögum sem gerði það að verkum að í okkar lögum stendur að aldursforseti skuli stjórna fyrsta fundi og halda um málin þar til búið væri að kjósa forseta eða oddvita.

[17:30]

Þegar maður hugsar um það þá er það auðvitað skrýtið. Það getur vel gerst að einhver fullorðinn einstaklingur bjóði sig fram til sveitarstjórnar og elsti maðurinn í hópnum sé þar með jafnframt sá yngsti. Auðvitað hlýtur það að liggja í hlutarins eðli að sá sem mesta reynslu hefur eigi að sinna verkefnum þar til búið er að kjósa til starfans og þannig er það á Alþingi að sá sem hefur lengstan starfsaldur sinnir starfi forseta þar til við höfum kosið slíkan. Þetta er því rökrétt en meira hægt að hafa gaman af því að við skulum hafa búið við hitt ákvæðið öll þessi ár að sá sem var elstur að árum hefði þetta verkefni eða þau verkefni að stýra eða halda utan um þar til búið væri að kjósa og geri ég þá ekkert lítið úr því að með aldrinum kemur bæði reynsla og viska yfir þann sem hefur lifað löngu lífi. Við mættum svo sem oft og tíðum sýna almennt meiri virðingu þeim sem eldri eru rétt eins og sums staðar í Austurlöndum þar sem menn njóta mikillar virðingar fyrir aldur sinn. Það er önnur saga og verður ekki farið djúpt í hana, það er nefnilega góð regla þó að ég ætli ekki að fara djúpt í hana í umræðunni um frv. til sveitarstjórnarlaga uppi á Íslandi.

Virðulegi forseti. Eitt sem ég vildi gjarnan nefna líka og kom reyndar til áður en ég kom að þessari grein, það á við 12. gr., það er að það kom upp spurning hvort það ættu að vera rýmri mörk um fjölda sveitarstjórnarmanna. Ég held að það geti vel gerst innan tíðar að menn hafi þá skoðun að það eigi að vera rýmri heimildir til þess hver fjöldi sveitarstjórnarmanna skuli vera í hinum ýmsu sveitarstjórnum sem eru af ólíkri stærð eins og ég hef þegar farið yfir. Ekkert var hróflað við þessu ákvæði hjá okkur í félmn. en þetta er líka eitt af því sem er vissulega ástæða til að minna á í umræðunni og að fólk haldi til haga að ekki er endilega sjálfgefið hvernig mörkin eru um fjölda sveitarstjórnarmanna. Bara til að menn átti sig á því hvernig þau eru þá er það þannig að þar sem íbúar eru innan við 200 eiga að vera þrír til fimm aðalmenn, þar sem íbúar eru frá 200 upp í 999 eru fimm til sjö aðalmenn, þar sem íbúar eru frá 1.000 upp í 9.999 eru sjö til ellefu aðalmenn, þar sem íbúar eru 10.000 til 49.999 eru 11 til 15 aðalmenn og þar sem íbúar eru 50.000 eða fleiri eru 15 til 27 aðalmenn. Þetta var til þess að a.m.k. þeir sem hlýða á geri sér grein fyrir hvað verið er að tala um þegar minnt er á umræðu um það að spurt sé um hvort það eigi að vera rýmri mörk um fjölda sveitarstjórnarmanna.

Virðulegi forseti. Eitt ákvæði í þessu frv. sem er nýtt er að það er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna. Ekki komu miklar umsagnir um þessa grein, en þó hafði Akureyrarbær skoðun á þessu og Tálknafjarðarhreppur. Það segir í 3. mgr. 19. gr. frv.:

,,Sveitarstjórnarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélaga og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa mál sem lagt er fyrir sveitarstjórn eru alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórnin fjallar um málið. Ákvæði þetta á þó ekki við um framkvæmdastjóra sveitarfélags.``

Þarna er verið að koma inn með lagaákvæði til að bæta siðferði, til að tryggja að menn sitji ekki á einhvern hátt beggja vegna borðs, að einhver byrji ekki með að vinna að einhverju máli eins og hann vill hafa það einhvers staðar á grunnstigi og fylgi því upp í ákvarðanatöku. Auðvitað er það nokkuð sem við eigum að passa upp á. Hins vegar urðu talsverðar umræður um það að algengt sé að leikskólastjórar, leikskólakennarar, kennarar, skólastjórar, fólk sem hefur starfað í sveitarfélögum, jafnvel gjaldkerar, aðalbókarar, fólk á félagsvæng sveitarfélaganna fari í sveitarstjórn. Það gæti alveg komið upp þegar ætti að túlka þetta ákvæði að þeir sem væru strangir mundu e.t.v. alltaf útiloka þetta fólk ef það hefði komið að umfjöllun einhvers staðar. Ef leikskólakennari hefur kannski staðið að hörðum tilmælum til sveitarstjórnar eða bæjarráðs með undirskriftum er hann þá undirbúningsaðili máls svo maður nefni eitthvað?

Talsverðar umræður urðu um þetta í félmn. og líka ef pólitískur oddviti er bæjarstjóri eða borgarstjóri --- við fjölluðum nú fyrst og fremst um bæjarstjóra --- og er þar með framkvæmdastjóri sveitarfélags þá var bent á það að slíkur aðili hefði kannski í ríkasta mæli komið að öllum undirbúningi mála. Þar með verður maður líka að líta á að pólitískur framkvæmdastjóri, pólitískur oddviti viðkomandi meiri hluta, hefur leitt málið inn á þing og inn í sveitarstjórn, ber höfuðábyrgð á því, og kannski ekki eðlilegt að hefta á nokkurn hátt þann möguleika. Auðvitað svarar það að nokkru til þess að forsrh. í ríkisstjórn er sá sem ber höfuðábyrgð á málum ríkisstjórnar sem sett eru fram og að því er okkur virðist ræður nokkuð miklu um það þessa dagana hvort Alþingi hættir á settum tíma eða ekki eða hvort eldhúsdagur verður á réttum tíma eða ekki.

Eftir umfjöllun okkar um 19. gr. og þann góða vilja um að bæta siðferði þeirra sem starfa í pólitík var ákveðið að setja þarna inn í 3. mgr. orðið ,,tiltekið`` og það breytir henni talsvert og skýrir hana því að þá segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnarmenn sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélaga og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa tiltekið mál ...``

Það er þá alveg ljóst að þeir hafa verið settir sérstaklega í að undirbúa málið, kannski verið í sérstökum starfshópi eða verið að vinna það á starfsvettvangi sínum og eiga þá ekki að vera þeir sem afgreiða þetta tiltekna mál á pólitískum forsendum þegar það kemur til kasta sveitarstjórnar. Þetta er hreint ekki auðvelt þegar sveitarstjórnirnar eru annars vegar og í raun og veru líka umhugsunarefni fyrir okkur á Alþingi hve lítið er spurt um tengsl manna út í atvinnulífið og hefur oft verið bent á það. Ég man hvað mér fannst það sjálfri forundarlegt þegar ég kom inn á þing hve margir alþingismenn voru tengdir fiskeldi, áttu persónulegra hagsmuna að gæta, sátu í stjórnum fyrirtækja, voru eigendur fyrirtækja. Það hafði hallað undan fæti í greininni, og hér ræddu alþingismenn um einhverjar tilteknar ráðstafanir eða hvaða ráðstafanir ætti að gera eða kölluðu eftir ráðstöfunum af hálfu ríkisins. Ég man hvað mér fannst það óeðlilegt að þeir sem áttu hlut að máli skyldu taka svo mikinn þátt í að kalla eftir aðgerðum ríkisvaldsins og hafa hönd í bagga með hvernig Alþingi afgreiddi málin sem snertu þessa tilteknu atvinnugrein.

Ég nefni þetta af því að mér er það minnisstætt og af því að það kom mér svo á óvart sem nýjum alþingismanni. Auðvitað hef ég séð síðan að mjög mikið er um það að menn hafi hagsmuna að gæta á Alþingi og það er ekkert spurt um það og engar reglur hjá okkur sem er þó að finna í sumum nágrannaþjóðþingum. Stundum hefur verið bent á að menn ættu að gefa upp ýmislegt sem sneri að einkahögum, svo sem eignir í verðbréfum og ýmislegt annað sem hefur verið nefnt sem ég kann ekkert að tína upp.

En þarna er sem sagt búið að tryggja að ekki verði vanhæfi hjá sveitarstjórnarmönnunum okkar, að það sé örugglega hið besta siðferði sem gildir við ákvarðanir hjá þeim.

Þetta var 19. gr., virðulegi forseti, og næsta grein sem ég kýs að koma inn á er 24. gr. og hún fjallar um varamenn í sveitarstjórn. Þar segir:

,,Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.``

Þetta er svolítið skrýtið, virðulegi forseti. Ég kýs að segja þetta aftur: ,,... falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.``

Ég held hreinlega að við hefðum átt að lagfæra þessa setningu, virðulegi forseti. Síðan segir:

,,Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.``

Svo segir:

,,Nú næst ekki samkomulag milli stjórnmálaflokka eða samtaka, sem standa að sameiginlegum lista, og skulu þá þeir varamenn listans, sem eru úr sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalmaður sá sem um er að ræða, taka sæti hans í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna.``

Þetta er svolítið merkilegt atriði. Vegna hvers? Jú, vegna þess að það var þannig að fyrsti varamaður á lista var fyrsti varamaður inn í sveitarstjórn. Til áréttingar því hafa margir þeir sem hafa boðið fram saman áréttað að fyrsti varamaðurinn í hópnum væri varamaður allra þó svo að það væri t.d. Alþfl., Alþb. og Framsfl. eða Alþfl. og Kvennalisti og Alþb., að fyrsti einstaklingurinn er varamaður allra. Í mörgum tilfellum, af því nú er verið að bjóða fram sameiginlega lista út um allt land, þykist ég nokkuð viss um að menn hafi litið svo á víða þegar menn hafa verið að raða og skipta með sér sætum, að fyrsti varamaðurinn er varamaður allra. Þetta hef ég heyrt m.a. þar sem ég hef mætt á fundi í kjördæmi mínu og á einhverjum stöðum tekist að benda á að verið sé að samþykkja sveitarstjórnarlög þar sem er gengið út frá öðru.

Þá komum við að því hvað það getur verið skrýtið fyrir okkur þegar við erum að vinna að lagasetningu Alþingis og viljum vinna vel að við sendum svona frv. til umsagnar til sveitarstjórna og síðan eru kannski að koma fram listar sem skipaðir eru fólki sem ekki er í sveitarstjórn núna. Það hefur ekki hugmynd um að við erum að breyta þessu.

[17:45]

Ég vil bara halda því til haga að það hafi verið bent á þetta á Alþingi vegna þess að vel má vera að þetta eigi eftir að hafa áhrif inn í einhverja lista á einhverjum tíma af því að yfirleitt er gengið út frá því á sameiginlegu listunum að fyrsti varamaður sé varamaður allra. En þarna er sagt ótvírætt að ef ekki er samkomulag um það þá skuli varamenn listans sem eru úr sama stjórnmálaflokki koma inn í sveitarstjórn. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur af því að margir þeir sem hér eru hafa verið að taka þátt í því að styðja við sameiningu flokka á listum og það er mjög mikilvægt að benda mönnum á það að þeir skuli bara ganga frá þessum málum til að ekki verði leiðindi af hálfu einhverra einstaklinga sem svo kynnu að kjósa, einhvern tíma síðar.

35. gr. er um þóknun og ferðakostnað. Þar er ákveðið að sveitarstjórn skuli vera skylt að ákveða þóknun til sveitarstjórnarmanna. Ég ætla aðeins að staldra við þetta. Í 35. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Skylt er sveitarstjórn að ákveða hæfilega þóknun til sveitarstjórnarmanna fyrir störf þeirra.``

Það er auðvitað afar merkilegt að setja í sveitarstjórnarlögin að sveitarstjórn sé þetta skylt, bæði varðandi þóknun til sveitarstjórnarmanna og síðan í 50. gr. sem ég ætla einnig að vitna í, þar sem líka er verið að skylda sveitarstjórn til að ákveða kjörnum fulltrúum í nefndum, ráðum og stjórnum hæfilega þóknun fyrir störf.

Um þetta urðu talsverðar umræður í sveitarstjórn. Átti það að vera þannig að það væri skylda að ákveða öllum fulltrúum í nefndum og ráðum hæfilega þóknun? Það gæti vel verið þannig að í litlum sveitarfélögum kysu menn að starfa að þessum þáttum án þess að taka þóknun fyrir. Hins vegar var líka bent á að ef það hefur verið hefð að sveitarstjórnarvinna í smærri sveitarfélögum væri þegnskylda þá gæti verið mjög erfitt fyrir viðkomandi að upplýsa að þeim fyndist í raun eðlilegt að einhver þóknun væri fyrir vinnuna. Ég held að allir sem hafa tekið einhvern þátt í sveitarstjórnum viti að því fylgir mikil vinna, hvort heldur það er í nefndum, ráðum eða í sveitarstjórninni sjálfri.

Þetta með þóknunina var nokkuð mikið rætt og jafnvel voru hugmyndir um að vera ekki með skyldu í 50. gr. 35. gr. er óbreytt. Það hefur verið skylda að vera með þóknun til sveitarstjórnarmanna. En niðurstaðan varð sú að breyta þessu ekki.

Virðulegi forseti. Það er ekkert sérstakt sem ég ætla að ræða í frv. á milli 35. og 50. gr. sem ég vísaði til. Þarna er kafli um nefndir, ráð og stjórnir og þarna er brtt. við 42. gr. Það er um kjörgengi starfsmanna og þar er aðeins vísað í að það komi líka nefndir og ráð.

Síðan er brtt. við 61. gr. Í frv. var ákveðið að sveitarstjórn ætti að ljúka fjárhagsáætlun fyrir lok desembermánaðar fyrir næsta ár. Því er reyndar breytt aftur í brtt. þannig að það sé fyrir lok janúarmánaðar sem sveitarstjórn skuli gera fjárhagsáætlun fyrir sveitarsjóð og stofnanir sveitarfélags.

Það hefur nú verið þannig hjá þessum stærri sveitarfélögum að þau hafa reynt að bæta sín vinnubrögð og mörg hver verið búin að afgreiða fjárhagsáætlanir fyrir lok desember. Ég hef mikinn skilning á því að félmrh. skyldi telja að sveitarfélög ættu almennt að geta uppfyllt þetta skilyrði. En eftir umfjöllun þá varð það samt niðurstaða að gera þá breytingu að þetta væri janúar en ekki desember.

Önnur grein sem ég ætla að ræða, virðulegi forseti, er 65. gr. Hún er um viðmiðun, þ.e. þegar sveitarfélag hyggst ráðast í mikið verkefni. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að leita skuli álits ef áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélags í framkvæmd nemur hærri fjárhæð en sveitarsjóðsgjöld yfirstandandi reikningsárs. Þannig er það í lögunum í dag.

Það er verið að breyta því yfir í að ef að ,,hlutur sveitarfélagsins ... nemur hærri fjárhæð en helmingi skatttekna ...`` Þannig er það í frv. En í brtt. meiri hlutans er þetta komið niður í fjórðung:

,,Hyggist sveitarstjórn ráðast í fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að ræða.``

Þarna er búið að þrengja greinina nokkuð þannig að ef verkefnið er það stórt að það nemur hærri upphæð en fjórðungi skatttekna þá skuli slík áætlun gerð og úttekt á áhrifum. Þetta held ég að sé mjög gott ákvæði. Ég held að þarna sé leiðbeinandi ákvæði um hvernig sveitarstjórn skuli vinna til þess að geta tekið sína pólitísku ákvörðun. Síðan tekur sveitarstjórnin ákvörðun út frá því og er til þess bær. Ég er því þeirrar skoðunar að þetta sé ágætis ákvæði.

Varðandi endurskoðun ársreiknings þá finnst mér það athyglisvert að við, eða félmn. er ekki með --- ég ætla nú ekki að segja við, því ekki stend ég að þessum brtt. þó ég skoði þær af mikilli vandvirkni og meti hverjar ég styðji, en meiri hluti félmn. er með þessar brtt. sem ég er m.a. að fjalla um --- neinar breytingar á 68. gr. sem er um endurskoðun ársreiknings. Það kom hérna endurskoðun frá Súðavíkurhreppi um skoðunarmenn samkvæmt 69. gr. en ekkert varðandi ársreikninginn.

En svo hefur það gerst núna að félmn. Alþingis hefur fengið mjög mikla umsögn um 68. gr. frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Það er auðvitað afskaplega slæmt að svona umsögn skuli ekki koma á réttum tíma, að þetta skuli ekki gerast fyrr en frv. er komið til umræðu hingað inn í þingið og ekki unnt fyrr en milli umræðna að leggja til breytingar í samræmi við þessar ábendingar. Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að lesa þessa umsögn vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt vegna meðferðar málsins að menn viti á Alþingi hvernig umsögn Félags löggiltra endurskoðenda um endurskoðun ársreikninga sveitarfélaga er. Þetta er um 68. gr. frv. eins og ég hef þegar bent á. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

,,Í fyrstu málsgrein þessarar greinar er kveðið á um það að sveitarstjórn ráði löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinna skal endurskoðun hjá sveitarélaginu. Með þessu ákvæði er verið að afnema þann greinarmun sem áður var gerður á sveitarfélögum í þessu tilliti eftir stærð þeirra og telur stjórn FLE að það sé til bóta.

Í annarri málsgrein 68. gr. er hins vegar að finna ákvæði sem stjórn FLE telur að sé andstætt þeim meginforsendum sem gilda um störf löggiltra endurskoðenda. Í þessari málsgrein er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti ákveðið að fela endurskoðunina sérstakri endurskoðunarstofnun á vegum sveitarfélagsins. Gert er að skilyrði að slík stofnun sé undir stjórn löggilts endurskoðanda og segir síðan: ,,Stofnunin skal heyra beint undir sveitarstjórn og vera og óháð öllum nefndum, ráðum, stjórnum, fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins við framkvæmd endurskoðunarinnar.``

Í athugasemdum við frumvarpið er ýjað að því að staða endurskoðunarstofnunar af þessu tagi verði hliðstæð stöðu Ríkisendurskoðunar hjá ríkisvaldinu. Þetta teljum við vera alrangt þar sem staða sveitarstjórna er að okkar mati allt önnur en ríkisvaldsins að þessu leyti. Með eðlilegri þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald er eðlilegt að endurskoðun á störfum framkvæmdarvaldsins fari fram undir verndarvæng löggjafarvaldsins. Við teljum hins vegar að slík skipting sé alls ekki til staðar í starfsemi sveitarfélaga þar sem sveitarstjórnir eru beinir aðilar að ,,framkvæmdarvaldi`` sveitarfélaganna og hliðstæð þrískipting valdsins er vart til staðar.``

Ég vek athygli hv. alþingismanna á þessu. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

,,Í lögum nr. 18/1997, um löggilta endurskoðendur, segir svo í 9. gr. sem fjallar um vanhæfisástæður:

,,Endurskoðanda er óheimilt að endurskoða hjá stofnunum og fyrirtækjum:

1. ef hann er að einhverju leyti ábyrgur fyrir skuldbindingum viðkomandi stofnana eða fyrirtækja,

2. ef hann er undir stjórn eða á annan hátt háður stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra, prókúruhafa eða þeim starfsmönnum sem annast eða hafa eftirlit með bókhaldi og fjármálum,``

Ég vek athygli á því að ákvæðið sem ég las áðan um hæfi oddvita nær ekki til framkvæmdastjóra sem eru pólitískir oddvitar.

,,3. ef hann er eða hefur verið maki aðila skv. 2. tölul., skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar, eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar,

4. ef hann sjálfur, venslamenn hans skv. 3. tölul. eða næstu yfirmenn eiga meira en óverulegra hagsmuna að gæta hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki,

5. ef hann er fjárhagslega háður þeim sem endurskoða á,

6. ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.``

Í lokamálsgrein sömu greinar segir: ,,Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki má ekki í þrjú ár samfellt eiga stærri hluta en 20% af veltu sinni undir einum viðskiptavini sem hann eða það endurskoðar fyrir. Endurskoðendaráð getur veitt undanþágu frá þessari reglu.````

Þetta er tilvitnun stjórnar félagsins. Og síðan segir stjórnin, með leyfi forseta:

[18:00]

,,Við teljum með hliðsjón af ofangreindum tilvísunum að 68. gr. frumvarpsins eins og hún liggur nú fyrir brjóti algerlega í bága við lög um löggilta endurskoðendur bæði hvað varðar vanhæfisástæður og einnig 6. gr. laganna sem fjallar um stofnun endurskoðunarfyrirtækja.`` --- Það er bara ekkert annað --- brýtur algjörlega í bága við lög um löggilta endurskoðendur bæði hvað varðar vanhæfisástæður og einnig 6. gr. laganna sem fjallar um stofnun endurskoðunarfyrirtækja. Ég hlýt, virðulegi forseti, að skjóta því inn hér að það hefði kannski verið betra að afgreiða þetta mál ekki svona hratt úr félmn. sem raun ber vitni, en það var gert fyrir páska. Við hefðum kannski skoðað þetta. (Gripið fram í: Þetta var rætt þar.) Við hefðum kannski skoðað þetta betur.

,,Löggiltir endurskoðendur geta að okkar mati sinnt innra eftirliti hjá sveitarfélögum en samkvæmt lögunum um löggilta endurskoðendur eru þeir vanhæfir til að koma fram sem óháðir endurskoðendur sveitarfélaga. Má þar m.a. vísa til 11. gr. laga um löggilta endurskoðendur sem segir að ráðherra geti fellt niður löggildingu þeirra endurskoðenda sem ekki uppfylla skilyrði laganna. Sá aðili, sem tæki að sér forstöðu ,,endurskoðunarstofnunar`` af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir, getur að okkar mati aldrei talist óháður og væri þar af leiðandi vanhæfur til að árita ársreikninga sveitarfélags sem slíkur.

Við teljum að það sé andstætt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu að undanförnu að gera einstakar stofnanir þess undanþegnar ytra eftirliti sem fæst með starfi óháðra löggiltra endurskoðenda. Spyrja má, hvaða aðstæður sveitarfélaganna geri þeirra stöðu öðruvísi en t.d. banka, tryggingafélaga eða annarra þeirra fyrirtækja og stofnana sem skyldaðar eru til að hafa óháða löggilta endurskoðendur. Það er ótvírætt að löggiltur endurskoðandi sem veitir endurskoðunarstofnun á vegum sveitarfélags forstöðu, er fjárhagslega háður þeim sem endurskoða á, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um löggilta endurskoðendur. Jafnframt er ljóst að slík stofnun mundi undantekningarlaust sækja meira en 20% hlut af veltu sinni til eins viðskiptavinar, þar sem væru viðkomandi sveitarsjóður og stofnanir hans.

Til viðbótar ofangreindum sjónarmiðum má benda á að það kann að vera andstætt sjónarmiðum samkeppnislaga að stofnun á vegum hins opinbera, sem ekki býr við hliðstæða aðstöðu og einkaaðilar, keppi við þá aðila sem atvinnurekstur stunda á viðkomandi sviði. Í þessu sambandi verður að skoða hluti eins og húsnæðismál, tæknimál og endurmenntunarmál sem er sífellt vaxandi þáttur í rekstri endurskoðunarstofa.

Þegar litið er til allra þeirra atriða sem greind eru hér að framan teljum við að fari þessi ákvæði frumvarpsins óbreytt í gegn verði stigið stórt skref aftur á bak varðandi stöðu endurskoðenda og trúverðugleika þeirra upplýsinga sem gefnar eru um rekstur og stöðu sveitarfélaga.

Okkar tillaga er sú að 2. mgr. 68. gr. frumvarpsins verði felld niður og þar með verði sveitarstjórnum gert skylt að ráða löggilta endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem vinni endurskoðun hjá sveitarfélögunum. Endurskoðunarstofnanir sem sveitarfélög starfrækja eða kynnu að setja á stofn sinni þar með eingöngu innri endurskoðun á vegum sveitarfélagsins.``

Virðulegi forseti. Þar sem bent var á að þetta hefði verið rætt þá hlýt ég að kanna það hvort einhver brtt. sé við þessa grein. Nei, svo er ekki. Í ljósi þess hvaða umræða hefur farið fram í þjóðfélaginu eftir páska og hefur varðað upplýsingagjöf, innri endurskoðun og ytri endurskoðun hjá ónefndu fyrirtæki sem ég ætla ekki að taka mér í munn í þessari umræðu, held ég að það hljóti að vera að eftir þessar ábendingar frá stjórn Félags löggiltra endurskoðenda þá hljóti félmn. að taka þetta frv. til nánari skoðunar á milli 2. og 3. umr. til að skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar hér á. Á því tel ég ekki nokkurn einasta vafa.

Virðulegi forseti. Það var mjög mikilvægt að greina frá þessum nýju athugasemdum og jafnframt að harma það að þær skuli svo seint fram komnar sem raun ber vitni.

Ég ætla ekki að staldra við skoðunarmennina neitt frekar þótt við þá hafi komið einhverjar athugasemdir en ég ætla að staldra næst við 73. gr. og þá umfjöllun og spurningu sem er um það hvort setja eigi stífari reglur um skuldsetningu sveitarfélaga. Auðvitað var þetta líka rætt mjög mikið í félmn., þetta er auðvitað mjög stór hlutur. Það hafa ófáar sveitarstjórnir á liðnum árum verið felldar úr sessi eftir hatramma gagnrýni á skuldir viðkomandi sveitarfélags. Þegar maður er í góða skapinu getur maður hlegið dátt að því hvernig þeir sem felldu út á slíkar yfirlýsingar um tiltölulega litlar skuldir hafa svo í kjölfarið margfaldað skuldir síns sveitarfélags. Það eina sem maður lærir af því er að ekki er hægt að skora sama markið tvisvar, þannig að það er nærri því ófært við slíkar aðstæður að koma því með nokkrum skynsamlegum rökum til skila til sveitarfélaga að það sem áður var úlfur, úlfur er núna réttmæt gagnrýni. Full ástæða er til að nefna þetta í þessari umræðu.

En síðasta málsgrein 73. gr. hljóðar svo:

,,Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Prókúruhafa sveitarsjóðs er þó heimilt fyrir hönd sveitarfélags að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.``

En það er fyrst og fremst staldrað við 74. gr. sem ábyggilega mjög skiptar skoðanir eru um, líka á Alþingi, hvernig skuli afgreiða.

Það voru nokkrar athugasemdir við 73. gr. um tryggingar og ábyrgðir. Sumir gagnrýndu að ástæðulaust væri að setja það í lög að óheimilt væri að veita einfalda ábyrgð, sem er nýmæli í þessum sveitarstjórnarlögum. Og sumir töldu, t.d. Akranesbær, að rétt væri að varpa fram þeirri spurningu hvort samræmi væri á milli ákvæða frv. sem banna gjaldþrotaskipti á sveitarfélögum og annarra ákvæða sem heimila sveitarfélögum að fá greiðslustöðvun og gera nauðasamninga við lánardrottna í 76. gr. En þetta varð nú ekki tilefni brtt. ef ég man rétt, virðulegi forseti, en ég ætla samt aðeins að líta á það af því að ég var að fara hérna á milli blaðsíðna. Mér er mjög umhugað um að fara skilmerkilega yfir þessi lög og fara jafnframt rétt með.

Nei, það er ekki fyrr en í 74. gr. sem brtt. er. 74. gr. er um eftirlitsnefnd og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra skipar þriggja manna eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Einn fulltrúi í nefndina skal skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. ...

Nefndin skal árlega athuga reikningsskil sveitarfélaga og bera þau saman við viðmiðanir skv. 4. mgr.``...

Og þarna kemur einmitt brtt.: ,,Nefndin skal árlega athuga reikningsskil sveitarfélaga og bera þau saman við viðmiðanir skv. 4. mgr. þessarar greinar og ákvæði 3. mgr. 61. gr.`` --- Ég ætla aðeins að staldra við hver hún er. 3. mgr. 61. gr. frv. að teknu tilliti til brtt. 7.6 á þskj. 1193 hljóðar svo: ,,Sveitarstjórn skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.``

Síðan segir áfram í 74. gr.: ,,Leiði athugun í ljós að fjármál sveitarfélags stefni í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarfélag og samhliða upplýsa ráðuneytið um álit sitt. Sveitarstjórn er skylt í slíkum tilvikum að gera eftirlitsnefndinni innan tveggja mánaða grein fyrir hvernig sveitar stjórnin hyggst bregðast við aðvörun nefndarinnar.

Þóknun til eftirlitsnefndarmanna skal ákveðin af ráðherra.`` --- Takið eftir þessu. --- ,,Þóknunin og annar kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Ráðherra setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga reglugerð um störf og málsmeðferð eftirlitsnefndar og viðmiðanir varðandi fjárhagsleg málefni sveitarfélaga. Fjárhagsviðmiðanir skulu taka til þeirra atriða sem meginmáli skipta við mat á rekstri og efnahag sveitarfélaga.

Ákvarðanir eftirlitsnefndar eru endanlegar og verða eigi kærðar til ráðherra.``

Ég hélt reyndar, virðulegi forseti --- já, það er búið að fella þessa síðustu málsgrein út --- ég ætlaði að fara að segja að ég hefði haldið að það ætti að fella þessa grein út og ég sé að það er gert í brtt. meiri hlutans á þskj. 1193.

Þessi eftirlitsnefnd er umdeild. Nú er ég t.d. í hópi þeirra sem vil að ekkert sé látið reka á reiðanum, að það sé ákveðið eftirlit með því að allt gangi fyrir sig eins og það á að gerast hjá sveitarfélögum, að félmrn. sem sveitarstjórnarráðuneyti standi ekki uppi vitandi ekkert ef það gerist að eitthvert sveitarfélag hefur stefnt öllum málefnum sínum í óefni. En á hinn bóginn vil ég taka undir það að sveitarstjórnarstigið á að vera mjög sjálfstætt og sveitarstjórnarmenn standa mjög nærri umbjóðendum sínum. Ef hægt er að koma málum þannig fyrir að umbjóðendurnir, þ.e. fólkið í bænum, viti ævinlega hver staðan er og hvernig menn hafa farið með hlutina og geti þá skipt stjórnendum út ef þeir hafa ekki staðið sig, þá er það æskilegast að hver og einn standi og falli með verkum sínum.

Vandinn er sá að það er vita vonlaust fyrir fólkið í bæjunum að vita hvort eitthvað rétt sé í því eða hvort það er pólitískur áróður þegar hörð gagnrýni er uppi um fjármál sveitarfélaga. Það er svo flókin framsetning þegar sveitarstjórnarmenn eru að reyna að koma þessu til skila að það er alveg undir hælinn lagt hvort möguleiki er á því að fólk skynji að þetta er ekki pólitískur áróður heldur staðreyndir um fjárhagsstöðu.

Þannig var það að í því ágæta sveitarfélagi sem ég bý í, Kópavogi, fyrir allmörgum árum, einum átta árum, var mikil gagnrýni uppi. Það var hræðileg skuldastaða, miklar skuldir, illa haldið á fjármálum, enda félagslegur meiri hluti sem hlaut að fara með óráðsíu um alla hluti. Þetta var áróður sem gekk.

[18:15]

Við tók nýr meiri hluti, sjálfstæðismenn plús einn sem fékk að vera bæjarstjóri. Síðan er búið að taka slíkt af lánum hjá þessum ágæta heimabæ mínum að allar lýsingar á fjárhagsstöðu þess ágæta bæjar í tíð vinstri meiri hlutans eru bara grín í dag. Á sama hátt verð ég að viðurkenna að það er hreint ekki hlaupið að því að koma þessu skilmerkilega til skila til bæjarbúa í dag, alls ekki. Það er eðlilegt og sjálfsagt að bent sé á þetta en fjarri því að nokkur skyldi láta sér detta í hug að hafa af því pólitískan ávinning að gera það að aðalatriði pólitískra átaka hver fjárhagsstaðan sé.

Að þessu sögðu er ljóst að það er nokkuð mikið mál að agi sé í hernum, að sveitarstjórnin viti að fylgst sé með hvernig haldið er á málum og þess vegna ekki óeðlilegt að staldra við það hvort það sé ekki bara gott mál að vera með eftirlitsnefnd. Þegar við skoðum það mál nánar er búið að setja á laggirnar litla stofnun sem fær gífurlegt vald gagnvart sveitarstjórnunum í umboði ráðherra.

Þarna er búið að setja á stofnun eftirlitsnefndarmanna, sem ráðherra hefur skipað, og þeir eiga sjálfir að skoða hlutina. Ef þeir vita að eitthvert sveitarfélag er að fara í fjárþröng eða ef sveitarfélag lendir í einhverri fjárþröng skal strax tilkynna það til eftirlitsnefndar og eftirlitsnefndin skal tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum. Þarna er milliliðalaust búið að framselja af hálfu sveitarstjórnarráðherrans það vald til eftirlitsnefndarinnar að sveitarstjórnin skuli strax tilkynna það þessari þriggja manna nefnd sem ráðherrann hefur skipað. Þá vaknar spurning um hvort þarna sé ekki um óeðlilegt framsal valds að ræða.

Eftirlitsnefndin skal tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests. Það er ekki félmrh. sem er með einhverja tilskipun til sveitarstjórnar um að eftir einhverja skoðun, sem hafi farið fram á vegum ráðherrans og samkvæmt upplýsingum sem slík eftirlitsnefnd hafi veitt ráðherranum, biðji hann þá um að sveitarstjórn bæti sig, heldur er það svo að eftirlitsnefndin skal tafarlaust láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélags og eftirlitsnefndin skal leggja fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests.

Takið eftir því að eftirlitsnefndinni er heimilt að grípa til aðgerða skv. 2. mgr. hafi sveitarstjórn ekki sinnt viðvörun nefndarinnar eða ef nefndin telur viðbrögð sveitarstjórnar í framhaldi af viðvörun nefndarinnar ófullnægjandi. Ekki ráðherra, heldur eftirlitsnefndin.

Þegar við förum yfir í 76. gr., sem ég ætla að leyfa mér að víkja yfir í af því það er í fullkomnu samhengi við 74. og 75. gr., þá segir:

,,Nú er greiðslubyrði sveitarfélags umfram greiðslugetu svo mikil að ljóst er að eigi mun úr rætast í bráð og getur ráðherra að tillögu eftirlitsnefndar þá svipt sveitarstjórn fjárforráðum sveitarfélags og skipað því fjárhaldsstjórn ...``

Eftirlitsnefndin er með eftirlitshlutverk. Eftirlitsnefndin fær stöðu lítillar eftirlitsstofnunar. Eftirlitsnefndin hefur leyfi til að skoða allar fjárreiður og rekstur sveitarfélags. Eftirlitsnefndin má leggja það fyrir sveitarstjórn að hún bæti, vesgú, það sem áfátt kann að reynast að mati eftirlitsnefndarinnar. Eftirlitsnefndinni er heimilt að grípa til aðgerða. Þegar svo er komið getur ráðherra að tillögu eftirlitsnefndar svipt sveitarstjórn fjárforráðum sveitarfélags og skipað því fjárhaldsstjórn.

Það hefur oft verið gagnrýnt að sveitarstjórnarráðuneyti skuli ekki vera með frumkvæðiseftirlit á ýmsum þáttum. Ég minnist þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur oft talað um það hér t.d. um gjaldtöku, varðandi að sveitarfélög fara út fyrir heimildarramma að því er virðist, að þá hefur það verið gagnrýnt að þegar fyrispurn kemur frá Alþingi er svarið einatt þetta: Sveitarstjórnarráðuneytið hefur ekki frumkvæðiseftirlit, það hefur engin ábending komið, það hefur ekki verið klagað. Sveitarstjórnarráðuneytið hefur ekki ástæðu til að ætla að eitthvað misfarist í þessum efnum í sveitarfélagi.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að vera ákveðið eftirlitshlutverk og sveitarstjórnarráðuneytið á að hafa ákveðið frumkvæðishlutverk. En þarna er búið að stofna litla eftirlitsstofnun sem fær gífurlegt vald gagnvart sveitarfélögunum. Þegar ég fór að skoða þetta nánar og fara yfir brtt. og allar athugasemdirnar mínar við hinar ýmsu greinar frv. og staldraði við í rólegheitum spurði ég sjálfa mig: Hvers lags þrjá einstaklinga kýs sveitarstjórnarráðherrann í þessa eftirlitsnefnd? Hvílíkt óhemjulegt framsal á valdi er þetta eins og ég hef hér rakið? (Gripið fram í: Það er búið að því, að rekja það.)

Það er alveg hárrétt að hv. þm. Pétur Blöndal --- hefur mjög mikla þekkingu á fjárreiðum fyrirtækja, vill að vísu flestar stofnanir sem sjálfstæðastar, að einkaframtak blómstri og ef ég mundi lesa hann rétt þá mundi ég telja að hann mundi vilja að sveitarfélög væru sem allra sjálfstæðust, bæru ábyrgð á öllum málum sínum og væru sótt til ábyrgðar, eins og ég var að reyna að lýsa áðan, og það væri þá auðveldara en það er í dag --- hann hefur einmitt rætt það að þetta geti ekki gengið upp. En munurinn á okkur, hv. þm. Pétri Blöndal og mér, er sá að ég vil hafa ákveðið eftirlitshlutverk ef það er sveitarstjórnarráðuneyti á annað borð. En það er spurning hvort hér hafi almennt verið gengið of langt í að gefa sveitarstjórnunum forskrift, að búið sé að segja þeim í lögum bókstaflega fyrir verkum á öllum sviðum og síðan eigi að koma með einhverja nefnd sem fær gífurlegt vald.

Ég velti því fyrir mér hvernig svona nefnd verður launuð. Á þetta að vera fólk í fullu starfi og tekur að sér nefndarstörf eins og gerist hefðbundið þegar verið er að velja fólk til starfa í stjórnum og ráðum á vegum hins opinbera? Þarna held ég að við verðum að staldra við og kanna hvernig við höfum búið í pottinn. Ég held að þarna sé of langt gengið hjá félmrh. og að þrátt fyrir að meiri hluti félmn. hafi dregið örlítið úr þessu gífurlega valdi með því að fella út lokamálsgrein 74. gr. sé samt allt of mikið vald eftir. Ég bendi á að sú málsgrein sem brtt. er um að felld sé út er um að ákvarðanir eftirlitsnefndar séu endanlegar og verði eigi kærðar til ráðherra.

Í frv. var búið að gefa þessari litlu stofnun, eftirlitsnefndinni sem á bara að vera skipuð nefnd af ráðherra, kannski skipuð nefnd manna, sem eru í fullri vinnu annars staðar, óhemjulegt vald, framselja vald sveitarstjórnarráðherrans og meira að segja kveða á um að ákvarðanir nefndarinnar væru endanlegar og yrðu ekki kærðar til ráðherra. Eins og ég segi er a.m.k. sú brtt. komin inn og það er mjög gott en þetta held ég sannarlega að við þurfum að skoða betur á milli umræðna.

Reyndar komu Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með ábendingu. Þau leggja til að inn komi ákvæði í 76. gr., sem ég var lesa úr, um sviptingu fjárforráða, að það komi ákvæði þess efnis að sveitarstjórn höfði mál fyrir dómi til ógildingar ákvörðun ráðherra um sviptingu fjárforræðis, þá frestist fjárforræðissviptingin þar til dómur er genginn. Það er tillaga Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er kannski ekkert undarlegt vegna þess mikla valds sem kemur fram í 74., 75. og 76. gr.

Sömuleiðis leggja Samtök sveitarfélaga á Norðurl. v. til að bætist við 76. gr.: ,,og frestast þá fjárforræðissviptingin þar til dómur er genginn``.

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta mál, eftirlitsnefndin, og ákvæðin um hana sé kannski það sem eigi seinna eftir að verða mest tekist á um og það kemur mér satt best að segja á óvart hve litlar athugasemdir komu frá sveitarfélögunum við þessar greinar. Satt best að segja finnst mér, miðað við að sveitarstjórnirnar allar fengu þetta frv. til umsagnar og skiluðu í raun og veru fáum athugasemdum, að teknu tilliti til þess hvað þetta eru umfangsmikil lög og hversu mikilvægt það er að við fáum sjónarmið sveitarfélaganna þegar við erum að fjalla um þessi mál. Miðað við það að athugasemdir eru frá fáum við 73., 74. og 75. gr. þá hefði ég átt von á því að sveitarfélögin létu í sér heyra. Annaðhvort að þeim fyndist að mjög mikilvægt að fá þetta ákvæði eða þá að gagnrýna það harkalega.

Virðulegi forseti. Ég var áðan að nefna frumkvæðiseftirlitið. Í 102. gr. er ákvæði um eftirlitshlutverk ráðuneytisins:

,,Ráðuneytið skal hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt lögum þessum og öðrum löglegum fyrirmælum.

Vanræki sveitarstjórn skyldur sínar skal ráðuneytið veita henni áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni.

Verði sveitarstjórn eigi við áskorun ráðuneytisins innan frests sem ráðuneytið tiltekur er því heimilt að stöðva greiðslur til sveitarsjóðs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar til bætt hefur verið úr vanrækslunni. Jafnframt getur ráðuneytið með lögsókn krafist dagsekta af þeim sem ábyrgð bera á vanrækslunni og mega dagsektir nema allt að fimmföldum daglaunum viðkomandi manns.``

Ég velti því fyrir mér hvort þarna séu komin nægileg ákvæði til þess að sinna því frumkvæðiseftirliti sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur svo oft kallað eftir. Ef sveitarfélag mundi t.d. innheimta allt of hátt vatnsgjald, mundi ráðuneytið gera eitthvað ef það fengi vísbendingar um það þó það hafi ekki verið kært? Ég spyr forsvarsmann meiri hlutans hvernig hann túlki það mál.

[18:30]

Í þessu frv. hefur ýmislegt verið ákveðið, virðulegi forseti. Í 94. gr. segir t.d. að sameining sveitarfélaga yfir mörk kjördæma verði ekki ákveðin nema með lögum. Hér brtt. um að heimilt verði að sameina sveitarfélög yfir mörk kjördæma en slík sameining hafi ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar. Að þessari brtt. samþykktri geta menn aldeilis farið að sameina þvers og kruss yfir mörk kjördæma þó menn kjósi áfram í sínu gamla kjördæmi eftir sem áður, hvar svo sem þeir eru staðsettir í sveitarfélögum.

Ég nefndi eftirlitshlutverkið áðan. Um það komu nokkrar athugasemdir. Það hefur verið vísað m.a. í dönsku sveitarstjórnarlögin og Ríkisendurskoðun leggur mikla áherslu á að svona eftirlit geti verið grundvöllur virks eftirlits, e.t.v. á sama hátt og ég var að vísa í áðan. Það væri eins konar frumkvæðiseftirlit. Það hefur skort mjög mikið á að ákvæði um eftirlit væri fullnægjandi enda ekki verið neitt sem segir til hvaða þátta það skuli taka, eftir hvaða farvegi eftirlitsmál skuli fara, til hversu takmarkaðra úrræða ráðuneytið getur tekið o.s.frv. Ríkisendurskoðun vísar einmitt í dönsku sveitarstjórnarlögin og bendir á að ákvæði þessara laga séu samin á grundvelli sambærilegra viðhorfa og gilda í íslensku stjórnarskránni um sjálfstjórn, eftirlit og réttaröryggi. Við erum sem sagt á reiki þegar kemur að eftirlitshlutverkinu. Annað hvort viljum við hafa gífurlega mikið eftirlit og setja upp þriggja manna stofnun sem ráðherrann má skipa eða það verði óljóst hvernig eftirlitshlutverkið er, til hvers það tekur og eftir hvaða farvegi þau mál fari. Enn aðrir vilja að beitt verði dagsektarákvæðum og öðru slíku.

Virðulegi forseti. Áður en ég kem að ákvæði til bráðabirgða sem ætlunin er að breyta með brtt. meiri hlutans, þá ætla ég að leyfa mér að nefna það sem fellur úr sveitarstjórnarlögunum með þessu frv. en það er eftirfarandi:

Allur greinarmunur sem er gerður er á sveitarfélögum eftir fjölda íbúa er felldur brott þannig að öll sveitarfélög hafa sömu stjórnsýslulegu stöðu án tillits til íbúafjölda. Þetta hefur vakið athygli hjá mörgum.

Lagt til að landið skiptist í sveitarfélög en ekki einvörðungu byggðir og afréttir, samanber 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða. Það kemur kemur engum á óvart, enda verið rætt hér.

Ákvæði laganna varðandi nafngiftir sveitarfélaga eru rýmkuð og í tengslum við það er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir ákveði heiti sveitarstjórna, byggðaráða og framkvæmdastjóra í samþykktum sínum um stjórn og fundarsköp.

Brott er felldur III. kafli laganna um kosningu sveitarstjórna og samið nýtt frv. til laga um kosningar til sveitarstjórna. Þetta hefur komið fram, m.a. í máli mínu.

Leitast við að gera ákvæði varðandi sveitarstjórnarfundi skýrari. Þessi atriði snerta auglýsingu fundanna, hæfi sveitarstjórnarmanna, tölvuskráningu fundarmanna og varamenn í sveitarstjórnum. Ég hef vakið athygli á því að menn eigi að benda félögum sínum á þetta með varamenn í sveitarstjórnum.

Kaflanum um fjármál sveitarfélaga er breytt nokkuð í því skyni að samræma betur fjárhagslegt uppgjör sveitarfélaga og skýra nánar hlutverk endurskoðenda og skoðunarmanna. Það er eitt af því sem við verðum að skoða milli funda, eftir ítarlega athugasemd stjórnar Félags endurskoðenda, og finna úrræði svo að unnt sé að bregðast fyrr við alvarlegum fjárhagsvanda sveitarfélaga ef sveitarstjórn hefur ekki um það frumkvæði samanber 74.--80. gr. Brott er felld heimild fyrir sveitarstjórnir til að veita einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún metur gildar, samanber 73. gr.

Ég minnist þess reyndar, þegar ég get þessa, að á aðalfundi Sambands ísl. sveitarfélaga benti hæstv. félmrh. sérstaklega á þessa grein og hvatti til þess að athugað yrði hvort halda ætti inni heimildum fyrir sveitarstjórnir til að veita einfalda ábyrgð. Þrátt fyrir þá hvatningu hefur niðurstaða félmn. verið að gera ekki breytingar á þessari grein. Ég held að það sé rétt að gera það ekki.

99. gr. gildandi laga um að sveitarfélögum geti í einhverjum tilvikum verið skylt að hafa með sér samvinnu er felld brott og jafnframt 100. gr. gildandi laga, um stofnun og starfrækslu atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð.

117. gr. gildandi laga féll brott þar sem ákvæði hennar eru talin úrelt í ljósi breyttra aðstæðna, m.a. breytinga varðandi aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Að öðru leyti er vísað í einstakar greinar.

Ég vek athygli á því að skyldan um að stofna byggðasamlög ef verkefni eru sveitarfélögum um megn er felld út. Ég vek athygli á þessu.

Þá er það ákvæði til bráðabirgða samkvæmt nýrri brtt. frá meiri hluta félmn. þar sem m.a. segir:

,,Eignarlandi skal skipað innan staðarmarka sama sveitarfélags og sú jörð sem það hefur áður tilheyrt nema fyrir liggi sérstakar heimildir um annað.

Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags. Ef íbúar fleiri en eins sveitarfélags eiga upprekstrarrétt í afréttinn og ekki næst samkomulag um til hvers þeirra hann skuli teljast sker úr um málið óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Óbyggðanefnd skal einnig skera úr ágreiningi sem rís vegna 2. mgr.

Þegar óbyggðanefnd úrskurðar að landsvæði skuli teljast þjóðlenda skal nefndin kveða á um hvernig þeim hluta þess sem ekki telst afréttur skuli skipað innan staðarmarka sveitarfélaga. Skal miðað við að framlengja staðarmörk aðliggjandi sveitarfélaga inn til landsins, þar með talið á jöklum, en þó þannig að fylgt sé náttúrulegum mörkum eða mörkum sem byggjast á sérstökum heimildum um mörkin, þar sem nefndin telur það betur eiga við. Óbyggðanefnd getur í þessu tilviki breytt mörkum frá því sem kann að hafa verið samið um milli sveitarfélaga, þar með talið samkvæmt heimild í 5. mgr. ákvæðis þessa og 2. mgr. 3. gr. laga þessara, eða þau ákveðin með öðrum hætti.

Meðan óbyggðanefnd hefur ekki úrskurðað um einstök landsvæði, sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga, getur félagsmálaráðherra staðfest samkomulag sem sveitarfélög hafa gert um staðarmörk sveitarfélaga á slíkum svæðum.

Félagsmálaráðuneytið skal birta auglýsingu um ákvörðun á staðarmörkum sveitarfélaga samkvæmt ákvæði þessu í Stjórnartíðindum.``

Þá erum við komin að þessu stóra ágreiningsmáli í frv. til sveitarstjórnarlaga sem ég á eftir að úttala mig um. Sérstaklega er athyglisvert að staldra við afréttirnar. Hvað ætli ég hafi oft hlustað á að í raun og veru sé löngu búið að skipa afréttunum innan sveitarfélaganna og einungis sé örlítil ræma við jöklana sem ekki er skipuð? Ég ætla að koma rækilega, virðulegi forseti, að því á eftir vegna þess að ég hef skoðað tilurð þessa.

Ég benti á það í upphafi máls míns og vitnaði í grein í Morgunblaðinu í gær, hvernig umræðan hér hefði stangast á við ákvæði núgildandi sveitarstjórnarlaga þar sem segir að byggðin skiptist í sveitarfélög.

Ég mun koma að því á eftir, hvernig þetta gerðist með afréttirnar og hvernig það er algerlega óljóst til hvaða sveitarfélags afrétt ætti í raun að teljast. Áður en ég kem að því, af því að ég er búin að fara yfir frv., þá ætla ég aðeins að fjalla um stöðu þessa máls nú í upphafi ræðu minnar um þetta þýðingarmikla mál. Ég hlýt að gera það nokkuð ítarlega þar sem skipulagsfrv. með sáttargerðinni við fulltrúa í félmn., aðra en þá sem hér stendur, var ekki komið á borð þingmanna þegar ég hóf ræðu mína í fyrra sinnið.

Í fyrri ræðu minni átti ég ekki kost á að fjalla um það hvernig mér litist á þá tillögu, hvort hugsanlegt væri að stjórnarmeirihlutinn og þeir sem ætluðu að leysa málin með honum, hefðu kannski dottið niður á hina einu sönnu lausn sem hugsanlegt væri að aðrir fengjust til að skoða en reyndist auðvitað ekki vera.

Það er undarleg staða, að tillaga sem átti að reyna að ná samkomulagi um virðist hafa verið sýnd sumum í félmn. en ekki öllum. Sífellt var vísað til texta sem sýndur hefði verið í félmn. Vísað var til samráðs um texta sem átti að vera til en var ekki til. Það samráð átti að vera lausn á skipulagsmálum hálendisins sem mundi tryggja aðkomu þéttbýlisins að því og draga úr því sem við höfðum kallað, að færa stjórnsýsluna til færri sveitarfélaga. Þegar ég hóf fyrri ræðu mína í upphafi þessarar umræðu, virtist mér sú staða vera uppi að sátt væri milli allra. Jafnaðarmenn einir væru á annarri skoðun. Þegar ég segi að sátt hafi verið um málið þá er ég að sjálfsögðu að vísa til þess að menn hafi verið tilbúnir að skoða sáttatillögu þar sem tekið yrði tillit til sjónarmiða þeirra sem áhyggjufullir voru varðandi hálendismálin.

Það sem gerðist var alveg ótrúlegt með tilliti til þess hvernig umfjöllunin hafði verið og hve margir virtust vilja skoða sameiginlega lausn mála á miðhálendinu. Mér birtist þetta sem ótrúlegur hroki gagnvart þeim sem höfðu skrifað undir nefndarálit með fyrirvara. Á borð þingmanna kemur frumvarp með texta sem greinilega hefur ekki verið borinn undir nægjanlega marga. Ráðherra mælir fyrir málinu í umræðu um sveitarstjórnarlög. Ósk kemur fram um að sérstaklega verði mælt fyrir þessu frumvarpi þannig að það komi efnislega til umræðu og hægt verði að fjalla um það sem gera þurfi til þess að fólk telji sig öruggt um afgreiðslu sveitarstjórnarfrv.

Þá gerist það að stjórnarmeirihlutinn, sem á þess kost vinna að málefnum miðhálendisins í sátt við stóran hluta þingsins, fellir afbrigði um að taka þessi mál á dagskrá. Ég held að í umræðu í dag, annaðhvort um störf þingsins eða fundarstjórn forseta, hafi eitthvað verið vikið að því að menn þyrftu ekki að vera hissa á því að afbrigði um að taka mál á dagskrá yrðu felld, þetta hefði stjórnarandstaðan sjálf gert. Ég get ekki annað en sagt að það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman.

Annars vegar er um að ræða frv. sem ríkisstjórnin leggur fram og kemur til umræðu að loknum tveimur sólarhringum, hvað sem stjórnarandstaðan segir. Stjórnarandstaðan er beðin um að greiða atkvæði nú, á þeim tiltekna degi, til að umræðan geti hafist þá þegar að kvöldi þess dags til þess að setja lög á sjómenn strax. Þar var áherslan lögð á að fara hratt í gegnum þingið, þannig að búið yrði að afgreiða viðkomandi mál innan þeirra tveggja sólarhringa sem þingsköp kveða á um.

[18:45]

Í þessu tilviki var verið að biðja um að taka stjórnarmál á dagskrá sem annars kemur ekki á dagskrá þó við verðum hér út maí af því að tíminn fyrir slík mál er liðinn. Það er verið að biðja um að taka stjórnarmál á dagskrá til þess að fjalla um leið sem á að fara í sameiginlegri lausn. Þetta er það sem gerðist. Þess vegna hefur það gerst að þingflokkur Alþb. hefur flutt tillögu um rökstudda dagskrá á frv. sem hér hefur verið lagt á borð en er í raun og veru aldrei til umræðu. Þar harmar þingflokkurinn þá niðurstöðu sem meiri hluti Alþingis hefur komist að með því að neita að taka frv. frá ríkisstjórninni sjálfri um breytingar á skipulags- og byggingarlögum á dagskrá þar sem verið er að reyna að leita sátta í viðkvæmu deilumáli. Þingflokkur Alþb. segir þar með að ljóst sé að ríkisstjórnin vilji enga almennilega sátt um skipulagsmál hálendisins og ég tek undir það. Það er líka mat mitt.

Stjórnarliðar sem bera sig að á þennan hátt vilja enga samvinnu. Þeir sýna bara hroka, og ef þið gerið ekki eins og við viljum, eruð þið ekki með. Þess vegna er alveg ljóst að þingflokkur jafnaðarmanna tekur heils hugar undir tillögu Alþb. um rökstudda dagskrá um að frv. verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá. Ég hreyfði því í fyrri ræðu minni að við mundum skoða það að flytja tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Hins vegar kemur öllum sem á hlýða á óvart þegar þeir heyra að heill þingflokkur hefur flutt tillögu um rökstudda dagskrá, þá skilur ekki nokkur maður af hverju í ósköpunum var ekki gengið strax til atkvæða á þessari tillögu. Það er það sem ég hef verið spurð um aftur og aftur að undanförnu: Af hverju var tillagan ekki borin upp? Það finnst öllum mjög undarlegt að á Alþingi Íslendinga séu þingsköp þess eðlis að tillaga um rökstudda dagskrá sé ekki borin upp fyrr en að umræðu lokinni.

Virðulegi forseti. Þegar þetta frv. var afgreitt út úr félmn., og ég minni enn á að sú sem hér stendur var ekki viðstödd og er ekkert um það að segja, þá skrifuðu hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir undir álitið með fyrirvara. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa hann. Þau vilja að fram komi að þau telja rangt að skipta skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins upp milli 42 sveitarfélaga sem í mörgum tilvikum ganga þvert á landslagsheildir, svo sem jökla, hraunbreiður, sanda og gróðurbelti. Réttara væri að miðhálendið, svæði innan línu dreginnar milli heimalanda og afrétta væri ávallt skipulagt sem ein heild og að fulltrúar allra landsmanna taki þátt í ákvörðun um það skipulag.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þetta er sama línan og þingflokkur jafnaðarmanna vísar til þegar hann talar um svæði innan línu sem þannig skuli dregin og um það svæði skuli gilda sjálfstæð sérstök stjórn. Þetta er mjög sterkur fyrirvari. Þess vegna er frekar undarlegt að þau tvö skuli hafa treyst sér til að halda því til streitu að frv. sem er á borðum okkar en er ekki á dagskrá, og er í raun og veru ekki til umræðu, sé nægilegt. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.

Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög, sem liggja að miðhálendinu, tilnefna samtals tólf fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa og skulu tveir þeirra eiga búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, félagsmálaráðherra tilnefnir einn og umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.

Samvinnunefndin fjallar um svæðisskipulag miðhálendisins og gefur Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim.

Að loknum sveitarstjórnarkosningum metur samvinnunefnd hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið.

Um málsmeðferð svæðisskipulags miðhálendisins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara. Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfest sem slík. Tillaga að deiliskipulagi eða breytingar á því skal auglýst á áberandi hátt.

Kostnaður við störf samvinnunefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Ráðherra setur samvinnunefndinni starfsreglur að fengnum tillögum hennar.``

Og í 2. gr. segir:

,,Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður sem orðast svo: Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. 12. gr. a, á tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnið er að á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993, áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu þess.``

Það er auðvitað sérstakt umhugsunarefni og það kemur fram í 2. gr., að samvinnunefndin sem nú er að störfum verður búin að skila svæðistillögunni til Skipulagsstofnunar og Skipulagsstofnun á að óska eftir umsögn nýju samvinnunefndarinnar. Það er allt skipulagið.

Það var líka athyglisvert hvernig umhvrh. ... (Gripið fram í: Þú verður að lesa áfram.) Ég er búin að lesa alla tillöguna, alla greinina. ,,Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður sem orðast svo: Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. 12. gr. a, á tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnið er að á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993, áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu þess.``

Ég var að segja að það er núverandi samvinnunefnd sem verður búin að skila tillögu sinni til Skipulagsstofnunar og Skipulagsstofnun á að gera tillögu til ráðherra en áður biður hún nýju samvinnunefndina um umsögn.

Í andsvari við Lúðvík Bergvinsson, þingmann jafnaðarmanna, svaraði umhvrh. þingmanninum þegar hann var að spyrja hvort það þyrfti ekki að breyta fleiru í skipulagslögunum. Hann kaus að svara því svo:

,,Sjálfsagt er ekki rétt af manni sem hefur ekki mikið lögfræðilegt vit og er ekki löglærður að hreykja sér hátt og deila við lögfræðinginn sjálfan um það að þegar sett er ákveðin grein inn í þessi lög um svæðisskipulag og sérstaka nefnd til að fjalla um svæðisskipulag á miðhálendinu sem fær ákveðið verkefni, er auðvitað ljóst að hún hefur til þess fullt umboð samkvæmt heimild löggjafans. Það getur verið að það megi segja að það vanti í fyrri greinar þar sem fjallað er um að sveitarfélög geti haft samvinnu o.s.frv., samanber þó nánar ákvæði í hinni nýju væntanlegu grein. Ég kann það ekki.`` Svo segir umhvrh.

Virðulegi forseti. Með þessari tillögu er verið að gefa falskar vonir. Ég er búin að fara yfir það hvernig verður skipað í nefndina og margsinnis er búið að fara yfir það hvernig jafnvægið verður á milli fulltrúa sveitarfélaganna og annarra og þar sem gagnrýni hefur verið uppi um hinn svokallaða landsbyggðarvinkil er honum ekki breytt. Ég ætla ekki að fara út í hvort það verður einn frá Reykjanesi, einn frá Reykjavík eða hvaðan en samsetning nefndarinnar viðheldur því sama og gagnrýnt hefur verið.

Tillagan gengur líka of skammt því að hún gerir í raun ráð fyrir því að sveitarfélögin fari áfram með aðalskipulags- og deiliskipulagsþáttinn, enda eru þau kjörin til þess. Þau munu skipuleggja sinn hluta í umboði kjósenda sinna. Svæðisskipulag hefur gjörólíka stöðu. Það hefur hingað til byggt á heimild í lögum nema því verði breytt núna í skyldu en verður áfram svæðisskipulag. Það víkur alltaf fyrir aðalskipulaginu. Mér finnst stjórnarliðar komnir í alger vandræði vegna þess að það er orðinn augljós ágreiningur hjá þeim. Eina raunhæfa tillagan ef menn meina það að þeir vilji taka skipulags- og byggingarmál út fyrir væri að færa samvinnunefndinni sem þeir ætla að skipa allan aðal- og skipulagsþáttinn. Þá væri hægt að tala um sérstætt og samræmt skipulagssvæði. Menn mundu aldrei gera það. Menn mundu aldrei framlengja sveitarfélögin alveg upp til hálendisins og segja svo: Í þessu og þessu sveitarfélagi gildir ekki aðalskipulagsrétturinn. Þess vegna er þetta klúður.

Ef við byggjum upp þrjú stjórnsýslustig, eitt færi með stjórnsýslu t.d. á miðhálendinu þá gæti svæðisskipulagið verið raunhæfur kostur en svo er ekki. Við búum við tvö stig og neðra stigið, sveitarstjórnarstigið, fer með aðalskipulagið.

Ég hef farið yfir það áður að svæðisnefndin hefur ekki þessar heimildir sem verið er að tala um. Svæðisskipulagið er leiðbeinandi og ef búið er að svæðisskipuleggja af þeirri samvinnunefnd sem nú starfar og ef það gerist að öll sveitarfélögin eru tilbúin að taka það skipulag inn í aðalskipulag sitt af því að þau hafa komið að því, þá mundi það gerast að ef eitthvert eitt sveitarfélag vildi breyta hjá sér og vera sjálfstætt í aðalskipulagi sínu yrði nýja svæðissamvinnunefndin að fara að endurskoða allt svæðisskipulagið sem hún væri með. Ef hún mundi ætla að taka tillit til þessa sveitarfélags og þess sem það vildi gera yrðu öll hin sveitarfélögin að samþykkja. Þetta er óframkvæmanlegt ákvæði til frambúðar og þess vegna er það svo að sú svæðisskipulagsnefnd, sem sett er á laggirnar með því frv. sem liggur á borðum okkar er eingöngu umsagnaraðili og mun bara verða umsagnaraðili. Þetta er viðvarandi líf samvinnunefndar um svæðisskipulag sem mun verða umsagnaraðili.

[19:00]

Afar fróðlegar umræður hafa verið um þennan þátt og hv. þm. jafnaðarmanna, Össur Skarphéðinsson, og þingmaður sjálfstæðismanna, Árni Mathiesen, ræddu mjög skipulagsmálin og hlutverk svæðisskipulags. Þar kom einmitt fram að svæðisskipulag getur borið að með tvennum hætti samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Annars vegar á grundvelli 1. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er heimild fyrir sveitarfélögin að gera svæðisskipulag í því skyni að samræma stefnu margra sveitarstjórna. Hlutverk svæðisskipulagsins er eins og fram kemur í ákvæðinu sjálfu, að samræma stefnu sveitarstjórna um þróun byggðar og landnotkunar á minnst 12 ára tímabili. Hins vegar getur umhvrh. á grundvelli 6. mgr. 12. gr. ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi. Þetta má gera ef ágreiningur er milli sveitarfélaga eða ef landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis. Það er talsverður munur á þessu tvennu.

Í fyrra tilvikinu kemur frumkvæðið frá sveitarstjórnunum sjálfum og þær beita svæðisskipulagsheimildinni til að samræma mismunandi aðalskipulag í hinum mismunandi sveitarfélögum. Ég ætla aðeins að skjóta því að að oddviti Svínavatnshrepps kom á fund félmn. og lýsti því hvernig Svínavatnshreppur hefur gert sitt aðalskipulag, sem nær inn á Hveravelli, og kynnt það. Hann sagði að þeir hefðu kynnt þessar hugmyndir öðrum sveitarfélögum. Síðan bætti hann því við að nú væru nokkur sveitarfélög saman að undirbúa svæðisskipulag. Ég er að vísa til þessa. Frumkvæðið kemur frá sveitarstjórnum. Þær ákveða að beita svæðisskipulagsheimildinni til að samræma mismunandi aðalskipulag í mismunandi sveitarfélögum.

Í síðara tilvikinu kemur frumkvæðið að utan, þ.e. frá umhvrh. Hann skipar samvinnunefnd, hugsanlega með aðild annarra en sveitarstjórnanna, til að gera tillögu að svæðisskipulagi.

Ég minnist þess þegar við hófum þessa umræðu hvernig hv. þm. Árni Mathiesen --- ég sakna þess að hann skuli ekki vera við þessa umræðu í dag --- fór mikinn í andsvörum og vændi þá sem hér stendur um vankunnáttu í skipulagsmálum. Ég hlustaði á svör hans við spurningum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um það hvernig hann hygðist styrkja svæðisskipulagið. Ég varð aldeilis fyrir vonbrigðum. Hann sagði, ef ég hef tekið rétt eftir, að í fyrsta lagi ætti að gera það skylt að skipa samvinnunefndina. Í öðru lagi vildi hann að samsetning nefndarinnar yrði lýðræðislegri, þ.e. með aðkomu breiðari hóps. Í þriðja lagi átti að styrkja svæðisskipulagið með tilnefningum í nefndina og í fjórða lagi að nýta heimildina í 15. gr. um sérstakt svæðisskipulag.

Fyrstu þrjú atriðin snúa að eðli nefndarinnar sjálfrar. Ég get auðvitað tekið undir það að lágmarkskrafan á að vera aðgangur allrar þjóðarinnar en ekki eingöngu nærliggjandi sveitarfélaga, en þetta er bara ekki nóg. Mér þykir miður, af því að þetta er síðari ræða mín og ég mun ekki eiga þess kost að flytja nýja ræðu fyrr en í 3. umr., að þetta er nefnilega alls ekki nóg.

Ef svæðisskipulag verður gert á grundvelli 6. mgr. 12. gr., þ.e. að umhvrh. skipi nefnd með aðkomu fleiri en aðliggjandi sveitarfélaga til að gera tillögu að skipulagi, t.d. fulltrúum allra þéttbýlisstaða landsins og hagsmunasamtaka eins og Ferðafélagsins, Náttúruverndarráðs o.s.frv., þá horfi ég á stjórnsýslulega stöðu þessa skipulags. Hver er staða svæðisskipulags eða styrkur ef það er gert í andstöðu við sveitarfélögin, eitt eða fleiri? Við þetta hefur ekki verið staldrað.

Í upphafi umræðunnar um frv. sem liggur á borðunum og er ekki til umræðu kom fram að líta mætti á skipulag sem sáttmála milli stjórnvalda og íbúa hvers sveitarfélags. Við erum hins vegar að ræða um miðhálendið, landsvæði þar sem enginn býr en kemur til með að verða hluti af mörgum sveitarfélögum, ef frv. nær fram að ganga, með þeim afleiðingum að skylda sveitarstjórnir til aðal- og deiliskipulags framlengist inn til landsins. Ég hef margoft komið að því í þessari umræðu að svæðisskipulag í andstöðu við aðalskipulag sveitarfélaganna hefur það veika stöðu að það má sín einskis.

Við skulum ekki gleyma því að það er ekki lengra síðan en í fyrra að við samþykktum skipulagslögin hér á þinginu en rauði þráðurinn í þeim lögum er einmitt aukin völd sveitarfélaganna til skipulagsmála. Með lögunum er skipulagsrétturinn alfarið færður yfir til sveitarfélaganna. Sveitarfélögunum er gert skylt að taka að sér meiri ábyrgð og þau öðlast frumkvæðisrétt á sviðum sem þau höfðu ekki áður. Halda menn að þessi réttur verði skertur með svæðisskipulagi? Nei, og það skiptir höfuðmáli í þessari umræðu. Það er ekki nóg að samvinnunefnd verði lýðræðislega skipuð ef ekki er hægt að beita skipulaginu á markvissan hátt, jafnvel þó það skipulag byggi á vilja meiri hluta þjóðarinnar. Þetta er mjög mikilvægt og hefur ekki verið athugað nógu vel. Menn hafa bara hrópað hver á annan, hvaða vægi svæðisskipulagið hafi, hvernig eigi að kjósa í nefndina o.s.frv.

Staðreyndin er sú að svæðisskipulag tekur ekki skipulagsvaldið af sveitarfélögunum né takmarkar það. Ef sveitarfélögin samþykkja ekki tillögu samvinnunefndar, geta nefndarmenn einfaldlega pakkað saman. Þetta er svo einfalt. Allt þetta tal um að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild og það verði lausn til að koma í veg fyrir ósamræmi í skipulaginu er byggt á misskilningi að mínu mati. Það kemur heldur ekki í veg fyrir forræði sveitarfélaganna í sínum tertusneiðarsvæðum. Það má sín einskis ef ágreiningur kemur upp á milli sveitarfélaganna. Þau verða nefnilega öll að samþykkja svæðisskipulagið.

Fjórða leiðin sem hv. þm. Árni Mathiesen nefndi í umræðunni um að beita 15. gr. til að styrkja svæðisskipulagið breytir heldur engu. Í 15. gr. er mælt fyrir um heimild til að beita sérstakri svæðisskipulagsmeðferð vegna fyrirhugaðra mannvirkja, svo sem þjóðvega, orkumannvirkja, fjarskiptalína eða áætlana um slíka mannvirkjagerð. Í ákvæðinu er fjallað um ákvörðun um legu opinberra mannvirkja sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Það breytir engu um veika stöðu svæðisskipulags ef ágreiningur kemur upp. Heimildin í 15. gr. má sín lítils gegn mótmælum sveitarfélagsins. Fyrir utan mun sterkari stöðu aðal- og deiliskipulags og ótvíræðan rétt sveitarstjórnar til að beita því í sínu sveitarfélagi, þá má ekki gleyma því að ekkert verður byggt, grafið eða gert í sveitarfélagi án samþykkis sveitarstjórnar.

Útgáfa byggingarleyfis liggur hjá sveitarstjórninni og í 44. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um hver veiti byggingarleyfi. Þar segir að gefa megi út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis og byggingarfulltrúi hefur áritað aðaluppdrætti. Ég er því ekki eins sannfærð og hv. þm. um að heimildinni í 15. gr. verði beitt gegn neitun viðkomandi sveitarfélags.

Tillaga umhvrh. eins og hann kynnti hana bætir engu við þetta. Það eina sem hún gerir er að veita heimild til skipunar nýrrar nefndar sem hefur aðeins eitt hlutverk, að vera umsagnaraðili. Ég vek athygli á því að hún á ekki einu sinni að koma með skipulagstillögur. Hún á að taka við skipulagstillögu sem núverandi svæðisnefnd hefur unnið, og mun þá komin til Skipulagsstofnunar, og veita um hana umsögn. Í framtíðinni kemur hún til með að geta gert svæðisskipulag en ég hef rakið hér veikleikana í því. Henni mun ekki verða það fært nema til komi annaðhvort samþykki allra sveitarstjórnanna til að vinna það á forsendum þeirra eða þá hún komi svæðisskipulagstillögu í gegnum öll sveitarfélögin á annarri forsendu.

Virðulegi forseti. Mér liggur mikið á hjarta í þessari umræðu. Eitt af því sem ég skoðaði mjög gaumgæfilega þegar við byrjuðum að ræða þetta mál og hefur æ ofan í æ komið í huga mér síðan, er hvernig skipulagi afréttanna var fyrir komið. Í umræðunni um þau mál mætti halda að einhvern tímann hefði ríkisvaldið skoðað hvað ætti að falla undir sveitarfélögin og hvernig fara skyldi með afréttirnar. Það er ekki þannig. Virðulegi forseti. Það er ekki þannig.

Á Alþingi árið 1971 var flutt þingmannatillaga. Hún var rædd í efri deild. Einn þingmaður flutti hana og einn þingmaður fjallaði um hana. Hún fór til neðri deildar, þar var hún afgreidd órædd. Ég er sannfærð um að ef þeir herramenn sem sátu á þingi í annarri hvorri deildinni, sérstaklega þá í efri deild árið 1971, væru spurðir núna hvort þeir teldu að þeir hefðu breytt mörkum sveitarfélaga þarna, þegar ákvæði sveitarstjórnarlaga um hvernig landinu skyldi skipt eftir sveitarfélögum var ekki einu sinni breytt, þá mundu þeir segja: Nei við vorum ekki að fjalla um það.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að upplýsa þingmenn um tilurð þessa. Flutningsmaður var Björn Fr. Björnsson og ég vísa til hans, með leyfi forseta, en hann segir:

,,Frumvarp það sem ég leyfi mér að flytja hér er um breyting á sveitarstjórnarlögum frá 1961. Ég vil leyfa mér að lesa upp efnisgreinina, 1. gr., með leyfi forseta. Hún er á þessa leið:

,,Afréttarsvæði sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags skal teljast til þess sveitarfélags sem þar á eignar- eða afnotarétt. Ef fleiri en eitt sveitarfélag eiga aðild að slíku landi og ekki er samkomulag um hverju þeirra það skuli tilheyra sker sýslunefnd úr. Úrskurði sýslunefndar má skjóta til félmrn. sem fellir fullnaðarúrskurð.````

Síðan segir þingmaðurinn, með leyfi forseta: ,,Ég hef fyrr á þessu þingi borið fram frv. um efni sem er þessu frv. nokkuð skylt.`` --- Takið nú eftir, virðulegu þingmenn. --- ,,Það var á þá lund að sveitarfélög sem eiga aðild að afrétti, annaðhvort afnotarétt eða eignarrétt, hefðu rétt til þess að leggja útsvör og aðstöðugjald á fyrirtæki og þá einstaklinga sem hefðu að staðaldri atvinnu á afréttarsvæðum og ættu þar sínar bækistöðvar. Það kom í ljós þegar frv. til laga kom fram hér á þingi um tekjustofna sveitarfélaga að það reyndist ekki nein leið til þess að koma ákvæði af því tagi sem í efni þessa frv. míns er inn í ramma frv. og af þeirri sök einni hef ég leyft mér að bera fram frv. það sem hér liggur fyrir til umræðu.``

Virðulegi forseti. Þetta er ekki mjög löng framsaga hjá þingmanninum og svo enginn fari að væna mig um að hafa lesið valda kafla út úr framsögu þingmannsins, með frv. sem átti eftir að hafa svo mikil áhrif að við tölum í dag eins og það megi engu breyta um lögsögumörk afréttanna, þá ætla ég að lesa framsöguna eins og hún kemur fyrir:

[19:15]

,,Eins og kunnugt er eru ekki bein ákvæði í íslenskum lögum um staðarmörk sveitarfélaganna þegar til afrétta kemur og dregur að hálendinu. Í stjórnarskránni er gert ráð fyrir rétti sveitarfélaga til þess að fara með sín mál undir umsjón ríkisstjórnar og þessum réttarefnum sveitarfélaganna skuli skipað með lögum. Til samræmis við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar hefur svo verið samþykkt löggjöf um að sveitarfélög skuli hafa rétt í ýmsar áttir og að ríkið skiptist í sveitarfélög. Með hliðsjón af þessum lagagreinum er ljóst að fá eða jafnvel engin svæði landsins væru slík að eigi féllu þau undir stjórn einhvers sveitarfélags.

Nú mun svo vera ástatt um sum afréttarlönd að þau eru í raun og veru ekki talin heyra undir sveitarstjórnarvald. Um önnur er annars að segja að þau heyra beinlínis til sveitarfélagi en það sýnist liggja í augum uppi að þess konar landsvæði sem þannig hefur ekki verið ráðstafað undir sveitarstjórnarvald, þau landsvæði þurfi og eigi að heyra til einhverju sveitarfélagi.

Eins og kunnugt er eru afréttir okkar Íslendinga bæði margir og stórir, stór hluti lands. Og þeir hafa flestir ef ekki allir að meira eða minna leyti verið nýttir og svo hefur verið um aldir. Á því er ekki minnsti vafi að nýting afréttarlanda víðs vegar um landið mun verða mun stórkostlegri heldur en nokkru sinni fyrr á næstu árum og áratugum.`` --- Takið eftir þessu, virðulegu þingmenn.

,,Og það er ekki aðeins að landið verði grætt upp. Þar sem ógróið er mun hefjast mikil ræktun og hún verður að sjálfsögðu á vegum sveitarfélaga og íbúa sveitarfélaga og þá yfirleitt bænda.

Þá má líka geta þess að stórfelldar framkvæmdir eiga sér stað og hafa átt sér stað um skeið á afréttarlöndum uppi. Þar á ég við stórvirkjanir og undirbúning að stórvirkjunum. Þar hafa verktakar og fyrirtæki þeirra haft bækistöðvar um langa hríð og þar hefur starfað fjöldi manna langtímum saman á hverju ári þó óvíða sé komið til þess að slíkir starfsmenn hafi þar bækistöð og heimilisfestu árið yfir. En það er enginn vafi á því að bækistöðvar af ýmsu tagi og starfsmenn einnig munu koma til með að eiga þarna athvarf og eiga þarna heimilisfestu, einstaklingarnir og fyrirtækin líka, og munu ekki langir tímar líða þar til að því kemur. Því er það eðlilegt að slík svæði og það fólk og fyrirtæki sem sest að á þeim hlíti valdi einhvers sveitarfélags og hafi þar samsvarandi að vísu bæði skyldur og réttindi. En svo er ástatt nokkuð víða um þessi afréttarsvæði að ekkert sveitarfélag hefur þar sveitarstjórnarvald og einstaklingar og fyrirtæki sem síðar kunna að búa á þessum svæðum þurfa ekki að leita til sveitarfélags, sem er nærri afrétti eða á eða hefur afnotarétt af afréttarsvæðinu. Og það segir sig sjálft að slíkt getur vart átt sér stað að þeir einstaklingar sem þannig er ástatt um og fyrirtæki geti átt heimilisfestu hvar sem er á landinu.`` --- Takið eftir þessu.

,,Því tel ég að sú skipan afréttarlands í þessu efni að því er varðar sveitarstjórn sé nærtækust og eðlilegust að það svæði heyri til því sveitarfélagi sem þar hefur haft um langan tíma og jafnvel aldir afnotarétt eða jafnvel eignarrétt og enn fremur hefur því sveitarfélagi sem þannig er ástatt um verið skylt að rækja ýmiss konar störf og athafnir á þessu sama svæði.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að íbúar sveitarfélags sem hefur haft afrétt, íbúar slíks sveitarfélags líta á þetta landsvæði sem heimaland og jafnvel svo að þeir telja margir hverjir að það land sé innan túngarðs hjá þeim. Og dæmi eru þess fyrr og síðar að afréttarsvæði hafi jafnvel verið talin tilheyra jörðunum innan sveitarfélagsins. Mér er ekki kunnugt um það að slík afréttarsvæði hafi verið bundin í fasteignamati við ákveðnar jarðir. Þó má það vel vera ef það mál væri frekar athugað. Og þau bönd sem binda íbúa sveitarfélagsins við afréttinn eru æðisterk og jafnvel þó að ekki sé um íbúa sveitarfélagsins að ræða heldur þá landsmenn, sem upp á afrétt fara, þeir verða óðar en líður mjög tengdir þessu svæði og jafnvel tengdari því heldur en sínum heimahögum.

Ég hef ekki talið ástæðu að leggja út í það að ræða sérstaklega um sjálft eignarhaldið á þessum afréttarlöndum. Ég tel að það sé mál alveg sérstaks efnis sem væntanlega verður útkljáð fyrir dómstólum. Ekki heldur vil ég ræða frekar um það að ríkisvaldið sjálft fari með sveitarstjórn á þessum svæðum en mér sýnist það vera nærtækast að ætla að svo sé um sum afréttarlöndin eins og háttar nú.

Ég tel það vel viðeigandi`` og, virðulegur forseti, ég er enn að vísa til framsögu Björns Fr. Björnssonar frá 1971. ,,Ég tel það vel viðeigandi á 100 ára afmæli sveitarstjórnarlöggjafar á landi okkar sem er nú um þessar mundir og verður haldið hátíðlegt með einum og öðrum hætti að þess væri minnst m.a. með því að koma eðlilegu sveitarstjórnarskipulagi á þessi landsvæði sem ég hef hér fjallað um og í frv. getur --- þessi landsvæði sem bæði nú og sjálfsagt enn frekar þó í framtíðinni eru sá hluti íslenskrar landhelgi upp til landsins sem síst má vanrækja og fer þá saman hvort tveggja að hér er um höfuðauðlindir okkar að ræða: Það er landhelgin okkar upp til hálendisins og landhelgin okkar út til hafsins.`` --- Innskot núverandi framsögumanns: Ekki hefði hann órað fyrir því sem búið er að gerast í landhelginni okkar út til hafsins. En áfram með framsöguræðu Björns Fr. Björnssonar.

,,Og þessar auðlindir okkar verða að sjálfsögðu því verðmætari sem stundir líða fram. Á þeim mun byggjast að verulegu leyti framtíðarvelferð þjóðarinnar og til þeirra mun hún sækja það afl fyrst og fremst sem knýja má okkur fram til hvers kyns framfara og þeirra lífshátta sem við best teljum okkur geta náð. Um bæði þessi mikilvægustu nytjasvæði okkar gildir það sama, það verður að vinna að hagkvæmu skipulagi, nauðsynlegri vernd og hyggilegri rækt.

Ég vildi með þessum orðum benda á það að þessi svæði sem hér ræðir um að koma sveitarstjórnarskipulagi á eru æðimikilsverð og mega engan veginn vera út undan í því efni sem hér ræðir. Það er þannig að mínu áliti og enda margra annarra fyllilega tímabært að þegar sé þessu sérstaka landsvæði skipaður sess að sveitarstjórnarlögum. Hér hefur orðið nokkur misbrestur á þegar sveitarstjórnarlög voru síðast samþykkt eða frá þeim gengið að ekki skyldi verða tekinn fyrir þessi þáttur þeirra. En hér er sem sagt gerð tilraun til þess að koma hæfilegu og eðlilegu lagi á.

Eins og getur um í 1. gr. frv. eða fyrri grein þá er gert ráð fyrir því að fleiri en eitt sveitarfélag hafi haft afnot eða eignarrétt á afréttarlandi. Það má gera ráð fyrir því að samkomulag geti náðst um hverju sveitarfélaginu afrétturinn skuli að þessu leyti tilheyra og ég vil ætla að það gæti orðið höfuðreglan og best fyrir alla aðila. Og ég vil geta þess í því sambandi að þetta mætti kannski leiða til þess að sá ágreiningur sem yrði um ákvörðun í þessu efni, hverju sveitarfélagi afrétturinn ætti að tilheyra, sá ágreiningur gæti leitt til þess að sveitarfélög sameinuðust enn frekar en ella. Það þætti mér ekki ótrúlegt. En hvað sem því líður þá hefur verið reynt að setja varnagla í þessu efni og hann er sá að ágreiningsmáli af þessu tagi verði vísað til viðkomandi sýslunefndar sem fellir að sjálfsögðu úrskurð um. Það gæti oft orðið erfiður úrskurður en ég sé ekki annað ráð betra eða hef ekki séð og síðan megi skjóta þeim úrskurði sýslunefndar ef verkast vill til félmrn. sem mundi þá fella fullnaðarúrskurð um málið.

Ég hef þá leyft mér að rekja í örstuttu máli þau rök sem ég tel vera til þess að þetta frv. er hér lagt fram og ég vil vænta þess að því verði vel tekið og ég hef haft nokkuð samráð við stjórnarmenn í Sambandi ísl. sveitarfélaga og lagt þetta undir þeirra dóm og þeir sem ég hef við talað hafa fallist á að þetta væri nokkuð heppileg leið til að ráða fram úr þessu vandamáli, að bæta þann brest sem hér er orðinn á sveitarstjórnarlögunum.

Nú má vel vera að ýmislegt komi inn í þetta mál sem er ófyrirséð. Ég segi fyrir mig, ég er ekki svo kunnugur um land að ég viti hvernig háttar til þar um afréttarlönd, legu þeirra og alla aðstöðu og notkun en þar sem ég til þekki hygg ég að slík löggjöf sem þessi, ef til hennar kæmi, mundi vel henta.

Ég held að ég ljúki máli mínu en óska eftir því að þessu máli mætti verða svo hraðað ef lítill ágreiningur eða enginn verður um það, að það geti fengið lagastaðfestingu á þessu þingi. Það væri að ýmsu leyti mjög ákjósanlegt en að sjálfsögðu fer það eftir atvikum.

Þá vil ég, herra forseti, leyfa mér að leggja til að eftir þessa 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.``

Þannig vildi það til að inn í sveitarstjórnarlögin kom að þar sem menn ættu upprekstrarrétt skyldi skipað innan marka sveitarfélaga. Þarna er athyglisvert að sjá að þar sem blasir við er kannski verður meira um virkjanir og annað það sem einstaklingar og fyrirtæki hafa umleikis, þá verður að tryggja að sveitarfélögin fái þar afrakstur og jafnvel skattlagningu.

Virðulegi forseti. Það sem er merkilegast þegar maður skoðar þetta mál í ljósi þróunar fram til þessa er hversu litla umfjöllun það fékk. Það var einn hv. þm. sem ræddi við flutningsmann. Það var hv. þm. Jón Ármann Héðinsson sem færði fyrir því rök að ekki ætti að skipta því svæði sem teldist til þjóðareignar upp á milli sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Þar sem ég er nú komin að því að flytja þingheimi svör þess þingmanns og fjalla nánar um skipulagsþáttinn sé ég að mér vinnst ekki tími til að ljúka máli mínu fyrir umsamin fundarslit í dag, en upplýst var á fundi forseta í dag að fundi skuli ljúka kl. hálfátta, þá spyr ég forseta hvort hann kjósi ekki að ég geri hér hlé á ræðu minni.

(Forseti (RA): Forseta heyrist að það sé vel við hæfi að hv. þm. geri nú hlé á ræðu sinni því að fundinum verður frestað innan fárra mínútna.)

Virðulegi forseti. Ég tel það mjög mikilvægt að þar sem ég hef upplýst um framsöguna fyrir þessu máli, sem var þingmannafrumvarp en ekki ráðstöfun ríkisvaldsins til þess að fara með og breyta mörkum á svæðinu og ekki síst í ljósi þess að það hefur reyndar engin leið verið fyrir fulltrúa í félmn. að fá neitt sem heitir uppdráttur í sínar hendur um það hvar þessi hugsanlegu afréttarmörk liggi til að sannreyna sannleiksgildi þess að það sé bara mjó ræma í kringum hvern jökul sem ekki sé þegar skipað innan marka sveitarfélaga, þá tel ég það mjög mikilvægt að ég upplýsi hvernig þessum ágæta þingmanni var svarað árið 1971 auk þess sem ég á örlítið meira eftir ósagt í þessu máli. Ég hef orðið þess áskynja að einhverjir hafa beðið um að fá tækifæri til að veita ræðumanni andsvar og því tel ég mjög æskilegt að gera hlé á ræðu minni hér og gera það kleift að eiga viðræður við hv. þingmenn þegar við hefjum aftur framhald á þessari umræðu. Leyfist mér að gera hlé á ræðu minni, virðulegi forseti?

(Forseti (RA): Já, eins og ég hef þegar sagt.)