Húsnæðismál

Fimmtudaginn 14. maí 1998, kl. 20:32:17 (6594)

1998-05-14 20:32:17# 122. lþ. 127.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 122. lþ.

[20:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (frh.):

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir það mál sem er á dagskrá en enn á ég töluvert ósagt. Fyrir matarhlé fór ég nokkuð ítarlega yfir ræðu sem var flutt á þingi fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga fór yfir þau gagnrýnisatriði sem fram hafa komið á frv., m.a. varðandi það að þetta mundi auka verulega útgjöld sveitarfélaganna til húsaleigubóta. Ég vil rifja upp að þegar fulltrúi Sambands sveitarfélaga gerði sveitarstjórnarmönnum grein fyrir skoðun sinni á því hvort húsaleigubætur mundu aukast eða ekki við þetta nýja kerfi þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Eðlilegt verður að teljast að Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið taki upp samningaviðræður um breytt fjárhagsleg samskipti aðila um útgjöld hins opinbera vegna húsnæðisstuðnings ...`` Þetta var í marsmánuði á þessu ári. Ég hélt því fram í ræðustóli að mig minnti að hæstv. félmrh. hefði sagt við umræðu um húsaleigubætur fyrir áramót að hér væri um endanlegt samkomulag að ræða og frekari útgjöld vegna húsaleigubóta færu alfarið á sveitarfélögin. Það væri það samkomulag sem gert hefði verið.

Nú hef ég m.a. notað matartímann til að skoða hvort þetta standist sem ég var að segja því að þetta skiptir verulegu máli í umræðunni og þeirri fullyrðingu sem haldið hefur verið að sveitarstjórnarmönnum að ef frekari útgjöld verði vegna húsaleigubóta verði það tekið upp í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þá er niðurstaða mín sú eftir þessa athugun í matarhléinu, ég vitna hér í ræðu félmrh. Páls Péturssonar sem flutt var væntanlega í desembermánuði á síðasta ári, þ.e. þremur mánuðum áður en þessi yfirlýsing kemur frá fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar segir hæstv. ráðherra um frv. um húsaleigubætur: ,,Frumvarpið byggist á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga og er unnið í mjög nánu samráði við sveitarfélögin í landinu. Þar af leiðandi er örðugt að fara að breyta einhverjum grundvallaratriðum í því. Þá teldi ég að við værum að ganga á það samkomulag sem við gerðum.``

Þetta eru orð hæstv. ráðherra eftir að hann er búinn að lýsa þessum fjárhagslegu samskiptum og hvernig þau voru til lykta leidd milli ríkis og sveitarfélaga varðandi húsaleigubætur. Af þessu má skilja að þetta samkomulag verði ekki tekið upp, jafnvel þótt húsaleigubætur aukist í kjölfar þessa kerfis. Ég athugaði það samkomulag sem ég hef vitnað til og sá þá að í ræðu minni á þeim tíma hafði ég vitnað í þetta samkomulag, og vitnað orðrétt til þess sem kemur fram í ræðu minni á þessum tíma, 1997, og vil ég vitna til þess, með leyfi forseta:

,,En þegar maður skoðar þau gögn sem fylgja með frv. og borist hafa nefndinni [þ.e. félmn.], og eins þá skýrslu sem gerð var fyrr á þessu ári um framkvæmd húsaleigubótakerfisins, þá eru mjög skiptar skoðanir um það hver útgjöld sveitarfélaganna verða þegar húsaleigubótakerfið er að fullu komið til framkvæmda, þ.e. þegar skylt verður að öll sveitarfélög greiði húsaleigubætur og eins hvað húsaleigubæturnar munu kosta þegar sú kerfisbreyting gengur yfir sem sveitarfélögin munu hugsanlega öll taka upp, þ.e. að færa leiguna upp í raunkostnað. Nefndar hafa verið tölur á bilinu frá 390--650 millj. kr. Þjóðhagsstofnun hefur m.a. nefnt hærri töluna og kemur fram í skýrslunni frá því fyrr á þessu ári að Þjóðhagsstofnun áætlar á grundvelli skattframtala 1995 að ef allir leigjendur undir tekjumörkum ættu rétt á húsaleigubótum yrði heildarkostnaðurinn um 513 millj. kr. á ári. Þess vegna undrar mig nokkuð, herra forseti, að sveitarfélögin hafi samið við ríkið um einungis 280 millj. kr. þegar þau eru að yfirtaka þetta verkefni. Vil ég minna á það sem fram kemur í þessari skýrslu sem ég veit að vísu ekki hvort sveitarfélögin skrifa undir. Þar stendur, með leyfi herra forseta:`` --- og nú vitna ég beint í þessa skýrslu sem væntanlega er þá frá fjmrn. og félmrn. en þar kemur fram orðrétt: --- ,,Þá er ítrekað að allar tillögur um breytingar á húsaleigubótakerfinu frá og með áramótum 1998 sem fela munu í sér aukin útgjöld til húsaleigubóta, eru sjálfkrafa tillögur um aukin útgjöld sveitarfélaga.``

Ég fæ ekki skilið annað af þessari tilvitnun og orðum ráðherra sem ég vitnaði til áðan en að hér hafi verið um endanlegt samkomulag að ræða þegar samið var um alls 305 millj. í þessum fjárhagslegu samskiptum, þar af 280 millj. vegna húsaleigubótanna því að ráðherra segir, með leyfi forseta: ,,Þar af leiðandi er örðugt að fara að breyta einhverjum grundvallaratriðum í því [þ.e. samkomulaginu]. Þá teldi ég að við værum að ganga á það samkomulag sem við gerðum.`` Nú finnst mér að hæstv. ráðherra þurfi að skýra út fyrir sveitarstjórnarmönnum, ég er ekkert að ætlast til þess að hann skýri það endilega út fyrir mér, en fyrir sveitarstjórnarmönnunum sem fengu þær upplýsingar þegar þetta var útskýrt fyrir fulltrúaráðsmönnum að eðlilegt væri að Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið taki upp samningaviðræður um breytt fjárhagsleg samskipti aðila ef útgjöld hins opinbera vegna húsnæðisstuðnings færast til milli ríkis og sveitarfélaga af því þessi orð eru sögð eftir að búið er að ganga frá þessu samkomulagi. Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram.

Annað vildi ég líka nefna áður en ég held áfram ræðu minni þar sem frá var horfið. Ég hef orðið vör við það, og nú síðast á tölvupósti sem ég opnaði í matarhléinu, að margir í félagslegum íbúðum hafa áhyggjur af einu ákveðnu atriði og ég vil koma inn á það strax og halda því til haga til þess að það gleymist ekki í þessari umræðu. Þeir sem eru í félagslegum íbúðum í dag hafa áhyggjur af því, þ.e. þeir sem búa á þeim stöðum þar sem markaðsverð er lægra en þau lán sem hafa verið tekin, að sveitarfélögin geti hafnað að leysa þessar íbúðir til sín þannig að þeir sitji sjálfir uppi með það ef þeir þurfa að selja að lánin eru kannski margfalt hærri en söluverð þeirrar eignar þegar þeir selja hana á markaði.

Nú ætla ég ekki að fullyrða um þetta og hvort þetta hafi þá tekið einhverjum breytingum í meðförum nefndarinnar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég á eftir að skoða nánar. Ég vil t.d. vitna í þann tölvupóst sem ég fékk áðan og hann er á þessa leið, herra forseti:

,,Á mér brenna hins vegar nokkrar spurningar sem snerta mig og mína fjölskyldu. Við búum í félagslegu húsnæði í verkamannabústöðum. Það sem á mér brennur er eftirfarandi: Með nýjum húsnæðislögum eru áformaðar miklar breytingar og kemur þá eftirfarandi upp. Húsnæði það sem við búum í kostaði samkvæmt kaupsamningi u.þ.b. 11 millj. Við kaupin lögðum við 1 millj. kr. sem við áttum og tókum rúmlega hálfa milljón í bankalán. Ég er að velta fyrir mér hvað gerist ef nýju lögin taka gildi. Mér þykir sýnt að húsnæði það sem við búum í myndi aldrei verða selt á um 11 millj. á frjálsum markaði. Í dag eru eftirstöðvar áhvílandi láns, þ.e. 90% lánsins, 10 millj. kr. Við höfum greitt af láninu í ca 2 ár og hefur það hækkað í þessa upphæð. Afborgunarbyrði af láninu eru rúmlega 32 þús. kr. á mánuði. Ef lán af þessari stærðargráðu væri almennt húsnæðislán værum við að greiða u.þ.b. 80 þús. kr. á mánuði.`` --- Þarna sést munurinn á greiðslubyrði í félagslega kerfinu og í húsbréfakerfinu. Síðan er sagt: --- ,,Er það þetta sem við eigum e.t.v. von á?``

Það er þetta sem mér finnst að ráðherrann verði endilega að svara við umræðuna, þ.e. ef fólkið vill losna úr íbúðum sínum og sveitarfélögin hafna forkaupsrétti er það þá svo að íbúarnir sjálfir, af því að nú geta sveitarfélögin meira að segja flýtt því að hafna forkaupsrétti umfram það sem er í núgildandi lögum, standa uppi með þann mismun sem er á markaðsvöxtum og áhvílandi lánum? Þetta tvennt vildi ég að kæmi fram í upphafi máls míns.

Þegar matarhlé var gert var ég að fara yfir þriðja þáttinn í því sem ráðherrann teflir fram sem rökum fyrir því að loka kerfinu, þ.e. mikil vanskil í félagslega kerfinu og hjá Byggingarsjóði verkamanna, og tel ég mig hafa sýnt fram á að það eru engar forsendur þess að loka félagslega kerfinu þótt vanskil þar séu í heild 0,7 eða 0,8% eða hvað það nú var á árinu 1997 en það er alveg ljóst að vanskilin hafa minnkað verulega og reyndar svo að þau hafa ekki farið raunverulega yfir 1%. Vanskilin voru mest 1,2% árið 1995 og 1,2% árið 1996 hjá öllum sjóðunum og í Byggingarsjóði verkamanna hafa þau hæst farið í 1,4% á árinu 1995 og 1996. Hafa flest þessi ár frá 1991 legið í og um 1% en núna á árinu 1998 stefnir í að þau séu 0,9%. Ég tel mig því hafa hrakið það, herra forseti, að um svo mikil útlánatöp sé að ræða, eða vanskil réttara sagt, af útlánum að það réttlæti það að loka kerfinu. Útlánatöpin hef ég líka borið saman við útlánatöp í bönkum og er það smáræði sem er varla til að tala um þegar miðað er við heildarumfangið hjá öllum sjóðunum sem eru 212 milljarðar kr. að við skulum vera að tala um 65 millj. kr. á árunum 1990 til 1994.

[20:45]

Ég vil minna á að í nýlegum upplýsingum um útlánatöp í Landsbanka og Búnaðarbanka sem voru að mig minnir 14 milljarðar á sl. fimm árum kom fram að það væru um 2%, herra forseti, af heildarveltunni í bönkunum og þótti ekki mikið. Það væri bara eðlilegt að útlánatöpin væru um 1% og gert væri ráð fyrir því. Það er því mjög erfitt að bera það á borð, herra forseti, að þetta sé ástæðan fyrir því að nú þurfi að kúvenda og loka félagslega íbúðakerfinu.

Ég vil þá næst snúa mér að því, herra forseti, að fara yfir umsagnir sem fram hafa komið um þetta mál sem eru margar mjög ítarlegar og gagnrýnar, ekki síst frá félagasamtökum, ASÍ, BSRB og húsnæðisnefndum víðs vegar um landið.

Áður en ég geri það, herra forseti, tel ég þó tilhlýðilegt að vitna til þess að á árinu 1995 var flutt erindi um félagslega húsnæðiskerfið og erfiðleika þess sem Jón Rúnar Sveinsson hélt. Það var undir lok árs 1995. Þar kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Grundvallaratriði hugsunarinnar á bak við félagslega kerfið er það að fólk með tiltölulega lágar tekjur eigi kost á mannsæmandi húsnæði með þeirri fjárhagslegu þátttöku ríkis og sveitarfélaga sem menn telja til þess þurfa hverju sinni. Við skulum því gera okkur grein fyrir því og hafa það alveg skýrt að opinber niðurgreiðsla á húsnæðiskostnaði innan félagslega kerfisins er mjög mikil. Byggingarsjóður verkamanna er fjármagnaður með lánum sem eru tekin til 15--20 ára en lánar fjármagnið út til ýmist 43 eða jafnvel til 50 ára. Vextir af lánunum sem sjóðurinn tekur eru 6% til 7% en útlánavextirnir liggja einhvers staðar á milli 2% og 3%. Þeir lægstu aðeins 1% en þeir hæstu reyndar 4,9%.

Þá er vert að hafa í huga að íbúar í félagslegum eignaríbúðum njóta vaxtabóta sem gera það að verkum að hinn raunverulegi vaxtakostnaður er töluvert lægri en það sem ég sagði hér áðan. Þegar upp er staðið er það ekki ofsagt að þegar sá sem býr í félagslegri íbúð greiðir eina krónu af láninu af íbúðinni þá leggur hið opinbera tvær á móti þegar bæði er tekið tillit til niðurgreiðslu vegna vaxtamunar, lengingu á lánstíma og vaxtabóta. Í þessu sambandi skulum við þó ekki gleyma því að þeir sem búa í íbúðum á almennum markaði njóta einnig töluverðra niðurgreiðslna. Þannig lækkar vaxtabótakerfið meðalvexti á almenna markaðnum úr rúmum 5% niður í á að giska 3% að meðaltali eftir því hversu háar tekjur menn hafa.``

Raunveruleg nettóvaxtabyrði í húsbréfakerfinu samkvæmt þessu er þá um 3% að teknu tilliti til vaxtabótanna og það er það sem á að fara að láta láglaunafólkið greiða að teknu tilliti til vaxtabóta. Þá verður vaxtakostnaðurinn hjá því um 3% á meðan það er 2,4% í félagslega kerfinu.

,,Þá er stór hluti íbúða á almennum markaði með lán til 40 ára, þ.e. lánin sem veitt voru á árunum 1986 til 1991 samkvæmt svonefndu 86-kerfi sem auðvitað felur í sér verulega miklar niðurgreiðslur á húsnæðiskostnaði. Vitanlega fela niðurgreiðslur ríkisins á húsnæðiskostnaði einnig það í sér að greiðslan á þessum kostnaði færist til, þ.e. í stað þess að borga beint af láninu þá erum við einfaldlega að borga hluta af húsnæðiskostnaðinum okkar þegar við borgum skattana, þ.e. lækkun húsnæðiskostnaðar birtist í hærri sköttum.

Í ljósi þessara staðreynda að hið félagslega húsnæðiskerfi er í mjög ríkum mæli styrkt fjárhagslega af opinberum aðilum virðist það vera mikil þversögn að þeir sem búa í félagslegum íbúðum upplifa sína stöðu ærið oft þannig að þeir borgi mjög háan húsnæðiskostnað og mér hefur heyrst á sumum að þeim finnist jafnvel að verið sé að féfletta þá, ekki síst í gegnum þær reglur sem gilda um fyrningu og eignamyndun í félagslega eignaríbúðakerfinu. Þarna nefndi ég hluti sem vert er að gaumgæfa svolítið nánar, þ.e. fyrningarnar og eignamyndunina. En áður en ég geri það ætla ég aðeins að velta fyrir mér húsnæðiskostnaðinum sem ég kom inn á dálítið áðan. Það er ekki alltaf sem fólk leiðir nógu mikið hugann að því hversu margir hlutir felast í húsnæðiskostnaði aðrir en beinlínis kostnaðurinn við að greiða niður lán og borga vextina af lánunum.``

Síðan er farið að lýsa því hvernig það er og réttilega komið inn á að allir íbúðareigendur þurfa að greiða fasteignagjöld og fleiri þætti sem fylgja því að eiga húsnæði.

Síðan fer hann í smávegis prósentureikning sem hann segir að geti verið svolítið hrollvekjandi hugsun fyrir suma en það sé eigi að síður nauðsynlegt. Hann miðar við 8 millj. kr. íbúð og hvert prósent sem bætist við kostnaðinn á ári er því 80 þús. sem er um 6.700 á mánuði fyrir hvert prósent.

,,Þeir sem það þekkja telja að eðlilegur viðhaldskostnaður á íbúðarhúsnæði sé a.m.k. 1% á ári. Þessa tölu má hugsanlega lækka eitthvað með mjög góðu fyrirbyggjandi viðhaldi, en ef við höldum okkur við 1% þá er ég þar kominn með kostnað upp á næstum 7 þús. kr. á mánuði. Það kostar sömuleiðis talsverða peninga að standa undir lögbundnum brunatryggingum húsnæðis þó flestir íbúðareigendur kjósi sömuleiðis að kaupa sér húseigendatryggingu. Þarna bætast við einhverjir þúsundkrónaseðlar á mánuði í aukinn húsnæðiskostnað.

Þá verður einnig að reikna með rýrnun eða fyrningu húsnæðis til húsnæðiskostnaðar. Þetta er gert samkvæmt föstum stuðli í félagslega eignaríbúðakerfinu sem nemur 1% á ári. Þetta 1% er þá aftur tæpar 7 þús. kr. á mánuði í húsnæðiskostnað.``

Það er alveg ástæða til að nefna það af því við erum að tala um fyrningu húsnæðis og sumum finnst það mikið, þetta 1% sem er í félagslega kerfinu og menn tala þar gjarnan um hæga eignamyndun, að auðvitað er það svo að eignamyndun og fyrning er líka á hinum almenna markaði og ég hygg að ýmsir geti séð það á sínu eigin húsnæði að fyrningin er þar veruleg og íbúðirnar hafa nú ekki hækkað mikið í verði, frekar staðið í stað í langan tíma. (RG: Fasteignasalarnir hlakka til.) Já, það er alveg rétt að fasteignasalarnir kætast þessa dagana. Við sáum það í sjónvarpi í gær og þeir upplýstu okkur meira að segja um það að þeir væru mjög fegnir að fá inn þennan nýja kaupendahóp og upplýstu einnig að þetta mundi væntanlega líka leiða til hækkunar íbúðaverðs, það eru þá helst minni íbúðirnar, 2--3 herbergja íbúðir, sem kemur þá niður á kaupendunum. En þeir fá þá líka hærri sölulaun þegar íbúðirnar hækka þannig að þetta fylgdi allt þessari sögu.

Jón Rúnar Sveinsson segist ekki ætla að leggja þessar tölur neitt nákvæmlega saman, en honum sýnist ,,að til viðbótar við lánakostnaðinn sem var um 23 þús. kr. á mánuði þá hækki húsnæðiskostnaðurinn léttilega upp í a.m.k. 35 þús. kr. á mánuði þegar farið er að taka tillit til viðhalds, trygginga og fasteignagjalda.

Ef við síðan förum að reikna inn fyrningarkostnaðinn þá nálgumst við 45 þús. kr. á mánuði. Þannig hækkar húsnæðiskostnaðurinn um nálægt helming þrátt fyrir að sá kostnaður sem borinn er gegnum opinbera niðurgreiðslukerfið, eru kannski önnur 45 þús. kr. á mánuði.

Síðan segir Jón Rúnar Sveinsson, með leyfi forseta:

,,Öll meginstefnan í húsnæðismálum á Íslandi sl. 50 ár hefur snúist um eitt atriði, að sem flestir geti eignast húsnæði. Lengi vel var þetta tekið með áhlaupi með mikilli vinnu og að einhverju leyti með lánum sem ekki þurfti að greiða til baka. Á þessum tíma var ekki óalgengt að svona 10 árum eftir að menn helltu sér í slaginn ættu þeir húsnæðið mikið til skuldlaust. Þetta breyttist svo allt gjörsamlega eftir tilkomu langtímalána eins og nú eru orðin ríkjandi, því nú fer málið að snúast um það hversu ör svonefnd eignamyndun er yfir þann tíma sem verið er að greiða þetta langa lán niður.``

Síðan lýsir hann því nokkuð og fer í gegnum það hvernig kjörin eru til félagslegra eignaríbúða sem greiðast niður á 42 árum og ef engir væru vextirnir væri árleg eignamyndun u.þ.b. 2,4%, en þetta gerist ekki þegar vextirnir koma inn í dæmið. Ég mun fara náttúrlega ítarlega yfir það á eftir þegar við skoðum eignamyndunina sem menn hafa verið að tala um að sé mjög hæg í félagslega kerfinu og hæstv. ráðherra hefur haldið fram að muni gjörbreytast með þessu nýja lánakerfi hans. En það hefur heldur betur verið hrakið af ASÍ.

Síðan heldur Jón Rúnar því réttilega fram í lokin um eignamyndunina, en hann segir:

,,Nú er reyndar rétt að hafa í huga að þessi hæga eignamyndun er alls ekki bundin við félagslega húsnæðiskerfið. Íbúðir á hinum almenna markaði rýrna að sjálfsögðu líka með tímanum, bæði að verðgildi og gæðum. Þessi rýrnun á almenna markaðnum getur reyndar stundum dulist sjónum manna tímabundið, t.d. þegar þensla er á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu eða þegar verðbólga er ör. En í rauninni er eignamyndun á almenna markaðnum einnig mjög hæg, sérstaklega þegar um er að ræða löng lán eins og t.d. 40 ára lánin samkvæmt 86-kerfinu og sem yrði raunin í húsbréfakerfinu ef að þau lán verða lengd í 40 ár eins og nú er á döfinni.``

Læt ég tilvitnunum í þetta ágæta erindi lokið, herra forseti.

Herra forseti. Ég mun nú snúa mér að umsögnum ýmissa aðila um þetta mál en vildi áður vekja athygli á því sem er mjög sérstakt við þessa löggjöf, þ.e. heimildir ráðherra til að setja reglur og reglugerðir samkvæmt frv. til laga um húsnæðismál. Þetta hefur verið tekið saman og það er hreint með ólíkindum hvað þetta er mikið valdaframsal frá Alþingi til ráðherrans því samkvæmt þessu frv. er honum heimilað að setja hvorki meira né minna en 28 reglugerðir. Hann setur reglugerðir um verkefni Íbúðalánasjóðs. Hann setur reglugerð um styrki vegna tækninýjunga og annarra umbóta í byggingariðnaði. Hann setur reglugerð um önnur verkefni Íbúðalánasjóðs og um skipulag Íbúðalánasjóðs og skilyrði lánveitinga samkvæmt öðrum lánaflokkum, heimild til að fela sérstökum trúnaðarmönnum mat o.s.frv.

Ég ætla aðeins að stoppa við þetta um skilyrði lánveitinga samkvæmt öðrum lánaflokkum. Það er einmitt mjög óvíst, eins og ég fór inn á í dag, að það sem hefur verið raunverulega skylda áður, þ.e. að veita sérstök lán vegna sérþarfa eins og ég nefndi. Þrír lánaflokkar hafa verið í gildi sem Byggingarsjóður ríkisins hefur veitt lán til, m.a. vegna sérþarfa fatlaðra. Það virðist vera að það sé alveg skilið eftir opið og það verði bara í höndum Íbúðalánasjóðs hvort þessi sérstaka lánafyrirgreiðsla verði veitt sem var samkvæmt þremur sérstökum lánaflokkum í Byggingarsjóði ríkisins.

Ráðherrann setur reglugerð nr. 7, þ.e. hámarksfjárhæð fasteignaveðbréfs sem húsbréfadeild kaupir, um matsverð fasteigna, um hámarksfjárhæð einstakra lánaflokka, um framkvæmd hlutkestis, um frestun afborgana á fasteignaveðbréfum, um greiðslukjör húsbréfa, um ákvörðun vaxtaálags og um greiðslukjör húsbréfa --- það verður alveg í hendi ráðherrans --- og um ákvörðun vaxtaálags, um frekari fyrirmæli og tilhögun húsbréfaviðskipta og um skilyrði viðbótarlánveitinga. Þarna er ráðherranum afhent það vald að setja skilyrði um viðbótarlánveitingar. Síðan um samspil almennra lána og viðbótarlána, hvernig því verði fyrir komið. Og hér er sagt að þessi grein sé nýmæli og rétt að hafa í reglugerð ákvæði um það hvernig framkvæmd verði háttað við afgreiðslu á almennum lánum og viðbótarlánum. Síðan um hámarkslánstíma og viðbótarlán, um efni samþykkta félaga sem sækja um lán til leiguíbúða, skilyrði lánveitinga til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis, um rétt til leiguhúsnæðis, skilyrði þess að sveitarstjórn megi stofna félag til reksturs leiguíbúða, heimild til að ákveða mánaðarlegt leigugjald og um hundraðshluta framlaga og nánari ákvæði sbr. 47. gr., skilyrði afskrifta, um gjaldtöku, um erindisbréf nefndar og um nánari reglur um störf varasjóðs.

Það er því ekkert smávegis sem sett er í hendur ráðherrans að ákveða með reglugerð og hlýtur að vera til umhugsunar fyrir Alþingi að afhenda svo mikið vald til ráðherrans.

[21:00]

Ég ætla þá að fara í umsögn Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem þeir hafa sett fram sameiginlega. Þeir vísa í fyrsta lagi til ályktunar sambandsstjórnar ASÍ frá 20. nóvember og ályktun 38. þings BSRB en þar eru þau aðalatriði og úrræði sem þeir benda á. Í umsögninni segir:

,,Vandinn í húsnæðismálum er vandi þess fólks, sem ekki býr við öryggi í húsnæðismálum; þeirra sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði vegna félagslegra eignaríbúða og ekki eiga kost á leiguíbúðum á viðráðanlegum kjörum.``

Síðan segja þeir:

,,Veitt verði ,,félagsleg lán`` til kaupa á íbúðum á almennum markaði. Lánin verði til allt að 43 ára og allt að 90% af kaupverði. Lánin verði með breytilegum lágum vöxtum, sem taki mið af tekjum. Þau verði flytjanleg milli viðurkenndra íbúða við íbúðaskipti og greiðsluskilmálar að öðru leyti hagkvæmir.``

Af því að hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að hann væri raunverulega að taka upp stefnu ASÍ í húsnæðismálum sýnir þetta bara eitt og sér að ráðherrann fer með rangt mál vegna þess að hér er lagt til að lánið verði með breytilegum vöxtum sem taki mið af tekjum. Þeir voru ekki að biðja um að yfirfæra húsbréfakerfið yfir á láglaunafólk sem þau sjá auðvitað í hendi sér, þó ráðherrann sjái það ekki, að það gengur ekki upp að flytja markaðskerfi eins og húsbréfakerfið yfir á fátækasta fólkið og halda að það geti staðið undir því með þeim kjörum og lánum sem því eru búin.

Síðan segja þeir:

,,Viðfangsefni Byggingarsjóðs verkamanna verði ekki fjármögnun nýbygginga heldur að leysa sértækan vanda efnalítilla einstaklinga.

Vandi þeirra sveitarfélaga sem sitja uppi með innleystar félagslegar eignaríbúðir verði leystur með því að breyta auðum íbúðum og íbúðum sem koma til innlausnar og ekki er hægt að endurúthluta í félagslegar leiguíbúðir.

Komið verði á samtímagreiðslu vaxtabóta en fyrir því eru loforð tveggja ríkisstjórna.

Húsaleigubætur verði hækkaðar verulega og ekki skattlagðar.``

Ég ætla aðeins að koma inn á þetta með samtímagreiðslu vaxtabóta sem er verið að nefna. Ég held að menn verði aðeins að átta sig á hvert þeir eru að fara með þessu. Ég fagna því mjög að taka á upp samtímagreiðslu vaxtabóta og tel það mjög til bóta. En þeir einir munu fá samtímagreiðslu vaxtabóta sem koma inn í þetta nýja kerfi frá og með næstu áramótum. Þetta segir okkur að þeir sem eru inni í húsbréfakerfinu núna og þeir sem fara inn í það fram til áramóta fá ekki samtímagreiðslu vaxtabóta. Sá sem kaupir íbúð núna í nóvember eða desember í húsbréfakerfinu mun ekki njóta samtímagreiðslu vaxtabóta heldur fær hann ekki vaxtabæturnar fyrr en ári seinna eða raunverulega einu og hálfu ári seinna. En sá sem kaupir íbúðina í janúar, tveimur mánuðum seinna, mun fá vaxtabæturnar sem samtímagreiðslu. Hann mun því fá þær strax í marsmánuði meðan hinn sem kaupir í nóvember fær þær ekki fyrr en einu og hálfu ári seinna.

Hvað getur þetta nú þýtt, herra forseti? Þeir sem átta sig á þessu --- af því það er náttúrlega mikið hagræði fyrir fólk að fá vaxtabætur strax sem samtímagreiðslu og það sem eftir lifir lánstímans, en sá sem kaupir í nóvember, október eða september býr við það allan tímann, nema einhver önnur ríkisstjórn breyti því, að fá ekki vaxtabæturnar fyrr en eftir á. Þetta þýðir að ef fólk áttar sig almennt á þessu þá mun það fresta íbúðakaupunum til áramóta.

Hvað þýðir það fyrir húsbréfakerfið ef menn fara að bíða með fasteignaviðskipti sín og ætla öll að setja þau á kannski fyrstu tvo, þrjá mánuðina á næsta ári? Þetta getur þýtt aukin afföll. Þetta getur komið fram í auknum afföllum þegar skapast mikill þrýstingur á húsbréfakerfið. Ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. hefur gert sér grein fyrir að veruleg hætta er fólgin í þessu. Fyrir utan það, herra forseti, að hann er líka --- fyrir utan þetta eitt og sér --- að vísa fólki á húsbréfakerfið vegna þess að það á bæði að fá húsbréf og viðbótarlán, og þar er einhver hópur fólks sem kemur þá nýr inn í húsbréfakerfið og maður veltir fyrir sér hversu stór hann er. Þó að ég hafi ekki trú á að hann verði mjög stór getur verið að það hefði einhver áhrif á markaðinn og það er það sem ég hef haldið fram hér í dag að það vantar alla skoðun, allar athuganir, allar grundvallarforsendur fyrir svona breytingu. Hvaða áhrif hefur þetta á fasteignamarkaðinn, hvaða áhrif hefur þetta á verðbréfamarkaðinn, hvaða áhrif hefur þetta á útgáfu húsbréfa o.s.frv.? Þessar grundvallarforsendur og stærðir sem þurfa að liggja fyrir, herra forseti, áður en farið er í slíkar breytingar liggja ekki fyrir.

Ég vil í þessu sambandi sýna fram á, herra forseti, að með þeim breytingum sem ég gerði á félagslega húsnæðiskerfinu, sem voru t.d. kaupleiguíbúðirnar, var ég ekkert að rasa þar um ráð fram heldur fór ég mjög vandlega ofan í það. Ég lét fyrst undirbúa ítarlega skýrslu til þess að leggja mat á þær breytingar sem ég var að gera, reynsluna af því kerfi sem við bjuggum við og hvað áhrif það þýddi að fara út í þessar breytingar sem ég hafði áhuga á. Síðan var farið út í það og allt í samvinnu við verkalýðshreyfinguna.

Tveimur, þremur árum seinna, t.d. eftir að félagslega íbúðakerfið komst á, fór ég út í það á árinu 1993 að láta vinna skýrslu um mat á reynslunni af lögum um félagslegar íbúðir og hvernig það var unnið. Við sjáum því mismuninn á vinnubrögðunum.

Ég sendi fólk úr ráðuneytinu ásamt fólki úr húsnæðisnefndum af stað til þess að heimsækja húsnæðisnefndir um allt land, til þess að fara ofan í það og leggja mat á þá reynslu. (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann sem á að hlusta á þetta?) Ég geri ekki ráð fyrir því, herra forseti, --- mér fannst þetta gott frammíkall --- að ég breyti nokkru um vinnubrögð ráðherrans að því er varðar húsnæðismálin og hvernig að þeim eigi að standa þó að ég sýni honum fram á að fara eigi öðruvísi að en ráðherrann er að gera núna. Ég var þó ekki að loka félagslega íbúðakerfinu og þó hafði ég alla þessa forvinnu, þessa undirbúningsvinnu áður. Ég var ekki að fara út í svo róttækar breytingar heldur var ég einungis að bæta við viðbótarmöguleikum, viðbótarvalkostum fyrir fólk þegar þetta var gert.

Ég ætla aðeins að lesa þetta, ég held að þetta sé ágætt til upprifjunar til þess að menn sjái það að vinnubrögð hæstv. ráðherra ganga auðvitað ekki í þessu efni. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Tilefni þessarar skýrslu er að varpa ljósi á það hver sé reynslan af því fyrirkomulagi félagslegra íbúða sem tekin var upp með lögum nr. 70/1990, og koma með tillögu til úrbóta ef þurfa þykir. Er hér bæði átt við hvernig lögin hafa reynst svo og framkvæmd þeirra.``

Og hvað var gert? Hér segir:

,,Því lagði nefnd sú sem skipuð var til verksins land undir fót og hélt fundi með 27 húsnæðisnefndum til þess að leggja mat á reynsluna. Niðurstöður af starfi nefndarinnar eru í hnotskurn þær að núgildandi fyrirkomulag félagslegra íbúða hafi orðið til góðs og miðað hafi í rétta átt. Má þar helst nefna að sveitarfélög bera meira ábyrgð á málaflokknum og hafa betri yfirsýn en áður og að mikil fjölgun íbúða hefur leyst vanda margra.`` --- Hefur leyst vanda margra. Fyrirkomulagið hafi orðið til góðs og fjölgun íbúða hafi leyst vanda margra.

,,Á það ekki síst við um landsbyggðina en þar var víða rætt um lyftistöng í húsnæðismálum einstakra sveitarfélaga.``

Ég held að það sé ágætt að það komist hér til skila og sé haldið til haga í þingtíðindum þegar verið er að reyna að jarðsetja félagslega íbúðakerfið og loka því, að á þeim 27 fundum sem voru haldnir með húsnæðisnefndum kom fram að þetta hefði orðið lyftistöng í húsnæðismálum margra sveitarfélaga. Það var reynslan af kaupleigukerfinu og kaupleiguíbúðunum.

Síðan er vitnað til þeirra breytinga sem voru gerðar og þingmenn þekkja væntanlega. Það voru líka haldnir fundir með sveitarstjórnum en nefndin setti sér það markmið að halda fundi með a.m.k. þriðjungi húsnæðisnefnda en þær eru rúmlega 60 talsins. Síðan er bent á hvað hafi komið fram hjá húsnæðisnefndum og þar segir:

,,Segja má að flestir hafi verið ánægðir með efni laganna og þá stefnu sem þar er fylgt. Fram kom að víða hefðu lögin gert landsbyggðinni mikið gagn, sveitarfélögin notið góðs af þeim og byggt mikið. Nefnt var dæmi að nú væri úr sögunni að barnafjölskyldur byggju í hreysum.``

Þetta var nú dómurinn eftir að komið hafði verið á félagslegum íbúðum. Ég leyfi mér að draga í efa, herra forseti, að hæstv. félmrh. hafi nokkuð haft fyrir því að lesa þessar skýrslur, dóminn um félagslega íbúðakerfið fyrir þremur árum, áður en hann fór út í það að reyna að knýja í gegnum þingið að loka því.

Síðan voru settar fram ýmsar tillögur til úrbóta til þess að bæta ýmislegt að því er varðar félagslega kerfið og því var síðan fylgt eftir af hv. þm., þáv. félmrh. Rannveigu Guðmundsdóttur sem kom inn með ýmsar breytingar sem á var bent. Árið 1989 var settur á vinnuhópur um félagslega kerfið, t.d. að því er varðar það að skoða vel félagslega húsnæðislánakerfið, hvernig það hefði reynst, hverju ætti að breyta. Allt var þetta unnið skipulega og í samráði við verkalýðshreyfinguna. Stjórnarflokkarnir þá komu að því verki og ég get nefnt t.d. hverjir komu að því verki að skoða breytingarnar sem voru gerðar á kerfinu 1990. Það var Ingi Valur Jóhannsson úr ráðuneytinu, Percy Stefánsson úr Húsnæðisstofnun, Grétar Þorsteinsson, núv. forseti ASÍ, Arna Antonsdóttir, sem mig minnir að hafi komið frá BSRB, Jón Karlsson, Reynir Ingibergsson frá Búseta, Dan J. Brynjarsson, Karl Steinar Guðnason, Guðni A. Jóhannesson frá Búseta, og Jón Kristjánsson framsóknarþingmaður.

Þar var kafli um leigjendur og stöðu þeirra og þar kom fram að hér á landi hafi húsnæðismál einkum snúist um eignaríbúðir. Í núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins segir að markmið laganna sé m.a. að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika launafólks til þess að eignast húsnæði. Hvað eftir annað hefur húsnæðiskerfið verið endurskoðað og endurbætt í þeim tilgangi að bæta kjör þeirra sem verða að kaupa sér húsnæði. Leigjendum hefur hins vegar lítið verið sinnt þrátt fyrir það að í hópi þeirra séu margir þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu svo og hópar fólks sem verða að leigja sér húsnæði tímabundið eða í lengri tíma. Opinberar aðgerðir í húsnæðismálum hér á landi hafa lengst af beinst aðallega að byggingu eignarhúsnæðis enda er hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði líklega hvergi hærra meðal vestrænna ríkja en á Íslandi. Síðan er vísað í könnun því til stuðnings.

Meginþunginn á þessum tíma var því sá að reyna að jafna húsnæðisaðstöðu og húsnæðiskostnað leigjenda til jafns við það eða færa sig eitthvað í áttina til þess sem íbúðareigendur höfðu vegna þess að leigjendur voru sá hópur sem hafði raunverulega verið settur hjá garði og við það miðuðust raunverulega allar breytingar sem voru gerðar á þessum tíma. Einmitt í skýrslunni frá 1990 eru lögð drög að þeim húsaleigubótum og því húsaleigubótafyrirkomulagi sem við búum við í dag.

Það er því full ástæða til að halda því til haga hvernig unnið var í ráðuneytinu að breytingum á húsnæðiskerfinu áður en framsóknarmenn tóku þar völdin.

[21:15]

Ég var að lesa stefnu launþegasamtakanna þegar ég hóf þetta innskot mitt að sýna fram á hvernig vinnubrögðin voru áður fyrr og hvernig þau eru nú.

Að húsaleigubætur verði hækkaðar verulega en ekki skattlagðar, það er stefna verkalýðshreyfingarinnar. Ég vil bara enn og aftur segja, herra forseti, að ég tel það algjörlega til skammar og ófært að bjóða upp á það og það gengur gegn öllu því sem menn vilja vinna að, sem er jafnrétti, er að vaxtabætur séu skattfrjálsar en húsaleigubætur sem lægst launaða fólkið fær séu skattskyldar. Því skyldi enn og aftur haldið hér til haga. Ég tel að það séu fyrst og fremst sjálfstæðimenn sem koma í veg fyrir að húsaleigubætur séu ekki skattskyldar og því skal þá mótmælt af sjálfstæðismönnum ef þeir svo kjósa. Þeir vilja hafa húsaleigubætur skattskyldar, húsaleigubætur sem fátækasta fólkið fær. En vaxtabætur að þær eru ekki skattskyldar.

Þetta hlýtur að verða það fyrsta sem stjórnarandstaðan breytir þegar hún kemst til valda hér eftir kosningar, þ.e. að breyta því þannig að jafnræði verði milli vaxtabóta og húsaleigubóta og að húsaleigubætur verði ekki skattskyldar. Ég held að það verði núna enn meira áberandi, enn sýnilegra, að húsaleigubætur eru skattskyldar en ekki vaxtabætur þegar svo mörgum verður vísað á leigumarkaðinn þar sem íbúðir eru ekki til.

ASÍ og BSRB segja um núverandi félagslega íbúðakerfið að það hafi tryggt fjölda fólks gott, öruggt og viðunandi íbúðarhúsnæði. Það fær hæstv. félmrh. ekki skilið, þ.e. hvað félagslega kerfið hefur gert fyrir þá verst settu hér í þjóðfélaginu. Hann vill endilega fara í einhverjar breytingar sem hann ... (SvG: Setja alla í fjárhús.) Setja alla í fjárhús, ja hérna. Það skyldi þó ekki vera? (SvG: Já, koma öllum í fjárhús.) (SJóh: Á jötuna.)

En þetta finnst mér hæstv. núv. félmrh. ekki skilja þegar hann leyfir sér að bera það á borð í frv. og hér úr ræðustól að þetta frv. tryggi betur hag láglaunafólksins. Hvílík þversögn er í þessu fólgin. Um leið getur hann ekki svarað eðlilegum og sjálfsögðum spurningum frá okkur hér um það hvernig hann ætlar þá að tryggja hag þeirra verst settu. Eftir því hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson verið að kalla eftir í allan morgun. Sýndu okkur fram á það, ágæti ráðherra, hvernig á að tryggja að lægst launaða fólkið verði ekki á götunni eftir að þessari löggjöf hefur verið þröngvað í gegnum þingið. Ef hæstv. ráðherra sýndi okkur fram á það gæti það greitt götu málsins hér á þinginu. En ég hef líka kallað eftir því og bið um að félmn. skoði það milli 2. og 3. umr. hvort fjárlagaskrifstofan sé tilbúin að breyta áliti sínu sem hún gaf varðandi frv. þar sem hún sagði að veitt yrði fjárframlag til 25 íbúða --- eða 50 samtals á næstu tveim árum --- og hvort þær breytingar sem félmn. hefur gert á frv. varðandi það að gera einhverja könnun á leigumarkaðnum og að framlög verði ákveðin á fjárlögum hverju sinni, hvort þetta ákvæði breyti einhverju um það sem fjárlagaskrifstofan sagði um þessar 50 íbúðir. Við þurfum að fá nýtt álit frá fjárlagaskrifstofunni um það hvort þessar breytingar á frv. breyti einhverju um það að félagslegum íbúðum verði fjölgað.

Ég skora á hv. nefndarmenn í félmn. að beita sér fyrir því milli 2. og 3. umr. að fá það fram að fjmrn. gefi álit sitt á þessu, af því gerðar hafa verið ákveðnar breytingar á frv. sem stjórnarliðar vísa óspart í að þýði einhverja fjölgun á félagslegum íbúðum en við þurfum þá bara að fá það staðfest. Við þurfum að fá það staðfest. Það er ekki hægt að taka orð ráðherrans góð og gild í því efni miðað við forsögu þessa máls.

Síðan segir ASÍ að auk þess sem núverandi kerfi hafi tryggt fjölda fólks gott, öruggt og viðunandi íbúðarhúsnæði þá hafi það skapað lágtekjufjölskyldum möguleika til eignamyndunar í eigin íbúðarhúsnæði sem ekki hefði verið mögulegt hefðu þær verið upp á leiguhúsnæði komnar.

Hér er sagt að kerfið þjóni árlega allt að 800 lágtekjufjölskyldum með endursölu innan kerfisins og með endursölu til þeirra sem eru á biðlistum. Kjarninn í stefnu ASÍ og BSRB er því sá að þeim sem eru innan félagslega eignaríbúðakerfisins verði veitt aðstoð til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegum kjörum og að þörf þeirra sem utan kerfisins standa verði mætt með fjölgun félagslegra leiguíbúða.

Síðan kemur álit verkalýðshreyfingarinnar sem núna á að hunsa í fyrsta skipti í sögu félagslegra íbúða frá 1929. Þeir segja um frv. félmrh. eftirfarandi:

,,Frumvarp félagsmálaráðherra tekur fyrst og fremst á vanda húsnæðiskerfisins sjálfs og nokkurra sveitarfélaga en leysir ekki vanda þeirra sem húsnæðiskerfinu er ætlað að þjóna. Það er ekki í anda stefnu ASÍ og BSRB og ekkert samráð haft við þau um samningu þess. Að óbreyttu leggur frumvarpið í rúst félagslega íbúðarkerfið án þess að komið sé á fót félagslegu lána- eða leiguíbúðakerfi eða annarri félagslegri húsnæðisfyrirgreiðslu til þeirra sem þörf hafa á.``

Síðan fara þeir í skoðun á frv., tína fram allar þversagnirnar sem þar er að finna og segja, með leyfi forseta:

,,Í inngangi að athugasemdum með frumvarpinu á bls. 17 kemur fram að frumvarpshöfundunum hafi verið falið að ,,vinna að útfærslu tillagna um breytingar á félagslega íbúðakerfinu yfir í félagslegt lánakerfi.`` Á bls. 19 í athugasemdum með frumvarpinu kemur enn fremur fram að með frumvarpinu sé stefnt að því að ,,skapa nýtt og einfaldara kerfi sem þjónar betur lágtekjufólki og öldruðum, er ódýrara í rekstri og hentar betur sveitarfélögum.``

Nýtt og einfaldara kerfi sem þjónar betur lágtekjufólki og öldruðum. Okkur hefur hreint ekki verið sýnt fram á það, herra forseti, að þetta kerfi geri það. Og hví þá að vera að halda svona rugli fram í greinargerð með frv.? Hæstv. ráðherra segir alveg án þess að blána eða blikna hér í ræðustól (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) og við fjölmiðla að þetta kerfi tryggi betur hag lágtekjufólksins. (Gripið fram í: Það þarf að kalla á ráðherrann.) (SvG: Hvar er þessi ráðherra eiginlega?) (SJS: Hvar er hann, já?) (SvG: Það þarf bara að ræsa hann út. Er hann farinn norður?)

Í umsögn þessari er athugað hvort frv. nái þeim markmiðum að þjóna betur lágtekjufólki og þar er heldur betur komið upp um þversagnirnar í frv., (Gripið fram í.) þar sem hvað rekur sig á annars horn. Ráðherrann þolir ekki staðreyndirnar í þessu máli og er aftur og aftur að snautast hér úr þingsalnum og ég skil hann vel. (SvG: Hvar er hann?) (SJS: Hann er að stúdera atvinnuástandið á Norðurl. v.)

Síðan er það tekið fyrir hvort rétt sé að verið sé að einfalda kerfið. Og þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Ekki er útskýrt hvað í vaxtabótakerfinu verði einfaldara. Vaxtabætur reiknast skv. skattskilum hverju sinni og það sama á við ef vextir eru hækkaðir í núverandi kerfi vegna hækkunar tekna. Bent er á í greinargerðinni þann ósveigjanleika að einungis megi hækka vexti en ekki lækka. Einfaldast er að taka á þessum vanda með því að heimila lækkun vaxta vegna breytinga á tekjum, rétt eins og hækkun þeirra. Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað krafist, að þessi háttur verði hafður á.

Í sambandi við þá tillögu að færa alla aðstoð vegna húsnæðiskaupa yfir í vaxtabótakerfið, er rétt að benda á, að við það aukast jaðaráhrif hjá lágtekjufólki verulega þar sem vaxtabætur eru tekjutengdar. Varhugavert hlýtur að teljast að auka jaðaráhrif á þennan hóp nema að vandlega athuguðu máli.``

Ég spyr hvort það hafi verið skoðað hvort verið sé að auka jaðaráhrifin hjá lágtekjufólki verulega þar sem vaxtabætur eru tekjutengdar.

Ég ætla nú aðeins, herra forseti, fyrst hæstv. viðskrh. heiðrar okkur með nærveru sinni hér, að hvíla mig á því að fara yfir umsögn ASÍ og BSRB og rifja upp ýmislegt frá deginum í dag sem mér finnst að hæstv. viðskrh. hefði mjög gott af að hlusta á (SvG: Já, það er rétt.) vegna þess að hæstv. viðskrh. var hér í broddi fylkingar fyrir Framsfl. og fór mikinn undir flagginu ,,Skuldbreyting aldarinnar. Greiðsluaðlögun fyrir alla.`` Það var á síðasta kjörtímabili. Hann sagði að þetta mál mætti ekki bíða og krafðist þess að málið færi þegar í gegnum þingið fyrir kosningar. (SJS: Gleymdu ekki kosningaloforðunum.) Þetta var auðvitað aðalkosningaloforðið, aðalflaggið, þ.e. greiðsluaðlögun fyrir alla, greiðsluaðlögun og skuldbreyting fyrir alla. Menn komu aftur og aftur í ræðustól og heimtuðu að þáv. ríkisstjórn kæmi málinu í gegn. Þetta var nú notað.

Fyrsta verk okkar í stjórnarandstöðunni eftir að þing kom saman og þessi ágæti þingmaður var orðinn viðskrh. og kominn í ríkisstjórn með Sjálfstfl., var að láta á þetta reyna þegar við sáum að ekkert bólaði á frv. um greiðsluaðlögun. Ég man ekki betur en að frv. um greiðsluaðlögun hafi verið flutt undir forustu þáv. þingmanns og núv. forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Meira að segja var tekið upp, held ég, óbreytt frv. Finns Ingólfssonar, núv. ráðherra.

En allt kom fyrir ekki. Hæstv. ráðherrann sá enga ástæðu til þess, eftir að kosningum var lokið, að standa við það kosningaloforð. Og flokksbróðir hans Guðni Ágústsson hafði þau orð fyrir kosningar að líf og heilsa þjóðarinnar og fólksins lægi við að samþykkja þetta frv. um greiðsluaðlögun. Nú eru liðin þrjú ár síðan og hvað hefur þessi hæstv. ráðherra gert? (Gripið fram í: Hvað dvelur orminn langa?) Hvað hefur hann gert?

Í staðinn fyrir skuldbreytingu aldarinnar tefldu þeir fram tveimur frumvörpum og það voru nú ljótu krílin. Annað var um réttaraðstoð fyrir fólk í erfiðleikum og hitt var að fella niður skattskuldir hjá einstaklingum í erfiðleikum.

Það fer náttúrlega alveg eins með þennan ráðherra og hæstv. félmrh., um leið og farið er að tala um sannleikann og staðreyndir máls og þau loforð sem þeir hafa gefið út um borg og bý og út um allt landið fyrir kosningar, þá fara þeir alltaf í felur, ýmist bak við hurð eða inn í næsta hliðarherbergi þannig að aldrei er hægt að tala við þessa hæstv. ráðherra hér eitt aukatekið orð.

Ég ætla að endurtaka það hér að greiðsluaðlögun breyttist í þessi tvö frumvörp og síðan þegar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fer nú að spyrjast fyrir um hvað margir hafi fengið aðstoð samkvæmt þessum tveimur frumvörpum, þessum litlu krílum sem komu inn í þingið og áttu að vera í staðinn fyrir greiðsluaðlögun, þá voru það 22. Það voru 22 einstaklingar sem höfðu á einu ári fengið aðstoð gegnum þessi tvö frumvörp sem áttu að koma í staðinn fyrir greiðsluaðlögun. Og nú verður hæstv. viðskrh. --- ég skora á hann, að setja sig á mælendaskrá --- að svara fyrir það sem hann lofaði fólki um greiðsluaðlögun. Ráðherrann sleppur ekki svo vel í umræðum um húsnæðismál að láta svo lítið að gera þjóðinni grein fyrir því hvers vegna frv. um greiðsluaðlögun kemur ekki nú. Ég hef engar skýringar á því vegna þess að við höfum sýnt fram á að gjaldþrotunum hefur ekkert fækkað í tíð þessarar ríkisstjórnir og skuldir heimilanna því síður. Ekki hafa þær lækkað. Framsóknarmenn voru ávallt að tala um skuldir heimilanna fyrir síðustu kosningar. Þær hafa aukist um 35 milljarða á hverju ári síðan þessi ríkisstjórn tók við. Og nú er þessi hv. þáv. þm. orðinn ráðherra banka- og viðskiptamála og getur haft veruleg áhrif á það með því að koma með frv. um greiðsluaðlögun. Hann þarf ekkert að vísa því á félmrh. vegna þess að málið er þannig vaxið að það gæti vel fallið í hendur hæstv. viðskrh. að flytja slíkt frv. eða hæstv. dómsmrh. Ég skora á hæstv. ráðherra að standa við það sem hann lofaði.

[21:30]

Ég hygg að hv. þm. Magnús Stefánsson, sem situr við hliðina á honum, geti m.a. þakkað hinum sviknu loforðum framsóknarmanna það að hann er kominn hér inn á þing. (Gripið fram í: Það er rétt.) Já, er það ekki rétt? Ég hygg það, herra forseti. Þannig að þessir tveir þingmenn sem sitja í einu horninu í hliðarsalnum og skammast sín greinilega mjög verða auðvitað að svara fyrir þetta, svo ekki sé nú talað um skuldbreytingu aldarinnar og snautlega komu félmrh. inn í þingið með það mál sem hann var rekinn aftur með vegna þess að hann var að leggja til miklu verri aðgerðir fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum en var við lýði tvö ár á undan. Þetta er afrekaskráin hjá Framsfl. og hún verður rifjuð upp. Hún verður rifjuð upp áfram, herra forseti.

Ég ætla að spyrja hæstv. bankamálaráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af þessu frv. sem við erum að ræða. Við erum að ræða um það og stjórnarandstaðan og verkalýðshreyfingin hafa sýnt fram á það með fullum rökum að verið er setja hundruð fjölskyldna út í óvissuna að því er varðar húsaskjól. Það er ekkert gert til að byggja félagslegar leigu\-íbúðir um leið og á að fara að loka félagslega kerfinu. Ég man eftir því og man þá daga hér í þingsölum, þegar hv. þm., þá þingmaður, nú ráðherra, barði sér á brjóst og fór mikinn að því er varðaði húsnæðismálin, að því er varðaði kjör verst setta fólksins í þjóðfélaginu. Nú situr ráðherrann bara hér í hliðarherbergi og brosir og hefur ekkert til málanna að leggja þó að eigi að fara að loka félagslega kerfinu. (Gripið fram í.) Ja, það væri bara mjög freistandi, herra forseti, að fara að ljúka máli sínu ef hæstv. ráðherra lofar að koma í ræðustól og fara yfir afrekaskrá Framsfl. í húsnæðismálum og hvernig hann hafi staðið við það. (Gripið fram í.) En ég treysti þessum hæstv. ráðherra ekki til að gera það með sómasamlegum hætti þannig að ég fórni ræðutíma mínum fyrir það. En ég skora á hæstv. ráðherra að vera hér til svona klukkan tvö, þrjú í nótt þegar hæstv. ráðherra kemst að og mér finnst hann ekkert of góður til þess að bíða, svo lengi hefur hann látið láglaunafólk bíða eftir þeim úrbótum sem hann lofaði þeim í þrjú, fjögur ár. Hæstv. ráðherra getur því beðið hér til klukkan tvö í nótt til að standa nú reikningsskil gjörða sinna fyrir lágtekjufólkið. (Gripið fram í: Hann er svo kvöldsvæfur.) Ja, ef hann lofar að gera það hér strax hálfellefu í fyrramálið þá skulum við hleypa honum heim um tólf- eða eittleytið, ef hann stendur við það loforð.

En ég skora, og mér er full alvara í því, á hæstv. ráðherra Finn Ingólfsson sem ber ábyrgð á því ásamt ríkisstjórninni og félmrh. hvað hér er að gerast varðandi fátækt fólk á Íslandi og varðandi tekjulægsta fólkið. Ég skora á hann, af því að hann ber ábyrgð á því, að koma í ræðustól og lýsa því yfir hvort hann er sammála þeirri leið sem ráðherra er að fara og hvort hann geti þá rökstutt það, af því að hæstv. félmrh. getur það ekki, með hvaða hætti þetta frv. og ákvæði þess eiga að tryggja hag og kjör láglaunafólks, og jafnvel betur, eins og hæstv. félmrh. segir.

Ég ætla að spyrja hæstv. bankamálaráðherra líka um annað, af því að hæstv. félmrh. ber það fyrir sig sem hluta af rökunum fyrir að loka félagslega kerfinu að vanskil séu svo mikil í byggingarsjóðunum. Nú hef ég sýnt fram á að vanskil á síðasta ári í Byggingarsjóði verkamanna voru 0,7 eða 0,8%. Eru það svo mikil vanskil að það réttlæti að loka kerfinu? Útlánatöp á fjórum árum hjá báðum byggingarsjóðunum voru 65 millj. kr. af veltu upp á 100--200 milljarða. Ég bið hæstv. ráðherra að bera það saman við útlánatöpin og vanskilin í bankakerfinu og segja hér í ræðustólnum hvort þessar tölur gefi tilefni til að loka félagslega íbúðakerfinu. Þetta eru allt einfaldar spurningar sem ég ber fram og skal ekki hafa þær fleiri til ráðherrans en ítreka það, herra forseti, að ég mun ekki sætta mig við að hæstv. ráðherra hverfi svo héðan úr húsi að hann komi ekki í ræðustól áður en umræðu lýkur til að --- ég er ekki endilega að gera kröfu til þess í kvöld --- svara þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann.

En ég vil þakka ráðherranum, það er alveg ástæða til þess, herra forseti, því að ég kallaði í nokkra ráðherra í morgun þegar ég hóf mitt mál sem ég taldi að ég þyrfti að ræða við, m.a. menntmrh., heilbrrh., dómsmrh. og formann Framsfl., hæstv. utanrrh., og þetta er eini ráðherrann, herra forseti, eini hæstv. ráðherrann sem hefur látið sjá sig hér þó eftir því væri kallað. Ég kallaði líka í hæstv. fjmrh. sem ég þurfti endilega að eiga orðastað við. En ég þakka ráðherranum fyrir að mæta hér í salinn en ítreka að það nægir mér ekki bara að sjá hann, hann verður auðvitað að segja skoðun sína hér í ræðustól.

Ég varð auðvitað að bregða aðeins frá máli mínu áðan og nota tækifærið þegar hæstv. ráðherra birtist í salnum og truflaði mig því, og maður verður að nota slíkt tækifæri þegar svona sjaldgæft er að ráðherrarnir birtist hér og heiðri okkur með nærveru sinni.

Síðan er farið í það sem launþegahreyfingin kallar kafla undir fyrirsögninni: ,,Þeir sem njóta munu vaxtabóta og niðurgreiðslna. ... Í þessum kafla segir m.a. að 50% greiddra vaxtabóta fari til einstaklinga með árstekjur undir 2 millj. Þar sé að hluta til um sama hóp að ræða og fær niðurgreidda vexti í gegnum félagslega íbúðakerfið. Stuðningur til sömu einstaklinga sé með tvennum hætti, annars vegar niðurgreiddir vextir og hins vegar vaxtabætur. Nefndin tekur raunar fram að hún hafi ekki haft handbærar tölur um fjölda hjóna sem fengu vaxtabætur og ekki heldur sambærilegar upplýsingar um fjölda hjóna og einstaklinga sem eru lántakendur í félagslega íbúðakerfinu en þar eru hjón talin sem einn lántakandi. Af þessum tölum draga frumvarpshöfundar þá ályktun að hér sé ,,að hluta um sama hóp að ræða`` og ,,af þessu má ætla að stór hluti þeirra, sem fá félagslega aðstoð í formi niðurgreiddra vaxta, fái einnig vaxtabætur.`` Þessar ályktanir nefndarinnar eru því ágiskanir og lítt notanlegar sem forsendur við lagasmíð.``

Þetta er niðurstaða ASÍ og hagfræðinga þeirra, að þessar tölur og ályktanir nefndarinnar séu ágiskanir og lítt notanlegar sem forsendur við lagasmíð. Og það verður að taka undir það, herra forseti. Síðan segir:

,,Rétt er að benda á í þessu sambandi að samspil niðurgreiddra vaxta og vaxtabótakerfisins var verulega aukið árið 1993, en þá tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hækka vexti í félagslega íbúðakerfinu úr 1% í 2,4% í stað þess að auka framlög í ríkissjóð til niðurgreiðslu vaxta. Helstu rökin þá voru að greiðslubyrði þeirra lægst launuðu yrði nánast óbreytt þar sem vaxtabætur til þeirra mundu hækka.

Mikilvægt er að félagsleg aðstoð ríkisins, hvort heldur hún er veitt með vaxtabótum eða niðurgreiddum vöxtum, sé beint að þeim hópi sem mesta þörf hefur og nauðsynlegt er að sá markhópur sé vel skilgreindur svo aðgerðir ríkisins beri tilætlaðan árangur. ... Á þennan undirbúning skorti verulega í vinnu og gögnum frumvarpshöfunda.``

Síðan fara þeir yfir fullyrðingarnar um að félagslega kerfið sé dýrt í rekstri og segja: ,,Í almennum inngangi að greinargerð frumvarpsins á bls. 19 er þess getið að kostnaður við rekstur félagslega eignaríbúðakerfisins hafi sætt gagnrýni. Í kafla 3.3 er kostnaður af rekstri Byggingarsjóðs verkamanna sagður vera 138,2 millj. eða 10,5% af 1.320 millj. vaxtaniðurgreiðslu hans. Til samanburðar er nefnt að rekstur allra skattstofa ríkisins kosti 505 millj. eða 15% af greiddum vaxtabótum, sem nema 3,3 milljörðum. Þessi samanburður, sem öllu heldur ætti að kalla talnahnoð, varpar engu ljósi á rekstrarkostnað þessara tveggja kerfa.`` --- Það alveg hárrétt. Samt er verið að leggja af kerfið og koma á nýju, sem enginn veit hvað kostar. Menn þurfa auðvitað að hafa samanburðarhæfar tölur þegar menn eru að fara út í svo viðamiklar breytingar. Og þeir segja:

,,Í fyrsta lagi vegna þess að rekstrarkostnaði Húsnæðisstofnunar er skipt upp milli Byggingarsjóðs verkamanna, Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar samkvæmt reglugerð. Í reglugerðinni er kveðið á um að launum og öðrum starfsmannakostnaði, húsnæðiskostnaði og afskriftum fastafjármuna skuli skipt á milli sjóða eftir fjölda starfsmanna. Öðrum rekstrarkostnaði skal skipt upp eftir heildareignum hvers sjóðs, að frádregnum lánveitingum þeirra. Í samræmi við þessa reglugerð var hlutdeild Byggingarsjóðs verkamanna 138,2 millj. árið 1996. Þetta hefur í för með sér að hluti af kostnaði sem færður er sem rekstrarkostnaður Byggingarsjóðs verkamanna getur t.d. stafað af verkefnum sem félagsmálaráðherra setur á stofnunina og lúta ekki beint rekstri Byggingarsjóðs verkamanna.`` --- Og samt er því haldið fram að þetta sé rekstrarkostnaður stofnunarinnar þó að um sé að ræða verkefni sem félmrh. setur á stofnunina. --- ,,Þá er þess að geta að hluti af umsýslukostnaði Byggingarsjóðs verkamanna er vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins; innheimtukostnaður, lögfræðikostnaður og kostnaður við að veita lán. Þessi kostnaður verður til staðar þó að félagslegur stuðningur fari í gegnum vaxtabótakerfið.`` --- Það er alveg hárrétt sem hér er nefnt. --- ,,Áfram þarf að annast um eldri lán og jafnframt um þau viðbótarlán sem veitt verða.

Í öðru lagi stenst samanburður þessi ekki vegna þess að útreikningur vaxtabóta, sem gerist við álagningu á skattstofum, er ekki nema óverulegur hluti þess ferlis sem hefst með áætlun vaxtabóta, heldur áfram með álagningu og endanlegri álagningu að loknum kærum og leiðréttingu áætlana og lýkur með greiðslu til viðtakanda ef hann hefur þá ekki fengið ofgreitt.``

Þeir draga síðan ályktanir af þessu og segja:

,,Samanburður frumvarpshöfunda á kostnaði við rekstur núverandi kerfis niðurgreiddra vaxta annars vegar og vaxtabótakerfið hins vegar er því beinlínis rangur og því ekki haldbær rök fyrir því að hverfa frá einfaldri niðurgreisðlu vaxta yfir í kerfi sem endurskoðar vaxtabætur reglulega við álagningu skatta, greiðir þær reglulega út eða ráðstafar þeim til greiðslu vanskila á húsnæðislánum.``

Varðandi greiðslubyrðina er sagt:

,,Útreikningar hagdeilda ASÍ og BSRB sýna að við samanburð þá skipta forsendur verulegu máli. Einnig sýna útreikningar hagdeildanna að þak á hámarksupphæð vaxtabóta hefur í för með sér að svigrúm fólks í nýja kerfinu til að kaupa íbúðir yfir ákveðnum mörkum er verulega takmarkað ef greiðslubyrði á ekki að aukast. Hér á eftir verða tekin nokkur dæmi til að rökstyðja þetta.``

Þetta var einmitt það sem ég hélt fram í dag að það væri verra fyrirkomulag fyrir láglaunafólk að fá niðurgreiðslurnar gegnum vaxtabæturnar en í formi hinnar venjulegu niðurgreiðslu. Það er staðfest hér í útreikningum ASÍ og BSRB að hækka þurfi þakið á vaxtabótunum. Þeir sýna dæmi um þetta sem ég ætla ekki að rekja enda fór ég yfir nokkur dæmi í dag og mér sýnist að þau séu hliðstæð því eins og ég hélt fram að þarna er iðulega um það að ræða að einstæðir foreldrar og einstaklingar reka sig upp í vaxtabótaþakið sem þarf að hækka um allt að 60 þúsund kr. ef fólk á að vera jafnsett eftir.

Síðan sýna þeir, herra forseti, athyglisverð dæmi um hvað gerist ef verðbólgan fer eitthvað verulega á hreyfingu. Þá er þetta nú allt komið úr skorðum hjá hæstv. félmrh. vegna þess hann heldur því fram að greiðslubyrðin verði léttari í hinu nýja kerfi hans.

Ég vil síðan fara aðeins í gegnum það sem varðar eignamyndunina því það hefur verið gagnrýnt mjög að eignamyndunin í félagslega kerfinu sé miklu hægari en æskilegt væri og talað um að nú verði eignamyndunin miklu hraðari í þessu nýja kerfi ráðherrans. ASÍ og BSRB segja þetta um eignamyndunina:

,,Í þessum kafla greinargerðarinnar er þess getið að óbreytanlegar reikniforsendur, óháðar markaðsverði eignanna, hafi hægt á eignamyndun í félagslega íbúðakerfinu og því sé eignamyndun í félagslega kerfinu hægari en ef keyptar eru íbúðir á almennum markaði. Um þessa staðhæfingu er rétt að taka eftirfarandi fram:

Í fyrsta lagi er enginn samanburður gerður á þeirri eignamyndun sem verður í hinu nýja húsnæðiskerfi sem frumvarpið boðar, þ.e. þegar lánað er venjulegt húsbréfalán og að auki sérstakt viðbótarlán allt að 90%. Í frumvarpinu er einungis borið saman núverandi almennt kerfi og núverandi félagslegt kerfi. Með hærri vöxtum í nýja kerfinu verða afborganir af höfuðstól mun minni og eignamyndun því hægari en í núverandi félagslega íbúðalánakerfi eins og sést á eftirfarandi töflu.``

Það er sýnt raunverulega fram á það, herra forseti, í þessari töflu að með hærri vöxtum, þessum markaðsvöxtum sem fólk á núna að fara að greiða í nýja kerfinu, þá verði afborganir af höfuðstól mun minni, vextirnir meiri og eignamyndunin því hægari en í núverandi félagslega kerfi. Þannig að ef menn hafa haft áhyggjur af eignamynduninni í því kerfi sem við búum við í dag er full ástæða til að hafa áhyggjur af henni í því kerfi sem hæstv. ráðherra boðar.

[21:45]

Hér eru forsendurnar, 7 millj. kr. íbúð, og sýnd eignamyndun eftir tiltekinn árafjölda. Eftir fimm ár er eignamyndunin í núverandi kerfi 501 þús., en í nýja lánakerfinu 281 þús. Eftir 15 ár er eignamyndun af þessari íbúð 1.700 þús. í núverandi kerfi, meðan hún er 1.160 þús. í nýju lánakerfi. Þetta eru útreikningar ASÍ.

Ég man ekki betur en að hæstv. ráðherra notaði þetta líka einhvern tíma sem rök fyrir því að það þyrfti að breyta, að það væri óánægja með það hve hæg eignamyndunin væri í félagslega kerfinu. Hérna hafa hagfræðingar ASÍ og BSRB sýnt fram á hið gagnstæða, þegar borið er saman nýtt lánakerfi og núverandi félagslegt íbúðakerfi.

Síðan er sagt:

,,Í öðru lagi miðast útreikningar með frumvarpinu við Reykjavík en þar er fasteignamarkaður með nokkuð öðrum hætti en víðast hvar annars staðar á landinu. Í Reykjavík er 47% af öllu félagslegu íbúðarhúsnæði og því skortir samanburð í þessu tilliti fyrir 53% af félagslega íbúðakerfinu.

Í þriðja lagi er ekki getið þeirrar eignaupptöku sem orðið hefur í almenna íbúðakerfinu víða um land þar sem markaðsverð fasteigna hefur hrunið meðan reiknireglur félagslega kerfisins hafa varið einstaklinga tapi.``

Einmitt það hefur verið nokkuð mikilvægt í þessu kerfi. Menn hafa þorað að fjárfesta í félagslegum íbúðum úti á landi af því að þeir hafa verið baktryggðir fyrir áföllum með kaupskyldu sveitarfélaga og innlausn sveitarfélaga. Ég nefndi í upphafi ræðu minnar hér eftir kvöldmat, það sem margir hafa áhyggjur af og fólk hefur hringt til mín út af. Ég las upp hér, að fólk sem er með lán kannski upp á 8 millj. kr. en markaðsverð á staðnum þar sem viðkomandi býr er kannski 3--4 millj. hefur áhyggjur af því. Ef sveitarfélögin hafa engar skyldur gagnvart þessum íbúðum þá situr þetta fólk uppi með lán kannski upp á 7--8 millj. Í því dæmi sem ég nefndi hér áðan þá voru það 11 milljónir. Síðan getur það ekki selt íbúðina á markaði nema á kannski 3--4 millj. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að lítið hefur verið byggt úti á landi, eins og ég greindi frá fyrr í dag, annað en félagslegar íbúðir. Menn þora ekki að taka þá áhættu sem víða úti á landi fylgir því að koma sér upp húsnæði. Það á ekkert skylt við það að það sé húsnæðiskerfinu að kenna með einum eða öðrum hætti. Fyrst og fremst er það ótryggt atvinnuástand og einhæfni atvinnulífsins á þessum stöðum sem veldur því að markaðsverð er lágt og menn hafa ekki treyst sér til að byggja á almennum markaði. Nú er fólkið í þessum íbúðum hrætt við að breyting á félagslega kerfinu þýði að það sitji uppi með mismuninn á teknu láni. Hann er kannski helmingi hærri en markaðsverð á íbúðunum. Það þýðir að fólk situr uppi með miklar skuldir ef það selur þessar íbúðir.

Þetta er skiljanlegur ótti, herra forseti, og væri áhugavert að skoða hvort félagsmálanefnd hefur farið yfir þennan þátt málsins. Ég ætla að skoða það nákvæmlega þannig að við göngum ekki frá þessu máli nema þetta liggi fyrir. Þetta er óttinn sem ég heyri hjá fólki. Ég ætla að grennslast fyrir um það hvort þetta hafi verið skoðað sérstaklega í félmn.

Í fjórða lagi er í samanburðinum ekki tekið tillit til viðhaldskostnaðar.

,,Viðhald íbúða á almennum markaði hefur veruleg áhrif á söluverðmæti eigna og kemur því fram í þeim tölum sem birtar eru í frv. um eignamyndun á almennum markaði. Annað sem viðkemur þessum samanburði er að mikill misbrestur er víða um land á viðhaldi félagslegs húsnæðis. Bæði er það vegna andvaraleysis eigenda en einnig og ekki síður vegna vanrækslu sveitarfélaganna.``

Ekki er mér kunnugt um hvernig þetta er en það má vel vera og þessu er alltént haldið hér fram.

,,Við útreikning og samanburð á eignamyndun er nauðsynlegt að taka tillit til þessara þátt og afla nauðsynlegra gagna til þess að samanburður verði sanngjarn og marktækur.

Í fimmta lagi eru forsendur þessar gagnrýnanlegar þar sem þeim, sem almennt gæti ekki myndað eignir í hinu almenna kerfi sökum lágra launa og mikillar framfærslubyrði er gefinn kostur á því að eignast eigið húsnæði í núverandi félagslega íbúðalánakerfinu í stað þess að greiða leigu á almennum eða félagslegum leigumarkaði.``

Það er nú nokkuð til í því sem hér er sagt vegna þess að félagslega íbúðakerfið hefur gert fólki kleift, miðað við það að greiða kannski 20, 25, 30 þús. á mánuði, að eignast húsnæði. Segjum að það eigi þessi 10% sem þarf í útborgun þá hefur það gert fólki, miðað við kannski 20, 25 þús. kr. mánaðargreiðslu, kleift að eignast húsnæði. Ef félagslega kerfið hefði ekki verið til, hvaða möguleika hefði þetta fólk þá átt? Það hefði bara átt möguleika á almenna markaðnum sem er mjög þröngur og óskipulagður, og hefur verið lengst af þó að nokkuð hafi það breyst, og greiða þar húsaleigu upp á 35--50 þús. kr. í staðinn fyrir að eignast íbúð og borga á mánuði 20, 25, 30 þús. eftir stærð íbúðarinnar.

Þegar félagslega kerfið er ekki lengur til og því hefur verið lokað, þá er þessu fólki gert ókleift að eignast íbúð með þeim kjörum sem hafa verið í boði, mismunandi gegnum árin. Því er vísað á almennan leigumarkað þar sem það þarf að borga miklu hærra, bara í leigu á almennum markaði, en við kaup á eigin íbúð í félagslega kerfinu.

Mér finnst ekki boðlegt, herra forseti, að menn verði ofurseldir hinum almenna leigumarkaði. Þegar eftirspurnin eykst svo á almenna markaðnum, sem væntanlega verður, hvað þýðir það? Ef eftirspurn eftir leiguíbúðum verður mikil á almennum markaði og framboðið kannski ekki mjög mikið, þá hækkar það upp leiguna. Það er ekkert hugsað fyrir þessu. Áhrifin á þennan hóp eru ekki metin. Það á bara að senda hann út á almennan leigumarkað, í stað þess að bjóða upp á kerfi sem gerir þeim að greiða 20, 25 þús. kr. á mánuði og eignast húsnæðið smám saman og búa við öryggi, herra forseti, í húsnæðismálum. Öryggið er alls ekki á almenna leigumarkaðnum. Þar er fólk alltaf í ótta við að verða sagt upp húsnæði og greiða himinháa leigu.

Hér er síðan nefnt, í umsögn ASÍ:

,,Í sjötta og síðasta lagi hefur engin rannsókn verið gerð á eignamyndun í félagslega eignaríbúðakerfinu frá upphafi til dagsins í dag. Ætla má að hún sé veruleg og hafi haft mikil áhrif á eignamyndun og félagslega stöðu lágtekjufólks og afkomenda þeirra hér á landi.``

Ég held að þetta sé ágæt ábending, þ.e. að láta fara fram könnun á því hver eignamyndun hafi orðið í félagslega eignaríbúðakerfinu frá upphafi og til dagsins í dag. Þar með væri hægt að sjá hvernig láglaunafólkinu, lægst launaða fólkinu, fátæku fólki, hefur verið gert kleift að eignast með þessu móti sjálft í staðinn fyrir að vera ofurselt leigumarkaði.

Nú ætla ég ekki að bera stöðuna í dag við stöðuna árið 1929 í húsnæðismálum íslensku þjóðarinnar. Auðvitað hefur orðið gjörbreyting þar á. En það eru til fjölskyldur sem búa við mjög bága aðstöðu í húsnæðismálum. (SJóh: Ótrúlega margir.) Ótrúlega margir, segir hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, 8. þm. Reykn., sem er mikill áhugamaður um að þessari atlögu að fátæku fólki verði hrundið, að þeim sem hafa enga aðstöðu til að koma sér upp húsnæði nema gegnum félagslega íbúðakerfið.

Ég ætla að taka það til rækilegrar skoðunar hvort við eigum ekki að flytja tillögu um að gerð verði rannsókn á þeirri eignamyndun sem orðið hefur í félagslega eignaríbúðakerfinu frá upphafi og til dagsins í dag. Ef það á að fara að jarðsetja þetta kerfi, leggja það af, þá er ágætt að hafa það til minningar um kerfið hve margir hafa þó getað eignast hlut í íbúðum með aðstoð þess. Eitt er víst, herra forseti, að þetta verður skoðað þegar stjórnarandstaðan kemst til valda, það sem nú er að gerast í húsnæðismálum. Ég hygg að það muni koma í ljós fyrr en seinna, þegar þetta kerfi fer að vinna á næsta ári, hvaða glappaskot --- ég ætla að leyfa mér að orða það svo, herra forseti, --- þingið er að gera með því að samþykkja þetta frv.

Í umsögn ASÍ er einnig farið ofan í fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna. Ég þarf ekki að fara yfir það sem hér er sagt um það í mjög ítarlegu máli. Ég hef sjálf farið yfir hvernig ríkisframlögin hafa verið skorin niður en ráðherrar nota sem ein rök fyrir því að loka þessu kerfi, að sjóðurinn stefni í gjaldþrot. Það er ekki vegna neins annars en þess að verulega hefur verið dregið úr ríkisframlögum. Það er meginskýringin og undir það tekur verkalýðshreyfingin og segir í lokin, þegar búið er að fara yfir það eins og ég gerði hér í dag:

,,,,Vandi`` Byggingarsjóðs verkamanna hefur alla tíð verið ljós og liggur í vaxtamun útlána og innlána. Í raun var ætlast til þess frá upphafi, að sjóðurinn gæti aldrei staðið við skuldbindingar sínar án aðstoðar framlaga úr ríkissjóði, sem á hinn bóginn hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar um árabil. ,,Vandi`` sjóðsins er því enginn en sannarlega á hann við að glíma ,,vanefndir`` fjárveitingarvaldsins. Þetta er orsök ,,vandans`` og ef á að leysa þann vanda liggur næst að ráðast á orsökina og gera tillögur um, að Alþingi standi við loforð sín við almenning í landinu.``

Og síðan fara þeir yfir, undir fyrirsögninni Staða félagslega kerfisins, tölur um fjölda kröfuyfirlýsinga sem teflt er fram í frv. sem rökum fyrir því að loka þessu kerfi. Þeir segja:

,,Allar upplýsingar frumvarpshöfunda um fjölda kröfulýsinga eru einnig óáreiðanlegar vegna þess að kröfulýsingar eru sendar vegna allra uppboða, sem auglýst eru, hvort heldur vanskilum er til að dreifa hjá viðkomandi byggingarsjóði eða ekki. Breytt verklag við innheimtu og breytt löggjöf um uppboð hafa einnig haft hér veruleg áhrif.

Af þeim tölum og töflum sem birtar eru í 6. kafla greinargerðarinnar og af samanburði þeim, sem gerður er um þróun vanskila og fjölda kröfulýsinga má þó draga ýmsar ályktanir og skal nokkurra þeirra getið:

Í fyrsta lagi þá gefur fjöldi kröfulýsinga litla eða enga vísbendingu um vandræði þau, sem landsmenn eiga við að stríða í húsnæðismálum. Kröfulýsingum fækkar í Byggingarsjóði ríkisins um 35% meðan fjöldi lántakenda í vanskilum vex um 94%.

Í öðru lagi þá hafa vanskil sem hlutfall af heildarútlánum sjóðanna vaxið minnst í félagslega kerfinu.

Í þriðja lagi vex fjöldi lántakenda í vanskilum mun hraðar innan húsbréfakerfisins heldur en innan þess félagslega.

Í fjórða lagi virðist félagslega íbúðakerfið vera að ná jafnvægi þar sem umsóknum fækkar meðan veruleg aukning verður í endursölunni, sem bendir til þess að núverandi kerfi og fjöldi þeirra íbúða sem innan þess er, þjóni vel stórum hópi.

Í fimmta lagi má draga þá ályktun að notkun frumvarpshöfunda á þessum upplýsingum, til þess að sýna fram á ,,verulega galla á félagslega húsnæðiskerfinu`` eins og það er orðað í almennum inngangi í 2. kafla greinargerðarinnar, sé röng og villandi.``

Þá er farið yfir það sem ég fór yfir hér áðan, og get því flett fram hjá því, stöðu sjóðanna, vanskilin og þróun þeirra. Ég hef sýnt fram á að það eru engin rök fyrir því að loka félagslega íbúðakerfinu.

Síðan er fjallað um 100% lánin. Hæstv. ráðherra heldur því fram að 100% lánin séu alveg ómöguleg vegna þess að þeir sem þau fái fari bara lóðbeint á höfuðið. Það hefur auðvitað verið sýnt fram á það með rökum að þessi lán hafi hjálpað mörgum. Þar eru ekki margir sem hafa lent í vanskilum.

[22:00]

Síðan er hrakið hér af verkalýðshreyfingunni hvernig fyrirslátturinn er notaður hjá hæstv. ráðherra þegar auðum íbúðum er teflt fram sem rökum fyrir að loka kerfinu sem er auðvitað fjarstæða og einnig er sýnt fram á hvernig þetta kerfi hefur þjónað ýmsum félagasamtökum og skjólstæðingum þeirra og hvernig dregið hefur saman í fjölda félagslegra íbúða í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fjöldi þeirra var á árunum 1995 460, 1996 250, 1997 180 og 1998 170. Þær voru sennilega flestar 1990--91, um 800. Þeir segja:

,,Hér kemur fram að samdrátturinn hefur verið mikill. Það sem hins vegar verður ljóst er, að samdrátturinn stafar ekki af því að sveitarfélögin hafi talið minni þörf á íbúðum heldur af því, að meira fjármagni hefur ekki verið veitt til þessa málaflokks á fjárlögum undanfarinna ára.``

Síðan kemur ályktun um forsendur og þar segir:

,,Í köflum III-1 til III-10 hefur verið farið yfir nokkrar helstu forsendur sem frumvarpshöfundar og félagsmálaráðherra gefa sér fyrir því að brýna nauðsyn beri til þess nú þegar að leggja núverandi félagslega húsnæðiskerfið niður. Það er mat ASÍ og BSRB að þær forsendur ráðherrans og starfsmanna hans sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni og flestar verið hraktar séu ekki haldbær rök fyrir niðurstöðum þeirra.``

Þetta er nákvæmlega sama niðurstaða og ég hef komist að, herra forseti, þegar ég fer yfir þetta eins og verklýðshreyfingin tekur undir. Það eru ekki nokkur haldbær rök sem ráðherra hefur sett fram fyrir því að loka félagslega kerfinu.

Síðan er spurt. Þjónar frv. þeim markmiðum sem það setur?

Um það segja höfundar þessarar umsagnar:

,,Með frumvarpinu verður núverandi félagslegu eignar\-íbúðakerfi lokað. Á þessu síðasta ári einu saman gátu 800 fjölskyldur keypt eða skipt um íbúðir í endursölu innan félagslega kerfisins. Undanfarin ár hafa því hundruð fjölskyldna þess getað skipt um íbúðir innan kerfisins eftir því sem félagslegar aðstæður þeirra breytast. Eftir lokun kerfisins verður þessum hóp vísað á almennan húsnæðismarkað, á leigumarkað eða þá að hluti hans lokast inni í núv. kerfi, í húsnæði sem ekki hentar fjölskyldugerð eða fjárhag hans.

Eftir gildistöku laganna skulu veitt húsbréfalán í stað félagslegra húsnæðislána. Augljóst er að vegna strangari skilyrða fyrir lánveitingum mun verulega fækka þeim sem eiga kost á að eignast íbúð. Þetta kallar á mikla fjölgun leiguíbúða. Þessar leiguíbúðir þurfa ekki aðeins að vera á viðráðanlegum kjörum, heldur verður leigumarkaðurinn einnig að tryggja búsetuöryggi til frambúðar. Í frumvarpinu er enga tryggingu að finna fyrir því að framboð leiguhúsnæðis verði nægjanlegt. Það eina sem tryggt er í frumvarpinu er að teknar verði upp viðræður milli ríkis og Sambands sveitarfélaga um að sveitarfélögin komi nánar að fjármögnun lána til leiguíbúða. Þar til þær viðræður hafa verið til lykta leiddar er einungis gert ráð fyrir fjárveitingum til 25 leiguíbúða á ári, næstu tvö árin. Nú þegar er framboð á leiguhúsnæði langt frá því að vera nægjanlegt og hundruð fjölskyldna standa í biðröð eftir félagslegu íbúðarhúsnæði. Verði frumvarpið að lögum verður enn fleirum vísað í þá biðröð. Úrbætur á leigumarkaði eru því algjör forsenda þess að kerfisbreytingin skilji ekki stóran hóp lágtekjufólks, aldraðra og öryrkja eftir án úrræða í húsnæðismálum.``

Það er einmitt mjög athyglisvert, herra forseti, af því nú skákar ráðherrann í því skjóli að könnun þurfi að fara fram á þörf fyrir leiguíbúir. Úr því ráðherrann er búinn að undirbúa þessar breytingar með því að svelta kerfið í þrjú ár, af hverju í ósköpunum undirbjó hann þetta ekki með því að gera könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði þá? Niðurstöðurnar eiga ekki að liggja fyrir fyrr en árið 2000.

Síðan er talað um jafnrétti í húsnæðismálum, þ.e. um jafnrétti til búsetuöryggis og jafnrétti til eignamyndunar. Þeir segja:

,,Hvað hið síðara varðar þá er ljóst að með því að loka og leggja niður hið félagslega eignaríbúðakerfi er tekið fyrir möguleika stórs hóps lágtekjufólks til þess að mynda eign í eigin íbúðarhúsnæði. Þessum hópi er vísað á almennan leigumarkað þar sem hann mun með leigutöku sinni afla leigusölum verulegra eigna í tímans rás.

Ef átt er við með jafnrétti að lögin tryggi jafnrétti í þeim hópi sem hefur þörf fyrir sérstaka fyrirgreiðslu í húsnæðismálum til eignar eða leigu þá er ljóst að það gera þau ekki. Aðallega vegna þess að í frumvarpinu eru stórir kaflar óskrifaðir og bíða reglugerða eða ákvarðana ráðherra en einnig vegna þess að lögin færa aukið hlutverk til sveitarfélaganna en þau eru mörg hver ekki í stakk búin til þess að yfirtaka það hlutverk og lítið eða ekkert í frumvarpinu eða lögum sem leggur þeim fastar og ákveðnar skyldur á herðar.``

Síðan segja þeir:

,,Ljóst er að þörfin fyrir gott, ódýrt leiguhúsnæði mun aukast stórkostlega verði frumvarpið að lögum þó ekki sé annað nefnt en að lokað verði fyrir möguleika til að fá 100% lán til kaupa á félagslegri eignaríbúð. Félagsmálaráðherra telur að með frumvarpinu sé verið að gera það meira freistandi fyrir sveitarfélögin að bæta við leiguhúsnæði.``

Það er náttúrlega aldeilis út í hött að halda þessu fram vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki byggt mjög mikið af leiguhúsnæði, þó þessi kjör hafi verið fyrir hendi í nokkur ár, þ.e. 1% vextir og lán til 50 ára, vegna þess að það stefnir allt í að ráðherrann sé að flytja þessi lágu kjör, 1% vexti upp í markaðsvexti, og þá er engin ástæða til að ætla að sveitarfélögin fari allt í einu að byggja leiguíbúðir. Samt er því haldið fram að verið sé að gera meira freistandi fyrir sveitarfélögin að bæta við leiguhúsnæði.

Enda segja þeir í verkalýðshreyfingunni:

,,Ekki liggur í augum uppi hvað í frumvarpinu freistar sveitarfélaganna til að fjárfesta í fleiri félagslegum leigu\-íbúðum. Í greinargerð með VIII. kafla er bent á að gert sé ,,ráð fyrir því að teknar verði upp viðræður milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig sveitarfélögin komi nánar að fjármögnun lána til leiguíbúða og meðferð kaupleiguíbúða.````

Og það er auðvitað verið að gagnrýna það að þetta eigi ekki að liggja fyrir fyrr en árið 2000.

,,Hér er því ekki um neitt það að ræða sem skuldbindur sveitarfélögin til að auka framboð á leiguíbúðum ...`` --- og því er auðvitað ekki mark á þessu takandi.

Síðan eru dregnar þær ályktanir að:

,,Verði frumvarpið að lögum, minnkar jafnrétti varðandi búsetu- og almennt félagslegt öryggi. Ekkert í frumvarpinu bendir til að sveitarfélögin muni auka framboð sitt af leiguhúsnæði ef undanskildar eru þær 25 íbúðir á ári, næstu tvö árin sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Eftir gildistöku laganna mun fjölga í hópi þeirra sem ekki geta fjárfest í eigin húsnæði og aðstöðumunur manna til að eignast eigið húsnæði eykst verulega og djúp staðfest milli þeirra ,,sem geta`` og þeirra ,, sem ekki geta`` í þessu þjóðfélagi.``

Þetta er allítarleg umsögn, herra forseti, og hef ég einungis stiklað á því stærsta en hér er af nógu að taka.

Eitt af því sem kemur fram í inngangi í greinargerð hjá ráðherranum er að svo lítill sveigjanleiki sé í núverandi kerfi, sem er auðvitað fjarstæða. Það er mikill sveigjanleiki í kerfinu ef menn nýttu sér hann til fulls. Vegna þessa frv. sem við ræðum nú segja einmitt ASÍ og BSRB með réttu:

,,Sveigjanleiki er ekki aukinn með frumvarpi félagsmálaráðherra.`` Það er auðvitað staðreynd málsins því félagslega eignaríbúðakerfið og kaupleigukerfið eru einfaldlega lögð af. Þess vegna er ekki verið að auka neitt sveigjanleikann í þessu kerfi. Þvert á móti er verið að þrengja þá kosti sem fólk hefur og það val sem fólk hefur varðandi húsnæði.

Síðan segir:

,,Frelsi fólks til að velja sér húsnæði á almennum markaði er ekki tryggt. Með frumvarpinu er ekki tryggt að fólk sem uppfyllir skilyrði til að fá félagsleg húsnæðislán hafi frelsi til að velja sér húsnæði á almennum markaði. Í frumvarpinu er bráðabirgðaákvæði sem heimilar sveitarfélögum að setja það sem skilyrði fyrir veitingu viðbótarlána að þau verði nýtt til kaupa á félagslegum eignaríbúðum sveitarfélagsins sjálfs. Þess misskilnings gætir einnig að allir þeir sem nú séu á biðlista eftir félagslegum eignaríbúðum geti fengið fyrirgreiðslu strax og keypt sér íbúð á almennum markaði.``

Það er einmitt mjög mikilvægt að leiðrétta þetta, að allir geti bara fengið fyrirgreiðslu strax varðandi viðbótarlán, heldur er sýnt að hér geti skapast biðraðir, vonandi ekki eins og í 86-kerfinu en biðraðir eftir viðbótalánum.

Ýmislegt fleira er í þessu en ég ætla að láta staðar numið, herra forseti, að því er varðar umsögn ASÍ að mestu, því í lokin er verið að fara yfir gjaldtökuna, þessa auknu gjaldtöku. Og til að hæstv. ráðherra haldi nú ekki að ég hafi bara setið heima við eldhúsborðið og reiknað það út að kostnaður fólks muni aukast um 70 til 100 þús. kr. við að fara inn í þetta nýja kerfi, þá kemur auðvitað í ljós það sem ég hef verið að halda fram varðandi þennan kostnað. En hér stendur, með leyfi forseta:

,,Augljóst er að gjaldtaka af fólki sem fær fyrirgreiðslu í húsnæðismálum mun aukast þegar umsýsla og innheimta verður boðin út. Innheimta félagslegra lána, hvort heldur þau eru í skilum eða vanskilum er nú gerð því sem næst á kostnaðarverði``. Og halda einhverjir, herra forseti, að Íbúðalánasjóður sem á að vera sjálfbær og standa undir sér sjálfur með vöxtum og gjaldtöku fari að láta fólk hafa eitthvað á kostnaðarverði? Nei, herra forseti, ég er ansi hrædd um að við munum sigla inn í sömu gjaldtökuna og er í bankakerfinu sem er miklu hærri varðandi lántökugjöld og ýmsan umsýslukostnað en er hjá Húsnæðisstofnun. Ég held að það sé alveg ljóst og verði að vera skýrt að þessi Íbúðalánasjóður, því hann á að standa undir sér sjálfur, mun ekki láta neitt á kostnaðarverði. Síðan segir:

,,Verði vanskilainnheimta falin fjármálastofnunum og innheimtulögfræðingum þeirra þýðir það margfalda hækkun innheimtukostnaðar. Fyrir lágtekjufólk eru þetta upphæðir sem geta skipt sköpum.

Stimpil-, lántökugjöld og sölulaun munu hækka og ekki er tekið tillit til þessara kostnaðarliða í þeim dæmum sem fylgja í greinargerð frumvarpsins.``

Er það nú ekki dæmalaust, herra forseti, að þegar verið er að hækka gjaldtöku á fólki verulega, við erum að tala um verulegar fjárhæðir, þá tekur ekki einu sinni að nefna það í greinargerð með forsendum frv. þótt verið sé að auka kostnað á fólki sem er að koma sér upp íbúð um kannski 70 til 100 þús. Það er engin tilraun gerð til að meta þetta, hvað þá heldur að greina frá því í frv.

Síðan segir:

,,Í frumvarpinu eru heimildir til gjaldtöku vegna verkefna sem Húsnæðisstofnun sinnir endurgjaldslaust í dag.``

Halda menn að Íbúðalánasjóðurinn sem á að vera sjálfbær, standa undir sér sjálfur, fari að hafa einhverja vinnu eða þjónustu hjá sér endurgjaldslausa? Auðvitað ekki, herra forseti. Auðvitað ekki. Það verður tekið endurgjald á toppverði á þessu öllu í hinum nýja Íbúðalánasjóði. Það verður alveg örugglega ekkert gefins af því að þessar breytingar eru ekki gerðar til að þjóna fólkinu, þær eru ekki gerðar til að þjóna láglaunafólkinu eins og hæstv. ráðherra heldur fram, heldur er þetta allt í stíl við markaðsvæðingu og einkavæðingu sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir og það er ekki verið að gera þetta með hag láglaunafólks fyrir brjósti. Nei, sko aldeilis ekki, herra forseti. Aldeilis ekki. Ætli það sé ekki fyrst og fremst verið að gera þetta til að spara fyrir ríkissjóð, spara á láglaunafólki og til að Framsfl. og Sjálfstfl. geti komið gæðingum sínum fyrir í þessum nýja Íbúðalánasjóði og þeir geti sest aftur yfir þær stöður sem þar eru með helmingaskiptaregluna í forgrunni.

[22:15]

Sem dæmi má nefna gjaldtöku fyrir þjónustu Íbúðalánasjóðs og heimild til húsnæðisnefnda til að taka greiðslu fyrir þjónustu sína. Þarna er bent á tvo nýja pósta sem eru ekki fyrir hendi í dag: ,,Að öllu virtu er ljóst að kostnaði af félagslegri fyrirgreiðslu í húsnæðismálum verður velt út á notendur þjónustunnar.`` --- Við skulum athuga að Húsnæðisstofnun hefur starfað að verulegum hluta til náttúrlega á félagslegum grunni með lægra lántökugjaldi og kostnaði en bankakerfið gerir en hér á að velta kostnaðinum á notendur þjónustunnar. --- ,,Það þýðir ekki að nýja kerfið verði ódýrara í reksti en það gamla heldur einungis að skipt er um greiðendur.`` --- Þarna komum við að ákveðnum kjarnapunkti. Þegar verið er að tala um að Húsnæðisstofnun sé dýr hefur enginn sýnt fram á að Íbúðalánasjóðurinn verði eitthvað ódýrari, heldur geti verið um að ræða tilfærslu á því hver standi undir greiðslunum á rekstrinum. Það verða notendurnir sem gera það í miklu meira mæli.

Síðan draga þeir ályktun og segja: ,,Enga nauðsyn ber til þess að loka og leggja niður núverandi kerfi jafnvel þó hætt verði að byggja eða kaupa inn nýjar íbúðir í það.``

Mér finnst sú umsögn sem þeir skrifa undir, Kristján Gunnarsson, formaður húsnæðisnefndar ASÍ, og Guðmundur Vignir Óskarsson, formaður húsnæðisnefndar BSRB, mjög athyglisverð. Mikil vinna hefur verið lögð í að fara yfir málið, meta áhrifin, kosti og galla, og hvaða áhrif breytingarnar hafa og auðvitað er skylda verkalýðshreyfingarinnar að gera það og hún hefur gert það með prýði í umsögn sinni en því miður virðist sú mikla vinna sem verkalýðshreyfingin hefur lagt í þessa umsögn ekki ætla að skila þeim árangri eða hagga ráðherranum á nokkurn þann hátt að hann fari eftir þeirri sanngjörnu og eðlilegu ósk sem verkalýðshreyfingin ber fram og 26 félagasamtök í Morgunblaðinu í dag, að frv. verði frestað. Við erum þó enn og aftur og skal ég nefna það nú, að tala um gildistöku sem á ekki að vera fyrr en um næstu áramót. Af hverju í ósköpunum má ekki nýta sumarið í milliþinganefnd til að skoða málið nánar en tök hafa verið á?

Hér eru fjölmenn samtök sem hafa sent inn umsögn. Samtökin kallast Þak yfir höfuðið og í þeim er fjöldinn allur af félagasamtökum og þau gera athugasemdir við frv., að þau hafi ekki getað komið að samningu frv. þótt eftir því væri leitað og meira að segja á það bent að eftir því var leitað strax á árinu 1995 að koma að verkinu en því verið hafnað. Það eru algjör kaflaskipti sem við erum að tala um í samskiptum við frjáls félagasamtök sem hér eiga sér stað. Þar sem Þak yfir höfuðið átti ekki þess kost að koma að samningu þessara frv. er lagt til að skipuð verði fagnefnd til að fjalla um það frekar með tilliti til hagsmuna þeirra mörgu félaga og félagasamtaka sem eru innan Þaks yfir höfuðið. Síðan er lagt til að nefndin skili tímanlega áliti fyrir haustið. Það sem þeir nefna að þurfi að skoða sérstaklega eru hugsanleg vaxtakjör hjá Íbúðalánasjóðnum, lánsfjármagn sem félögum og félagasamtökum stæði til boða á næstu árum hjá Íbúðalánasjóði, sem ég sé nú ekki að sé mikið, herra forseti, og möguleikar á að opna húsbréfakerfið fyrir félög og félagasamtök, afnám skattlagningar á húsaleigubætur, útvíkkun vaxtabótakerfisins og hugsanlega sameiningu við húsaleigubótakerfið. Nokkur fleiri atriði nefna þeir í þessu sambandi, t.d. aðild félaga og félagasamtaka að ákvörðunum og umsögn um það sem snýr að húsnæðismálum og hagsmunum í því sambandi.

Ég ætla að halda áfram með umsagnirnar og við komum þá að Kennaraháskóla Íslands en þeir segja:

,,Í dag er heimavist við skólann sem rúmar 58 nemendur en þá eru tveir nemendur í sama herbergi. Margir núverandi nemendur skólans eru mjög óánægðir með þetta fyrirkomulag og vilja búa einir. Næsta vetur verða 72 nemendur í íþróttaskor KHÍ og það verður erfitt að finna viðunandi húsnæði fyrir alla þessa nemendur á Laugarvatni. Þess má einnig geta að nýnemar sem byrja í íþróttaskor í haust fara í þriggja ára B.Ed.-nám.

Fyrir Alþingi liggur nú nýtt frumvarp til laga um húsnæðismál. Samkvæmt því frumvarpi er gert ráð fyrir að Byggingarsjóður verkamanna verði lagður niður í núverandi mynd. Lán úr þessum sjóði hafa m.a. verið notuð til að fjármagna byggingar námsmannagarða, þar á meðal fjölbýlishús sem Byggingarfélag námsmanna tók nýlega í notkun á lóð Kennaraháskólans við Stakkahlíð.`` --- (Gripið fram í.) Ég beini því bara til hv. þm. að þessar umsagnir liggja fyrir í stórum bunka á borðinu. Þetta er Kennaraháskóli Íslands og ég á mikið eftir, þannig að ég má ekki vera að því að endurtaka þetta fyrir hv. þm. Hann verður því að fara yfir þetta sjálfur. (Gripið fram í: Þingmaðurinn er illa læs. Hann nennir ekki að lesa þetta.) ---

,,Þeirri spurningu er beint til félmn. Alþingis hvort unnt verði samkvæmt fyrrgreindu lagafrumvarpi að fá lán úr hinu nýja félagslega húsnæðiskerfi til byggingar námsmannagarða á hliðstæðum kjörum og er úr Byggingarsjóði verkamanna.`` Ég er hrædd um, herra forseti, að þeir hafi ekki erindi sem erfiði ef þeir fara að leita eftir því því að það verður mikil ásókn í þær 25 leiguíbúðir sem á að byggja á næsta ári og hæstv. fjmrh. hefur náðarsamlegast veitt leyfi til 25 íbúða á næsta ári. Það verða margir í biðröð eftir þeim íbúðum.

Síðan er það Þroskahjálp. Þau samtök leggjast gegn því að frv. verði afgreitt og færa fyrir því margvísleg rök og segja hér, sem ég hef margsinnis varað við, herra forseti:

,,Ef taka á upp markaðstengda vexti á lánum til félagslegra leiguíbúða og ákvarða þá af stjórn Íbúðalánasjóðs fyrir eitt ár í senn verður að gera alla leigusamninga með ákvæðum um að húsaleiga hækki/lækki með tilliti til vaxtakjara eða að aðeins er hægt að gera leigusamning til eins árs í senn.`` Þarna er það staðfest að ef vaxtakjörin hækka, sem náttúrlega var viðbúið, þá er þessu velt yfir á leigjendurna og þar með yfir á skjólstæðinga Þroskahjálpar, það eru þeir sem verða að bera þetta. Þeir segja það einfaldlega að ef vextirnir verði færðir upp í markaðsvexti hafi þeir ekki aðra leið en láta skjólstæðinga sína borga það, og af hverju? Af örorkubótum sem eru hvað? Eða örorkulífeyri sem er um 40--50 þús. kr. Það er alveg sama hvar maður lítur á þetta mál, herra forseti, þetta bitnar allt á þeim hópum sem lökust hafa kjörin í þjóðfélaginu.

Hér er umsögn frá Félagi ábyrgra feðra sem segir í lok umsagnar sinnar: ,,Oft og tíðum hefur það foreldri sem ekki býr með börn sín að staðaldri ekki mannsæmandi aðstöðu til að taka á móti börnum sínum. Þetta skapar þessum foreldrum óþægilegar aðstæður sem mörg börn líða fyrir.`` --- Og ekki verður staða ábyrgra feðra betri eftir þessa breytingu sem hér er verið að leggja til. Það er alveg ljóst, herra forseti.

Síðan kemur hver umsögnin á fætur annarri, eins og frá Samvinnuháskólanum á Bifröst, þar sem segir: ,,Stjórn nemendagarða Samvinnuháskólans telur að þetta frumvarp feli í sér svo miklar breytingar á öllu starfsumhverfi þeirra aðila sem hafa fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna að frumvarpið verði að fá meiri og almennari kynningu og umræðu en nú hefur farið fram til að hægt sé að afgreiða það á yfirstandandi þingi.``

Þá kemur stúdentaráð Háskóla Íslands en eins og öllum er kunnugt hafa framsóknarmenn sérstaklega borið hag stúdenta fyrir brjósti, gera það a.m.k. þegar þeir eru í stjórnarandstöðu og kosningabaráttu þótt það sé ekki eins sýnilegt, herra forseti, í þingsölunum eða af þeim málum sem þeir flytja. ,,Stjórn stúdentaráðs Háskóla Íslands mótmælir harðlega þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á húsnæðiskerfinu og hafa það í för með sér að illa er vegið að framtíðaráformum um öfluga uppbyggingu stúdentagarða.`` Hvorki meira né minna. Ég held að hv. framsóknarmenn ættu að taka niður það flagg sem þeir stundum reisa fyrir kosningar að þeir séu einhverjir sérstakir merkisberar fyrir námsmenn. Það er illa vegið að framtíðaráformum um uppbyggingu stúdentagarða. Það verður ekki tekið nokkurn skapaðan hlut mark á framsóknarmönnum í næstu kosningum, það er alveg ljóst, í þessu máli eins og öðrum. Ég hef lagt til í dag að þeir settust bara yfir það saman að samræma stefnuskrár sínar því að stefnuskrá sjálfstæðismanna í húsnæðismálum getur alveg gengið inn í stefnuskrá Framsfl. og ég hygg að þeir kæmust að þeirri niðurstöðu að þeir gætu bara haft eina sameiginlega stefnuskrá (Gripið fram í.) og hún mundi alveg örugglega bera svipmót Sjálfstfl. því að þeir ráða ferðinni í hverju málinu á fætur öðru. Nei, takk, herra forseti, ég hef sko lítinn áhuga á að flækjast í þeim vagni sem enginn veit hvert fer með þjóðina en margir óttast. (Gripið fram í: Og Hannes Hólmsteinn ...) Já, Hannes Hólmsteinn lestarstjóri.

Síðan er sagt í umsögn stúdentana: ,,Margt bendir til að stefna stjórnvalda hvað varðar uppbyggingu stúdentagarðanna sé algjörlega afskipt. Árið 1997 fékkst engin úthlutun til lána til uppbyggingar garðanna úr Byggingarsjóði verkamanna og stefnir allt í það sama í ár.`` --- Þegar jafnaðarmenn stjórnuðu ráðuneytinu fengu stúdentarnir lán. Þá kvörtuðu þeir ekki en hér er lýst tveimur árum þegar framsóknarmenn stjórna, þá eru engin lán til námsmanna. Engin lán til að byggja upp íbúðir fyrir námsmenn. Síðan segir: --- ,,Fyrirætlanir um útlán árið 1999 og 2000 benda síður en svo til þess að úrbóta megi vænta og eftir það er framtíðin óskrifað blað. Margt í nýgerðu frumvarpi bendir auk þess til aukins kostnaðar og óhagstæðari lána sem gera framtíðarhorfur síður en svo góðar. Stjórn stúdentaráðs beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að tryggt verði að áfram geti átt sér stað öflug uppbygging á félagslegum leiguíbúðum eins og stúdentagörðum og komið verði í veg fyrir að stoðunum verði kippt undan rekstrargrundvelli garðanna.``

Ég verð bara að segja þeim hjá stjórn stúdentaráðs að ekkert þýðir að beina neinum eindregnum tilmælum til stjórnvalda um það efni. Þeir hlusta ekkert á það. Þeir eru alltaf með tappa í eyrunum þegar félagasamtök og verkalýðshreyfingin talar. Þessi tilmæli er einungis hægt að biðja um þegar ný stjórn hefur tekið við völdum í landinu. Þá fyrst er sú ósk skoðuð sem hér kemur fram. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég nefndi í dag að ég held þær hafi verið fjórar þessar auðu íbúðir á Suðurlandi sem ráðherra húsnæðismála notar til að loka kerfinu. Ætlar hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, 4. þm. Suðurl., að leggja mér lið í því og okkur í stjórnarandstöðunni að koma vitinu fyrir hæstv. félmrh. og fá hann til að verða við þeirri sanngjörnu ósk verkalýðshreyfingarinnar og 26 félagasamtaka að fresta frv.? Við getum þá tekið til við næsta lið á dagskrá, það eru reyndar ekki fleiri á þessum fundi en þá á morgun, og sest yfir það í sátt í sumar að reyna að finna lausn á þessu deilumáli. Ég fel hv. þm. að athuga hvort hann getur ekki verið sáttasemjari í því máli og ræða við félmrh. um hvort ekki sé hægt að verða við þessari sanngjörnu ósk.

[22:30]

Stúdentaráð háskólans segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið var ekki sent stúdentaráði til umsagnar en viljum við engu að síður koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Þar [þ.e. í frv.] kemur fram að illa er vegið að áætlunum um framtíðaruppbyggingu stúdentagarðanna. Breytingarnar geta leitt til mikillar hækkunar á leigu og gera allar framtíðaráætlanir erfiðar. Þetta leiðir til þess að uppbygging námsmannaíbúða kemur til með að dragast stórlega saman.`` --- Dragast stórlega saman --- ,,Stúdentaráð lítur það mál alvarlegum augum þar sem augljóslega eru miklir hagsmunir í húfi.``

Það er náttúrlega ljóst ef stefnir í það, þegar svona er haldið á málum, að þetta komi fram í hækkun á leigu á námsmannaíbúðum þá getur það leitt til þess að við búum ekki við jafnrétti til náms. Það getur haft þær afleiðingar enda hef ég, herra forseti, margkallað eftir því að fá hæstv. menntmrh. hér við þessa umræðu til þess að athuga hvort hann hafi nokkuð hugleitt þær afleiðingar sem þetta frv. hefur.

Síðan segja stúdentarnir, með leyfi forseta:

,,Það sem athygli vekur í stefnu stjórnvalda og helst veldur okkur áhyggjum er eftirfarandi:

1. Engin úthlutun fékkst úr (Gripið fram í.) Byggingarsjóði verkamanna á síðasta ári til uppbyggingar garðanna og stefnir allt í að úthlutunin verði engin aftur í ár.``

Svo vísa þeir í umsögn fjmrn. og til þess að lagt er til að: ,,fellt verði niður 3,5% framlag sveitarfélaga, lögð verði á stimpilgjöld og veitt dýrari framkvæmdalán en þetta kemur til með að leiða til aukins byggingarkostnaðar og þar af leiðandi hækkunar á leiguverði til stúdenta.

4. Mikil óvissa er um vaxtakjör á lánum í framtíðinni og ekki óvarlegt að ætla að markaðsverð verði staðreyndin. Sú staðreynd kemur til með að leiða af sér hækkun á leigu um 30%.``

Takið eftir því. Ef það á að fara með vextina upp í markaðsvexti þá leiðir þetta af sér hækkun á leigu, segir stúdentaráð hér, um 30%. Og hvað þýðir það? Leiðir þetta ekki til þess að hækka þurfi námslánin, herra forseti? Hæstv. menntmrh., herra forseti, sér enga ástæðu til að vera við þessa umræðu þó við séum að ræða hér um breytingar sem geta haft áhrif, ekki bara á jafnrétti til náms heldur áhrif á námslánakerfið sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á. (LB: Hann er að kynna sér mexíkóska menntastefnu.) (SvG: Hvar er Ísólfur?) Ja, ég veit ekki hvað er hægt að treysta, herra forseti, á hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason. Þeir eru ekki margir framsóknarmennirnir sem hafa látið sjá sig í þingsölum í dag, fyrir utan félmrh. sem skyldu sinnar vegna verður að sitja hér, og maður sér á honum að honum leiðist mikið. (Gripið fram í: Er það?) Ja, mér hefur sýnst það, herra forseti, að honum hafi leiðst hér mikið. Aðrir þingmenn hafa varla sést hér í dag nema sá forseti sem nú situr í stólnum og ég veit að hefur ekki liðið mjög vel, a.m.k. stundum, undir þeim lestri sem hér hefur verið vegna þess að hæstv. forseti veit, eftir að hafa hlýtt á mitt mál í dag og núna þegar ég er að fara yfir umsagnirnar, að þeim ber alveg saman. Þannig að hafi hann ekki haft trú á mínum málflutningi þá hefur þó þessi hv. þm. og forseti sem nú er í forsetastól, ávallt tekið mikið mark á verkalýðshreyfingunni og þess vegna geri ég ráð fyrir að hann sé orðinn svolítið hugsi yfir þessu.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Mikil uppbygging hefur átt sér stað á stúdentagörðunum á undanförnum árum. Þeirri uppbyggingu er ekki lokið en stefnt er að því að um 15% stúdenta við Háskóla Íslands eigi þess kost að búa á görðum meðan á námi stendur. Ljóst er að tilvist stúdentagarðanna er ekki einungis hagræði fyrir stúdenta heldur eru stúdentagarðarnir nauðsynleg forsenda náms hjá stórum hópi fólks. Er þar helst að nefna landsbyggðarfólk, einstæða foreldra og aðra sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Framboðið í dag fullnægir ekki eftirspurn og verður því að forgangsraða umsækjendum. Eins og fram kemur hér að ofan geta þær breytingar sem um ræðir leitt til allt að 30% hækkunar á leiguverði sem engan veginn getur talist ásættanlegt.

Tvær af meginforsendum uppbyggingar stúdentagarðanna eins og rekstri þeirra hefur verið háttað á undanförnum árum er:

a. lágt verð og

b. stöðugleiki.``

Það eru meginforsendurnar sem þeir hafa getað treyst á meðan jafnaðarmenn fóru með stjórn húsnæðismálanna, þ.e. lágt verð og stöðugleiki. Og það er fyrir bí núna, herra forseti. Síðan segir:

,,Ekki þarf að tíunda mikilvægi þess að hægt sé að bjóða stúdentum húsnæði á eins lágu verði og mögulegt er. Húsnæðiskostur á lágu verði fyrir stúdenta er eitt af meginmarkmiðum stúdentagarðanna. Óhætt er að fullyrða að ef rekstrargrundvöllur garðanna býður ekki upp á að hægt sé að halda leiguverði í lágmarki er forsendan fyrir frekari uppbyggingu og framgangi orðin veik.

Annað það helsta sem stúdentar sækja í á görðunum er sá stöðugleiki sem tryggður hefur verið. Yfirburðir stúdentagarðanna á þessu sviði gagnvart hinum almenna leigumarkaði eru ótvíræðir. Bæði hefur verið kappkostað að auka framboð til að svara aukinni eftirspurn auk þess sem einstaklingar búa við það öryggi að fá leigt til lengri tíma án þess að eiga það á hættu að missa húsnæðið.

Ljóst er að hinn almenni leigumarkaður er engan veginn samkeppnisfær hvað varðar lágt verð og stöðugleika. Framtíðartrygging fyrir því að boðið verði upp á húsnæði á eins hagkvæmu verði og mögulegt er og stöðugleika fyrir stúdenta er engin á hinum almenna markaði.``

,,Ítrekað er talað um það í frumvarpinu að uppbygging leigumarkaðarins sé eitt af meginmarkmiðunum. Það kemur því á óvart að eins illa sé vegið að uppbyggingu stúdentagarðanna og raun virðist bera vitni. Stúdentaráð beinir þeim eindregnu tilmælum til félagsmálanefndar Alþingis að tekið verði tillit til ofangreindra athugasemda og gerðar verði þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að tryggt verði að öflug uppbygging stúdentagarðanna verði möguleg í framtíðinni.``

Mér þótti nauðsynlegt, herra forseti, að fara nokkuð ítarlega yfir þetta varðandi námsmennina, sérstaklega með tilliti til forsögu framsóknarmanna í því máli. En það er líka hægt, herra forseti, að fara hér yfir umsögn Byggingafélags námsmanna þar sem frv. er mjög gagnrýnt og yfir umsögn Félagsstofnunar stúdenta og ætla ég að lesa niðurlagið bara í umsögn Félagasstofnunar stúdenta. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að óbreyttu frumvarpi má gera ráð fyrir að uppbygging námsmannaíbúða dragist stórlega saman á næstu árum. Niðurfelling 3,5% framlags sveitarfélaga, álag stimpilgjalda og dýrari framkvæmdalán hafa áhrif til hækkunar byggingarkostnaðar og þar af leiðandi til hækkunar leiguverðs til stúdenta. Vaxtakjör er sú breyta sem mestu máli skiptir og óvissa um þau gerir alla áætlanagerð erfiða en eins og komið hefur fram hefur hækkun vaxta úr 1% í 5% áhrif á hækkun leigu sem nemur tæplega 30%.`` --- Þ.e. ef þeir verða að treysta eingöngu á húsbréfakerfið þá hækkar það leiguna verulega. --- ,,Óvissa um lánafyrirgreiðslu er að sama skapi allri langtímaáætlanagerð og stefnumótun fjötur um fót.

Félagsstofnun stúdenta hefur litið á uppbyggingu stúdentagarða og rekstur þeirra sem hluta af lausn þess húsnæðisvanda sem almennt steðjar að. Húsnæðisvandi stúdenta er enn fyrir hendi og þarf að leysa hann á annan hátt ef Félagsstofnun stúdenta er ekki gert kleift að sinna því hlutverki.``

Í lokin segir:

,,Félagsstofnun stúdenta hefur fullan hug á að halda uppbyggingunni áfram en lýsir yfir áhyggjum sínum ef frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri mynd og vonast til að hæstv. félagsmálanefnd skoði vandlega þau atriði sem hér hefur verið minnst á.``

Hjá Byggingafélagi námsmanna eru margar athugasemdirnar þær sömu og ég ætla því ekki að fara yfir þær. Þeir hafa áhyggjur af hækkun vaxta sem þýðir einfaldlega hækkun á leigu og benda á hvað gerist ef færa á vextina upp í markaðsvexti. Þeir benda á stimpilgjöldin sem verða á húsbréfalánunum og síðan segja þeir, með leyfi forseta:

,,Það er hægt að reikna það beint til hækkunar að 1,5% stimpilgjald hefur í för með sér 1,3% hækkun á byggingakostnaði miðað við 86,5% lán eins og tíðkast hafa hingað til.``

Þeir hafa auðvitað líka rekið augun í þessa nýju gjaldtöku sem er í frv. þó það sé ekki minnst einu orði á hana í greinargerð, og segja:

,,Samkvæmt þessu frumvarpi mun gjaldtaka á lánum til okkar hækka töluvert en á sama tíma er það lagt til að framlag sveitarfélaga verði fellt niður en það hefur hingað til verið 3,5% af byggingakostnaði.``

Þeir hafa einnig áhyggjur af Tryggingarsjóðnum sem ég hef nú lítið komið inn á en full ástæða er til þess að gera það. Þeir hafa áhyggjur af því að:

,,... ef búið verður að nota varasjóðinn til greiðslu á tjóni vegna útlánatapa, þá verður ekkert eftir til greiðslu á tjóni vegna byggingargalla. Hér stangast eitthvað á sem ekki getur farið saman.``

Síðan taka þeir þetta saman í fimm punktum:

,,Við leggjum til að frv. verði frestað til haustsins.

Við mælum með að Þak yfir höfuðið fá aðila inn í stjórn Íbúðalánasjóðs.

Vextir af lánum til félagslegra leiguíbúða verði hafðir lægri en almennir húsnæðislánavextir eða að þar komi á móti einhver önnur aðstoð frá hinu opinbera í gegnum skattkerfið eða eftir öðrum leiðum.

Stimpilgjöld og lántökugjöld verði ekki sett á lán til félagslegra leiguíbúða.

Tryggingarsjóður nýtist félagasamtökum sem slíkur eða sem varasjóður.``

Hér er einnig ítarleg umsögn frá Búseta, herra forseti. Hún er, herra forseti, í 42 liðum. Athugasemdirnar frá Búseta eru 42 liðum. Ég er alveg sannfærð, eftir að hafa lesið þá umsögn, um að Búseti hefur farið mjög ítarlega yfir þetta frv. Þeir eiga auðvitað mikið undir því komið og þeirra félagar að grundvellinum verði ekki kippt undan þeirra starfsemi eins og gera á með þessu frv. Mér finnst þeir gera hér mjög skynsamlegar athugasemdir hvað varðar frv. til laga um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög sem mér skilst að eigi að fresta, en það gerir þeirra stöðu enn ótryggari. Síðan gera þeir miklar athugasemdir við það hvernig starfsgrundvellinum er kippt undan Búseta. Þeir benda á að viðbótarlán þurfi að vera til staðar fyrir félagasamtök eins og Búseta og að ekki sé nóg að opna húsbréfakerfið fyrir félagasamtök heldur þurfi þau einnig að geta fengið viðbótarlán ef þetta á að gagnast þeim.

Þeir benda réttilega á að það er allt of langt gengið í að fela félmrh. að gera fyrirmyndir að samþykktum fyrir einstök félög og félagasamtök, til að öðlast rétt á lánum út úr Íbúðalánasjóði eða setja slíkt í reglugerð og vafasamt að taka það sérstaklega fram að vextir af lánum til leiguíbúða skuli vera breytilegir sem mér skilst að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af. Ég held það sé stefnt bara einn veg í þessu efni, þ.e. að koma á markaðsvöxtum. Þeir segja hér, með leyfi forseta:

,,Félög og félagasamtök svo sem Búseti ættu að hafa sérstakan rétt til að stofna félög um rekstur leiguíbúða til samræmis við hliðstæðan rétt til sveitarfélaga.

Út í hött að fela félagsmálaráðherra með reglugerð hver skuli vera leiga í leiguíbúðum með lánum úr Íbúðalánasjóði. Eðlilegt að miða leigu við raunkostnað hverrar íbúðar.``

Ég man ekki betur en að einmitt Búseti hafi verið með leigu á sínum íbúðum undir þeim kostnaðargrundvelli sem meira að segja Húsnæðisstofnun hefur verið með.

Þeir hafa gert alvarlegar athugasemdir við varasjóð sem koma á í stað núverandi Tryggingarsjóðs, en með honum: ,,... á að færa sveitarfélögunum til eignar, öll framlög í Tryggingarsjóð til þessa frá fjölmörgum félögum og félagasamtökum. Um er að ræða 1% af hverju láni úr Byggingarsjóði verkamanna frá árinu 1990.`` Þetta hafa félagasamtök m.a. lagt í Tryggingarsjóðinn.

,,Þetta getur ekki kallast annað en eignarupptaka``, segja þeir með réttu.

[22:45]

Ég hvet hv. þm. til þess að fara ofan í þessa 42 töluliði hjá Búseta. Mér gefst ekki tími til þess að klára þá yfirferð, svo mikið á ég eftir. Ég vænti þess að hv. þm., sem hafa áhuga á málinu, kynni sér vel umsögnina hér er lögð fram. Og þeir enda á því að segja að annað sé tæplega verjandi en að núverandi starfsmönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins verði tryggð áframhaldandi vinna samkvæmt þessu frv. Í dag fjallaði ég um, herra forseti, mörg opinber fyrirtæki sem breytt hefur verið rekstrarformi á, og hvernig að alls staðar, alltaf gegnumgangandi er ákvæði um forgang starfsmanna til starfa í nýju fyrirtæki.

Öryrkjabandalagið gerir einnig miklar athugasemdir og er það á sama veg og hjá Þaki yfir höfuðið, sömuleiðis Sjálfsbjörg. Þeir benda á það sem þeir með réttu eiga að gera, að þeir hafa áhyggjur af sérlánum fyrir fatlaða. Í Byggingarsjóði ríkisins hefur verið ákveðinn lánaflokkur sem eru sérlán til fatlaðra. Sá lánaflokkur er bara í vindinum, herra forseti. Það verður stjórn Íbúðalánasjóðs framsóknar- og íhaldsmanna sem á að ákveða það hvort þessi sérlán fyrir fatlaða, til breytinga á húsnæði, verði áfram til staðar. Sama áhyggjuefni kemur auðvitað fram í umsögn Öryrkjabandalagsins. Þeir leggja mikla áherslu á að áfram verði kostur á sérstökum lánum til einstaklinga með sérþarfir tryggður með beinni lagatilvísun, svo sem verið hefur í meira en tvo áratugi.

Leigjendasamtökin segja að helst sé að sjá að markaðsstefnu eigi að efla enn meira en verið hefur. Það getur stjórn Leigjendasamtakanna ekki samþykkt enda gengur það þvert á stefnu samtakanna varðandi öruggt húsnæði og leysir engan vanda.

Bandalag háskólamanna gerir að umtalsefni réttarstöðu starfsmanna og fara yfir áhrif frv., sem sem þeir telja að leiða muni til aukinnar gjaldtöku, og fleira mætti nefna í þeirra umsögn.

Og síðan komum við að Félagi einstæðra foreldra en þar segir: ,,Félag einstæðra foreldra leggur eindregið til að afgreiðslu umrædds frumvarps verði frestað til haustsins svo tími gefist til þess að fara betur ofan í fjölmörg atriði sem augljóslega þurfa lagfæringar við. Félag einstæðra foreldra leggur á það áherslu að tíminn til haustsins verði notaður til ítarlegrar yfirferðar frumvarpsins og að höfð verði fyllsta samvinna við þau fjölmörgu félagasamtök sem málið varðar.``

Herra forseti. Ég hef nefnt hér í dag hve athyglisverðar umsagnirnar eru frá húsnæðisnefndum hinna ýmsu sveitarfélaga og það að þær segja allt aðra sögu en umsagnir sveitarfélaga. Húsnæðisnefndirnar eru gagnrýnar á þetta frv. meðan sveitarfélögin eru það ekki. Það kemur mjög á óvart. Fyrst ætla ég að lesa hér, sem ég held að sé nauðsynlegt að komi inn í þingtíðindi, ósk frá Starfsmannafélagi Húsnæðisstofnunar ríkisins. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana hér orðrétt. Það er áskorun starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins til félmrh. frá 18. mars 1998:

,,Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins skorar hér með á hæstvirtan félagsmálaráðherra að hann beiti sér fyrir því að við frumvarp til laga um stofnun Íbúðalánasjóðs verði bætt ákvæði sem tryggi núverandi starfsmönnum Húsnæðisstofnunar sambærileg störf hjá hinum nýja sjóði.

Í lagasetningu um breytingar á starfsemi opinberra stofnana að undanförnu hefur verið að finna ákvæði er tryggja atvinnuöryggi starfsmanna viðkomandi stofnana. Nægir hér að nefna ... stofnun hlutafélaga um rekstur Póst- og símamálastofnunar, ... um stofnun hlutafélags um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, ... um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og loks um Lánasjóð landbúnaðarins.

Í öllum þessum lögum er kveðið á um að allir starfsmenn þeirra sjóða og stofnana sem verið er að breyta eða leggja niður skuli fá sambærileg störf hjá nýjum félögum, stofnunum eða sjóðum sem taka við starfsemi þeirra.

Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins telur að sömu rök hljóti að liggja til þess að tryggja starfsöryggi og nýta starfsreynslu þeirra 49 starfsmanna sem nú starfa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í þágu hins nýja Íbúðalánasjóðs.``

Ég held að mikil ástæða sé til þess að lesa þessa áskorun upp orðrétta. Það markar ákveðin tímamót ef raunin verður sú, herra forseti, að ekki eigi að taka tillit til þess að starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins hafi forgang til starfa, eins og hefur verið nær undantekningarlaust þegar breytt hefur verið um rekstrarform á fyrirtækjum eða breytt þar um umhverfi. Við erum því að fara inn í nýja starfsmannastefnu hjá þessari ríkisstjórn.

Áður en ég hleyp á umsögnum húsnæðisnefnda, herra forseti, vil ég minna á ársfund Landssamtaka húsnæðisnefnda 1997, þar sem húsnæðisnefndirnar eða landssamtök þeirra fella dóm sinn um kerfið sem nú á að loka. Og hver er nú þeirra dómur? Ég fullyrði að húsnæðisnefndirnar í þessu landi þekki mest og best til félagslega kerfisins og framkvæmdar á kerfinu. Og hver er dómurinn, herra forseti?

,,Núverandi löggjöf um félagslegt eignaríbúðarhúsnæði hefur reynst allvel í stærstu þéttbýlisstöðum landsins, þó svo að á einstökum stöðum á landsbyggðinni hafi reynst erfitt að selja félagslegt íbúðarhúsnæði. Ársfundurinn vekur athygli á að á milli 85% og 90% af öllum félagslegum eignaríbúðum ganga eðlilega kaupum og sölu og hafa reynst aðgengilegur íbúðarkostur.``

Þar höfum við það. Ég held að þetta séu samtök sem taka eigi mark á, herra forseti. Þetta er fólk sem dags daglega hrærist í framkvæmdinni á félagslega kerfinu og á að hafa mesta vitneskju og þekkingu á því hvernig þetta kerfi virkar.

Og ef við förum t.d. í umsögnina frá Kópavogsbæ, herra forseti, þá er hún mjög góð. Ég ætla bara að grípa niður í örfáa þætti hennar. Þeir segja:

,,Rætt hefur verið um ör eigendaskipti í félagsíbúðakerfinu og það talið einn af ókostum þess. Öfugt við gagnrýnendur teljum við það jákvæða þróun ef fólk efnast það vel að það sjái sér fært að fara á frjálsa markaðinn og sýni að kerfið sé þess virði og skili því sem ætlast var til. Einnig má benda á að mikið er um að fjölskyldur í félagslegum íbúðum óski eftir stækkun þegar fjölskyldan hefur stækkað.

Ef keypt hefur verið ný íbúð í upphafi þá er nokkuð víst að við sölu hennar verða töluverð afföll af eigninni auk þess sem greiða verður söluþóknun til fasteignasalans auk auglýsingakostnaðar. Enn fremur er rétt að benda á að við þessa kerfisbreytingu verður eignamyndun miklum mun hægari en í núverandi kerfi. Þessi atriði gera því fjölskyldunum erfiðara fyrir að stækka við sig þó full þörf sé fyrir slíkt.

Vegna ákvæða 18. gr. um greiðslumat gerði húsnæðisnefnd Kópavogs könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem höfðu keypt sér íbúðir hjá nefndinni að undanförnu og höfðu staðist greiðslumat miðað við greiðslubyrði 28% af brúttólaunum. Þessar sömu fjölskyldur voru greiðslumetnar miðað við 18% greiðslubyrði af brúttólaunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Kom þá í ljós að aðeins 11 fjölskyldur af þessum 122, eða 9%, hefðu staðist greiðslumat samkvæmt frumvarpinu ...``

Herra forseti. Mér finnst mjög athyglisvert að þegar könnun er gerð hjá 122 fjölskyldum sem fengið hafa félagslega íbúð og greiðslumatið er miðað við það sem er í húsbréfakerfinu, þá hefðu einungis 9% eða 11 fjölskyldur af þessum 122 staðist greiðslumat samkvæmt frv.

,,Þegar skoðaðar voru 186 umsóknir sem borist höfðu undanfarna 14 mánuði kom í ljós að aðeins 6 fjölskyldur hefðu staðist greiðslumat eða 3,3% af umsækjendum. Þessi breyting ein`` --- þessi breyting ein, herra forseti, og bið ég nú að tekið sé eftir því orði sem hér er notað --- ,,mundi valda sprengingu á leigumarkaðnum og afleiðingarnar ekki fyrirsjáanlegar því augljóst er að sveitarfélögin hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir þeirri gífurlegu aukningu leiguhúsnæðis sem þyrfti að verða en í frumvarpinu er ákvæði í 5. gr. þar sem sveitarstjórnir bera ábyrgð á og hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun.``

Hér er, herra forseti, talað um, hvorki meira né minna en sprengingu á leigumarkaðnum. Og síðan er sagt:

,,Á síðastliðnum fimm árum hefur húsnæðisnefnd Kópavogs afhent að jafnaði 49 nýjar íbúðir til umsækjenda auk 56 innlausnaríbúða á ári sem er meðaltal síðustu þriggja ára eða samtals 105 íbúðir á ári.``

Húsnæðisnefndin metur síðan kostnaðinn fyrir Kópavog, ef þetta frv. verður að lögum, og segir:

,,Miðað við að frumvarpið verði samþykkt óbreytt þá er varlega áætluð þörf fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári, næstu 4 árin`` --- eitt sveitarfélag, Kópavogur, segir þörf fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári meðan einungis er gert ráð fyrir 25 leiguíbúðum hjá fjmrh. --- ,,og mun það kosta bæjarfélagið 76 milljónir auk húsaleigubóta sem mundu nema u.þ.b. 4 milljónum. Heildarkostnaður yrði því samtals 80 milljónir á ári.``

Það er gert ráð fyrir 80 milljónum á ári fyrir þetta sveitarfélag miðað við þessa auknu þörf á leiguíbúðum. Ég hefði nú gjarnan viljað sjá, ég man bara ekki hvort til er einhver umsögn frá Kópavogsbæ, þ.e. sérstaka umsögn frá þeim og sér frá húsnæðisnefndinni, eins og víða er. Í umsögunum sveitarfélaganna er gjarnan gengið í þveröfuga átt.

Ef við tökum hér húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar þá segja þeir:

,,Kostnaður við þessa breytingu lendir hins vegar þungt á sveitarfélögunum og því þyngra sem viðkomandi sveitarfélag hefur tekið meiri þátt í uppbyggingu félagslegs húsnæðis fyrir.`` --- Þarna er því blákalt haldið fram að þetta muni lenda mjög þungt á sveitarfélögunum. --- ,,Má leiða að því líkur að dýrar íbúðir muni fyrst og fremst koma til innlausnar, hinar ódýrari muni verða seldar á frjálsum markaði.``

Í umsögninni er spurt hvaða tilgangi ábyrgð sveitarfélaga á viðbótarlánum þjóni og að langstærsti hluti skjólstæðinga húsnæðisnefndar muni verða leigjendur.

,,Að öllu framansögðu virðist ljóst að sveitarfélögunum, og þá helst þeim sem flestar íbúðir hafa fyrir í félagslegu kerfi í dag, er ætlað að borga brúsann við breytingar á núverandi kerfi um félagslegar íbúðir. Húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar getur ekki tekið undir slíkar tillögur.``

Það er því varla hægt að segja að varðandi þetta mál sé eintóm gleði hjá sveitarfélögunum.

[23:00]

Hjá húsnæðisnefndinni á Akureyri kemur margt mjög athyglisvert fram, herra forseti. Þeir segja að erfitt sé að meta ýmsa þætti frv. en jafnframt ljóst að útgjöld Akureyrarbæjar til húsnæðismála muni aukast verulega verði frv. samþykkt óbreytt. Þeir segja:

,,Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að 10% eigið framlag íbúðarkaupanda sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðgangi að lánafyrirgreiðslu til félagslegrar eignaíbúðar og þeim sem ekki eiga sparnað til íbúðarkaupa er ætlað að fara áleigumarkað. Félagslegri jöfnun verður hætt annarri en með vaxtabótakerfinu.``

Þeir meta hér áhrif breytinganna, herra forseti, og segja um áhrifin á kaupendur og seljendur:

,,Hvaða áhrif hefur breytingin á hag notenda, sem eru kaupendur og seljendur félagslegra íbúða? Ljóst er að kaupskylda sveitarfélaga er mikil trygging fyrir þá sem kaupa sér félagslegar íbúðir ekki síst fyrir þá sem búa úti á landi þar sem markaðsverð hefur farið lækkandi og er undir byggingarkostnaði. Hægt er í dag að selja félagslegar íbúðir með litlum fyrirvara. Verðlækkunin á nýbyggingu á almennum markaði er hröðust fyrstu árin. Verðlag á íbúðum á almennum markaði hefur ekki haldið í við lánskjaravísitölu á síðustu árum.``

Síðan segir í sömu umsögn:

,,Ekki má líta fram hjá því að þeir sem kaupa félagslegar íbúðir eru eignalitlir og tekjulágir og hafa ekki efni á að axla þá áhættu sem fylgir sveiflum á markaðsverði á íbúðum. Þegar lánshlutfall er orðið 90% þá þarf ekki mikið út af að bera til þess að aleigan og oft margra ára sparnaður sé horfinn og jafnvel að höfuðstóllinn sé orðinn negatífur.

Ef allt verður sett á frjálsan markað er líklegt að verð á ódýrari íbúðunum hækki vegna aukinnar eftirspurnar. Oft eru það íbúðirnar sem eru í verstu ástandi. Fjölskyldurnar sem eru að kaupa þessar íbúðir eru oftast með minnstu greiðslugetuna og hafa því ekki efni á að gera nauðsynlegar endurbætur. Til þess að ráðst í endurbætur þarf að taka bankalán. Við það eykst greiðslubyrðin verulega og það sem verra er oftast eykst verðgildi íbúðarinnar í litlu hlutfalli við þá fjármuni sem eytt er í endurbætur og því getur þurft að greiða með íbúðinni í sölu.``

Þeir segja að yfir 60% umsækjenda hjá húsnæðisnefnd Akureyrar eigi lítið upp í útborgun. Á mannamáli þýðir það einfaldlega, herra forseti, að 60% umsækjenda hjá Akureyrarbæ fá ekki inni í þessu kerfi. Þeim er vísað á leigumarkaðinn og Akureyrarbæ sem á að sjá um að útvega þeim leiguhúsnæði. Síðan er farið yfir áhrif breytingarinnar á greiðslugetu og eignamyndun, þar segir:

,,Ljóst er að hér er verið að þrengja verulega möguleika fjölskyldna og einstaklinga á að kaupa sína eigin íbúð og tryggja sér þannig öryggi í húsnæðismálum. Þegar vextir hækka minnkar afborgunarhluti í greiðslu fyrstu árin og vaxtahluturinn verður meiri, sem þýðir að eignamyndunin verður hægari.``

Þarna kemur það aftur, þvert á það sem hæstv. ráðherra heldur fram, að talað er um að eignamyndunin verði hægari.

,,Fyrning í félagslega kerfinu í dag er 1% og ætla má að það sé lágt miðað við raunveruleikann hér á Akureyri.``

Og síðan segja þeir:

,,Ef vextir verða hækkaðir í 5,1% og vaxtabætur verða óbreyttar kallar það í flestum tilvikum á lægra greiðslumat og meiri greiðslubyrði hjá einstaklingum og fjölskyldum. Það sem gerist er að vaxtagreiðslur tvöfaldast og kaupendur þurfa að borga alla vexti umfram hámarkið í vaxtabótum.``

Þarna kemur kjarni málsins. Kaupendur þurfa að borga alla vexti umfram hámarkið í vaxtabótum.

,,Í dæmunum hér á eftir sést að mestu munar í greiðslubyrði fyrsta árið þó að munurinn sé í flestum tilfellum allan lánstímann mikill, ef litið er á hann sem hlutfall af tekjum viðkomandi. Enn meiru munar ef reiknað er með að taka þarf lán fyrir 10% útborgun, sem meiri hlutinn af kaupendum þarf að gera að einhverju marki.``

Því næst er fjallað um um kostnaðinn og þar segir:

,,Ljóst er að lántöku- og stimpilkostnaður fæst sjaldan endurgreiddur í vaxtabótum, þar sem hámarksendurgreiðslu er náð.``

Menn eru það fljótir upp í þakið að vaxtabæturnar taka ekki við þeim kostnaði sem er af lántöku og stimpilgjaldi.

Hér er síðan athyglisverð tafla frá húsnæðisnefnd Akureyrar sem full ástæða væri, herra forseti, til þess að fara svolítið ítarlega yfir hér. Þar er það útskýrt hvernig greiðslubyrðin kemur út, fyrir og eftir breytingu. Hér kemur fram allt önnur mynd heldur en dregin er fram í frv. ráðherrans, herra forseti. Hér er talað um kaupverð íbúðar upp á 5 millj. og launin séu 70 þús. kr. Við getum bara tekið fyrsta árið. Fyrir breytingu er greiðslubyrðin 50.400 kr. og eftir breytingu 124.900 kr. Ef við tökum þriðja árið þá er hún 115 þús. að teknu tilliti til vaxtabóta fyrir breytingu, og eftir breytingu 124 þúsund. Þannig mætti áfram rekja þetta, herra forseti. Það getur munað 20, 30, 40 og upp í 50 þús. kr. í greiðslubyrði. Síðan er því haldið fram af hæstv. ráðherra að hér sé verið að lækka greiðslubyrði fólks. Það er auðvitað fjarstæða.

Þá er sagt, herra forseti:

,,Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra heimilt með reglugerð að ákveða hámark leigugjalda. Í dag eru í gildi reglur um hámark leigugjalds á félagslegum íbúðum. Inn í það leigugjald má ekki reikna álag vegna leigutaps. Væri ekki réttara að framlag sveitarfélaga inn í varasjóð sé ætlað til að standa undir hugsanlegu leigutapi vegna leiguíbúða sveitarfélaga?``

Þarna koma fram efasemdir um það til hvers á að nýta þennan varasjóð. Því næst skoða þeir hve mikið þurfi að fjölga leiguíbúðunum miðað við áhrifin af þessu frv. Niðurstaða þess liggur fyrir. Við töluðum um að í Kópavogi væri þörf fyrir 75 íbúðir á ári og hér er sagt:

,,Um 100 fjölskyldur og einstaklingar kaupa íbúðir á ári í félagslega kerfinu á Akureyri. Um þriðjungur á eitthvað upp í útborgun eða að meðaltali 450 þúsund. Ef við gerum ráð fyrir að þeir sem ekkert eiga upp í útborgun þyrftu á leiguíbúð að halda eftir breytinguna þá þyrfti Akureyrarbær að fjölga leiguíbúðum um 60 á ári.``

Það eru 60 leiguíbúðir á ári á Akureyri. Þær voru 75 í Kópavogi. Hins vegar eru aðeins 25 íbúðir til ráðstöfunar.

,,Næstu árin kostar það um 42 milljónir í útborgun og um kr. 9 milljónir í lántökukostnað miðað við að íbúðarverð sé að meðaltali kr. 7 milljónir. [Þ.e. þessar 60 leiguíbúðir sem þeir þurfa að byggja.] Síðan þarf að greiða leigutap. Ætla má að leigutap geti numið 5--10% af leigutekjum. Þar getur verið um að ræða háar fjárhæðir á ári. Mörg sveitarfélög eru að greiða verulegar fjárhæðir með íbúðum sem eru í leigu í félagslega kaupleigukerfinu bæði vegna afskrifta á húsaleigu hjá þeim sem ekki borga og viðhaldsþáttar sem reikna má inn í leiguverð.``

Þannig að þetta er nú allt á sömu bókina lært. Ég held að það verði varla annað sagt en að þessar athugasemdir frá húsnæðisnefndum Akureyrar, Kópavogs og Hafnarfjarðar, að viðbættri athugasemd frá húsnæðisnefnd Reykjavíkur, séu mjög alvarlegar, herra forseti. Og mér finnst nokkuð merkilegt að ekki skuli vera tekið meira tillit til þeirra athugasemda sem hér koma fram, herra forseti.

Þegar húsnæðisnefnd Reykjavíkur er búnin að skoða hve mörg lán hafi verið afgreidd að undanförnu þá segja þeir:

,,Ætla má að þessir viðskiptavinir stofnunarinnar hefðu ekki átt aðgang að því lánafyrirkomulagi sem frumvarpið kveður á um.``

En þeir segja að árið 1997 hafi húsnæðisnefnd Reykjavíkur afgreitt 111 íbúðir með viðbótarláni eða 100% láninu og þeir segja:

,,Af þessum tölum má áætla að í Reykjavík þurfi að fjölga leiguíbúðum um a.m.k. 180 árið 1999.``

Þá erum við komin með 180 íbúðir í Reykjavík, 75 íbúðir í Kópavogi, og voru þær ekki 60 á Akureyri? Við erum komin hér með 300 leiguíbúðir, herra forseti, í þremur sveitarfélögum, sem þeir segja að þurfi á næsta ári --- til viðbótar biðlistunum. Til viðbótar biðlistunum er við þessa breytingu talað um 300 íbúðir, í Reykjavík, Akureyri og Kópavogi.

Þær eru ekki til, herra forseti. Þær eru ekki til, þessar 300 íbúðir sem Kópavogur, Akureyri og Reykjavík eru að biðja um. Þeir segja að að það vanti 300 íbúðir eftir þessa breytingu. Þær eru ekki til. Er þá eitthvað skrýtið þó að við í stjórnarandstöðunni segjum að það sé verið að vísa láglaunafólki hérna út í kuldann? (Gripið fram í: Það eru til 25.) Já, 25 standa til boða en í þrem sveitarfélögum er beðið um 300 á næsta ári, bara út af breytingunum á þessu kerfi, fyrir utan biðlistana sem alls staðar eru.

Félmrh. hefur engar áhyggjur af málinu. Hann heldur því bara sífellt fram að þetta sé betra kerfi, lægri greiðslubyrði og betra fyrir láglaunafólk á Íslandi.

En það er auðvitað fjarstæða. Hérna er kallað eftir 180 íbúðum árið 1999 bara í Reykjavík einni saman út af þessu frv. hér. Ég veit ekki hvað eru margir í Vestmannaeyjum. Akureyri bað um 60. (Gripið fram í: Þessu gæti ég trúað.) Kópavogur bað um 75. Það eru 25 til skiptanna. Ekki veit ég hvernig á að fara að því að skipta 25 íbúðum, þó ekki væri nema bara milli þessara þriggja sveitarfélaga þegar þörfin er 300, bara út af frv.

Það er eins gott að lesa það hér skýrt af því að sveitarfélögin voru öll svo ánægð með þetta frv. á fulltrúaráðsfundinum á Egilsstöðum. Hér segir, í umsögn húsnæðisnefndar Reykjavíkur:

,,Þá vill húsnæðisnefndin benda á að eins og frumvarpið er úr garði gert í dag er hætta á stórauknum útgjöldum sveitarfélaga í væntanlegan varasjóð vegna fjölgunar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga.``

Þá er ekki verið að tala um aukninguna sem verður vegna húsaleigubótanna. Það er annar þáttur í þessu máli. Sveitarfélögin eru bara afskaplega ánægð. Ég held að þeim hafi verið seld svikin vara. (EKG: Ekki húsnæðisnefndirnar. Þær vita hvað þetta þýðir.) Þær vita hvað þetta þýðir. Ég held nefnilega að félmrh. sé að selja sveitarfélögunum svikna vöru sem þau standi uppi með þegar þau átta sig á málinu. (Gripið fram í: Hvernig taka þeir þessu á Blönduósi?)

(Forseti(GÁ): Þetta er samtal í þingsal.)

Ja, ég er ekki hér með neina umsögn frá húsnæðisnefndinni á Blönduósi en það væri fróðlegt að vita hvað þeir segðu um þeta mál.

Og hér koma fulltrúarnir frá verkalýðshreyfingunni fram á völlinn í kringum 1. maí og spyrja: ,,Á að rústa félagslega húsnæðiskerfið?`` Þeir færa fram rök fyrir því. Þeir sem skrifa undir þessa ítarlegu umsögn sem ég fór yfir áðan eru Guðmundur Vignir Óskarsson og Kristján Gunnarsson og síðan Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur BSRB, sem talar um að stórum hópi láglaunafólks verði úthýst og segir:

,,Þrátt fyrir fögur orð er ekkert sem tryggir að ríki og sveitarfélög muni taka á sig kostnað við niðurgreiðslu húsaleigu.`` Það er viss hætta á því að kostnaðurinn lendi bara beinustu leið á leigjendunum og hækki leiguna.

Síðan segja fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar að fyrst og fremst sé verið að taka á vanda húsnæðiskerfisins sjálfs og nokkurra sveitarfélaga en ekki á vanda þess fólks sem kerfið á að þjóna. Þannig er það í hnotskurn. Auðvitað er freistandi að lesa upp þessar greinar. Það er freistandi að lesa upp þessar greinar vegna þess að þeir hafa mikið til síns máls. Ég hef farið yfir umsögn verkalýðshreyfingarinnar þannig að ég ætla ekki að gera það hér að sinni.

[23:15]

Herra forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að nauðsynlegt væri, ef í það stefndi að fara ætti að jarðsetja félagslega húsnæðiskerfið og loka því, að fara aðeins yfir þegar félagslega kerfinu var komið á 1929. Ég ætlaði einnig að ræða hér og fara yfir það þegar húsnæðislöggjöfinni var breytt 1990 og 1993 og hvað framsóknarmenn höfðu þá að segja um þetta mál, en það má vera að ég bíði með það vegna þess að ég má tala tvisvar en ætla aðeins að víkja að umræðum sem urðu á Alþingi 1929. Áður en ég byrja þá yfirferð er rétt að halda til haga hvernig framsóknarmaðurinn og félmrh. Páll Pétursson talar til verkalýðshreyfingarinnar sem var meira virt af framsóknarmönnum áður fyrr. Hæstv. ráðherra félagsmála segir:

,,Það er náttúrlega spurning hvar eðlilegt er að verkalýðshreyfing komi að húsnæðismálum.`` Hann hefur sem sagt lítinn áhuga á því að verkalýðshreyfingin sé með nokkrum hætti að koma að húsnæðismálunum.

Eins og allir vita var það fyrst og fremst Héðinn Valdimarsson sem beitti sér fyrir stofnun á félagslegum íbúðum og færði fram fyrir því margvísleg rök, herra forseti. Hverjir voru það sem börðust þá gegn því kerfi á sínum tíma? Það var auðvitað Sjálfstfl. Í frv. til laga um verkamannabústaði frá 1928 segir:

,,Samkvæmt ákvæðum þessara laga styrkir ríkissjóður, með fjárframlagi og með ábyrgðum fyrir lánum, kaupstaði landsins til að koma upp húsnæði fyrir verkamenn sína.`` Þar var lagt til að ríkissjóður leggi fram 1/10 hluta kostnaðar sem styrk til íbúðarhúsabygginga með ákveðnum skilyrðum sem þar voru upp talin.

Í greinargerð, sem er ekki löng, segir svo:

,,Frumvarp þetta var borið fram í neðri deild Alþingis í fyrra vetur, en varð ekki útrætt þá. Það er að mestu leyti óbreytt nú og vísast til greinargerðarinnar að fyrra frumvarpinu að öðru leyti en því, sem á eftir fer.

Mesta nauðsynjamálið fyrir verkalýðinn í bæjunum er að fá hollar og ódýrar íbúðir með þægindum nútímans, í stað hinna lélegu og dýru húsakynna sem alþýðan verður nú að hafast við í. Eins og efnum fjöldans er háttað mun það seint takast og erfitt vera að koma skipulagi á þau mál nema hið opinbera, ríki og bæjarfélög, gangist fyrir því að veita aðstoð sína á svipaðan hátt og gert er víðast hvar annars staðar í menningarlöndum. Það er víðast viðurkennd skylda bæjarfélaganna að sjá um að húsnæði í bænum sé sómasamlegt og hjálpi þeim stéttum sem verst eru staddar til þess að fá viðunandi húsakynni. En engu að síður er þetta mikilsvert fyrir allt þjóðfélagið í heild og taka ríkin því venjulega nokkurn hluta kostnaðarins á sig. Eftir að hið opinbera hefur lagt eins mikið í sölurnar fyrir viðreisn sveitanna, ræktun þeirra og nýbyggingar, eins og gert hefur verið á síðustu þingum og ætlast er til að gert verði á þessu þingi, verður erfitt að mæla í gegn hinni almennu kröfu alþýðunnar í bæjunum um opinbera aðstoð til þess að koma upp heilnæmum og ódýrum verkamannabústöðum. Kostnaður sá, sem ætlast er til að ríki og bæjarsjóðir hafi af þessum byggingum, er lítill í samanburði við þau feikna áhrif sem þær mundu hafa á vellíðan og heilbrigði alþýðunnar.``

Síðan segir: ,,... kemur fram að yfirleitt sé flest fólkið í minnstu íbúðunum, og þær eru að öllu leyti verst úr garði gerðar.``

Síðan segir:

,,Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur nýlega látið fara fram húsnæðisrannsókn í bænum. Endanlegar skýrslur eru ekki tilbúnar en þó má sjá af þeim gögnum, sem fyrir liggja, að húsnæði verkalýðsins er yfirleitt bæði lélegt, óheilnæmt og dýrt og vantar flestöll þau þægindi sem bæirnir hafa veitt öðrum stéttum.

Í þessum skýrslum er tilgreint að af 4.600 íbúðum voru 646 ekki með eldhúsi, með aðgang að eldhúsi 770 og með eldhúsi 3.200. Og af frekari upplýsingum um þessar 4.600 íbúðir má geta að af þeim voru 843 í kjallara og 929 undir súð.

Því miður eru skýrslur enn ekki tilbúnar um þéttbýlið í íbúðunum en þar kemur fram að yfirleitt er flest fólk í minnstu íbúðunum og þær eru að öllu leyti verst úr garði gerðar. Af þessu litla yfirliti sést þó að af um 4.600 íbúðum eru um 2.500 minni en þriggja herbergja en í nágrannalöndunum þykja minni íbúðir en þriggja herbergja íbúðir fyrir barnafjölskyldur vera með öllu óviðunandi. Af þessum 2.500 íbúðum eru um 1.300 eða rúmur helmingur sem annaðhvort aðeins hafa aðgang að eldhúsi eða vantar algjörlega eldhús. Af íbúðunum eru alls um 1.800 í kjöllurum eða undir súð og munu þær flestallar vera með öllu óviðunandi ...``

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara að lesa allar þær umræður sem urðu nokkuð langar þegar var verið að koma félagslega íbúðakerfinu á sem komið var á í mikilli andstöðu við Sjálfstfl. en í góðu samkomulagi Alþfl. og Framsfl. Flutningsmaður, Héðinn Valdimarsson, sagði:

,,Það er óhætt að fullyrða að það er fátt hægt að gera verkamönnum meira til hagsbóta heldur en að hjálpa þeim til að eignast gott og ódýrt húsnæði. Sú stefna er nú að hjálpa sveitabændum með að rækta jörðina og byggja bæina upp. En hliðstætt því er að hjálpa verkamönnum í kaupstöðum til að eignast hæfileg húsakynni. Og þótt húsakynnin séu víða léleg til sveita, þá eru þó ýms þau húsakynni, sérstaklega kjallara- og þakherbergin, sem verkafólk í kaupstöðum verður að notast við, bæði fullorðnir og börn, mjög léleg. Og ef tryggja skal nokkurn veginn þroska og heilsu kynslóðarinnar, er nauðsynlegt að bætt sé úr þessu.

Nú er það víst að verkamenn eru ekki svo efnum búnir að þeir geti byggt yfir sig af eigin rammleik. Er því með frv. þessu farið fram á að ríkissjóður og bæjarfélög styðji þá til þess. Ætlast er til að bæjarfélögin láti gera sambyggingar í þessu skyni og selji síðan verkafólki þær fyrir það verð sem þær kosta uppkomnar, að frádregnum ríkissjóðsstyrknum eða 10%.``

Í frv. er ætlast til að hver fjölskylda fái tveggja til þriggja herbergja íbúð auk eldhúss. Það var nú stefnan 1929. En mér sýnist, herra forseti, á því sem hér er boðað, að einstæðir foreldrar með tekjur upp á kannski 70--80 þúsund megi ekki kaupa sér þriggja herbergja íbúðir. Hérna var samt stefnan sú 1929 að það er ætlast til að hver fjölskylda fái tveggja til þriggja herbergja íbúðir en samkvæmt þeim útreikningum sem eru í frv. og vaxtabótakerfinu og þeim hugmyndum sem uppi eru er verið að færa einstæða foreldra, t.d. með tvö, þrjú börn niður í tveggja herberja íbúðir. Íbúðirnar geta ekki verið stærri ef einstæðir foreldrar eiga að eignast þessar íbúðir. Við erum því kannski svolítið að hverfa til fortíðar, herra forseti, í ljósi þess.

Síðan segir:

,,En við nánari athugun tel ég að lágmarkskröfur fjölskyldu þurfi að vera þrjú herbergi auk eldhúss.``

Og síðan segir hér:

,,En nú hefur allmikið verið byggt hin síðari ár svo nú mun svo komið að efnamenn og millistétt hafi viðunandi húsnæði. En þessar byggingar hafa ekki verið gerðar með þörf verkafólksins fyrir augum. Jafnframt munu betri íbúðir hafa lækkað nokkuð, en aftur íbúðir þær, kjallarar og þakherbergi, sem fjöldi verkamanna verður að sætta sig við, eða aðrar lélegri íbúðir hafa ekki lækkað --- jafnvel hækkað. Og lítil von er um að það lagist af sjálfu sér því ávallt fjölgar fólki hér, bæði af mannfjölgun bæjarins sjálfs og innflutningi.``

Og hér hefur tekið til máls undir þessari umræðu forsætis- og atvinnumálaráðherra Tryggvi Þórhallsson. Og hann hafði það til málanna að leggja að hann segir:

,,Ég verð þegar að geta þess, að hér er um stórt mál að ræða og það er þess vegna fyllilega vert að gera grein fyrir því með ítarlegri ræðu.``

Og hann segir: ,,Ekki verður því neitað að bæði í þessum bæ og sennilega í nokkrum fleiri bæjum er svo mikil þörf að hjálpa þeim eru minni máttar til þess að fá viðunandi húsaskjól.``

Tryggvi Þórhallsson mælti eindregið með þessu. Forsætis- og atvinnumálaráðherrann taldi málið það stórt að hann taldi ástæðu til að taka þátt í því þegar verið var að koma hér upp félagslegu húsnæðiskerfi þó forsrh. á Íslandi sé ekki viðstaddur þegar verið er að loka félagslega húsnæðiskerfinu og sjái enga ástæðu til að leggja orð í belg. Það var aftur á móti allt annað 1929 þegar Tryggvi Þórhallsson forsrh. sá ástæðu til þess að taka þátt í þeim umræðum þegar var verið að koma félagslega íbúðakerfinu á undir forustu Alþfl. Hann vísar í 1. gr.:

,,Með 1. gr., eins og ég legg til að hún verði, er tvennu slegið föstu sem er ólíkt því er frv. gerir ráð fyrir. Fyrst því að ekki skuli eingöngu lánað óbreyttum verkamönnum heldur skuli ákvæði greinarinnar líka ná til starfsmanna ríkis og bæjar. Vil ég í þessu sambandi minna á það að auk þess sem þessar tillögur um að styrkja verkamenn til bygginga hafa komið fram þá hafa starfsmenn ríkisins einnig óskað þess að ríkið veitti þeim aðstoð sína til þess að byggja yfir sig.``

Þarna var um það að ræða hversu víðtækt þetta frv. ætti að vera. Síðan komu íhaldsmenn hver á fætur öðrum. Hákon Kristófersson, sem var frsm. minni hlutans, sagði:

,,Ég hef eiginlega litlu við nál. okkar á þskj. 480 að bæta. Held ég að mér sé óhætt að fullyrða það að hvorugur okkar, sem erum í minni hluta, sé á móti því að æskilegt væri að hægt væri að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum sem eru í kaupstöðunum og þá kauptúnum líka. En einhvers staðar hljóta að vera takmörk fyrir getu ríkissjóðs. Og ef það á að afla þess fjár, er þarf til þessara bygginga á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir, eða samkvæmt till. hæstv. atvmrh., sem sjá má á þskj. 429, þá hlýtur það að hafa í för með sér stóraukin útgjöld ríkissjóðs. Efumst við því stórlega um það, að gjaldamöguleiki hans sé svo mikill að hann geti þolað þetta.``

Það er ávallt það sama sem íhaldið grípur til, eins og þeir gera 1929 þegar verið er að ræða einhverja aðstoð við þá verst settu í þjóðfélaginu þá er alltaf talað um að ekki séu til peningar vegna þess að málefni þessa fólks hafa engan forgang hjá íhaldinu. Þess vegna er hæstv. félmrh. náttúrlega nokkur vorkunn, ég viðurkenni það. En hann á bara að standa betur í ístaðinu gegn íhaldinu. (Gripið fram í: Er félmrh. farinn að ganga erinda íhaldsins?) Ja, mér sýnist það þegar ég les stefnu Sjálfstfl. að þeir séu bara búnir að taka hana upp algjörlega hráa. (Gripið fram í: Þeir töluðu nú um ,,fólk í fyrirrúmi``.) Já, sú var tíðin að talað var um ,,fólk í fyrirrúmi``.

Síðan heldur Hákon Kristófersson áfram og segir:

,,Það eru gullvæg sannindi að gott væri að hjálpa sem flestum kaupstaðarbúum til þess að eignast bletti umhverfis hús sín. En mér er spurn á því hve margir grænir blettir muni koma í ljós þó þetta frv. verði samþykkt.``

Þeir höfðu það fram að færa, íhaldsmennirnir á þeim tíma, að þetta mundi leiða til þess að fólk úr sveitum færi að flykkjast hingað til Reykjavíkur ef það ætti að fara að veita þessa fyrirgreiðslu.

Hér er Halldór Stefánsson, væntanlega úr Framsfl. ef ég hef það rétt, sem segir:

,,Ég skal fúslega játa að það er athugunarvert mál, sem frv. þetta fjallar um. Það er mál sem hefur bæði menningarlega, heilbrigðislega og mannúðlega þýðingu, að allir íbúar landsins eigi kost á að búa í góðum híbýlum.``

Þetta er nefnilega alveg hárrétt hjá honum. Það hefur bæði heilbrigðislega og mannúðlega þýðingu að allir íbúar landsins eigi kost á að búa í góðum híbýlum. Það er það sem við erum að hverfa frá núna með þessu frv. (Gripið fram í: Nú brosir félmrh.) Já, mér er ekki hlátur í huga, herra forseti, þó að hæstv. ráðherra telji ástæðu til þess að hlæja eða brosa yfir þessum ósköpum sem eru að dynja yfir. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því hvað er á ferðinni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann farið yfir allar þær umsagnir sem hér hafa komið fram, t.d. frá húsnæðisnefndnunum? (Félmrh.: Já, já, já.) Ég hef enga trú á því að hæstv. ráðherra, þó hann segi já, já, já, hafi farið yfir það. Og það sem ég á hér eftir, ég man það allt í einu þegar ég heyrði í ráðherranum, er að fara yfir röngu svörin hans frá síðasta þingi sem ég hefði sennilega gleymt ef ég hefði ekki heyrt í ráðherranum hérna fyrir aftan mig um leið og ég sagði að ég tryði ekki því sem hann er að segja.

[23:30]

Herra forseti. Margir tóku hér til máls, t.d. Gunnar Sigurðsson. Var hann ekki framsóknarmaður, er það ekki rétt, frá Selalæk? Síðan kom hér Pétur Ottesen frá íhaldinu. Og hann segir, með leyfi forseta:

,,Engum dettur í hug að neita því að æskilegt væri að hagur landsmanna stæði þannig að þeir gætu notið góðra húsakynna og enn fremur að sem flestir ættu kost á að hafa hina grænu og lifandi náttúru umhverfis sig, en það verður að gæta þess að spenna ekki bogann svo hátt í þessu efni að einmitt þeir sem hafa þess mesta þörf að greitt sé fyrir í þessu efni séu ekki útilokaðir frá þessum atbeina með því að gera byggingarnar svo kostnaðarsamar að þeir fái ekki rönd við reist.``

Íhaldið hafði sem sagt allt á hornum sér þegar þessu var komið á. (Gripið fram í: Íhaldið hefur ekkert breyst.) Ekkert breyst.

Magnús Guðmundsson held ég að hafi verið fjmrh. þá hjá íhaldinu. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Þetta er þýðingarmikið mál og stórt mál --- það verður að viðurkenna --- hin fjárhagslega hlið þess stórfellt atriði og athugavert. Það er beinlínis grettistak fyrir þjóðina ef hún ætlar að taka að sér að byggja upp í kaupstöðum á þann hátt sem ætlast er til með þessu frv. Enda er ég viss um það að þegar ekki verður hægt að fara lengra en þessi lög heimila þá verður fitjað upp á nýju og heimtað meira af því opinbera til framhalds í sömu átt.``

Tónninn var því sá sami hjá íhaldinu að því er þetta varðar. Þeir tala um útgjöldin sem þá voru í þessu sambandi, með leyfi forseta:

,,70--100 þúsund króna föst, árleg útgjöld úr ríkissjóði til bygginga í kaupstöðum; en ég er svo þröngsýnn að ég álít að þó að unnt sé að veita slíka fjárhæð í því góðæri sem nú er þá getur það komið fyrir að erfitt verði fyrir ríkissjóð að inna af hendi lögákveðnar greiðslur og einhvers staðar verður að stöðva hinar föstu útgjaldakvaðir í fjárlögum.``

Þetta er gamalkunnugt. Við heyrum hið sama hér í þingsal enn í dag þegar rætt er um að bæta stöðu láglaunafólksins. Ólafur Thors sá ástæðu til þess að taka þátt í þessari umræðu. Mér finnst það athyglisvert hve mikið af forustumönnum þessara flokka hefur séð ástæðu til þess. En hér segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur mikið verið talað um þetta fv. í þessari hv. deild og mér hefur heyrst að menn séu sammála um að hér sé stórmál á ferðinni. En ég lít talsvert öðrum augum á það.

Að menn tala um þetta frv. sem stórmál kemur líklega til af því að flestir játa að margar íbúðir hér í bæ eru með öllu óboðlegar. En hér er ólíku blandað saman. Það er tvímælalaust að margar íbúðir eru ónothæfar en hitt er jafntvímælalaust að þetta frumvarpskríli hv. 2. þm. Reykv. ræður enga bót á því meini. Þvert á móti er líklegt og jafnvel víst að afleiðingarnar verða gagnstæðar því sem til er ætlast.``

Og áfram segir Ólafur Thors, með leyfi forseta:

,,En þó að ég játi að hér í bæ sé búið í þeim íbúðum sem ekki eru mannabústaðir`` --- hann viðurkennir þó að það séu ekki mannabústaðir --- ,,og viðurkenni að sjálfsagt sé að greiða úr því máli þá er hitt víst að frv. þetta sem hér liggur fyrir er dvergvaxið og vita gagnslaust ...``

Og síðan segir Ólafur, með leyfi forseta:

,,Að vísu fá væntanlegir kaupendur húsanna gefins 1/3 byggingarkostnaðar en það eru aðeins fáir menn og ekki þeir fátækustu. Þeir eru útilokaðir frá þessum vildarkjörum með því fyrirmæli frv. að kaupandi greiði í peningum 15% af byggingarkostnaði. Hins vegar er hætta á því að slík afskipti hins opinbera dragi úr framtaki einstaklingsins til bygginga og verður þá niðurstaðan af slíkri löggjöf almenningi til skaða. Ef miðað er við byggingar síðari ára er gagnsemi slíkrar löggjafar að engu orðin ef framtak einstaklingsins minnkar um 1/100 hluta. Af þessu sést að það er a.m.k. líklegt að óhætt sé að fullyrða að afleiðingar þessa frv. séu þær að nokkrir einstaklingar --- þó ekki þeir fátækustu --- fái gefins 1/3 hluta byggingarkostnaðar húsanna en aðrir bæjarbúar gjalda þess með því að verða að greiða hærri húsaleigu.``

Nokkru síðar segir Ólafur:

,,Ég býst ekki við að hæstv. ráðherra hafi séð að hann batt ríkissjóði með þessu fimmfalt þyngri bagga en flm. ætlaðist til en sveitamannshjarta hans fékk kaupstaðarsting er hann sá þessi mörgu fátæku börn ganga fram hjá eins og hann lýsti í svo skáldlegri ræðu. ... Eina ráðið sem dugir er að útvega góð lán handa þeim sem vilja byggja því að þá mundi verða meira um byggingar en húsaleiga lækka að sama skapi.``

Hérna kemur stefna íhaldsins fram. Það eru byggingar, það eigi bara að byggja og enga sérstaka aðstoð á að þurfa fyrir þá sem eru verst settir.

Frsm. meiri hlutans, Héðinn Valdimarsson sagði, með leyfi forseta:

,,Það frv. sem ég flutti er að mestu sniðið eftir sams konar löggjöf í nágrannalöndunum og gengur í þá átt að ríkið og bæirnir leggi fram fé til þess að styrkja fátæka verkamenn til að koma upp bústöðum handa sér. ... Ég hef verið því hlynntur að ríkið hlaupi undir bagga við þessar byggingar en það er alger misskilningur að það eigi að styrkja efnaða menn heldur er tilætlunin einungis sú að koma á eins konar veðdeild sem styrki hina fátækustu að hjálpa sér sjálfir og eignast íbúðir sínar. Með hverju ári verður hægara fyrir millistéttina, sem getur borgað 150--200 kr. mánaðarleigu, að fá sér íbúðir, en íbúðum handa öreigunum sem ekki geta borgað meira en 50--60 kr. á mánuði fjölgar ekki. Það er líka svo hér í Reykjavík, eftir húsnæðisskýrslunum að dæma, að fjöldi fjölskyldna býr í þvílíkum íbúðum að þær eru ekki einu sinni nothæfar fyrir harðgerða karlmenn á besta skeiði, hvað þá heldur fyrir konur og börn. Hvað sem hv. þm. vill segja um kjör verkamanna þá hygg ég að það byggist ekki á nánum kynnum sem hann hefur af þeim enda mun hann ekki þekkja frekar til þeirra en það að hann mætir þeim á götu og kann að hafa lánað einhverjum fáum útvöldum peninga í bili.``

Herra forseti. Það mætti hafa mörg orð um þessar ræður og fara ítarlega yfir þær. Það voru ansi margir þingmenn sem á sínum tíma töldu ástæðu til þess að fara ítarlega yfir þetta frv. sem Héðinn Valdimarsson lagði fram, m.a. Haraldur Guðmundsson Alþfl. Hann svaraði raunverulega þeim rökum sem fram komu hjá íhaldsmönnum og sagði, með leyfi forseta:

,,Þau eru allbrosleg rökin íhaldsmannanna gegn frv. þessu. Allir fullvissa þeir þingheim um að þeir vilji allt gera til að bæta úr húsnæðisvandræðunum, en það er sama á hvaða umbætur er bent, allt á það að vera ómögulegt. Af þessu verða þær ályktanir einar dregnar að fagurmælin séu yfirskyn eitt og þeir séu ráðnir í því að leggjast á móti málinu. En forsendur þeirra eru sín úr hverri áttinni að vanda og ósamrýmanlegar.``

Og síðan segir Haraldur, með leyfi forseta:

,,Það er því alveg víst að frv. þetta bætir verulega úr fyrir bæjarbúum þótt hins vegar engin hætta sé á að fólk streymi til kaupstaðanna og sveitirnar tæmist af þeim sökum.``

Og hann bætir við, með leyfi forseta:

,,Sú röksemd, að fátæklingarnir sem búa í heilsuspillandi híbýlum í bæjunum eigi rólegir að sætta sig við þau af því að einhvers staðar uppi í sveitum sé enn hægt að finna jafnvel verri hreysi, er engum siðuðum manni samboðin. Það er furðulegt blygðunarleysi að ætla að réttlæta sig með þessu. Eins og verkamenn og sjómenn sem búa við okurleigu í rökum, dimmum, köldum og heilsuspillandi kjallaraholum með fjölda barna sé nokkur bót í því þótt léleg húsakynni séu til enn þá einhvers staðar í sveitum landsins. Það er til vansæmdar þessari hv. deild að slíkt skuli hér fram borið sem rök.``

Og hann bætir við síðar í ræðu sinni, með leyfi forseta:

,,Fátæklingarnir verða að sætta sig við að hírast í þeim skotum sem eigendurnir nota ekki eða vilja ekki nota. Þetta er bæjarskömm og bæjarvoði og úr þessu er skylda ríkis og bæjar að bæta.``

Haraldur hefur greinilega haldið mjög langa ræðu því enn heldur hann áfram og segir, með leyfi forseta:

,,Ef þessir menn hefðu ekki hugsað um að hafa kjallara og súðarherbergi til að leigja öðrum þá hefðu þeir getað dregið mikið úr byggingarkostnaði, haft húsin við sitt hæfi en ekki byggt þau til að græða á leigjendum.``

Ólafur Thors hélt því mjög stíft fram að þetta frumvarpskríli, eins og hann nefndi það gegnumgangandi í sinni ræðu, mundi draga fólk úr sveitunum til Reykjavíkur. Menn greindi mikið á um það á þeim tíma, hvort þetta mundi draga fólk úr sveitunum. Ólafur Thors sagði, með leyfi forseta:

,,Annars rugla formælendur þessa frv. saman þörfinni á auknu og bættu húsnæði og því að frumvarpskríli þetta ráði bót á þeirri þörf. Það er hægt að þenja sig og grenja um dimmu, köldu, röku kjallaraholurnar. Það hefur enginn mótmælt því að húsnæði hér í bænum sé ábótavant að ýmsu leyti, en hinu hefur verið haldið fram með góðum og gildum rökum að ráðið til að bæta úr því væri ekki í frv. eða brtt. þess.

Annars er um þetta tilfinningavæl jafnaðarmanna eins og sníkjurnar, að þeir eru sjaldan fyrstir til að grípa beiningastafinn sem þörfin sverfur brýnast að. Það getur vel verið að íhaldsmenn finni eins til umbótaþarfar á þessu sviði og jafnaðarmenn sem hæst æpa um málið.

Það er með öllu rangt að Íhaldsflokkurinn vilji ekkert gera í málinu. Íhaldsflokkurinn átti góðan þátt í frv. um lánsfélög og ég mundi kjósa að lengra yrði gengið á þeirri braut.``

Þarna koma auðvitað berlega í ljós miklar andstæður að því er varðar uppbyggingu félagslegra íbúða og ljóst að Framsóknarflokkurinn, herra forseti, hefur gjörbreytt um stefnu. Hann berst hart fyrir því með jafnaðarmönnum, með alþýðuflokksmönnum á sínum tíma, að koma þessu kerfi á og nú ganga þeir harðast fram í að rústa kerfinu og loka því. (Gripið fram í: Þetta er ný framsókn.) Þetta er greinilega nýi Framsfl., hinn nútímalegi Framsfl. sem hefur það sem aðalmál á sinni stefnuskrá að skrúfa fyrir félagslega aðstoð til fátæks fólks á Íslandi. (Gripið fram í: Með Hannes Hólmstein fyrir leiðtoga lífs síns.) Það gæti orðið svo, ef þessir flokkar sameinuðust, að hann yrði það. Ég er viss um að margir af frumherjunum sem sáu til þess að koma á þessu verkamannabústaðakerfi, framsóknarmennirnir Jörundur Brynjólfsson og Halldór Stefánsson --- ég hef ræður þeirra hér fyrir framan mig --- hefðu eitthvað um málið að segja ef þeir væru hér ofar moldu, (SvG: Já. Það er rétt.) nú þegar fara á að jarðsetja þetta kerfi. Ég er alveg viss um það og mér er alveg full alvara í því að þeir hefðu þurft að hafa um það nokkur orð, nokkrar setningar. (SvG: Nú er Halldór Ásgrímsson orðinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins.)

Já, það minnir mig á það, herra forseti, að ég hef verið að kalla eftir því hvar formaður Framsfl. væri. Ég bað um það fyrir bráðum 12 klst. síðan að honum yrði gert viðvart um að ég gæti þurft að tala til hans hér í þingsölum (Gripið fram í: Hann er í Valhöll.) þegar á að fara að loka félagslega kerfinu.

Maður eins og --- ef ég fer rétt með --- afi Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, Bjarni Ásgeirsson, Framsfl., hefði þurft að láta til sín taka hér. Það er maður sem ég er viss um að væri ekki samþykkur því, væri hann ofar moldu, sem hans félagar í Framsfl. eru nú að gera. Það er ég alveg viss um. (SvG: Hvað segir Guðni við þessu?)

Ég hef margtalað til hæstv. forseta Guðna Ágústssonar hér í dag en geri mér auðvitað ljóst að hann er í þeirri stöðu að geta ekki svarað fyrir sig úr forsetastóli. Ég vænti þess þó auðvitað að hann taki þátt í þessari umræðu. Ég á enn veika von um þennan hv. þm., Guðna Ágústsson, að hann komi til liðs við okkur í þessu máli. Hann hefur þurft að vera hér í forsetastólnum og neyðist þá til þess að hlýða á þennan málflutning. Ég er að vonast til að það geti þá verið árangur dagsins, að ég hafi sannfært einn framsóknarmann sem neyddist til þess stöðu sinnar vegna að sitja hér í forsetastól tímum saman í dag. Ég vona að ég hafi sannfært hann og hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason um að leggja því lið í Framsfl. að þessu máli verði frestað. Það er fyllsta ástæða til að sett verði á milliþinganefnd með aðild verkalýðshreyfingarinnar sem skóp þetta kerfi. Enginn hefur dirfst að breyta kerfinu án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Hér hefur verið farið ítarlega í gegnum það.

[23:45]

Ég er að leyfa mér að vona að með dyggri aðstoð forseta sem nú er í forsetastól, og hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, muni stjórnarandstöðunni takast að fá málinu frestað og leita sátta í málinu. Það er ekki hægt að loka félagslega kerfinu í ósátt við verkalýðshreyfinguna, í ósátt við stjórnarandstöðuna og í ósátt við 26 félagasamtök sem hafa á þessum degi mótmælt að það verði gert. Það liggur ekkert á að loka þessu kerfi. Það liggur ekkert á. (LB: Hvar er gullhjartað?) Gullhjartað í hverjum? (LB: Í hæstv. forseta.) Það er það sem ég er að reyna að höfða til. Það er mín von að það skili einhverjum árangri. (SvG: Nú hýrnaði yfir honum.) Var það ekki bara af því hann sá hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 9. þm. Reykv.? (ÖS: Er verið að hallmæla mér, forseti?)

Hér hefur Sveinn Ólafsson tekið til máls og mér sýnist á öllu að sé íhaldsmaður (Gripið fram í: Össur?) en hann segir:

,,En frv. get ég ekki stutt, hve feginsamlega sem ég hefði viljað bæta kjör þeirra sem við erfiðust húsnæðiskjör eiga að búa í bæjunum``. Hversu feginsamlega sem hann hefði viljað. Það var af því þetta kostaði allt saman peninga og ef um er að ræða fátækt fólk má ekki hjálpa því af því það kostar peninga. Þetta fólk getur ekki sjálft komið sér upp þaki yfir höfuðið, við vitum það vegna þess að því eru búin kjör sem gerir því það óviðráðanlegt þótt það vinni myrkranna á milli, og það má ekki hjálpa því.

Hér kemur Sigurjón A. Ólafsson, mikill stórkrati á sínum tíma. Hann hafði þetta um málið að segja:

,,Ég hafði hugsað mér að leggja ekkert til þessa máls þar sem flokksmenn mínir hér í hv. deild hafa með rökum sýnt fram á nauðsyn á framgangi þess. En umræðurnar hafa gert það að verkum að ég get ekki komist hjá því að mæla nokkur orð. Ég hef um 20 ára skeið átt kost á að kynnast kjörum verkafólksins, bæði hér í borginni og víðar, og er því vel kunnugt um híbýli þau er það á við að búa, auk þess sem ég hef einnig rannsakað fyrir hönd bæjarstjórnar ástandið í húsnæðismálum bæjarins.

Mér hefur þótt kenna nokkurs ókunnugleika hjá ýmsum þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls við umræðu þessa frv., um þau kjör sem mikill hluti almennings á við að búa í Reykjavík og víðar og finnst mér því skylt að lýsa nokkuð því ástandi sem hér ríkir á þessu sviði. Ég þekki mörg þau tilvik, þar sem 8--10 manna fjölskylda verður að hírast í einu herbergi þar sem verður að elda, þvo þvott o.s.frv. Getur hver maður séð hvílík hollusta er fyrir börn að alast upp í slíkum íbúðum, sem ofan á allt þetta eru oft í kjallara, þar sem allt rennur út í raka og sjaldan sér sólu. Slíkar íbúðir hafa verið í tuga- ef ekki hundraðatali hér í Reykjavík. Það ber ósjaldan við þegar einhver veikist í slíkum íbúðum að læknis er vitjað að hann skipar fjölskyldunni að flytja í betra húsnæði. En hvert á að flytja? Fyrst og fremst eru hentugar íbúðir ekki fyrir hendi og í öðru lagi eru þær, ef til eru, allt of dýrar til þess að bláfátækt fólk hafi efni á að taka það sem í boði er.``

Þarna talar maður sem greinilega hefur þekkt töluvert til þessa máls og hafði ýmislegt fram að færa í því efni. Hann segir jafnframt:

,,Það hefur verið lagt talsvert upp úr því við umræðu þessa máls að aðstreymi fólks til bæjanna mundi aukast ef eitthvað yrði gert til að bæta úr húsnæðisvandræðunum. En þetta held ég að sé grýla og ekkert annað. Það eru ekki húsakynni sem lokka menn til bæjanna, heldur er það sú atvinna sem bæirnir hafa upp á að bjóða. Ég hefi orðið var við að fólki sem til bæjarins flytur gengur best að fá sér húsnæði.``

Síðan segir: ,,Getur verið á meðan ekki er búið að pína út úr því hvern eyri í okurleigu fyrir lélegt húsnæði. Það á víst við málshátturinn um þetta fólk að ,,úti sé vináttan þá ölið er af könnunni``. Margt aðkomufólk hefur nokkur peningaráð fyrst í stað, þá er það góðir leigjendur. En þegar peningarnir eru þrotnir, þá er þetta fólk komið í sama foraðið og það sem fyrir var.

Ég geri því ekki ráð fyrir, þó að húsakynnin skáni eitthvað, að sterkari hvöt vakni hjá fólki um að flytja til bæjanna ef þangað er enga eða litla atvinnu að sækja ... A.m.k. virðist hún [nefndin] ógjarnan vilja að þeim mönnum sem til bæjanna skreppa í atvinnuleit verði veitt nein forgangsfríðindi.

Á síðasta þingi var samþykkt ágreiningslítið og með atkvæðum okkar jafnaðarmanna að endurbyggja sveitirnar. Á ég þar við lögin um byggingar- og landnámssjóð. Ég held að allir hafi verið sammála um að nauðsyn bæri til þess að byggja upp húsakynnin í sveitunum því mjög víða væri ábótavant í því efni. Mér dettur heldur ekki í hug að mótmæla því að húsakynnum kunni að vera ábótavant í hinum ýmsu héruðum. En þrátt fyrir hin lélegu mannahíbýli í sumum sveitum tærist þó fólkið miklu fljótar upp í kaupstöðunum. Það er venjulega hraustari kynslóð sem vex upp í sveitunum en í bæjunum. Bæði er það nú að fæðið í sveitunum er fólki hollara; þar er venjulega nóg um mjólk handa börnum og unglingum en ég þekki fjölda af barnafjölskyldum hér í Reykjavík sem ekki hefir ráð á því að kaupa mjólk handa börnum sínum og lifir við mjög skarðan kost að öðru leyti. Ekki liggur svo annað fyrir mörgum þessara barna en að fara út á götuna undir eins og þau geta vafrað til þess að anda að sér sóttkveikjunum og öðrum óheilindum úr forugum götunum o.s.frv. En börnin í sveitunum teiga að sér hreint fjallaloftið og leika sér í grænu grasi þá sumra tekur. Aðstöðumunur æskunnar í sveitum landsins og kaupstöðum er mikill; það finna þeir best sem hvort tveggja þekkja. Ég er alinn upp í sveit og þekki því þennan mun.``

Herra forseti. Ég held að þetta sé ágæt yfirferð, ef það á nú að fara að loka þessu kerfi, og ætla að vitna hér til Bjarna Ásgeirssonar, afa hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, sem liði ekki vel ef hann væri ofar moldu meðan verið er að loka þessu kerfi. Bjarni segir:

,,En hitt er mest um vert að frv. veitir mönnum kost þess að eignast hús og þak yfir höfuðið, enda mun það sýna sig í framtíðinni að það hefur betri og hollari áhrif að einstaklingar geti átt hús sín sjálfir í stað þess að leigja þau af öðrum.

Þá mun það ekki síður vera á misskilningi byggt að frv. verði til þess að draga fólkið úr sveitunum til kaupstaðanna. Þar eru önnur öfl að starfi sem ekkert láta sig varða auknar byggingar kaupstaðanna. Það er af tveim höfuðástæðum sem menn leita burt úr sveitunum. Nokkur hluti fólksins leitar út í kaupstaðarlífið af því hann þráir glaum og ævintýr eða auðæfi sem það hyggst munu fremur finna í bæjunum en sveitunum. Það fólk er ekki að spyrja um það hvort til séu byggingarsjóðir sem geri því auðvelt að koma upp skýli yfir sig. Reynslan hefur sýnt að fólkið flykkist út í óvissuna með það eitt fyrir augum að komast til kaupstaðanna.`` (Gripið fram í: Var þetta framsóknarmaður?) Ég vona að ég fari ekki rangt með það ... (Gripið fram í.)

Ég held, herra forseti, að ég fari nú að ljúka yfirferð minni um ræður þingmanna frá árinu 1929. Þeir börðust fyrir því að koma á hinu félagslega íbúðakerfi, verkamannabústaðakerfinu eins og það gjarnan var nefnt þá, í harðri andstöðu við íhaldið. Eins og ég segi, herra forseti, var það ekki bara félmrh. þess tíma eða atvinnumálaráðherra sem tók þátt í þessu, heldur voru það forsrh. og dómsmrh., Jónas Jónsson, sem tók einnig þátt í þessari umræðu og hann sagði:

,,Ég vildi segja nokkur orð um málið við þessa umræðu af því ég álít þetta eitt af þeim merkari málum sem fyrir þinginu liggja.`` Hvorki meira né minna, þegar verið var að koma upp verkamannabústaðakerfinu. Þar held ég að honum hafi ratast satt orð á munn, því þetta kerfi hefur þjónað mörgum og veitt mörgum aðstoð gegnum tíðina, herra forseti. Því er slík söguleg upprifjun, þótt stutt sé, nauðsynleg þegar jarðsetja á hér hið félagslega íbúðakerfi. Það er nauðsynlegt að rifjað sé upp hvað frumherjarnir, sem komu af stað hinu félagslega íbúðakerfi, höfðu um málið að segja á sínum tíma þegar því var ýtt úr vör, kerfi sem þjónað hefur þúsundum og aftur þúsundum af fátæku fólki gegnum þessi ár, allt fram til dagsins í dag. Hæstv. ríkisstjórn með hæstv. félmrh. Pál Pétursson í broddi fylkingar er ákveðin í því að loka þessu kerfi.

Það hefði auðvitað verið ástæða til að rifja upp árið 1965 en þá var gerð mikilvæg breyting á húsnæðislöggjöfinni. Það var í samræmi við yfirlýsingu þá um húsnæðismál sem ríkisstjórnin gaf í sambandi við samninga verkalýðsfélaganna um kjaramál. Ég held ég fari rétt með það að þetta hafi verið yfirlýsing sem hratt af stað held ég 1.250 félagslegum íbúðum á sínum tíma. Þá gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu eftir að hafa átt samráð við verkalýðshreyfinguna þegar húsnæðisslöggjöfinni var breytt eins og allar ríkisstjórnir hafa gert, fram til þess að helmingaskiptastjórn íhalds og Framsfl. tekur við og fer með húsnæðismálin, þá þarf ekkert að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna. Þar var um að ræða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál sem sagði, með leyfi forseta:

,,Í tilefni af lokun samninga við verkalýðsfélögin og að undangengnum viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands varðandi húsnæðismál lýsir ríkisstjórnin yfir því að hún muni beita sér fyrir eftirfarandi:

1. Lánsupphæð til þeirra umsækjenda um íbúðalán, sem hófu byggingarframkvæmdir á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 1964, hækki úr 150 í 200 þús. kr. út á hverja íbúð. Ríkisstjórnin tryggi viðbótarfjáröflun til húsnæðismálastjórnar á þessu ári er nemi til viðbótar fjármagni sem hækkun þessi krefst.``

Síðan kom eftirfarandi:

,,Ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg í samvinnu við verkalýðsfélögin hefjist handa um byggingu hagkvæmra og ódýrra íbúða í fjölbýlishúsum. Stefnt verði að því að nota fjöldaframleiðsluaðferðir og byggja ekki færri en 250 íbúðir á ári er byrjað verði á frá og með árinu 1996 og fram til ársins 1970. Ég hygg að þarna hafi verið, í samræmi við þetta samkomulag, byggðar 1.250 íbúðir sem breyttu verulega húsnæðisaðstöðu láglaunafólks. Þessu, sem kallað var júnísamkomulagið 1964, var fylgt úr hlaði af þáv. félmrh., Eggert G. Þorsteinssyni á árinu 1965 þar sem hann mælti fyrir ákvörðun þeirri sem þarna var tekin.

Ég held að þetta tvennt, þetta svokallaða júnísamkomulag, þar sem byggðar voru 1.250 íbúðir, og síðan lögin um verkamannabústaði 1929, þegar því var komið af stað, sé kannski það merkasta í sögu verkamannabústaðakerfisins frá því það var sett á fót. Síðan hafa vitaskuld, herra forseti, verið gerðar ýmsar breytingar á þessu félagslega kerfi í gegnum tíðina. Þar eru nokkrar sem ég hef átt þátt í. Ég ítreka, herra forseti, að ég er ekki þeirrar skoðunar að engu megi breyta í þessu kerfi. Ég væri fyrst til að setjast niður með þeim sem það vill skoða af einhverju raunsæi og skynsemi, hvernig sníða megi af því agnúa og galla. Ég er hins vegar ósammála því, herra forseti, að rústa algerlega félagslega kerfinu, hreinlega loka því.

[24:00]

Ég er ekki tilbúin, herra forseti, að fara út í slíkar æfingar. Ég held að þær séu of dýrkeyptar, herra forseti, og þess vegna vil ég ekki vera með í slíkum æfingum sem hér eru lagðar til og reyndar er stjórnarandstaðan öll mótfallin því í að fara í þessar breytingar sem við sjáum enga skynsemi í.

Herra forseti. Ég hefði hreinlega gleymt því og farið að ljúka máli mínu ef ég hefði ekki heyrt í félmrh. áðan sem ýjaði eitthvað í þá áttina að það væri vel hægt að treysta honum. Þá rifjuðust upp fyrir mér þessi röngu svör sem hann flutti Alþingi á síðasta vetri um félagslega íbúðakerfið og 86-kerfið og afföllin í 86-kerfinu. Vil ég því, herra forseti, í þessum kafla ræðu minnar, fara yfir þau röngu svör sem hæstv. félmrh. gaf þinginu. Bar vel í veiði því ég sá að hæstv. forsrh. var allt í einu kominn í dyragættina þegar ég fór að tala um röng svör sem hæstv. félmrh. hafði gefið þinginu.

Það var liður í því að félmrh. var lengi búinn að undirbúa það að loka kerfinu. Honum leist því ekkert á upplýsingar sem var beðið um frá þinginu um ýmsa framkvæmdaþætti í félagslega íbúðakerfinu og sá að svörin við því voru mjög jákvæð sem komu frá undirstofnun hans í því máli og því ákvað hann bara hreinlega að fá sér nýjan ráðgjafa til þess að svara fsp. frá Alþingi. Sá ráðgjafi var bæjarstjórinn kunni frá Ísafirði sem hefur nú átt þátt í að byggja nokkrar félagslegar íbúðir á Ísafirði sem hafa verið helst til dýrar að mínu viti. Það var ráðgjafinn sem svaraði fyrirspurnunum eða gaf ráðherranum efnivið í þær fyrirspurnir þegar hann gaf þinginu rangar upplýsingar.

Í fyrsta lagi var spurt um greiðslubyrði á félagslegum íbúðum og hæstv. ráðherra sá að greiðslubyrðin var þarna mjög hagstæð og þess vegna voru bara veitt önnur svör en um var beðið.

Við getum farið yfir það. Þetta var síðan sent til Ríkisendurskoðunar til staðfestingar hvað væri rétt og hvað væri rangt í því. Ríkisendurskoðun bar saman við upplýsingar sem komu fram hjá Húsnæðisstofnun um þetta efni. (Gripið fram í.) Ekki finnst mér Páll Pétursson beint ólíkur Sverri Hermannssyni enda gasprar hann fram í það sama eins og glymur úr kjaftinum, eða munninum --- fyrirgefðu, herra forseti --- á Sverri Hermannssyni í hvert sinn sem hann opnar munninn að þá er Lalli mágur hengdur aftan við. Það er ekki skrýtið þó að maður eins og Páll Pétursson fari að taka hann sér til fyrirmyndar í því efni.

En hér kemur fyrsta staðhæfing félmrh. Félmrh. sagði að alls staðar þar sem gerðir voru útreikningar voru félagslegar íbúðir dýrari en íbúðir á almenna markaðnum. Síðan nefndi hann tölur um 22--108% hærra verð á félagslegum íbúðum en á almennum markaði. Ráðherra sagði að ekki lægju fyrir samanburðarhæf gögn fyrir Reykjavík. Síðan þegar málið er skoðað kemur fram bæði hjá Ríkisendurskoðun og Húsnæðisstofnun að verð félagslegra íbúða væri að meðaltali 10--15% lægra en sambærilegar íbúðir á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu. Á landinu öllu er byggingarkostnaður að meðaltali um 3% lægri samanborið við almennan markað.

Síðan kom staðhæfing félmrh. númer tvö, að greiðslubyrði af félagslegri íbúð eftir fimm fyrstu árin væri 85 þús. kr. hærri á ári en af íbúð á almennum markaði með húsbréfum. Þá var ráðherrann byrjaður að undirbúa að færa félagslega kerfið yfir í húsbréfakerfið sem hann skammaðist hvað mest út af þegar verið var að koma því á. Þetta var einn liður í undirbúningnum þegar hann var að undirbúa jarðveginn fyrir það að loka kerfinu. Þá var m.a. liður í því að færa Alþingi rangar og villandi upplýsingar um félagslega húsnæðiskerfið. Það varð auðvitað til þess að ég greip til gamals frumvarps sem hæstv. ráðherra hafði flutt sjálfur þegar honum fannst einhver ráðherra einhvern tíma segja Alþingi ekki satt og rétt frá og þá flutti hæstv. félmrh. frv. um breytingar á lögum um ráðherraábyrgð þar sem hann lagði til að í það yrði bætt ákvæði um það að þegar ráðherrar gefi Alþingi rangar eða villandi upplýsingar þá skuli þeir sæta ábyrgð lögum um ráðherraábyrgð. Þegar hann mælti fyrir frv. var það sisona, sem mér er nú nokkuð minnisstætt, en er ekki með orðrétt hér fyrir framan mig, að það væri allt í lagi að ráðherrar lygju að fjölmiðlum og út í frá, í útlöndum og hvar sem væri, en þeir mættu ekki ljúga úr þessum ræðustól. Þetta var hluti af ræðunni hjá hv. þáv. þm., núv. ráðherra, þegar hann mælti fyrir þessu frv. (Gripið fram í: Ég er alveg sammála.) Já, alveg sammála, herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. forseti hafi tekið eftir því að hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar samþykkir að það sé allt í lagi að ljúga t.d. að fjölmiðlum. Héðan í frá geta fjölmiðlar náttúrlega ekki treyst því sem hæstv. ráðherra segir ef hann segir að það sé allt í lagi að ljúga að fjölmiðlum en bara ekki að ljúga úr ræðustólnum. Þá vita fjölmiðlar ekki hvort hægt er að treysta því sem hæstv. ráðherra segir vegna þess að hann er alveg sammála því að það megi ljúga að fjölmiðlum. Mig minnir að hann hafi sagt líka á fundum, má ekki ljúga að fólki á kosningafundum? Framsóknarmenn hafa verið berir að því, herra forseti, og það höfum við farið í gegnum í húsnæðismálunum og ætla ég ekki að hvekkja hæstv. forseta að rifja það upp eina ferðina enn í dag þó mér sé nákvæmlega sama um það þó að hæstv. félmrh. hlusti á það eina ferðina enn vegna þess að hæstv. ráðherra hefur bara gott af því að hlusta á það eina ferðina enn. Ekki síst um hina snautlegu för ráðherrans með skuldbreytingu aldarinnar inn á þing. (SJS: Nefndu það nú ekki.) Nei, ég ætla ekki að gera það því að það er farið að halla hér kvöldi og komið fram yfir miðnætti þannig að ég ætla ekki að rifja upp þessa sögu, þessi saga á betur heima líka í dagsbirtu.

Þessi staðhæfing var um að eftir fyrstu fimm árin væri greiðslubyrðin 85 þús. kr. hærri á ári en af íbúð á almennum markaði með húsbréf. Hið rétta í málinu var það að greiðslubyrði eftir fimm fyrstu árin er 308 þús. kr. lægri á ári en sambærileg íbúð á almennum markaði, jafnvel þó að vaxtabætur séu teknar með vegna íbúðarinnar á almennum markaði er greiðslubyrði 178 þús. kr. minni í félagslega kerfinu. En það hentaði bara ráðherranum að fara með villandi og rangar upplýsingar inn í þingið af því hann var að undirbúa það að loka félagslega íbúðakerfinu. Það eru staðreyndir málsins.

Staðhæfing félmrh. númer þrjú um greiðslubyrði af félagslegri kaupleiguíbúð þar sem kaupendur eigi ekkert eigið fé en sveitarfélögin láni 10% en Byggingarsjóður verkamanna 90%, sem er hagstæðasti kosturinn í félagslega kerfinu í samanburði við 65% húsbréfalán, er þessi:

,,Með tilliti til þess hversu óhagstæður þessi samanburður er fyrir félagslega íbúðakerfið er ekki talin ástæða til þess að setja hér upp dæmi.``

Þetta var svo óhagstæður kostur sem hér var nefndur fyrir félagslega íbúðakerfið að ráðherrann taldi ekki ástæðu til þess að setja upp dæmið fyrir þingið. En þegar dæmið er reiknað út kemur fram að á fyrsta ári er greiðslubyrði í þessum valkosti 600 þús. kr. minni á ári en í húsbréfakerfinu. Það er 18.900 kr. á mánuði af félagslegri íbúð en 65 þúsund á mánuði af íbúð á almennum markaði. Ráðherran bauð þinginu upp á að segja að þessi kostur væri svo óhagstæður fyrir félagslega kerfið að það tæki því ekki að reikna hann út. En í ljós kom að hann var svo svakalega hagstæður fyrir félagslega kerfið að ráðherrann vildi ekki af því að það þjónaði ekki hagsmunum hans að loka hér félagslega íbúðakerfinu. Þess vegna taldi hann ekki ástæðu til þess að setja fram dæmi um þennan kost hér inn í þingið.

Herra forseti. Mér finnst það svo alvarlegt þegar ráðherra gerir svona að auðvitað hefði á sínum tíma átt að taka þetta mál miklu fastari tökum af forsetum þingsins og þinginu þegar ráðherra ber fram svona villandi upplýsingar. Mér finnst ráðherrann bara hafa sloppið vel miðað við það að matreiða rangar og villandi upplýsingar inn í þingið sem þjónaði hagsmunum ráðherrans að undirbúa það að loka félagslega íbúðakerfinu.

Síðan komum við að hinu svarinu sem ráðherrann gaf þinginu sem var ekkert skárra þegar var spurt um samanburð á húsnæðislánakerfinu frá '86, biðraðakerfinu svokallaða sem ráðherra ríghélt í og Framsfl. og beðið um samanburð á afföllum í því kerfi og í húsbréfakerfinu. Hvað kom þá í ljós? Þess vegna er ekki ofsögum sagt þegar ég segi að ráðherrann hafi sloppið bara mjög vel á sínum tíma. Forsetar þingsins hefðu auðvitað átt að setja ofan í við ráðherrann þó ekki sé meira sagt fyrir að gefa Alþingi slíkar upplýsingar.

Þá kemur fram í svari hæstv. félmrh. til Alþingis við spurningu minni um samanburð á afföllum í húsbréfakerfinu og afföllum í 86-kerfinu og um hvað ætla mætti um biðtíma eftir lánum í 86-kerfinu, auknar lántökur í bankastofnunum, sölu á lánsloforðum og kostnað því samfara að félmrn. teldi að ekki væri mögulegt að gefa neinar viðhlítandi skýringar eða svör við þessum spurningum, að bera saman afföllin í 86-kerfinu og húsbréfakerfinu.

En Húsnæðisstofnun gat gert það. Hún gat borið það saman. Þegar svarið kemur frá Húsnæðisstofnun, sem félmrh. taldi ekki mögulegt að gefa nein viðhlítandi svör við af því að það þjónaði ekki þessum áformum hans, kemur þetta fram um húsnæðislánakerfið frá 1986:

Hækkun á raunverði íbúðarhúsnæðis milli áranna 1985 til 1988 nam um 23%. Það er hækkun á raunverði sem verður í 86-kerfinu af því að það var óstöðugleiki í því kerfi sem kallaði fram slíka hækkun á íbúðaverði.

,,Ætla má að lánsþörf íbúðakaupenda hafi hækkað um allt að því sem nemur hækkun á raunverði íbúðarhúsnæðis á árunum 1986--87, þ.e. um 14% á fyrsta ári og um 23% á öðru ári.``

Herra forseti. Hækkun á raunverði íbúðarhúsnæðis. Hvað ætli sú hækkun sem verður á raunverði íbúðarhúsnæðis í kjölfar 86-kerfisins, hvað haldið þið að þær lánahækkanir, sem þó var verið að veita með 86-kerfinu hjá þeim sem komust að, hafi verið fljótar að étast upp í þeim hækkunum sem urðu á verði íbúðar sem fólk þurfti að borga meira fyrir íbúðirnar af því að þær hækkuðu vegna þessa kerfis?

Síðan kemur fram að miðað við 6 millj. kr. íbúðarverð á árinu 1985 var aukin lántökuþörf þá um 800 þús. kr. á árinu 1987. Fólk þurfti þá að fara í bankana og fá 800 þús. kr. því að þetta kallaði á aukna lántökuþörf upp á 800 þús. kr. miðað við 6 millj. kr. íbúð.

Hér kemur fram:

,,Miðað við 6 millj. kr. íbúðarverð á árinu 1985 var aukin lántökuþörf þá um 800 þús. kr. á árinu 1987 samanborið við árið 1985, og um 1,4 millj. kr. á árinu 1988 samanborið við árið 1985.``

[24:15]

Þarna sjáum við ljóslega muninn á þessum tveimur kerfum sem Framsfl. ríghélt í. Síðan kemur um húsbréfakerfið, með leyfi forseta:

,,Frá því að húsbréfakerfið kom til, 15. nóvember 1989, hefur raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á fermetra haldist svo til stöðugt.``

Þarna er munurinn. Raunverð á íbúðum hefur haldist svo til stöðugt. Við vorum að tala um allt að 23% hækkun á íbúðarverði meðan 86-kerfið var við lýði sem framsóknarmenn vörðu með kjafti og klóm í þingsölum. Þeir vildu hafa tvö kerfi í gangi. ,,Tilraun, tilraun``, sögðu þeir um húsbréfakerfið sem hæstv. félmrh. kallaði naglasúpu --- það var húsbréfakerfið --- og vildi viðhalda 86-kerfinu. Og þessi naglasúpa hæstv. félmrh. leysir nú alla þörf í félagslega íbúðakerfinu á Íslandi. Naglasúpa kratanna leysir nú þörfina fyrir félagslegar íbúðir á Íslandi. Svona er heimurinn skrýtinn, herra forseti. Nú bjargar þetta öllu og þegar hæstv. ráðherra hefur tækifæri til að leggja af húsbréfakerfið þá dettur honum það ekki í hug. Nú er hann farinn að hrósa því. Það bjargar öllu. Þetta er það besta sem komið hefur, þ.e. húsbréfakerfið. Við því skal ekki haggað. Naglasúpan lifi! Félagslega kerfið inn í húsbréfakerfið, svo góð var þessi naglasúpa.

Þá komum við að afföllunum sem ekki máttu heyrast í þingsölunum, afföllunum í 86-kerfinu sem ráðherrann sagði við þingið að hann teldi ekki mögulegt að gefa viðhlítandi svör við spurningunni. Húsnæðisstofnun segir um lánakerfið frá 1986:

,,Ef miðað er við 6 millj. kr. kaupverð íbúðar á árinu 1985 má ætla að kostnaður lántakenda á árunum 1986--1990 á höfuðborgarsvæðinu hafi getað verið á bilinu 0,8 til 1,4 millj. kr., mismunandi eftir aðstæðum fólks og eftir því hvenær fest var kaup á íbúð. Það samsvarar því að afföllin hafi verið ...`` --- Nú komum við að afföllunum í 86-kerfinu. Sumir héldu nefnilega að það væri verið að uppgötva afföll með húsbréfakerfinu, að ekki hefði verið til neitt sem héti afföll í 86-kerfinu eða yfirleitt í húsnæðiskerfinu. (Félmrh.: ... afföllin á húsbréfunum hjá þér.) Þetta er það eina sem framsóknarmenn hafa, að þegar þeir píndu það að tvö kerfi yrðu keyrð samhliða, 86-kerfið og húsbréfakerfið, í nokkra mánuði, þá fóru afföllin yfir 20%. Það var í nokkra mánuði vegna þess að framsóknarmenn píndu það að til hliðar við þetta kerfi yrði haldið áfram með 86-kerfið sem kallaði á mikla lánsfjárþörf á lánamarkaðnum og (Gripið fram í.) lánamarkaðurinn þoldi ekki þessi tvö kerfi. Svo einfalt var það. Það eina sem framsóknarmenn gátu bent á í kosningunum --- þegar þeir sögðu: ,,Skuldbreyting aldarinnar!`` --- var að afföllin hefðu á einhverjum smátíma farið yfir 20% og þeir eru að nota það enn þann dag í dag þótt þeir kalli nú á þetta kerfi til bjargar félagslega íbúðakerfinu á Íslandi. (Félmrh.: Hver voru afföllin árin 1992--1993?) Ráðherrann þolir ekki að hlusta, herra forseti, af því ég er alltaf að reyna að komast að afföllunum 1986. (Gripið fram í.) Hann er að reyna að komast hjá því að hlusta á þá tölu. Nú er hæstv. ráðherra orðinn órólegur og ég vænti þess að hann geri það sama og hann hefur gert í allan dag, að fara öðru hverju bak við hurðina í hliðarherberginu af því hann þolir ekki að heyra þessar tölur sem hér á að nefna um afföllin í 86-kerfinu. En hæstv. ráðherrann verður bara að hlýða á þau, enda sest ráðherrann og það er gott, herra forseti. Ég ætla þá að reyna að gera eina tilraun enn til að koma þessu frá mér, með leyfi forseta:

,,Ef miðað er við 6 millj. kr. kaupverð íbúðar á árinu 1985 má ætla að kostnaður lántakenda á árunum 1986--1990 á höfuðborgarsvæðinu hafi getað verið á bilinu 0,8 til 1,4 millj. kr., mismunandi eftir aðstæðum fólks og eftir því hvenær fest var kaup á íbúð. Það samsvarar því að afföllin hafi verið í 86-kerfinu 13--23% miðað við meðalíbúðarverð um 6 millj. kr.``

Og menn töldu sig aldrei hafa heyrt talað um afföll fyrr en húsbréfakerfið kom. En afföllin voru líka til staðar í 86-kerfinu, meðal annars út af biðröðunum og meðal annars út af þessum miklu skammtímalánum sem fólk þurfti að taka. Biðröðin kostaði auðvitað peninga. Fólk þurfti að bera lántökukostnað, lögfræðikostnað og annað vegna skammtímalána í bankakerfinu. Og síðan kemur:

,,Ef hins vegar er tekinn með sá kostnaður sem það fólk þurfti að bera sem réðist í framkvæmdir í 86-kerfinu án þess að fyrir lægi skuldbindandi lánsloforð frá Húsnæðisstofnun þá var heildarkostnaður þessa fólks nálægt helmingi af íbúðarverði eða allt að 2,9 millj. kr. á höfuðborgarsvæðinu miðað við 6 millj. kr. íbúðarverð.``

Hefði nokkur trúað þessu, herra forseti? Við munum eftir því að fólk var að selja lánsloforð á sínum tíma í 86-kerfinu á verðbréfamörkuðum með miklum afföllum. Hér er þessu lýst, herra forseti, og sagt að ef hins vegar sé tekinn með sá kostnaður sem það fólk þurfti að bera sem réðst í framkvæmdir án þess að fyrir lægi skuldbindandi lánsloforð frá Húsnæðisstofnun --- og það voru nefnilega mjög margir sem gerðu það af því þeir voru í biðröðinni í tvö til þrjú ár og gátu ekki beðið. Ungt fólk gat ekki beðið eftir því að koma sér þaki yfir höfuðið og réðst því í framkvæmdir án þess að hafa þessi lánsloforð, með skammtímalánum í bönkum --- að ef fólk hafi gert þetta í 86-kerfinu, þá hafi heildarkostnaður þess verið nálægt helmingi af íbúðarverði eða allt að 2,9 millj. kr. á höfuðborgarsvæðinu miðað við 6 millj. kr. íbúðarverð.

Síðan leyfa framsóknarmenn sér að bera það á borð að 86-kerfið á sínum tíma hafi verið alveg gallalaust. En þarna var dulinn kostnaður og dulin afföll sem fólk þurfti að bera, m.a. gegnum þetta langa biðraðakerfi. Þetta er sannleikur málsins og síðan segir hér:

,,Kostnaður íbúðarkaupenda og húsbyggjenda vegna skammtímalána var að jafnaði a.m.k. tvöfalt hærri hjá þeim sem voru í lánakerfinu frá 1986 en hjá þeim sem hafa notfært sér húsbréfakerfið.``

Við vitum að það eru helst skammtímalánin sem hafa gegnum tíðina farið illa með fólk, sett fólk á hausinn og oft hafa skammtímalánin gert það að verkum að fólk hefur misst íbúðir sínar vegna þess að skammtímalánin hafa undið upp á sig, sífellt verið að falla. Lánin eru endurnýjuð með tilheyrandi lögfræðikostnaði og hér er talað um það, herra forseti, að skammtímalánin voru að jafnaði a.m.k. tvöfalt hærri hjá þeim sem voru í lánakerfinu frá 1986 en hjá þeim sem notfært hafa sér húsbréfakerfið.

Ég held að það sé mjög gott, herra forseti, að þessu sé haldið til haga, þ.e. annars vegar hvernig ráðherrann leynir Alþingi upplýsingum og kemur hér með rangar og villandi upplýsingar til þingsins og hins vegar að bera saman húsbréfakerfið og það lánakerfi sem Framsfl. vildi verja, vildi halda í og viðhalda til frambúðar, þ.e. biðraðakerfið sem gerði ungu fólki að þurfa að bíða í biðröð í tvö til þrjú ár eftir því að fá lánafyrirgreiðslu. Það var ekki þegar því hentaði eins og er núna í húsbréfakerfinu. Þegar fólki hentar að kaupa sér íbúð getur það með stuttum fyrirvara, kannski tveggja til þriggja vikna fyrirvara, fengið húsbréf.

Ég held það sé mjög gott að rifja þetta upp hér og forsögu framsóknarmanna í húsnæðismálum almennt, eins og ég hef gert í dag, sérstaklega nú þegar þeir hafa farið með félmrn. í þrjú ár. Þá veltir maður þessu upp, herra forseti, og spyr: Er þessum mönnum treystandi til að fara í þær miklu breytingar sem hér er verið að boða, þ.e. að loka félagslega húsnæðiskerfinu? Er þessum mönnum treystandi til að fara í þessar breytingar með íhaldinu sem ég treysti ekki hænufet í húsnæðismálunum, án nokkurrar handleiðslu eða samráðs við verkalýðshreyfinguna? Ég segi: Nei, herra forseti. Ég segi að þeim sé ekki treystandi til þess, enda hef ég, herra forseti, í nokkuð ítarlegu máli farið yfir félagslega húsnæðiskerfið, farið yfir áhrifin af þeim breytingum sem hér er verið að gera. Ég ein hef ekki sett þetta fram heldur hafa verkalýðshreyfingin og húsnæðisnefndir hver á fætur annarri sett fram alvarlega gagnrýni og alvarlegar athugasemdir við þetta frv. Því taldi ég nauðsynlegt, herra forseti, að fara ítarlega yfir það og kannski ítarlega líka yfir þau kaflaskipti sem hafa orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar í samskiptum við verkalýðshreyfinguna. Mér finnst ágætt að hæstv. forsrh. sem hér situr í hliðarsal, hlusti á það að ég held ákveðin kaflaskipti séu að verða í samskiptum verkalýðshreyfingunnar og ríkisstjórnarinnar. Svo er ekki bara í húsnæðismálum, herra forseti, heldur líka varðandi vinnulöggjöfina sem við fjölluðum um á þessu kjörtímabili. Ég held það boði ekki gott, herra forseti, að þannig sé staðið að málum að verið sé að breyta stórri löggjöf eins og húsnæðislöggjöfinni á Íslandi og hunsa allar óskir verkalýðshreyfingarinnar um samráð og það að fresta málinu til haustsins, hvað þá heldur að tekið sé tillit til þeirra ábendinga og gagnrýni sem sett er fram með fullum rökum af hálfu hreyfingarinnar.

Samskiptin við félagasamtök marka líka ákveðin kaflaskipti. Á þau er ekki hlustað. Ég fór í gegnum það að bara á undanförnum tíu árum, að mig minnir, hafa félagasamtök byggt 1.100 íbúðir í gegnum þetta félagslega kerfi. Og þar með eru félagasamtökin að gera hvað? Þau eru að leysa úr þörf sem sveitarfélögin eiga raunverulega að leysa úr með aðstoð félagslega kerfisins. Þetta eru um 1.000--1.100 íbúðir. En það þarf ekkert, frekar en verkalýðshreyfinguna, að hlusta á þessi félagasamtök sem hafa lyft grettistaki í því að koma upp félagslegum íbúðum fyrir sína félagsmenn.

Það sem er líka athyglisvert og stendur upp úr er að stefna íhaldsins hefur ráðið hér ferðinni. Auðvitað reyndu íhaldsmenn þegar við vorum í stjórn með þeim, að koma á svona markaðsvæðingu í félagslega kerfinu. Þeir sáu auðvitað strax að þeir gátu það ekki. Það var alveg þýðingarlaust. (Gripið fram í: Náði hún nokkrum árangri ...) Ekki að því er varðar það, herra forseti, að breyta félagslega húsnæðiskerfinu. Og ég veit ekki til þess að það hafi verið í andstöðu við Alþb. að koma á húsbréfakerfinu eða að Alþb. hafi einhver áform um að leggja það niður. (Gripið fram í: ... breytt vöxtunum ...) Já, ég skal alveg viðurkenna það. Við gerðum það og breyttum líka vaxtabótakerfinu í leiðinni og útreikningar sýndu fram á að þótt vöxtum hefði verið breytt þá kom það ekki við þennan lægst launaða hóp sem við erum að tala um í dag. Ég bið hv. þm., ef hann er að reyna að koma að einhverri gagnrýni á störf mín sem félmrh., af því við erum að tala um Byggingarsjóð verkamanna, að bera saman framlög til Byggingarsjóðs verkamanna í minni tíð sem félmrh. og þau snautlegu framlög sem núna eru til sjóðsins hjá hæstv. félmrh. Ég held það sé nokkuð langt saman að jafna.

[24:30]

Þau voru um 1.200 millj. árið 1992 en við erum að tala um 250 millj. í dag og þar er nokkuð langur vegur frá og einmitt það að hafa ríkisframlögin með þessum hætti kemur í veg bæði fyrir þrot sjóðsins og kemur í veg fyrir að að hækka þurfi vextina óheyrilega. En við hlífðum þó leiguíbúðum og vextir eru enn þann dag í dag 1% þó að vissulega stefni í það hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra að færa vextina þar að markaðsvöxtum. Mér sýnist margt benda til þess að það verði gert, það verði niðurstaðan.

Herra forseti. Ég hef beint ýmsum spurningum til hæstv. ráðherra sem ég vænti að hann svari áður en umræðunni lýkur. Ég vil t.d. að ráðherrann svari því sem ég var að lesa núna og fara yfir núna eftir kvöldmatarhléð að það samkomulag sem gert var við verkalýðshreyfinguna í tengslum við húsaleigubæturnar núna fyrir jólin sé endanlegt og jafnvel þó að um auknar húsaleigubætur verði að ræða hjá sveitarfélögunum vegna þessa frv. sé það endanlegt að allar breytingar sem kalla á aukin útgjöld í húsaleigubótum sé hjá sveitarfélögum. Það las ég upp úr því sem fram kom í þinginu í desember og gerði það af því gefna tilefni að talsmaður Sambands ísl. sveitarfélaga hélt því fram í mars á Egilsstöðum þegar hann var að tala fyrir þessu kerfi að ef um yrði að ræða aukningu á húsaleigubótum, þá væri bara hægt að taka það upp í samskiptum ríkis og sveitarfélaga en þetta var endanlegt samkomulag að því er varðar húsaleigubætur sem gert var fyrir jólin. Auðvitað þarf hæstv. ráðherra að svara því ef sveitarfélögin hafa einhverjar væntingar um það þegar húsaleigubótakerfið fer að blása út út af þessu frv., þá þarf ráðherra að svara því hvort sveitarfélögin geti haft þessar væntingar áfram um að hægt sé að taka þetta upp í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og það sé til einhver inneign hjá sveitarfélögunum fyrir því að fjármagn til húsaleigubóta verði aukið ef raunin reynist sú að þær munu aukast verulega, herra forseti, þegar áhrifin af þessu frv. fara að koma fram. Ég held að nauðsynlegt sé að fá svör við þessu.

Síðan spyr ég líka um það hvers vegna þurfi að dragast svo lengi, herra forseti, að fá niðurstöðu í þessa áætlun sem á að fara í um þörfina á leiguíbúðum, hvers vegna þarf að bíða til ársins 2000 um það hver verður niðurstaðan af samskiptum ríkis og sveitarfélaga að því er þennan þátt varðar? Ég held, herra forseti, að fólk geti ekki beðið allt fram til ársins 2000 eftir því hver niðurstaðan verður. Við höfum farið yfir það hér, herra forseti, að þegar eru í Reykjavík 400 manns á biðlista eftir leiguíbúðum. Það liggur fyrir að sótt er um 100 leiguíbúðir hjá Reykjavíkurborg núna á þessu ári. Það liggur fyrir þörf í Reykjavík upp á 180 íbúðir á næsta ári einungis vegna þessara breytinga sem hér eru gerðar. Það liggur fyrir þörf í Kópavogi upp á 75 leiguíbúðir á næsta ári verði þessar breytingar gerðar og það liggur fyrir þörf upp á 60 leiguíbúðir á Akureyri verði þetta gert þannig að við erum að tala um fleiri hundruð leiguíbúðir og ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki fært fram nein sanngjörn eða eðlileg rök fyrir því að það þurfi að bíða í tvö ár eftir að fá niðurstöðu í það mál.

Ég vænti þess, herra forseti, að áður en 2. umr. lýkur um málið svari hæstv. ráðherra þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint.

Ég spyr ráðherrann líka að því: Hvers vegna voru ekki lagðar fyrir félmn. þær breytingar sem ég tel að verði, þ.e. aukinn kostnaður fólks við að koma inn í kerfið sem hæstv. ráðherra hélt fram að yrði allt annar og lofaði við 1. umr. málsins að yrði afhentur félmn.? Það hefur ekki verið gert. Ég spyr ráðherrann líka að því: Hvers vegna var ekki farið í það að meta áhrifin af þessum breytingum á fasteignamarkaðinn sérstaklega, hvort það gæti leitt til verðhækkana á fasteignamarkaði eins og fasteignasalar halda fram? Það er ýmislegt sem hæstv. ráðherra á eftir ósvarað.

Hæstv. forseti. Ég á þó nokkuð eftir sem ég þarf að ræða frekar við þessa umræðu sem ég tel alveg rétt að bíði þar til ég get tekið til máls í næstu umferð. Enn er töluvert margt órætt af minni hálfu en það er nokkuð liðið á nóttu og má vera að fleiri þurfi að komast að áður en yfir lýkur þannig að ég skal fara að ljúka máli mínu. Ég vona að hæstv. forseti hafi skilið hvers vegna ég hafi þurft að fara í löngu og ítarlegu máli yfir það þegar verið er að loka félagslega íbúðakerfinu á Íslandi, þegar verið er að ráðast að þeim verst settu, fátæka fólkinu á Íslandi eins og hér er gert án þess að sýnt sé fram á að það muni á næstu árum og missirum hafa nokkurt öryggi í húsnæðismálum. Við eigum þessu fólki ákveðna skuld að gjalda. Við og þeir sem stjórna landinu berum ákveðna ábyrgð á velferð þessa fólks. Stjórnarliðar bera ábyrgð á velferð þessa fólks og ég vísa allri ábyrgð á þessa ríkisstjórn að því er varðar afkomu og húsnæðisöryggi þessa fólks. Við erum að tala um fólk sem er með tekjur á bilinu 60--80 þús. kr. Þetta er fólk sem gæti ekki, þó að það vildi komið sér upp íbúð á almenna markaðnum. Stjórnvöld eiga að hafa skilning á því að þetta fólk þarf aðstoðar við.

Herra forseti. Það skulu vera lokaorð mín að ég lýsi allri ábyrgð á hendur þessari ríkisstjórn verði þetta frv. að lögum eins og hér er stefnt að.