1998-05-15 00:43:02# 122. lþ. 127.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 122. lþ.

[24:43]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að jagast um þetta mál við herra forseta. Ég vil aðeins leggja frekari áherslu á það sem ég var að segja. Hér hafa staðið langir og miklir fundir, fyrst í þingnefndum og síðan á þingi. Ég tek eftir því að ýmsir eru orðnir þreytulegir, að til að mynda er hæstv. félmrh. orðinn þreytulegur, og ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. ráðherra hefði gott af því að fara að komast heim og hvíla sig og halla sér hjá sinni góðu konu. Ég vil einnig beina því til hæstv. forseta að við erum hér í miðjum klíðum og það er ljóst að það er heilmikil vinna fram undan á Alþingi þannig að það hefur ekkert upp á sig að keyra sig út á hverjum degi. Mönnum vinnst best með því að hafa vinnudaginn jafnan, sígandi lukka er best í þessum efnum. Ég held því að það sé ekki skynsamlegt að vera að keyra hér á löngum næturfundum þannig að mannskapurinn sé þeim mun dasaðri daginn eftir. Það liggur þannig að verði næturfundur frekar en orðið er er augljóslega ekki hægt að endurtaka það á morgun. Það er ekki til siðs á Alþingi að halda kvöld- eða a.m.k. næturfundi marga daga í röð þannig að mér sýnist að ósköp lítið vinnist með því að halda miklu lengur áfram og ef það yrði gert þá mundi það fyrst og fremst leiða til þess að það yrði ekki hægt að byrja á sama tíma aftur í fyrramálið. Ég vil því í allri vinsemd biðja forseta að hugleiða það betur en hann hefur þó gert hingað til, hvort ekki sé skynsamlegt að fresta fundi nú eða a.m.k. halda honum ekki áfram nema í mjög skamma hríð í viðbót.