1998-05-15 00:45:10# 122. lþ. 127.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 122. lþ.

[24:45]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Byggingar félagslegs húsnæðis eiga sér sjö áratuga sögu hér á landi og voru á sínum tíma einhver mikilvægasta kjarabót sem íslenskur verkalýður hafði fengið fram. Það er nefnilega fleira sem gefur lífinu gildi en aurar í vasa. Það skildi blásnautt launafólk á fyrri hluta aldarinnar. Það samdi því í kjarasamningum um umbætur í húsnæðismálum sem hafa, eftir því sem árin hafa liðið, gefið tugum þúsunda fátækra launamanna möguleika á að búa í mannsæmandi húsnæði, þó auðvitað þætti okkur nútímamönnum þröngt um okkur með stóra fjölskyldu í litlum tveggja og þriggja herbergja íbúðum eins og fyrstu verkamannabústaðirnir voru. Fyrir þeirrar tíðar launafólk var þetta eins og að flytja í höll, þvílík voru þau hreysi sem það hafði áður hírst í.

Ekki voru allir jafnbjartsýnir á að þetta fátæka fólk gæti haldið eignarhaldi á þessum íbúðum. Ég minnist þess að þegar byrjað var að úthluta verkamannabústöðum við Lönguhlíð, það mun hafa verið laust eftir 1950, og fátækt fólk fékk þar úthlutað glæsilegum íbúðum, varð einum gömlum manni mér nákomnum sem aldrei hafði veitt sér neinn munað um dagana að orði: ,,Aumingja fólkið. Það er að reisa sér þvílíkan hurðarás um öxl sem það getur aldrei staðið undir.`` Auðvitað rættist þessi hrakspá ekki, sem betur fer. Fólk átti þarna öruggt húsaskjól, það sem það átti eftir ólifað á mjög viðráðanlegum kjörum.

Á seinni árum hefur það ánægjulega gerst að í hópi þeirra sem með þessum hætti hafa getað eignast húsnæði hafa verið margir okkar minnstu bræður, fatlað fólk, öryrkjar og einnig aldrað fólk sem að öðrum kosti hefði alls ekki getað komist í eigið húsnæði. Félagasamtök þessa fólks hafa þungar áhyggjur af frv. sem við erum að ræða um í dag við 2. umr. Ég vil, með leyfi forseta, lesa tilvitnanir í umsagnir frá t.d. Landssamtökunum Þroskahjálp, sem um margra ára skeið hafa rekið húsbyggingasjóð sem hefur byggt og keypt félagslegar leigu- og kaupleiguíbúðir handa umbjóðendum sínum. Í umsögn þeirra til hv. félmn. segir m.a.:

,,Landssamtökin Þroskahjálp leggjast gegn því að umrætt frumvarp verði að lögum í vor heldur verði sumarið notað til að sníða af því augljósa vankanta og það síðan lagt fyrir á Alþingi í haust.

Óbreytt frumvarp er ekki líklegt til að ná þeim tilgangi sem um er getið í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.``

Áfram í sömu umsögn:

,,Um fjölda íbúða og vaxtakjör á að semja við sveitarfélög. Félagasamtök eins og Landssamtökin Þroskahjálp sem hafa mörg hver verið fyrst og fremst í að byggja leiguhúsnæði fyrir tekjulægstu hópana virðast því algerlega ofurseld einhverju samkomulagi þessara aðila. Í dag er ekkert hægt að ráða í hvað út úr slíkum viðræðum kemur.``

Með leyfi hæstv. forseta hyggst ég lesa umsögn Öryrkjabandalags Íslands sem gengur mjög í sömu átt:

,,Öryrkjabandalag Íslands gengur út frá þeirri staðreynd að skjólstæðingar þess eru upp til hópa láglaunafólk, allt yfir í tekjulægsta fólkið í landinu.

Húsnæðisfrumvarp þetta sýnist ekki koma til móts við þetta fólk þar sem ekki er unnt að sjá annað en enn fleirum sé vísað á leigumarkað. Ekki er séð að með frumvarpinu sé þessum auknu þörfum fyrir leiguhúsnæði mætt ... Á móti munu menn segja að viðbótarlán hins nýja kerfis komi í stað félagslegra íbúðalána í dag. Þá ber þess að geta að enn strangari tekjuskilyrði eru fyrir húsbréfalánum en lánum úr félagslega kerfinu. Það þýðir að fleiri verða útilokaðir frá eignaríbúðakerfinu, sem eðlilega bitnar harðar á þeim tekjulægstu, svo sem öryrkjum.

Ekki verður af frumvarpinu ráðið hversu þörfum þessa fólks verður mætt þar sem beinlínis er aflétt ákveðnum skyldum sem sveitarfélögin hafa í dag.

Öryrkjabandalag Íslands leggur höfuðáherslu á að gætt sé í hvívetna hagsmuna hinna tekjulægstu í húsnæðiskerfinu.``

Ekki má gleyma húsnæðissamvinnufélögum eins og Búseta sem með samspili við núverandi kerfi hefur getað útvegað félagsmönnum sínum úr hópi lágtekjufólks öruggt húsnæði á mjög viðráðanlegum kjörum. Búseti segir einmitt í umsögn til hv. félmn. Alþingis að ljóst sé að staða húsnæðissamvinnufélaga verði mun veikari en nú er með samþykkt þessa frv. og biður um að frv. verði frestað til haustsins svo tími gefist til að breyta því þannig að það verði ásættanlegt fyrir húsnæðissamvinnufélögin. Eins og kunnugt er kærir ríkisstjórnin sig hins vegar ekki um að koma til móts við réttmætar óskir Búseta eða annarra sem hafa á undanförnum vikum sent ákall um vandaðri vinnubrögð til hv. félmn. Minna má á að allmörg félagasamtök voru með heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag þar sem þau skora á alþingismenn og ríkisstjórnina að fresta afgreiðslu þessa frv. og hægt verði að vinna það betur í samvinnu við þessi félagasamtök sem í eru tugir þúsunda félagsmanna ef ekki yfir 100 þús. Hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands telja sig ekkert þurfa að tala við þetta fólk og það þykir mér mjög alvarlegt, herra forseti.

Ríkisstjórnin hefur gert það alveg ljóst að hún muni fara sínu fram í þessum málum, þótt það sé almenningi í landinu til bölvunar. Auðvitað þurfti að gera breytingar á húsnæðiskerfinu. Um það voru allir sammála, en engin þau vandamál voru svo erfið að það kallaði á að þetta mikilvæga öryggisnet launafólks, sem það hafði fengið með kjarasamningum á undanförnum árum og í staðinn fórnað launahækkunum æ ofan í æ, yrði rifið eins og hér er gert.

Við 1. umr. kom fram hversu þröngur sá hópur var sem kom að samningu þessa frv. Það er sniðið að helstu áhugamálum Sjálfstfl. til margra ára. Sjálfstfl. gerð m.a. samþykkt um það á síðasta landsfundi flokksins að leggja byggingarsjóðina niður, sameina þá í eina stofnun sem síðan yrði einkavædd fyrir aldamót. Einnig yrði Húsnæðisstofnun lögð niður í núverandi mynd. Að vísu er ekki minnst á að einkavæða lánasjóðina fyrir árið 2000 í þessu frv. Því miður hefur svo margt gerst sem bendir í þá áttina. Sporin hræða, herra forseti. Það gæti alveg eins legið hér einhvers staðar undir steini. Allt hitt er inni.

Það er svo merkilegt hvað hjörtunum svipar saman hjá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum þessa dagana. Framsóknarmenn kynntu sig sem félagshyggjuflokk fyrir síðustu alþingiskosningar en bera nú fram þetta makalausa húsnæðisfrv. sem er eins og tekið beint út úr villtustu draumum þeirra frjálshyggjumanna sem sátu flokksþing Sjálfstfl. það síðasta og versta. E.t.v. kynni fleirum en mér að detta í hug að annarlegar orsakir liggi að baki, t.d. að hæstv. forsrh., sem er valdamikill maður eins og við höfum sannarlega fengið að reyna í þinginu undanfarnar vikur og eigum eftir að fá að kenna enn þá betur á ef marka má yfirlýsingar, hafi hótað þessum fyrrv. félagshyggjumanni, hæstv. félmrh., búsifjum ef hann keyrði ekki í gegn þetta endemisfrv. fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Í raun er það óskiljanlegt þeim sem hafa fylgst með hæstv. félmrh. á undanförnum árum, áður en hann var gerður að ráðherra, e.t.v. til að lækka í honum rostann, að hann skuli beita sér af hörku fyrir lagasetningu sem þessari. Auðvitað er hæstv. forsrh. ekki hér staddur, ekki í þingsalnum í það minnsta. Kannski hann sé einhvers staðar bak við hurð. Hann ætlar ekki að taka ábyrgð á þessu máli þótt það sé eftir uppskrift frá hans flokksmönnum.

Hér er verið að taka möguleikann á að komast yfir eigið húsnæði frá tekjulægsta fólkinu í þjóðfélaginu. Það er hæstv. félmrh. þjóðarinnar sem beitir sér fyrir þann vagn. Að vísu segir hann að það sé þessu fólki fyrir bestu að búa í leiguhúsnæði og um það gæti ég að vissu leyti verið sammála hæstv. ráðherranum, ef slíkur valkostur væri í stöðunni. Því miður, hæstv. forseti, er slíkt húsnæði aðeins til í mjög litlum mæli í þessu þjóðfélagi og ekkert útlit fyrir að það muni lagast í bráð. Öll sveitarfélög sem ég þekki til í draga á eftir sér miklar skuldir sem þau eru nú hundskömmuð fyrir við hverjar kosningar. Þau hafa örugglega fæst í huga, a.m.k. þar sem ríkisstjórnarflokkarnir ráða nokkru um gang mála, að bæta við langtímalánum til að byggja húsnæði fyrir fátækasta fólkið.

Það eru öðruvísi íbúar sem teljast eftirsóknarverðir í þeim bæjum, hjá því fólki ef ég má ,,sítera`` þá frægu bók ,,Þegar Trölli stal jólunum``. Í þeirri ágætu bók bræddi það tröllið um síðir að jólin urðu þrátt fyrir að búið væri að stela öllum jólagjöfunum. Því miður er það þó svo að ef þetta frv. sem hér liggur fyrir verður samþykkt, þá er mjög erfitt að sjá hvernig unnt verður að vernda hagsmuni þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Húsnæðisnefnd Kópavogs gerði mjög eftirtektarverða úttekt á því hvernig þeir sem þar hafa fengið úthlutað íbúðum að undanförnu eða eru á biðlista eftir slíku húsnæði mundu standast hinar nýju reglur um greiðslumat sem felast í þessu frv. Þá kom eftirfarandi í ljós, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vegna ákvæða 18. gr. um greiðslumat gerði húsnæðisnefnd Kópavogs könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem höfðu keypt íbúðir hjá nefndinni að undanförnu og höfðu staðist greiðslumat miðað við greiðslubyrði 28% af brúttólaunum. Þessar sömu fjölskyldur voru greiðslumetnar miðað við 18% greiðslubyrði af brúttólaunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Kom þá í ljós að aðeins 11 fjölskyldur af þessum 122, eða 9% hefðu staðist greiðslumat skv. frumvarpinu. 111 fjölskyldur, eða 91% hefðu ekki staðist matið og þurft á leiguíbúðum að halda.

Þegar skoðaðar voru 186 umsóknir sem borist höfðu undanfarna 14 mánuði kom í ljós að aðeins 6 fjölskyldur hefðu staðist greiðslumat, eða 3,30% af umsækjendum. Þessi breyting ein mundi valda sprengingu á leigumarkaðnum og afleiðingarnar ekki fyrirsjáanlegar því augljóst er að sveitarfélögin hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir þeirri gífurlegu aukningu leiguhúsnæðis sem þyrfti að verða ...``

Það er ljóst að það verður erfiður biti í háls fyrir skuldug sveitarfélög að sjá öllum þessum hópi fyrir leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaganna. Þau eru mörg ákaflega skuldug fyrir. Svo dæmi sé tekið, t.d. af Kópavogi, og er erfitt að ímynda sér annað en að þeir mundu reyna að laða íbúa í öðrum tekjuflokkum á það land sem þeir hafa til úthlutunar, fremur en það fólk sem ekki stenst lágmarksákvæði um greiðslumat í lánakerfinu. Er nema von að þeir sem bera þetta fólk fyrir brjósti hafi nokkrar áhyggjur af fyrirsjáanlegri þróun mála?

[25:00]

Þetta frv. er auðvitað ekki alvont. Það eru atriði í því sem horfa til framfara. Ég fagna t.d. samtímagreiðslu vaxtabóta. Ég verð þó að taka undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er nokkuð sérkennilegt hvernig kerfin eiga að mætast, þannig að þeir sem kaupa íbúð eftir áramót fara í samtímagreiðslur vaxtabóta en þeir sem kaupa fyrir áramót eiga að bíða í ár, eða kannski hátt á annað ár eftir sínum vaxtabótum. Ég held að þetta verði að athuga eitthvað nánar ef ekki á að setja þarna einhvern sérstakan tappa í fasteignaviðskiptin í þessu kerfi.

Ég fagna því líka að hér er talað um ákveðið valfrelsi í kerfinu og hefði löngu viljað að búið væri að taka það upp að einhverju leyti í kerfinu sem verið hefur við lýði. Það er þó ekki svo, herra forseti, að það eigi að gera, heldur á alfarið að setja viðskiptin í þessu kerfi yfir á hinn almenna húsnæðismarkað. Ég er nú ansi hrædd um að þá muni þetta, ef svo er í pottinn búið, leiða til mikilla hækkana á fasteignum.

Hvað sem hæstv. ráðherrann segir, sem margoft hefur reynt í blaðaviðtölum, útvarpsviðtölum, sjónvarpsviðtölum og hér á hinu háa Alþingi að telja fólki trú um að í þessu frv. séu alls konar góðir kostir fyrir láglaunafólk og betri kostir en núna bjóðast, þá verður bara að segjast að ef það er, þá er þetta frv. á dulmáli. Þó maður hafi lesið það aftur á bak og áfram og reynt að fara yfir allar umsagnir frá færustu aðilum í landinu þá kemur maður ekki auga á þessa kosti. Þeir eru ekki þarna, nema þeir komi í þessum ótal reglugerðum sem ráðherrann hæstv. ætlar að setja í kjölfar þessa frv. Um það er maður náttúrlega alveg blankur eins og maður stendur hér í ræðustólnum og á að fara að samþykkja þessi lög. (Gripið fram í: 28 reglugerðir.) 28 reglugerðir ætlar hæstv. ráðherrann að gefa út í kjölfar þessa frv. og við eigum að samþykkja lögin en við vitum ekkert.

Við höfum ekki grænan grun um það sem standa á í þessum reglugerðum. Þetta getur náttúrlega ekki gengið svona. Það liggur alveg fyrir að í útfærslunni sem hér blasir við hafa hagsmunir tekjulægsta fólksins, sem helst þarf að gæta að þegar slík löggjöf er samin, því miður verið fyrir borð bornir. Hjá meiri hlutanum hefur ekki verið áhugi á því að draga í land með verstu ákvæðin milli 1. og 2. umr. Viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á þessu frv. en þær snúa allar eiginlega að orðalagi eða tæknilegum atriðum. Milli umræðna hafa nánast engar breytingar sem máli skipta verið gerðar, t.d. varðandi tekjulægsta fólkið. Það er að vísu komin einhver ný yfirlýsing frá fjmrn., sem ætlaði að leyfa byggingu 25 leiguíbúða á ári næstu tvö árin. Þegar þær staðreyndir lágu fyrir að það væru fleiri hundruð manns sem þyrftu á slíkum valkosti að halda var orðalaginu aðeins breytt frá hæstv. ráðuneyti. Nú er þessi fjöldi ekki takmarkaður við 25 heldur á að takmarka við væntanlegar fjárveitingar frá ráðuneytinu. Það kemur mér mikið á óvart ef þær verða eitthvað sérstaklega til að hrópa húrra fyrir þegar þar að kemur.

Það er einnig mjög ámælisvert og það kom glöggt fram á hinu háa Alþingi við 1. umr. að í engu var leitað eftir samráði við samtök launafólks í landinu þegar þetta frv. var samið. Þó hefur þetta frv. afdrifarík áhrif á kjaralega stöðu félagsmanna þeirra og felur í sér skerðingu á réttindum sem hafa áunnist í kjarasamningum í liðnum árum og fórnir verið færðar fyrir. Þetta er bara eins og í Kardimommubænum. Þetta er nokkurs konar ránsferð. Þarna er bótalaust tekið frá launþegum í landinu atriði sem þeir hafa samið um í kjarasamningum og fært fórnir fyrir.

Hæstv. félmrh. upplýsti að hann hefði tekið tillit til samþykkta frá þingi ASÍ um málið og hefði álitið það duga. En þar fór nú í verra því ef ráðherrann hæstv. hefur haldið sig vera að framfylgja þingsamþykktum frá ASÍ við samningu frv., þá hefur hann misskilið innihald þeirra hrapallega. Hefði ekki verið öruggara fyrir hæstv. ráðherrann að bjóða fulltrúum launþegasamtaka, Öryrkjabandalagsins og annarra þeirra samtaka sem hagsmuna eiga að gæta, að þessu verki þannig að ekkert færi milli mála um vilja manna og meiningar? Eins og ég hef áður sagt: Ekkert lætur hæstv. ríkisstjórn verr en samráð. Þeir telja sig ævinlega vita hvað landslýð er fyrir bestu, betur en samtök hinna vinnandi manna í landinu. Þeir vilja því helst ekki þurfa að spyrja þau hvar Davíð eigi að kaupa ölið. En ég vil vitna í umsögn sem ASÍ og BSRB unnu sameiginlega um málið, með leyfi hæstv. forseta:

,,Frumvarp félagsmálaráðherra tekur fyrst og fremst á vanda húsnæðiskerfisins sjálfs og nokkurra sveitarfélaga en leysir ekki vanda þeirra sem húsnæðiskerfinu er ætlað að þjóna. Það er ekki í anda stefnu ASÍ og BSRB og ekkert samráð haft við þau um samningu þess. Að óbreyttu leggur frumvarpið í rúst félagslega íbúðakerfið án þess að komið sé á fót félagslegu lána- eða leiguíbúðakerfi eða annarri félagslegri húsnæðisfyrirgreiðslu til þeirra sem þörf hafa á.`` Svo mörg voru þau orð.

Ég er hér einnig með útdrátt úr grein sem birtist í Morgunblaðinu 30. apríl sl. Greinin er eftir Rannveigu Sigurðardóttur, hagfræðing ASÍ. Ég hygg að dómur allra sem starfa í verkalýðshreyfingunni og meðal viðsemjenda þeirra sé sá að Rannveig Sigurðardóttir sé afar hæfur hagfræðingur, afar varfærin í dómum og vinni öll sín mál af stakri kostgæfni. Rannveig Sigurðardóttir, sem mikið mark er tekið á, kemst að þessari niðurstöðu í grein sinni:

,,Vegna hertra skilyrða [þ.e. í greiðslumatskerfinu] verður einnig fjölda fólks vísað út á leigumarkað án þess að gengið hafi verið frá því að nægilegt framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum sé tryggt. ASÍ og BSRB hafa bent á að eitt helsta einkenni frumvarpsins sé hversu margt sé óljóst um það húsnæðiskerfi sem verið er að koma á.`` --- Hún tekur undir það með mér að frv. sé á dulmáli. --- ,,Einnig hafa samtökin bent á að þættir sem hafa afgerandi áhrif á kjör þeirra sem húsnæðiskerfið á að þjóna séu afar ótryggir.``

Varðandi leigumarkaðinn kemst Rannveig Sigurðardóttir að eftirfarandi niðurstöðu:

,,Ljóst er að ef frumvarpið verður óbreytt að lögum verður stórum hluta þeirra, sem hingað til hafa getað keypt félagslega eignaríbúð, vísað út á leigumarkað. Ástæðan er í fyrsta lagi sú að ekki verða lengur veitt 100% lán sem heimilt hefur verið að veita til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum við kaup á íbúð ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður og umsækjandi sýni fram á greiðslugetu. Rök ráðherra fyrir þessari breytingu eru að margir hafi lent í fjárhagserfiðleikum vegna þessara lána. Ef litið er til reynslu undanfarinna ára sést að milli 67 og 75% þeirra sem fengið hafa slík lán ráða við að kaupa íbúð einmitt vegna þessa möguleika. Þessi hópur verður nú að leita út á leigumarkað en undanfarin ár hafa um 170 manns fengið slík viðbótarlán.

Hin ástæðan fyrir því að vænta má fjölgunar á leigumarkaði er að allt bendir til að forsendur greiðslumats verði þrengdar. Greiðslumat í félagslega eignaríbúðakerfinu byggist nú á því að greiðslubyrði vegna húsnæðislána fari ekki yfir 28% af tekjum. Samkvæmt frumvarpinu á að setja um þetta nýjar reglur með hliðsjón af tillögum starfshóps um nýtt greiðslumat. Þessi reglugerð verður ekki sett fyrir afgreiðslu laganna en ef tillögur starfshópsins eiga að liggja þeim til grundvallar er ljóst að kröfur um greiðslubyrði verða hertar. Færri munu þá eiga þess kost að kaupa íbúð og verður leigumarkaðurinn þeirra eina úrræði.

Eins og er er mikill skortur á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Verði frumvarpið að lögum mun því nýr og fjölmennur hópur leita út á leigumarkaðinn en hvergi er í frumvarpinu gengið frá því hver eigi að standa undir niðurgreiðslu á leigukostnaði hans.``

Eitt atriði hefur vakið undrun mína en það er hve lítið hefur verið rætt um, í sambandi við þessa fyrirhuguðu kerfisbreytingu, að oft var mikil hagræðing fólgin í því að húsnæðisnefndir stóðu fyrir þessum byggingum. Þar var komin mikil verkkunnátta og reynsla sem birtist í því að þessar íbúðir voru oft ódýrari en íbúðir sem byggðar voru fyrir almennan markað. Ég vil t.d. minna á að í Reykjanesbæ hafa á undanförnum árum verið byggðar félagslegar íbúðir, mjög glæsilegt húsnæði, langt undir almennum byggingarkostnaði. Það kom auðvitað til góða þeim sem keyptu. Í umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs segir um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í allri þessari umræðu hefur ekki verið minnst á það hagræði og sparnað sem falist hefur í því að húsnæðisnefndirnar hafa boðið út þær byggingaframkvæmdir sem eru á þeirra vegum og er óhætt að fullyrða að það hefur fram til þessa skilað sér í miklum mun lægri húsnæðiskostnaði á þéttbýlissvæðunum en markaðurinn býður þessum fjölskyldum upp á.``

[25:15]

Það hefur oft verið fært fram sem rök fyrir nauðsyn þess að gera þá breytingu á húsnæðiskerfinu sem nú stendur fyrir dyrum samkvæmt þessu frv. að úti um land standi íbúðir auðar sem höfðu verið byggðar í félagslega kerfinu, en tilflutningur á atvinnutækifærum og í nokkrum tilfellum rangar forsendur fyrir ákvörðunum viðkomandi bæjarstjórna um þörf fyrir húsnæði hafa óneitanlega valdið nokkrum erfiðleikum hjá viðkomandi sveitarfélögum. Þessu vandamáli þurfti auðvitað að taka á og var leikur einn ef viljinn hefði verið til þess. Það þurfti ekki að afnema kerfið þess vegna. En í stað þess var málið látið dankast og blásið upp til að nota það sem fallbyssufóður í þeirri aðför að húsnæðiskerfinu sem hér stendur yfir og eftir umræðunni hefði mátt ætla að um væri að ræða flestar íbúðir í félagslega kerfinu. En þetta voru þó aldrei nema 34 íbúðir af 11 þús. sem höfðu staðið auðar í eitt ár eða lengur árið 1996 og vandamálið var mjög staðbundið.

Einnig hefur verið gert mikið úr því í umræðunni að vanskil í kerfinu væru mikil. En þær 65 millj. kr. sem töpuðust í þessu kerfi á árunum 1990 til 1994 sýnast nú harla léttvægar á þessum síðustu og verstu tímum þegar það hefur verið upplýst að útlánatap ríkisbanka og fjárfestingarsjóða var á sama tíma um 22 milljarðar og voru það þó ekki fátækir launamenn sem áttu þar hlut að máli.

Einn er sá hópur sem málið snertir sem hefur ekki verið mikið í umræðunni en það er sá hópur æskumanna sem stundar framhaldsnám og þarfnast ódýrs og hentugs húsnæðis meðan á því stendur. En námslánin leyfa, svo sem kunnugt er, ekki neinn lúxus. Það hefur verið svo að aðeins lítill hluti þeirra sem þarfnast hafa slíkra námsmannaíbúða á undanförnum árum hefur getað fengið slíka úrlausn þótt vissulega hafi mikið áunnist fyrir tilstuðlan félagslega húsnæðiskerfisins á undanförnum árum. En hvað skyldu nú námsmenn, æskan sem á að erfa landið, segja um þetta frv. sem hér liggur fyrir? Ég vil vitna, með leyfi forseta, í umsögn frá Félagsstofnun stúdenta sem send var hv. félmn.:

,,Að óbreyttu frumvarpi má gera ráð fyrir að uppbygging námsmannaíbúða dragist stórlega saman á næstu árum. Niðurfelling 3,5% framlags sveitarfélaga, álag stimpilgjalda og dýrari framkvæmdalán hafa áhrif til hækkunar byggingarkostnaðar og þar af leiðandi til hækkunar leiguverðs til stúdenta. Vaxtakjör er sú breyta sem mestu máli skiptir og óvissa um þau gerir alla áætlanagerð erfiða en eins og komið hefur fram hefur hækkun vaxta úr 1% í 5% áhrif á hækkun leigu sem nemur tæplega 30%. Óvissa um lánafyrirgreiðslu er að sama skapi allri langtímaáætlanagerð og stefnumótun fjötur um fót.

Félagsstofnun stúdenta hefur litið á uppbyggingu stúdentagarða og rekstur þeirra sem hluta af lausn þess húsnæðisvanda sem almennt steðjar að. Húsnæðisvandi stúdenta er enn fyrir hendi og þarf að leysa hann á annan hátt ef Félagsstofnun stúdenta er ekki gert kleift að sinna því hlutverki. Eftirspurn eftir heppilegu húsnæði fyrir stúdenta er langt umfram framboð og hafa á undanförnum árum ríkt erfiðleikar á leigumarkaðnum seinni part sumars og á haustin. Tekjulitlir stúdentar, flestir utan af landi, njóta leiguhúsnæðis hjá Félagsstofnun stúdenta í 1--6 ár meðan á námi stendur. Um er að ræða fyrirkomulag sem stúdentar og stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir ánægju sinni með. Félagsstofnun stúdenta hefur fullan hug á að halda uppbyggingunni áfram en lýsir yfir áhyggjum sínum ef frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri mynd ...``

Svo mörg eru þau orð, hæstv. forseti.

  • Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd
  • þá ert þú á framtíðarvegi
  • orti þjóðskáldið Þorsteinn Erlingsson á sínum tíma og er oft til þessa vitnað á hátíðarstundum. En samkvæmt því er ekki mikil framtíð í hæstv. félmrh. og þessu frv. hans sem samið var í þröngum hópi. Og því miður hefur ekki tekist að ná fram neinum umtalsverðum breytingum á þessu frv. í meðförum félmn. milli umræðna. Ég mun því gráta þurrum tárum eins og Þökk forðum ef þetta frv. nær að verða að steini í meðförum hv. Alþingis.