Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:30:35 (6730)

1998-05-18 12:30:35# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Í 2. tölulið 15. gr. frv. er kveðið á um viðbótarlán til einstaklinga til byggingar eða kaupa á eigin íbúðarhúsnæði. Það er það eina sem stendur eftir og getur af hálfu stjórnarmeirihlutans kallast félagsleg aðgerð, að fólk fær viðbótarlán þannig að lánið verði 90% af kaupverði. Samkvæmt frv. áttu vextir af þessum viðbótarlánum að vera breytilegir og gefið var til kynna að þar með yrðu vextir af viðbótarlánum niðurgreiddir. Ljóst er að svo verður ekki því í meðförum stjórnarmeirihlutans var ákveðið að þarna yrðu einnig almennir vextir. Þetta ákvæði er um að fólk geti fengið meira lán á almennum markaðsvöxtum og vaxtabætur. Það er það félagslega sem nú finnst fyrir láglaunafólk.