Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:05:30 (7201)

1998-06-02 12:05:30# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:05]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir ýmislegt sem fram kemur í nál. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og þá ekki síst þar sem vikið er að því að margt í stefnu Atlantshafsbandalagsins á rætur að rekja til kalda stríðsins og m.a. hefur Atlantshafsbandalagið ekki verið reiðubúið til þess að falla frá þeirri stefnu sinni að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Ég hygg samt, hæstv. forseti, að hér þurfi að greina á milli, annars vegar þess hvort aðildarríkið Ísland fellst á að fleiri ríki gerist aðilar að NATO og svo hins hver stefnan innan bandalagsins er. Eins og fram kemur í nál. er þar auðvitað um sjálfsákvörðunarrétt þjóða að ræða, hvort þau vilja gerast aðilar að þessu bandalagi.

Það er alveg ljóst að flest ríki sem töldust til Austur-Evrópu eða austurblokkarinnar óska þess mjög eindregið nú, nema kannski Rússland, að gerast aðilar að NATO og Evrópusambandinu. Manni finnst stundum að þau álíti að þarna sé um einhvers konar frelsun að ræða.

Mig langar að koma hér á framfæri reynslu minni af því að fylgjast með því sem gerðist í Evrópuráðinu á síðasta kjörtímabili þegar Austur-Evrópuþjóðirnar voru að koma inn og við m.a. upplifðum það á fundi í Finnlandi vorið 1991 að Júgóslavía sprakk í sundur. Áhrif þess sýndu sig greinilega á þeim fundi. Þeir sem þar höfðu verið sem fulltrúar fyrir ríkið Júgóslavíu vissu allt í einu ekki hverjir þeir voru eða hvers fulltrúar þeir væru. Það var mjög fróðlegt á tímaskeiðinu sem á eftir fylgdi að ræða við fulltrúa Austur-Evrópuríkjanna, fyrst og fremst þingmennina sem voru að koma þarna inn, og sjá að þeir töldu það uppreisn æru fyrir þessar þjóðir að fá aðild að Evrópuráðinu. Það var athyglisvert að heyra hve mikil áhersla var lögð á áframhaldandi aðild, það að stíga fleiri skref og verða aðilar að ýmiss konar samstarfi Evrópuríkja til þess hreinlega að losna undan hálfrar aldar martröð og skynja sig á ný sem Evrópuþjóð en ekki hluta af einhverri blokk þar sem þær fengu engu ráðið. Því finnst mér að við eigum að virða óskir þessara þjóða og að það sé sjálfsagt mál, ef þær óska eftir aðild að NATO, að þau fái hana ef þau uppfylla þau skilyrði sem sett eru.

Eins og hér hefur komið fram þá er þetta auðvitað ekki vandalaust. Það stafar af afstöðu Rússa og þeim miklu vandræðum sem þeir eru í. Það tengist auðvitað því að sögulega telja þeir hluta af Austur-Evrópu vera sitt land, hvort sem þar eru nú sjálfstæð ríki eður ei. Þeir hafa auðvitað beitt sér alveg sérstaklega gegn aðild Eystrasaltsríkjanna. Ég tel það m.a. vegna þess að þeir eru ekki búnir að sætta sig við að Eystrasaltsríkin, sem öldum saman voru ýmist hluti af þeirra ríki eða reyndar öðrum en mjög lengi hluti af keisaradæminu Rússlandi, eiga erfitt með að sætta sig við að þeir hafi þennan sjálfstæða rétt.

Enn er ríkjandi ákveðin spenna gagnvart NATO sem ég held þó að dragi sífellt úr, samanber það mikla samstarf og vaxandi samstarf sem NATO á við Rússland. Mér segir því svo hugur um, ef ekki gerist eitthvað í Rússlandi sem gerir þeim erfiðara fyrir og ef þeir komast út úr sínum miklu efnahagserfiðleikum þá muni þeir sjálfir komast inn í þetta samstarf áður en langt um líður. Það er annað mál en sjálf hernaðarstefnan, hún er vissulega gagnrýniverð.

Ég heyrði það í fréttum núna um helgina að nú eigi að setjast yfir þessa hernaðarstefnu, enda er hún orðin algerlega úrelt miðað við þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað. Evrópumenn hljóta beina sjónum sínum meira að því sem er að gerast utan Evrópu heldur en innan. Eins og utanríkisráðherra Svía sem hér var í heimsókn fyrir nokkrum dögum sagði, þá sjá Svíar ekki neinar hernaðarlegar ógnir í kringum sig. Staðan er sú að hernaðarógn í Evrópu er engin, sem betur fer, ef litið er fram hjá þeim átökum sem eiga sér stað á Balkanskaga. Það eru hins vegar aðrar ógnir uppi, ekki síst ógnir sem steðja að umhverfinu og af þessu meira og minna ónýta kjarnorkudrasli sem m.a. liggur í höfnum í Rússlandi og á hafsbotni. Mannkyninu öllu stafar auðvitað stórkostleg hætta af því.

Ég var nýlega að lesa heilmikla úttekt í tímaritinu Time þar sem reynt er að gera grein fyrir því hvað sé fram undan í stjórnmálum heimsins. Eitt af því sem menn benda á að verði viðfangsefni næstu aldar eru andstæður milli alþjóðavæðingarinnar annars vegar og hins vegar vaxandi þjóðernishyggju. Hvort sem á að telja það þjóðernishyggju eða eitthvað annað þá er vaxandi gengi bókstafstrúarmanna ein af þeim hættum sem heimurinn allur þarf að beina sjónum að. Í þessum greinaflokki kom fram að núna eru yfir 60 hópar bókstafstrúaðra múslima sem grípa til ýmiss konar hernaðaraðgerða, beita sprengjum og alls konar aðferðum sem við höfum reyndar orðið vitni að á undanförnum árum og ástæða er til að beina sjónum að betur en menn hafa gert hingað til. Það tekur hins vegar langan tíma að breyta stofnunum eins og Atlantshafsbandalaginu og menn eru auðvitað fastir í fortíðinni en þarna hlýtur að þurfa breytingar.

Ég gekk margar göngurnar á árum áður til þess að mótmæla þessu bandalagi og eins og ég nefni hér er margt í stefnu þess sem ég get ekki fellt mig við. Ég tel þó að menn hljóti að þurfa að efla samvinnu og hvað sem öllu líður þurfum við að vera vakandi yfir öryggi okkar og okkar álfu, hvernig sem menn fara að því. Samvinnan er auðvitað besta leiðin til þess. Því lít ég þannig á, hæstv. forseti, að greina þurfi á milli hinnar innri stefnu og svo þess hvernig við lítum á óskir einstakra þjóða um að gerast aðilar að þessu samstarfi. Því fleiri þjóðir sem gerast aðilar, því minni er hætta á togstreitu innan Evrópu.

Ég er ekki sammála þeirri leið sem bent er á í nál. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um að efla eigi ÖSE. Ég verð að segja eins og er að af þeim kynnum sem ég hef haft af því starfi öllu og bandalagi, þá hef ég haft heldur lítið álit á því. Mér finnst óþarft að koma sífellt á fót nýjum stofnunum til þess að sinna sömu verkefnunum. Það er löngu orðið tímabært að þær stofnanir sem við erum aðilar að setjist við að skoða þá miklu skörun sem á sér stað í verkefnum. Þá fjármuni sem varið er til allra þessara stofnana væri hægt að nýta miklu betur ef menn reyndu að skera niður og vinna saman í stað þess að búa alltaf til nýjar stofnanir.

Að mínum dómi eigum við fyrst og fremst að beina sjónum að Sameinuðu þjóðunum, efla þær og gera þær færar um að tryggja öryggi íbúa alls heimsins.

Enn og aftur, hæstv. forseti, tek ég fram að öryggi jarðarbúa er fyrst og fremst ógnað af þeim hættum sem steðja að umhverfi okkar. Við skulum heldur ekki gleyma ýmsum öðrum þáttum eins og öfgahópum og þeim sem grípa til örþrifaráða. Við skulum heldur ekki gleyma því að upp geta komið pólitískar aðstæður, eins og núna eru milli Indlands og Pakistans, sem allt í einu geta hleypt vígbúnaðarkapphlaupinu af stað. Þá gerist það með nýjum formerkjum og á nýjum stöðum í heiminum. Hér er því margt að athuga, hæstv. forseti, en eins og fram hefur komið, styð ég að þessum þremur ríkjum verði veitt aðild að Atlantshafsbandalaginu.