Þingfrestun

Föstudaginn 05. júní 1998, kl. 16:56:39 (7646)

1998-06-05 16:56:39# 122. lþ. 147.93 fundur 465#B þingfrestun#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur, 122. lþ.

[16:56]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Ég mun nú gefa tölulegt yfirlit um störf 122. löggjafarþings.

Þingið stóð frá 1. október 1997 til 5. júní 1998. Á þingtímanum urðu fundardagar alls 113. Þingfundir hafa verið 147 og stóðu þeir samtals í 668 klukkustundir. Verða nú lesin úrslit þingmála.

Lagafrumvörp voru samtals 248. Stjórnarfrumvörp voru 135 og þingmannafrumvörp voru 113.

111 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 22. Tvö stjórnarfrumvörp voru kölluð aftur.

Átta þingmannafrumvörp urðu að lögum. Þremur var vísað til ríkisstjórnarinnar, tvö kölluð aftur en 100 þingmannafrumvörp eru óútrædd.

Af 248 frumvörpum urðu alls 119 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 121. Stjórnartillögur voru 17 og þingmannatillögur 104.

33 tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis. Ein var kölluð aftur, 12 var vísað til ríkisstjórnarinnar. Einni var vísað frá með rökstuddri dagskrá og 74 óútræddar.

Skýrslur voru samtals 39. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru 9 og bárust 8 skriflegar skýrslur. Aðrar skýrslur, sem lagðar voru fram, voru 31.

Fyrirspurnir voru 316. Allar voru þessar fyrirspurnir afgreiddar nema átta. Munnlegar fyrirspurnir voru 137 og af þeim var svarað 133. Beðið var um skrifleg svör við 179 fyrirspurnum og bárust 174 svör. Ein fyrirspurn var kölluð aftur.

Alls voru til meðferðar í þinginu 725 mál. Þar af voru 489 afgreidd og tala prentaðra þingskjala varð 1570.

Ég vil einnig gefa nokkrar tölulegar upplýsingar um nefndastarfið, enda fer mikilvægi þess vaxandi í starfsemi Alþingis. Sérstakar nefndavikur, eins og tíðkast hafa á þessu og síðasta þingi, eru skýrt dæmi um þá þróun. Á þessu þingi voru þannig 26 starfsdagar eingöngu helgaðir nefndastarfi fyrir utan fasta morgunfundi nefnda á þingfundadögum. Á yfirstandandi þingi hafa verið haldnir alls 406 nefndafundir. Það þýðir að hver af 12 fastanefndum þingsins hélt að meðaltali um 34 fundi. Ríflega 800 klukkustundir fóru í nefndafundi og má því segja að hver nefnd hafi setið að meðaltali í um tvær klukkustundir á hverjum fundi. Lengsti nefndafundur vetrarins var ríflega 17 klukkustunda langur.

Fastanefndir afgreiddu frá sér 170 mál. Samtals voru 215 þingmál send til umsagnar utan þings og bárust nefndum þingsins 3.011 erindi vegna þeirra. Auk þessa hafa nefndir fjallað um mál að eigin frumkvæði og nokkrar nefndir hafa farið í vettvangsferðir á þessu þingi.

Eins og heyra má af þessu yfirliti um störf 122. löggjafarþings hefur þingið verið mjög athafnasamt. Í reynd er það svo að aldrei hafa fleiri þingmál og þingskjöl verið lögð fram á Alþingi.

Á síðustu vikum hafa mörg og stór mál verið afgreidd á Alþingi. Þeirra á meðal eru nokkur mál sem valdið hafa miklum deilum innan og utan þings. Þessar deilur hafa valdið því að ekki hefur verið hægt að standa við áætlun um störf Alþingis sem gerð var sl. haust og því lýkur þingi mánuði síðar en ætlað var. Sá ágreiningur, sem varð um þinghaldið í vor, er ekki síst bagalegur í ljósi þess að vinnulag hefur breyst til hins betra á þinginu á þessu kjörtímabili. Við höfum náð að feta okkur áleiðis með breytingar á starfsháttum Alþingis og frekari umbætur hafa verið í undirbúningi með endurskoðun þingskapa Alþingis sem staðið hefur yfir undanfarin missiri. Ég hlýt því að harma það bakslag sem orðið hefur í bættum vinnubrögðum þingsins og tel mikilvægt að við drögum lærdóm af þeim löngu umræðum sem hér urðu í apríl og maí og því hve seint mikilvægt stjfrv. komu fram. Ég mun beita mér fyrir því að fulltrúar flokkanna hittist í sumar til að ræða þessi mál í tengslum við endurskoðun þingskapa.

Þingmenn hafa orðið vitni að því á undanförnum dögum að atkvæðagreiðslur geta tekið æðilangan tíma. Það er mín skoðun að tímabært sé því að gera atkvæðagreiðslur markvissari með því að rýmka heimildir forseta til að láta yfirlýsingu koma í stað atkvæðagreiðslu ef hann hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða að úrslit máls séu ljós fyrirfram. Atkvæðagreiðslur yrðu því fyrst og fremst um þau atriði sem ágreiningur er um. Ég mun leggja á það áherslu að þetta mál verði tekið til umfjöllunar við endurskoðun þingskapanna.

Nú við lok þinghaldsins vil ég þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu þingi. Sérstaklega vil ég þakka formönnum þingflokka og ráðherrum þeirra þátt í þeirri lausn sem náðist um lok þinghaldsins. Varaforsetum þakka ég einkar ánægjulegt samstarf. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í haust.