Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 11:04:33 (536)

1997-10-16 11:04:33# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[11:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir og menn verða að segja hvaðan á að taka peningana.

Ég færði rök fyrir því í ræðu minni hér áðan að til að mynda Sjúkrahús Reykjavíkur skorti fast að milljarði til þess að geta haldið úti eðlilegu viðhaldi og eðlilegum rekstri. Ég er alveg klár á því að það er ekki hægt að fara fram á það við stjórnendur þess spítala að þeir hagræði meira en orðið er. Þeim hefur þegar tekist það í þeim mæli að framleiðni þar er meiri heldur en í öllum þeim sjúkrahúsum sem verkfræðistofan VSÓ notaði í samanburði við þennan spítala.

En ég sagði líka annað. Ég tók undir með ríkisstjórninni að besta leiðin til þess að hagræða til að mynda í rekstri stóru spítalanna væri að fara í aukna samvinnu og jafnvel sameiningu þeirra. En ég segi það líka alveg hiklaust að á meðan ríkisstjórnin lætur það mál velkjast, setur það í hverja nefndina á fætur annarri --- nýja nefnd, nýja úttekt --- þá ber okkur siðferðilega skylda að sjá til þess að t.d. þessi stóru sjúkrahús fái næga peninga til þess að geta rekið sig. (Forseti hringir.) En þegar við erum búin að vinna að því að sameina og e.t.v. búa til einn stóran spítala úr þeim hér í Reykjavík þá getum við farið í þessa hagræðingu, hv. þm. En það sem ég er að segja er þetta: Það skortir þessa stefnu yfirvalda og hv. stjórnarliðum ætti að vera farið að lærast það, (Forseti hringir.) þegar heilbrigðismál eru annars vegar, að hugsa svolítið áður en þeir koma og tala.