Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:46:49 (599)

1997-10-16 16:46:49# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:46]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er vissulega þarft mál að leita allra leiða til að efla atvinnu- og þjónustusvæðin á landsbyggðinni í því skyni að jafna aðstöðu landsmanna í dreifbýli og þéttbýli eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Hér er því þarft mál á ferðinni. Tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að móta tillögur þar að lútandi og hér eru nefnd fimm atriði sem m.a. verði könnuð. Ég tel reyndar að það séu fjölmörg önnur atriði en hér eru nefnd sem þurfi að skoða og verður það að sjálfsögðu verkefni þessarar nefndar.

Í þál. um stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi 6. maí 1994 segir, með leyfi forseta:

,,... að meginmarkmið byggðastefnu séu:

að treysta byggðina þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti,

að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfum nútímasamfélags,

að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.``

Síðan eru talin upp nokkur atriði sem leggja þarf áherslu á til að ná þessum markmiðum. Þar er fyrst minnst á nauðsyn þess að tengja þéttbýlisstaði og sveitir með öruggum samgöngum og efla samfelld atvinnu- og þjónustusvæði sem þurfa að vera nægilega fjölmenn til að hægt sé að reka þar fjölbreytta þjónustu og atvinnulíf á hagkvæman hátt, t.d. með því að leggja árherslu á samgönguframkvæmdir, m.a. með gerð heilsársvega sem þjóna hagsmunum atvinnulífsins og stækka þjónustusvæðið.

Síðan þetta var samþykkt hafa vissulega náðst stórir áfangar á þessu sviði. Það má t.d. minna á Vestfjarðagöngin, Gilsfjarðarbrúna og ýmsa áfanga í vegagerð víða um land. Þá styttist í að göng undir Hvalfjörð verði tekin í notkun sem vissulega munu hafa mikil áhrif og breytingar í för með sér fyrir svæðin sem liggja að Hvalfirði og reyndar miklu víðar. En enn er þó mikið óunnið á þessu sviði og það er staðreynd að góðar samgöngur eru það sem fólk á landsbyggðinni setur efst á blað varðandi búsetu. Ég hef átt þess kost sl. ár að heimsækja fjölmörg byggðarlög vítt og breitt um landið og ræða við fólk úr sveitarstjórnum og atvinnulífi. Víða um land hefur verið sett stórfé, hundruð milljóna og jafnvel milljarðar, til uppbyggingar atvinnulífsins. Þessu fylgir yfirleitt gott atvinnuástand og bærileg afkoma íbúanna en samt er það sammerkt með nánast öllum þessum stöðum að fólki fækkar. Það flyst burtu og í flestum tilfellum til höfuðborgarsvæðisins. Ótal dæmi eru um að fólk segir upp ágætri vinnu og flytur suður án þess að hafa neina vissu um starf þar. Síðan verður í síauknum mæli að manna atvinnulífið á landsbyggðinni með erlendum starfsmönnum.

Þegar spurt er um ástæður þess að fólk flytur frá þessum stöðum þá er ýmislegt tínt til, en sú skýring sem mér finnst oftast nefnd er samgöngumálin. Fólk sættir sig ekki við það óöryggi og þau óþægindi sem fylgja lélegum vegum og þess vegna eru samgönguframkvæmdir að mínu áliti efstar á blaði þegar rætt er um aðgerðir til að efla vaxtarsvæðin og draga úr fólksflutningum af landsbyggðinni.

Að mati þróunarsviðs Byggðastofnunar búa 13% þjóðarinnar í sveitarfélögum sem sýna hættumerki hvað varðar íbúaþróun eða tæplega 32 þúsund manns. Þetta eru yfir 60% sveitarfélaga í landinu sem helgast af því að þetta eru flest þeirra fámennustu. Meðalfjöldi íbúa er aðeins rétt 300, en á samfelldu hættusvæðunum búa ríflega 21 þúsund manns eða 8% þjóðarinnar. Hvort tiltekið sveitarfélag eða svæði telst í hættu að mati þróunarsviðs Byggðastofnunar getur helgast af því hversu umfangsmikið strjálbýli er innan þess því fólksfækkun í strjálbýli ein og sér er yfirleitt mun meiri en í þéttbýlinu.

Í ályktun Alþingis frá 1994 er kveðið á um að atvinnulífinu í landinu verði búin þau skilyrði að fyrirtækin geti skilað arði. Þetta hefur sannarlega gengið eftir og mikill uppgangur hefur reyndar verið í atvinnulífinu vítt og breitt um landið á þeim árum sem síðan eru liðin sem m.a. lýsir sér í þeirri miklu uppbyggingu sem ég gat um áðan og skiptir miklu máli fyrir landsbyggðina.

Þá er einnig kveðið á um það í þessari þál. frá 1994 að aukin áhersla verði lögð á atvinnuþróunarstarf á vegum Byggðastofnunar og heimamanna sem beinist að nýsköpun og aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu, m.a. með því að atvinnuþróunarstarf á vegum heimamanna verði eflt með fjárhagslegum stuðningi Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélög í hverju kjördæmi. Í samræmi við þessa samþykkt hefur Byggðastofnun breytt áherslum sínum varðandi framlög til atvinnuþróunar eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gat um í máli sínu. Í stað þess að veita styrki til einstakra sveitarfélaga hefur nú verið samið við landshlutasamtök hvers kjördæmis um verulegt framlag Byggðastofnunar til móts við framlög heimamanna til stofnunar öflugrar atvinnuþróunarstarfsemi á kjördæmisvísu. Þessi starfsemi fór fyrst af stað á Austurlandi og Suðurlandi og hefur þótt takast vel til. Nú hefur verið samið við aðra landshluta á sama hátt og eru miklar vonir bundnar við þessa starfsemi. Í skoðanakönnun frá því í sumar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gat um áðan kom einmitt fram að eitt af því sem landsbyggðarfólki líkaði hvað verst var einhæfni atvinnulífsins. Því er það mikilvægt að það takist vel til með þessa nýju og öflugu atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni.

Í þeirri tillögu sem hér er til umræðu eru nefnd fimm atriði sem væntanleg nefnd skuli kanna og þar á meðal að kostnaður landsmanna vegna húshitunar verði jafnaður t.d. með því að arðgreiðslur Landsvirkjunar gangi til þess. Það er vissulega mikið réttlætismál að jafna húshitunarkostnaðinn sem er gríðarlega ójafn eftir því hvar er á landinu. Í þeirri breytingu á lögum um Landsvirkjun sem var samþykkt á Alþingi fyrr á þessu ári er reyndar kveðið á um að lækkun á verði Landsvirkjunar til rafveitnanna skuli koma til framkvæmda, en þar segir í athugasemdum um 8. gr. þess frv. sem samþykkt var, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt gjaldskrármarkmiðum skal stefnt að því að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000, en lækki síðan að raungildi um 2--3% á ári á árunum 2001--2010.``

Þetta þýðir með öðrum orðum 20--30% lækkun á raforkuverði á landsbyggðinni á einum áratug og er stór áfangi þó vissulega hefði þessi lækkun mátt koma fyrr til framkvæmda.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa þáltill. að sinni. Ég styð hana og vona að hún verði samþykkt á þessu þingi og að vel takist til með störf nefndarinnr sem tillagan gerir ráð fyrir að verði skipuð.