Efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 16:54:27 (600)

1997-10-16 16:54:27# 122. lþ. 11.8 fundur 16. mál: #A efling atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:54]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um eflingu atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni. Hugmyndir um þetta eru ekki nýjar af nálinni og hafa þær verið til umræðu í allnokkurn tíma, en ég fagna því að sjálfsögðu að þessi tillaga er hér til umræðu og tel þetta mjög mikilvægt mál.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að fara út í svona aðgerðir, að efla atvinnu- og þjónustusvæði á landsbyggðinni, vegna þess að ég tel að það sé líklega besta leiðin til þess að styrkja landsbyggðina í heild sinni, þ.e. að mynda kjarna úti um landið og styrkja þannig byggð í landinu innan frá getum við sagt.

En eins og fram hefur komið í máli annarra hv. þm. þá eru mikil tíðindi að gerast í byggðamálum á Íslandi. Vitnað hefur verið í fréttir frá því í gær þess efnis að 1.500 manns hafi flust af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og er þarna um að ræða nettótölu ef við getum orðað það þannig. Á síðasta ári var þessi tala rétt tæplega 1.750 manns. Bent hefur verið á að þessi mannfjöldi nemi öllum íbúum í Egilsstaðabæ, menn hafa tekið það sem dæmi. Á þessum tveimur árum munum við væntanlega upplifa það að um 3.500 manns flytjist af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er grafalvarlegt mál sem er mjög nauðsynlegt að ræða á hinu háa Alþingi. Og ætli það sé fjarri lagi að ætla að á þessum árum fram til aldamóta gæti farið svo að 5.000 manns flytji búferlum á þennan hátt? Eins og ég segi er þetta grafalvarlegt mál og við hv. þm. verðum að ræða það því þetta skiptir okkar þjóðfélag gífurlega miklu máli. (Gripið fram í: Það er ekki nóg að ræða það.) Það er ekki nóg að ræða það, hv. þm., ég tek undir það. Og því miður er hægt að færa rök fyrir því að framkvæmdir fylgi ekki. En þessi breyting á búsetu þýðir að fólki fjölgar á höfuðborgarsvæðinu og hvað kallar það á? Það kallar á mjög dýrar framkvæmdir á því svæði og komið hefur fram hjá borgarstjórn eða fulltrúum borgarstjórnar að þeir telja að það þurfi a.m.k. 1 milljarð á hverju ári til þess að byggja upp vegamannvirki til þess að bera þá umferð sem hér er orðin fyrir utan alla aðra uppbyggingu mannvirkja og þjónustu. Herra forseti. Það er rík þjóð sem hefur efni á þessu.

Eins og fram hefur komið eru samgöngumálin efst í huga fólks á landsbyggðinni. Ég hef lýst því yfir að það eru mér mikil vonbrigði að í þeirri vegáætlun sem Alþingi mun fjalla um í vetur eða á næstu vikum þarf að endurskoða vegáætlun fyrir næsta ár sem var samþykkt sl. vor vegna þess að gert er ráð fyrir minni fjárveitingu til málaflokksins heldur áætluð var. Þessi staðreynd er ekki síður grafalvarleg í ljósi þeirra tíðinda sem við ræðum hér í dag. Við höfum tæki sem við getum beitt til þess að efla landsbyggðina, þ.e. fjárlög og ég tel að þarna sé dæmi um það hvernig ekki eigi að beita þeim.

Annað vil ég nefna í þessu sambandi og það er raforkuverð. Það er fólki mjög ofarlega í huga víðast hvar á landsbyggðinni hversu dýrt er að reka húseignir og greiða húshitunarkostnað. Komið hefur fram að 24% þjóðarinnar kaupir yfir 40% forgangsorku Landsvirkjunar í gegnum Rafmagnsveitu ríkisins á verði sem er töluvert hærra en sem nemur langtímajaðarkostnaði virkjana Landsvirkjunar. Þetta segir mér a.m.k. að full ástæða er til að taka þetta mál upp við Landsvirkjun og ná fram leiðréttingu í þessum efnum. Þetta skiptir fólkið á landsbyggðinni verulega miklu máli og þetta er einn af þeim þáttum sem ráða búsetu fólks.

Það er auðvitað hægt að nefna margt fleira en eitt langar mig þó að nefna hér til viðbótar, þ.e. kostnaður heimilanna víða úti á landsbyggðinni vegna barna sem þurfa að sækja nám fjarri heimabyggð og þar er fyrst og fremst um framhaldsnám að ræða. Það er kunnugt að þetta er mjög erfiður póstur í rekstri heimilanna víða úti um landið og mörg dæmi eru um það að þetta hefur ráðið miklu um val fólks á búsetu. Ég tel að þarna sé um að ræða mál sem okkur beri að skoða og leita leiða til þess að koma til móts við fólk og þetta hefur margoft verið rætt á hinu háa Alþingi.

[17:00]

Spurningin er: Viljum við að þessi þróun gangi eftir eða viljum við bregðast við? Ég tel að almennur vilji sé til þess að bregðast við þessu, en það er eins og fram hefur komið ekki mjög einfalt því að ástæðurnar fyrir þessu eru mjög margar. Byggðastofnun leikur stórt hlutverk í þessum málum öllum og fyrr á þessu ári setti Byggðastofnun fram framreikninga um hugsanlega búsetuþróun á Íslandi fram til 2010. Þar kom fram að miðað við þá búsetuþróun sem nú hefur átt sér stað, þá muni fjölga á höfuðborgarsvæðinu um 25% á tímabilinu frá 1997--2010 en á sama tíma fækki á landsbyggðinni um 7,9% eða um tæplega 9 þúsund manns. Þetta eru tölur sem Byggðastofnun hefur sett fram og ber að skoða í fullri alvöru. Það hefur líka komið fram að út frá þessum upplýsingum frá Byggðastofnun eða þessum framreikningi þeirra sem er auðvitað byggður á ákveðnum forsendum, þá eru aðilar á höfuðborgarsvæðinu farnir að gera áætlanir um ýmiss konar uppbyggingu í þjónustu. Ég ætla í sjálfu sér ekki að nefna nein dæmi um það en ég tel að menn átti sig á því hvað ég er að nefna.

Herra forseti. Ég held að það liggi ljóst fyrir að þessi þróun er mjög óæskileg, ekki síst út frá því umhverfi sem er á höfuðborgarsvæðnu. Ég held að það sé ekki mjög æskileg þróun að hér myndist stærra samfélag, nokkurs konar borgarsamfélag, heldur en orðið er því að því fylgja mjög margvísleg vandamál sem ekki er auðvelt að meðhöndla eða bregðast við. Hagsmunirnir liggja því víða og þess vegna tel ég að við þurfum að ræða þessi mál mjög alvarlega og koma þeim til einhverra framkvæmda því að þetta er þróun sem er óæskileg.

En landsbyggðarmenn sjálfir leika stórt hlutverk í þessu. Ég held að það megi segja að umræðan almennt um byggðaþróunina hefur verið á þeim nótum að hún hefur að mínu viti byggt upp neikvæða ímynd á landsbyggðinni. Þessu verðum við að snúa við, þar liggur boltinn hjá landsbyggðarmönnum sjálfum, og draga fram kosti þess að búa út um landið. Þeir eru margir og margvíslegir. Umræðan ræður einnig miklu í þessu efni.

Herra forseti. Ég vil að endingu lýsa því að ég styð þessa tillögu að sjálfsögðu og vona að hún nái fram að ganga.