Staða aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 15:55:10 (853)

1997-11-03 15:55:10# 122. lþ. 17.1 fundur 64#B staða aldraðra og öryrkja# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[15:55]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. um slæma stöðu aldraðra og öryrkja hérlendis samanborið við önnur Norðurlönd. Tilefni þess er að á föstudaginn var haldinn fyrsti ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins og þá voru lagðar fram staðtölur almannatrygginga 1996. Þar kemur fram að útgjöld vegna aldraðra og öryrkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru langlægst hérlendis af Norðurlöndunum. Þau eru 7,7% hér á landi. Í Danmörku eru þau 15,8%, í Noregi 13,0%, í Svíþjóð 17,5%, í Finnland 15,2%. Menn þurfa, herra forseti, að hafa í huga að eitt prósentustig í landsframleiðslu er yfir 5 milljarðar.

Í staðtölunum á bls. 58 kemur fram að útgjöld til félags- og heilbrigðismála á íbúa hérlendis er einungis um 50--70% af því sem er á Norðurlöndunum og það kemur einnig fram að útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndunum eru langlægst sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er 19% hér á landi en 25%--35% annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta eru gífurlegar fjárhæðir og það er ljóst að staða aldraðra og öryrkja er um það bil helmingi verri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrir utan að vekja athygli á þessum tölum vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hver er stefna hans í að rétta hlut þess fólks sem hér á hlut að máli, þ.e. aldraðra og öryrkja, þegar sá samanburður blasir við að staða þeirra er mun lakari en er hjá frændum okkar á Norðurlöndunum.