Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:11:41 (1166)

1997-11-13 11:11:41# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:11]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði áherslu á mikilvægi þess að sameina sveitarfélög. Ég get vissulega tekið undir það sjónarmið þingmannsins en það verður þá að gera það á réttum forsendum þannig að fólk viti að hverju það gengur þegar það samþykkir sameiningu sveitarfélaga. Ég verð að segja að þau sveitarfélög sem sameinuðust fyrst á síðasta kjörtímabili, bæði það sem nú heitir Snæfellsbær og Dalabyggð, gengu til þeirrar sameiningar og samþykktu hana að hluta til á röngum forsendum og telja sig hafa verið svikin af þáverandi hæstv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hafi gefið digurbarkalegar yfirlýsingar um að í þeim sveitarfélögum sem mundu sameinast yrði gert átak í samgöngumálum en við það var ekki staðið. Og það er svo enn í dag að þingmenn Vesturlands koma ekki í þessi sveitarfélög til að funda með sveitarstjórnarmönnum án þess að vera rukkaðir um loforð þáv. hæstv. félmrh. sem þeir segja hafa verið orðið tóm. Svona má ekki vinna og svona er sem betur fer ekki unnið í dag. Nú er víða verið að undirbúa sameiningu sveitarfélaga og stjórnvöld eru sem betur fer ekki með óraunhæf loforð sem ekki er hægt að standa við. Ég legg áherslu á að nauðsynlegt er að menn viti svona nokkurn veginn að hverju þeir ganga þannig að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum og óánægjuraddir út í stjórnvöld heyrist eftir að sameiningin hefur verið samþykkt.