Staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 18:07:40 (1241)

1997-11-13 18:07:40# 122. lþ. 25.5 fundur 206. mál: #A staðsetning nýrra ríkisfyrirtækja# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[18:07]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem fram hefur farið og ég lít svo á að þeir sem tekið hafa til máls séu í sjálfu sér sammála efni þessarar tillögu. Hv. 4. þm. Austurl. notaði að vísu tækifærið til að fjalla um aðra þætti sem ekki koma beinlínis inn á efni tillögunnar um hvernig bæri að standa að því að flytja stofnanir út á land og ýmislegt því tengt. Ég vil því aðeins rifja upp það sem ég sagði í ræðu minni áðan. Ég vakti athygli á því að það væru þrír þættir sem bæri að hafa í huga. Í fyrsta lagi væri hægt að grípa til þess að flytja stofnanir í heilu lagi. Ég hafði um það nokkur orð. Í öðru lagi, sem ég held að ég hafi varið hvað mestu máli í, væri hægt að flytja tiltekin skilgreind verkefni. Ég held að við munum sjá meira af því gerast í nánustu framtíð vegna þeirrar tækni sem er að opnast. Við munum einfaldlega kanna hvaða verkefni væru vel til þess fallin innan tiltekinna stofnana, Vegagerðar, Siglingastofnunar eða hvaða stofnanir sem er. Við veltum því fyrir okkur hvaða verkefni af því taginu gætu átt heima annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Um þetta hafði ég nokkuð mörg orð sem engin ástæða er til að endurflytja. Að lokum var það sú hugmynd sem er sett fram í þáltill., að nýjum stofnunum verði valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem kostur væri á.

Ég held að það skipti mjög miklu máli ef Alþingi mundi samþykkja ályktun í þessa veru. Það mundi vitaskuld binda hendur framkvæmdarvaldsins að einhverju leyti. Ef Alþingi hefði sagt hug sinn í máli sem þessu með samþykkt þáltill. í þessa veru, þá væri á vissan hátt búið að marka stefnu. Þess vegna tel ég að það gæti varðað talsvert miklu að við reyndum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um þetta mál af ástæðum sem ég rakti mjög ítarlega áðan.

Hv. 4. þm. Austurl. rifjaði upp að hann flutti tillögu í fyrra um að settar yrðu reglur um flutning ríkisstofnana. Ég tók þátt í þeirri umræðu. Ég held að það geti út af fyrir sig verið góðra gjalda vert. En þá skiptir það gríðarlega miklu máli hvernig þessar reglur verða. Ég hef dálítið beyg af því að niðurstaðan gæti orðið sú að þessar reglur yrðu þannig úr garði gerðar að mjög erfitt yrði að koma því við að flytja starfsemi ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar. Við þekkjum það af gamalli reynslu að andstaðan við slíkan flutning kemur almennt séð að langmestu leyti frá starfsmönnum stofnananna sjálfra. Ég held þess vegna að það sé ekki alveg rétt sem fram kom í máli hans að það sé vegna handahófskenndra vinnubragða eða hvort málin væru borin upp á Alþingi og samþykkt eða ekki. Það er ekki það sem gerir gæfumuninn. Það sem þetta mál snýst auðvitað um er að verið er að flytja verkefni, flytja störf sem nú eru unnin af tilteknum starfsmönnum á höfuðborgarsvæðinu eitthvert annað. Það er auðvitað það sem veldur vissum óróa. Það virðist eins og sá órói og óánægja sem oft á tíðum kemur í kjölfar slíkra ákvarðana sé meiri hjá ríkisstofnunum en einkafyrirtækjum þegar maður skoðar þetta í samhengi. Ég tók nokkur dæmi af fyrirtækjum sem eru starfandi víðar á landinu þar sem hreinlega hefði verið tekin ákvörðun um að flytja tiltekna starfsemi frá Reykjavík út á land. Ég tók dæmi af blaðinu Degi og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og fjölda annarra fyrirtækja. Í þeim tilvikum er eins og menn líti svo á að þarna séu það hagsmunir fyrirtækisins sem kalla og menn geti þess vegna lítið við þessu gert. Menn hafa auðvitað í þeim tilvikum eins og hjá hinu opinbera tiltekinn rétt sem reynir þá á. En það er eins og menn bregðist öðruvísi við þegar ákveðið er að flytja starfsemi ríkisins. Menn líta kannski þannig á að með því að fá vinnu hjá ríkinu séu menn nokkuð tryggir um framtíð sína og eigi ekki von á mjög mikilli röskun. Þannig hefur þetta verið en margt bendir til að á því kunni að verða breytingar.

Ég held því, virðulegi forseti, þó að ég geti alveg tekið undir það að skynsamlegt sé að við mörkum okkur meginreglur, þá verði þessar meginreglur um flutning ríkisfyrirtækja að vera talsvert almenns eðlis þannig að þær geri það ekki að verkum að við munum aldrei nokkurn tímann sjá verkefni ríkisins og verkefni heilla stofnana verða flutt út á landsbyggðina. Þetta er út af fyrir hlykkur frá þeirri umræðu sem stofnað var til í upphafi. Þessi tillaga fjallar um að setja niður ný ríkisfyrirtæki úti á landsbyggðinni og er kannski svar við þeirri gagnrýni sem hér kom óbeint fram um að það væri mjög erfitt og kallaði yfirleitt á mikla óánægju innan stofnana þegar verið væri að reyna að flytja þær í heilu lagi. Hér er verið að reyna að brydda upp á því að flytja stofnanir, sem ekki ættu sér þessa forsögu eða þessar rætur á höfuðborgarsvæðinu, út á land þannig að þetta er á vissan hátt ný nálgun sérstaklega til að reyna að komast hjá því að lenda í erfiðleikum í samskiptum yfirmanna stofnunarinnar og stofnunarinnar sjálfrar.