Goethe-stofnunin í Reykjavík

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:15:40 (1378)

1997-11-18 18:15:40# 122. lþ. 27.10 fundur 256. mál: #A Goethe-stofnunin í Reykjavík# þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:15]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna tillögunni og færa hv. 1. flm. þakkir fyrir að hafa haft frumkvæði að tillögugerðinni og hafa fengið þingmenn úr öllum þingflokkum til að vera meðflutningsmenn. Ég held að mjög brýnt sé að afstaða Alþingis komi fram varðandi það að Goethe-stofnuninni verði ekki lokað. Að mínu mati er ekki góð stefna hjá þessum vinaþjóðum að loka stofnuninni sem hefur verið ákveðinn miðpunktur menningarlegra samskipta eins og Goethe-stofnunin er víðs vegar um heiminn. Alþingi Íslendinga hefur haft sérstaklega góð samskipti við þýska sambandsþingið og til skamms tíma var starfandi samstarfsnefnd þessara þinga. Fjölmargar heimsóknir þýskra þingmanna hingað til lands og heimsóknir íslenskra þingmanna til Þýskalands hafa verið báðum þjóðþingum verðmætt tilefni til umræðu og samskipta.

Ekki er vafamál að Goethe-stofnunin er ekki bara til að kynna þýska menningu heldur hjálpar hún til við að kynna íslenska menningu í Þýskalandi eða á þýsku málsvæði og stuðlar þannig að góðum, eðlilegum og heilbrigðum menningarlegum samskiptum. Sömuleiðis hefur Goethe-stofnunin verið fjölmörgum íslenskum námsmönnum til aðstoðar og reyndar þýskum námsmönnum til aðstoðar hér þannig að ekkert nema jákvætt er um starfsemi þessarar stofnunar að segja.

Það eru veruleg vonbrigði, herra forseti, ef Þjóðverjar láta verða af því að loka þessari stofnun. Þá yrðum við eina landið án Goethe-stofnunar því að alls staðar þar sem verið er að loka í sparnaðaraðgerðum er verið að loka stofnunum þar sem fleiri en ein er í landinu. Ég teldi því rétt, herra forseti, eins og hv. flm. hefur lagt áherslu á, að málinu verði hraðað í gegnum þingið þannig að við fáum tækifæri til að greiða fljótt atkvæði um þetta svo að vilji Alþingis komi skýrt fram og hæstv. utanrrh. geti tekið málið upp á þeim vettvangi sem tillagan gerir ráð fyrir.