Losun koldíoxíðs í andrúmsloft

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:57:14 (1400)

1997-11-19 13:57:14# 122. lþ. 28.2 fundur 232. mál: #A losun koldíoxíðs í andrúmsloft# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Í svari hæstv. ráðherra komu fram athyglisverðar tölur um það hversu mikilvæg skref Íslendingar stigu á því tímabili sem hér er til umræðu frá 1950--1980 með því að nýta hitaveitu, vistvænan orkugjafa, í stað kola og olíu. Það þýðir og staðfestir að Íslendingar hafa stigið afskaplega mikilvægt og merkilegt skref, líklega stærra skref en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Þess vegna hlýtur það auðvitað að skjóta nokkuð skökku við ef sú aðgerð mun veikja í raun samningsstöðu okkar vegna samningsferlisins og lokasamningsins í Kyoto þar sem viðmiðunarár vegna skuldbindinga eru í raun eftir aðalátak okkar við hitaveituvæðinguna.

Herra forseti. Ég efa það ekki að í árdaga hitaveituvæðingar hafi heyrst ýmsar úrtöluraddir og raddir efasemda. Til allrar hamingju urðu þær raddir ekki ráðandi heldur framsýn sjónarmið með þeim afleiðingum að hitaveitan er komin til þess að vera.

Það má einnig velta fyrir sér óbeinu framlagi Íslendinga til nýtingar vistvænna orkugjafa með því að við höfum flutt út hugvitið þar sem íslenskir vísindamenn og fræðimenn kenna öðrum þjóðum að nýta sér hinn vistvæna orkugjafa. En nú ríður á, herra forseti. Við höfum stigið fyrsta skrefið og nú ríður á að stíga næstu skref. Ég held því fram að við stöndum í rauninni í svipuðum sporum núna og 1950 þegar við ákváðum að leggja út í að hitaveituvæða heimili okkar.

Koltvíildi er mest frá bílum og fiskiskipum. Við eigum að halda þess vegna áfram á þeirri braut sem var mörkuð með hitaveituvæðingunni. Nú er að ráðast á syndir okkar þar sem þær eru mestar. Það er annars vegar vegna útblásturs frá bílum og hins vegar frá fiskiskipum. Yfirlýsing ríkisstjórnar þar um liggur fyrir og því vil ég hvetja hæstv. umhvrh. og hæstv. ríkisstjórn til að stíga jafndjörf skref við vetnisvæðingu og við hitaveituvæðingu.