Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:02:28 (1478)

1997-11-20 12:02:28# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessarar þáltill. Ég tel að þetta sé mjög stórt framfaraskref og get engan veginn verið sammála hv. þm. Svavari Gestssyni að þetta sé eitthvert málamyndasmáplagg. Ég vil benda á það og leyfa mér að lesa upp, með leyfi forseta, að í tillögunni segir:

,,Alþingi ályktar að unnið verði að því að breyta skipulagi raforkumála þannig að sköpuð verði skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Í upphafi skal unnið að aðskilnaði vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku innan orkufyrirtækjanna, endurskipulagningu á meginflutningskerfi raforkunnar og breyttu fyrirkomulagi á orkusölu til stórra notenda.``

Ef þetta er ekki stórmál, þá veit ég ekki hvað er stórmál. Þarna er verið að koma á samkeppni í þessum stóra geira atvinnulífsins og ég vil benda á að ef litið er á eignir allra raforkufyrirtækja og orkufyrirtækja í landinu, þá eru það um 150 milljarðar kr. Það er meira eða af svipaðri stærðargráðu og öll útgerð í landinu og hún hefur hingað til ekki verið talin neitt smámál. Og allur þessi geiri, allir þessir 150 milljarðar í eignum hafa verið í ríkisforsjá eða í opinberri forsjá algerlega, gersamlega án samkeppni, gersamlega án allra nútímavinnubragða í atvinnulífi þannig að þetta er ekkert smámál sem við erum að ræða um.

Ég fagna einnig framlagningu þessarar þáltill. vegna þess að hún var forsenda þess að ég studdi frv. um Landsvirkjun á síðasta þingi og setti þetta sem forsendu fyrir þeim stuðningi og er mjög ánægður með að þetta skuli nú komið fram.

Herra forseti. Sú tímaáætlun sem hér er gert ráð fyrir á síðu 6 og 7 er nokkuð rúm og að mínu mati kannski allt of rúm. Ég hefði viljað hafa hana sneggri. Ég er það óþolinmóður að ég get ekki fyrir hönd þjóðarinnar, má segja, beðið til ársins 2009 eftir því að þessi markaður komist í gagnið. Ég sé ekkert að því að menn gefi möguleika á því að þessi áætlun gangi hraðar fram, t.d. með því að orða hana þannig að í stað orðanna 1999--2000 standi: eigi síðar en 2000. Það er mjög lítil breyting og ef þróunin skyldi verða örari og hraðari vegna breytinga annars staðar frá, jafnvel frá útlöndum, þá hafi menn möguleika á því að klára það skref sem þarna um ræðir fyrir árið 1999 ef þörf krefur.

Mér finnst líka að ekki aðeins þurfi að skilja að vinnslu og flutning bókhaldslega séð í starfsemi Landsvirkjunar heldur líka einstakar orkuframleiðslueiningar, þ.e. Búrfell verði skilgreint sérstaklega og aðgreint sem ákveðin rekstrareining með það að leiðarljósi að sjálfsögðu að Búrfelli verði síðan breytt í Búrfell hf. sem verði selt og Búrfell hf. verði þá bara fyrirtæki sem framleiðir raforku og hefur heimild til þess að dæla því inn á þetta net sem verður í eigu ríkisins, eins og ég séð þetta. Þetta er nefnilega nokkuð svipað og vegakerfið. Við byggjum upp vegakerfi sem ríkið á og þar mega allir keyra um. Menn borga ákveðið bensíngjald gegnum bensínið og borga fyrir notkunina á vegakerfinu. Eins mætti gera með netið í Landsvirkjun, þar borga menn ákveðið ,,bensíngjald`` fyrir að flytja raforku frá einum stað til annars og þannig kemur fram samkeppni.

Varðandi þá umræðu sem varð áðan um verðmyndunina, það mun að sjálfsögðu myndast dagsverð og næturverð og það munu myndast árstíðarbundin verð, hærra verð á veturna þegar vantar vatn og lægra verð á sumrin. Það mun leiða til þess að menn munu búa til rafgeyma, þeir sem hafa hug á því, dæla vatni upp í Hvalvatn eða eitthvað slíkt og dæla því upp á nóttunni og taka það niður á daginn. Þetta kerfi býður upp á slíkar skynsamlegar leiðir. Ef menn vilja niðurgreiða raforku, þá er enginn vandi að gera það, nákvæmlega eins og hægt er að niðurgreiða bensínverð á þjóðvegunum þannig að breytilegt verð kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að verðjafna á milli landshluta.

Herra forseti. Við þurfum einnig að horfa á fleiri þætti, ekki bara á raforkuna. Við þurfum líka að horfa á fjarskiptin og ljósleiðarann. Í mínum huga er ljósleiðarinn nákvæmlega sama vegakerfið og það kerfi sem við erum að tala um, eins og hefðbundna vegakerfið í sambandi við flutning á upplýsingum. Það er mjög óeðlilegt eins og kerfið er í dag að Póstur og sími eigi ljósleiðarann sem hann er svo að selja til samkeppnisaðila sinna. Það er mjög óeðlilegt að hann sé að nota ljósleiðarann sjálfur með því að fá úthlutað þar sjónvarpsrásum í samkeppni við sína eigin viðskiptamenn. Auðvitað á ljósleiðarinn að vera í eigu ríkisins eða einhvers sjálfstæðs fyrirtækis, sem tryggt er að sé óháð, og Póstur og sími og allir aðrir geti svo sett inn á hann upplýsingar og tappað af honum annars staðar og borgað fyrir það ákveðið ,,bensíngjald`` sem yrði þá verulega lágt því að hann er mjög arðbær.

Sama gildir um fjármagnsmarkaðinn. Hann er líka allur reifaður í viðjar ríkisins. Hann er allur á vegum ríkisins. Þar mætti hafa t.d. greiðslumiðlun eða greiðslujöfnunina, þ.e. Reiknistofu bankanna. Hún gæti verið í eigu ríkisins eða undir hörðu eftirliti ríkisins. En síðan gætu allir sem vildu dæla þar inn upplýsingum, greiðslum og taka greiðslur út verið einkaaðilar. Þessi hugsun sem hér kemur fram og er mjög merkileg mætti útfæra víðar.

Herra forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að taka undir að þetta er mjög merkt skref sem við erum að taka í átt til samkeppni í þessum feiknastóra hluta efnahagslífsins. Það er mín trú og þeirra sem trúa á samkeppni að þetta muni leiða til þess að verðlagning verði lægri, það verði meiri og betri þjónusta og þetta sé þjóðhagslega mjög hagkvæmt skref.