Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:56:48 (1639)

1997-12-04 13:56:48# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:56]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Þessi umræða um breiðbandið er fyrir margra hluta sakir nokkuð merkileg því að mér hefur fundist koma fram í henni töluverð vanþekking og misskilningur sem ég því miður hef nú ekki tíma til að fara yfir hér og svara. En breiðbandið er auðvitað hluti af upplýsingahraðbrautinni sem felst í fjarskiptakerfinu í landinu og breiðbandið kemur til viðbótar núverandi kerfi svo ég svari nú einhverju af því sem fram hefur komið hér. Breiðbandið gefur möguleika á dreifingu upplýsinga í gegnum síma, t.d. á myndsíma, á tölvugögnum ásamt sjónvarps- og útvarpssendingum sem eru náttúrlega ekki aðalmálið í þessu efni heldur er þetta einn af þeim möguleikum sem gefast.

Það er rétt sem fram hefur komið að þessi uppbygging kostar mikla fjármuni. En hún gefur líka mjög mikla möguleika. Hún færir þjóðina miklu framar á þessu sviði en við erum í dag. Menn greinir auðvitað á um hvaða tækni skuli nota í þessu efni. Hér hefur verið bent á dreifingu um loftið, ef við getum sagt sem svo. (Gripið fram í: Gervitungl.) Já, gervitungl og hins vegar kapalvæðingu, en það er sú leið sem hefur orðið ofan á hjá Pósti og síma. Og það eru æ fleiri þeirrar skoðunar að það sé framtíðin sem felst m.a. í betri gæðum.

Herra forseti. Ein stærsta spurningin í þessu efni, í mínum huga, felst í því hvort eðlilegt sé að breiðbandsþjónusta Póst og síma, eða Landsímans eftir áramót, sé á sömu hendi og grunnnetið eða hvort skilja beri þarna á milli og þjónustan verði algerlega í sérstöku fyrirtæki. Ég tel þetta mjög áleitna spurningu sem svara þurfi hið allra fyrsta og tel þetta kannski eitt af stærri málum í þessu efni.