Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:34:25 (1750)

1997-12-05 14:34:25# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:34]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar sú nefnd sem undirbjó þetta frv. kom til síns fyrsta fundar þá var spurningin: Hvaða nauður rekur til að breyta sveitarstjórnarlögum sem voru samþykkt árið 1986, núgildandi lögum. Það kom fljótlega í ljós við yfirferð þeirra laga að ýmislegt hafði breyst og ástæða til þess að skýra mörg ákvæði laganna í ljósi þeirrar reynslu sem hefur verið síðasta áratuginn. Andi þessa frv. er sá að skýra ýmis ákvæði um stjórnsýslu sveitarfélaga sem þurfa skýringar við. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara nánar út í þau ákvæði enda hefur hæstv. félmrh. mælt fyrir frv. og rakið það. En þar var einnig ákveðið að afnema eins og kostur er mismun sveitarfélaganna eftir íbúafjölda sem núgildandi lög gera ráð fyrir og er það í takt við þá þróun sem verið hefur í landinu síðan.

Ég þarf ekki að rekja nöfn sveitarfélaga, nafngiftir hafa verið nokkuð til umræðu hér. En ítarlegur kafli í þessu frv. fjallar um fjármál sveitarfélaganna og í þeim kafla eru æðimiklar breytingar varðandi ábyrgðir sem gert er ráð fyrir að séu bannaðar, ábyrgðir fyrir þriðja aðila. Það eru ákvæði um að setja það í ákveðinn farveg þegar sveitarfélög lenda í fjárhagsvandræðum, þ.e. að þá sé hægt að grípa þar inn í. En reynslan hefur sýnt í nokkrum tilfellum að ákvæði þar um eru óljós.

Þetta er nokkuð viðamikið frv. þó að ákvæði til bráðabirgða hafi eiginlega eingöngu verið hér til umræðu í þessari umræðu það sem af er, að undanskildum síðasta ræðumanni sem rakti frv. nokkuð. Það er ekki rétt sem kom fram í umræðunni áðan að stjórnsýslumörk sveitarfélaga á hálendinu séu skilin eftir í ákvæði til bráðabirgða. Það er 1. gr. frv. sem fjallar um það mál og frv. hefst á því ákvæði þar sem segir að landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Þessari 1. gr. eru síðan settar reglur um framhald þess máls í ljósi þeirrar atburðarásar sem verið hefur nú síðustu árin.

Vissulega tengjast þessi mál væntanlegum frumvörpum um þjóðlendur og eignarrétt á auðlindum í jörðu og fleira, en það er þó langt í frá að framlagning þeirra frv. komi í veg fyrir þá skipan sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Forsenda frv. um þjóðlendur er sú að landinu sé skipt í sveitarfélög og það er staðfest af formanni þeirrar nefndar sem vann það frv., sem er Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, að hann leggur áherslu á að óvissu sé eytt í þessu efni og að það sé forsenda frekari átaka í þessu máli og það sem hefur valdið misskilningi finnst mér og verið blandað allt of mikið inn í þessa umræðu, að sveitarstjórnarlögin fjalla um eignarrétt og yfirráð á hálendinu. Þau fjalla ekki um það. Þau fjalla um stjórnsýslu á hálendinu og yfirráð yfir stjórnsýslunni. Meiri hluti landsins og langmestur hluti núna skiptist í sveitarfélög. Þarna er aðeins um að ræða að skýra mörk sveitarfélaganna á jöklum og þeim stöðum inn til landsins þar sem þau eru óljós. Það er enginn ágreiningur um það, ef maður nefnir Jökulsdalshrepp eystra sem dæmi, að hann nær inn að Vatnajökli. En mörk hreppsins aftur eru óljós þegar þangað kemur. Það er enginn ágreiningur um það að Reykjahlíðarhreppur nær inn til jökla o.s.frv. Það hefur enginn ágreiningur verið um þetta hingað til þannig að hér er ekki um eins mikla breytingu að ræða og eins mikla byltingu og látið er í veðri vaka í þeirri umræðu sem er um þetta mál. Það er verið að eyða óvissu um mörk sveitarfélaga á jöklum þar sem eru vaxandi mannaferðir og mannvirkjagerð og það þarf að hafa fullvissu um það hver á að fara með stjórnsýsluna á þeim svæðum.

Hér hefur verð rætt allmikið um getu sveitarfélaganna til að stjórna þessum málum og það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Austurl. rakti vel hér áðan að aðstaða sveitarfélaganna til að taka myndarlega á þessum málum gjörbreytist með stækkun þeirra. Þróunin er svo hraðfara núna varðandi styrk sveitarfélaganna og getu til að endurskipuleggja sína starfsemi að ég endurtek það sem ég sagði í andsvari áðan að þróunin og gerjunin á sveitarstjórnarstiginu er miklu hraðari en hjá ríkisvaldinu sem menn virðast treysta og bera alveg ofurtrú til þess að ríkisvaldið geri þetta miklu betur (Gripið fram í: Ertu að gagnrýna ...?) en sveitarfélögin í landinu. (Gripið fram í: Ertu að gagnrýna forsætisráðherrann?) Ég er að vara við ofurtrú á miðstýringu eins og þessi væntanlegi nýi jafnaðarmannaflokkur vill hafa. Það er sagt í öðru orðinu: ,,Við viljum færa sveitarfélögunum verkefni og treystum þeim mætavel til þess að fara með þau.`` Ég vann í ein þrjú ár undir stjórn fyrrv. félmrh. sem var fyrst í Alþfl. og síðan í Þjóðvaka undir þessum formerkjum, vann í nefnd á hennar vegum þar sem ofuráhersla var lögð á það að færa sveitarfélögunum meiri verkefni. Síðan koma sömu menn og segja: ,,Sveitarfélögunum er ekki treystandi til að fara með skipulagsmál eða stjórnsýslu ofan við 400 metra hæð eða öðrum megin við línu sem dregin er um landið.`` Ég næ engum botni í þennan málflutning. Ég held að sveitarfélögunum sé treystandi til að fara með þessa hluti.

Ég verð að leiðrétta hv. 14. þm. Reykv. sem hafði áhyggjur af löggæslunni í landinu. Sveitarfélögin fara ekki með löggæslu. Ríkisvaldið fer með löggæslu. Hins vegar eru löggæsluumdæmi í landinu og það er eðlilegt að hálendið falli undir það löggæsluumdæmi sem það tilheyrir. Það er langeðlilegasta skipan mála, en ekki að dregin sé lína þvert á öll náttúruleg mörk og einhver annar fari með lögsögu innan þeirrar ímynduðu línu. Mér finnst að æðimikill ruglingur sé í þessari umræðu. Hér er aðeins verið að skýra mörk sveitarfélaganna, eyða vafaatriðum um skipulag sem þegar er í gildi. En það hefur ekkert að gera með aðgang þjóðarinnar að hálendinu. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að greiða fyrir honum, að fólk í þéttbýli eigi að hafa eins greiðan aðgang að náttúru landsins og náttúruperlum og unnt er og skynsamlegt er. Ég hef aldrei lagst gegn því og er talsmaður þess. Og náttúruverndarlöggjöfin, löggjöfin um þjóðlendur o.s.frv. á að stuðla að því. En ég vil ekki stefna þessu máli í einhver ímynduð átök milli dreifbýlis og þéttbýlis út af skipulagsmálum.

[14:45]

Núna er verið að vinna skipulagstillögur um miðhálendið í samstarfi allrar þjóðarinnar. Sú samvinnunefnd sem þar er að störfum hefur auglýst sínar tillögur og samkvæmt skipulagslögum á öll þjóðin rétt á því að gefa sínar umsagnir um það mál. Það svæðisskipulag sem þar er um að ræða hefur verið kynnt um allt land. Í skipulagslögum segir svo um þetta, með leyfi forseta:

,,Þegar samvinnunefnd hefur gert tillögu að svæðisskipulagi skal hún auglýst í Lögbirtingablaði og með áberandi hætti í viðkomandi sveitarfélögum og höfð þar til sýnis ásamt fylgigögnum í a.m.k. fjórar vikur. Einnig skal tillagan auglýst utan sveitarfélaganna.``

Vilji löggjafans er sá að öll þjóðin hafi aðgang að skipulagsmálum. Mér er alveg ljóst að það er skipulagsþátturinn í þessu sem er viðkvæmastur og hann hefur valdið þeim misskilningi að verið sé að útiloka 96% þjóðarinnar, ef ég nota prósentureikning hv. 11. þm. Reykn., frá áhrifum á skipulag miðhálendisins. Svo er ekki. Það er langt í frá að svo svo sé.

Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð að sinni. Ég legg á það mikla áherslu að þeirri óvissu sem nú er um stjórnsýslumörk á miðhálendinu verði eytt. Ég endurtek það að hér er verið að skýra og færa til nútímahorfs skipulag um stjórnsýslumörk sem þegar er í gildi að langmestu leyti. Ég tel mikilvægt að í framhaldi af þessari löggjöf komi í gildi löggjöf þar sem eignarréttur ríkisins á miðhálendinu er skýrður en það er ekki meiningin að ganga gegn eignarréttarákvæðum eins og kemur fram í þjóðlendufrv. sem var lagt fram í fyrra. Hins vegar er ég því fylgjandi að þessi mál séu skýrð. Ég er því fylgjandi að komið sé upp þjóðgörðum og ákveðin svæði friðuð sem eru náttúruperlur. Ég hef ekkert á móti því. Það verður að þræða hinn gullna meðalveg í þessu eins og í öðru. Þjóðgarðar verða auðvitað að vera í einhverju sveitarfélagi. Þjóðgarðar sem við erum með núna eins og í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli eru innan marka sveitarfélaga. Mér finnst að það sé allt annað mál og það kemur ekki eignarrétti eða stjórnsýslu innan þjóðgarðanna við og það getur alveg farið saman. Ég held að það sé grundvallaratriði að halda þessum þáttum aðskildum og blanda ekki saman hinni flóknu og erfiðu eignarréttarumræðu og umræðu um stjórnsýslu og stjórnsýslumörk. Það tengist að vissu leyti en þetta frv. og samþykkt þess kemur alls ekki í veg fyrir að þjóðlendufrv. nái fram að ganga þegar þar að kemur, án þess að ég ætli að fara að tjá mig eða ræða um það mál í smáatriðum sem ekki hefur komið fram á þessu hausti, en hér liggur fyrir frv. frá því á fyrra þingi.

Ég vona að þetta frv. verði rætt málefnalega og að umræðan um frv. sjálft kafni ekki alveg í umræðum um þetta bráðabirgðaákvæði þó að vissulega sé það afar mikilvægt. Ég dreg ekki dul á það. Ég geri mér alveg grein fyrir því að skiptar skoðanir eru um þetta. En mér finnst, eins og ég segi, að atriðum sem tengjast ekki nema lauslega sé algjörlega blandað þarna saman.

Aðeins að lokum. Það kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. fyrirspurn um það hvers vegna hefði verið haldið inni í frv. tölu um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi. Það var álit nefndarinnar sem samdi frv. að þróunin væri það hröð í sameiningu sveitarfélaga um þessar mundir án afskipta ríkisvaldsins að ekki væri ástæða til þess að fara að breyta með lögum þessum lágmarksíbúafjölda að sinni. Það kynni að verða óþarft og sannleikurinn er sá að það hefur gengið miklu hraðar að sameina sveitarfélög að frumkvæði heimamanna í sveitarfélögunum en þegar ríkið var með hamarinn yfir höfðinu á fólki í þessum efnum þannig að okkur þótti að þetta ákvæði mætti standa að sinni og við sjáum hver þróunin verður á næstu árum varðandi þetta.