Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:57:33 (1753)

1997-12-05 14:57:33# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var versta rökfærsla sem ég hef lengi heyrt frá hinum skynuga og hv. þm. Jóni Kristjánssyni. Hann tók tvö dæmi, Alþingi Íslendinga og hann tók Þjóðleikhúsið. Bíðum nú við, hverjir stjórna þessu? Fólkið stjórnar Alþingi Íslendinga og fólkið stjórnar Þjóðleikhúsinu í gegnum kjörna fulltrúa sem þetta Alþingi kýs. Er þetta ekki alveg ljóst?

Hv. þm. segir: ,,Þetta varðar ekkert eignarrétt.`` Það liggur samt sem áður alveg ljóst fyrir að hér er að koma inn í þingið frv. sem gerir ráð fyrir því að þjóðin fái sameignarrétt að miðhálendinu. Og eiga menn ekki að fá að stýra því sem þeir eiga sjálfir? Að sjálfsögðu. Þetta er grundvallaratriðið. Þjóðin á miðhálendið saman eins og hún á saman fiskimiðin og hún á að fá að stjórna því. En stór hluti þjóðarinnar fær það ekki vegna þess að sá hluti þjóðarinnar á ekki aðild að þeim sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu. Þess vegna er hv. þm. að svipta t.d. mig og aðra íbúa í mínu kjördæmi og í Reykjanesi réttinum til þess að stjórna því sem þeir eiga.