Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:32:48 (1764)

1997-12-05 15:32:48# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:32]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er æskilegt í sambandi við þessa umræðu að menn túlki umbúðalaust sínar skoðanir og ég þakka hv. þm. fyrir það að koma með sín sjónarmið. Þau falla greinilega að þeirri umræðu og þeim tillögum sem fram voru lagðar hér við upphaf ferðar þegar Alþingi og framkvæmdarvaldið tóku sig til og reyndu að ná utan um skipulagsmál á miðhálendinu. Þá var sú tillaga uppi, sem ég gat um í máli mínu fyrr í dag, að gera miðhálendið að sérstöku skipulags- og stjórnsýslusvæði. Þessi tillaga var kveðin í kútinn hér á Alþingi veturinn 1991--1992. Fyrir því stóðu öðru fremur hluti af þáv. ríkisstjórnarliði úr Sjálfstfl. og Framsfl., ég segi nú ekki óskiptur og vil ekki fullyrða það en að meginhluta til, sem stöðvaði það stjfrv. sem hér lá þá fyrir og menn geta kynnt sér sem var um skipulags- og byggingarmál á miðhálendinu.

Þá gerðist það sem var ekki nógu gott eftir á að hyggja alla vega, vona ég að mati Alþfl., að þeir hlupu undir bagga með þessum öflum og fluttu hér inn í þingið frv. eða breytingu á skipulagslögum sem var síðan lögfest. Auðvitað öllum ljós nauðsynin á að ná utan um þessi mál og spurningin var hvort menn ættu að láta þetta lönd og leið, láta málin dankast eins og þau voru hér í stórum stíl. Þingmaðurinn rakti hér hvernig stæði á með byggingarmál á miðhálendinu, ólöglegar byggingar í stórum stíl, allt sem laut að umferð o.s.frv., fyrir nú utan virkjunarmálin. Síðan hefur verið unnið að þessum málum. Hv. þm. greiddi atkvæði með öðrum á þingi, hygg ég, sl. vor í sambandi við frv. til skipulagslaga. Það var lögfest og tekur gildi núna um næstu áramót þar sem fyrirliggjandi stefna var byggð inn varðandi skipulagsferlið.