Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:58:03 (1854)

1997-12-08 17:58:03# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:58]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að heyra skilning hv. þm. Össurar á þessu máli og einnig fróðlegt að heyra ánægjuhróp hans með störf fjmrh. og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar fannst mér hv. þm. gera sig sekan um að fylgjast ekki nægjanlega vel með, hvorki í ræðum hér né fréttum, hvort heldur er í dagblöðum, þeim sem hafa komið út í dag eða á öldum ljósvakans því að þar hefur m.a. komið fram að hæstv. umhvrh. er staddur í Kyoto vegna þeirrar ráðstefnu sem þar er haldin. Það m.a. fram í máli mínu áðan að ég veit ekki betur en þar muni hæstv. umhvrh. lýsa yfir því sem fram kom í stefnuræðu ríkisstjórnar sem flutt var af hæstv. forsrh. að íslensk stjórnvöld hafi hug á því að nýta innlenda, vistvæna orkugjafa. Ég lít svo á að það sé liður í því sem er hér til umræðu, frv. um niðurfellingu vörugjalda af bílum sem nota mengunarlausa orkugjafa.

Í annan stað af því að hv. þm. var nokkuð tíðrætt um að sér fyndist ekki nægur kraftur eða áhugi einstakra ráðherra á þessu máli. Eins og hv. þm. á að vera kunnugt, þá skipaði hæstv. iðnrh. nefnd til að leita leiða til að nýta innlenda og vistvæna orkugjafa og vill svo til að sá sem hér stendur stýrir þeirri nefnd. Ég get upplýst hv. þm. um að þar fer fram mikið starf og eru innan þeirrar nefndar margir mætir einstaklingar en ég tel að það lýsi vilja í verki að hæstv. iðnrh. skipar slíka nefnd og sú nefnd mun væntanlega skila af sér fljótlega á nýju ári. Þar er verið að fjalla nákvæmlega um þau mál sem hafa verið til umræðu út frá þessu litla frv.

Einnig er, herra forseti, rétt að hafa í huga varðandi stóriðjuummæli hv. þm. að þar er ekki allt sem sýnist og minni ég á það sem fram hefur komið í þessum ræðustóli að t.d. magnesíumverksmiðja á Reykjanesi kann að minnka koldíoxíðsmengun í heiminum um hvorki meira né minna en tíu millj. tonn árlega.