Fyrirhuguð frestun skattalækkunar

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 13:42:40 (1873)

1997-12-09 13:42:40# 122. lþ. 38.88 fundur 121#B fyrirhuguð frestun skattalækkunar# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:42]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn gaf fyrirheit um skattalækkanir í tengslum við síðustu kjarasamninga. Jafnvel þótt ekki hafi tekist samkomulag um framkvæmdina, þá var fyrirheitið engu að síður gefið og aðilar vinnumarkaðarins og þá sérstaklega verkalýðshreyfingin tók tillit til þessa fyrirheits við frágang kjarasamninga. Varaforseti Alþýðusambands Íslands hefur upplýst um að hann hafi spurst sérstaklega fyrir um það hjá ríkisstjórninni hvað verða mundi ef sveitarfélögin féllust ekki á þetta samkomulag fyrir sitt leyti og hæstv. ríkisstjórn hafði svarað því til að hún mundi þá sjá til þess með öðrum hætti að skattalækkunin kæmi til framkvæmda þannig að hæstv. ríkisstjórn hefur gefið afdráttarlaust fyrirheit.

Það eru gildandi lög í landinu, virðulegi forseti, sem kveða á um að þessi skattalækkun skuli taka gildi um næstu áramót og því verður ekki breytt nema að lög verði sett á Alþingi fyrir jólin á þeim fáu starfsdögum sem eftir lifa. Ef ríkisstjórnin ætlar að knýja það fram, þá setur hún að sjálfsögðu allt starf þingsins fram að jólum í uppnám. Þess vegna er nauðsynlegt að það komi fram sem allra fyrst hvort ríkisstjórnin hefur slíkar fyrirætlanir uppi. Við verðum að fá svar við því strax því ef ekki fæst svar við því, ef enn er gefið undir fótinn með að slíka lagabreytingu eigi að knýja fram á fáum dögum til jóla, þá sýnist mér ekki líklegt að ýmis stórmál svo sem fjárlagafrv. verði afgreidd á tilsettum tíma.