Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:39:41 (2028)

1997-12-12 15:39:41# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á því að velferðarkerfið skiptir okkur miklu máli, það er alveg ljóst. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir því, hv. þm., að við getum ekki rekið til lengdar velferðarkerfi okkar með lántökum. Hvað gerist þá? Þú getur bara horft í eigin pyngju ef þú eyðir meira en þú aflar, hvað gerist? (Gripið fram í: Þú ferð annað.) Þú ferð hugsanlega á annan stað en það er ekki þar með sagt (ÖS: Þú færð þér aðra vinnu.) Herra forseti. Þetta var góð ábending. Þetta minnir kannski á að kjör þingmanna eru ekkert sérlega góð og það er einstaka maður sem nælir sér í viðbótarstörf og það sýnir kannski hvað þeir eru útsjónarsamir. En ég er að vekja athygli á því að velferðarkerfið okkar verður ekki rekið með lántöku til lengdar. Hvað gerir það, hv. þm.? Það verður líka að benda á leiðir. Við sjáum það í starfi fjárln. að það koma til okkar hundruð manna fyrir ýmiss konar stofnanir og allir vilja fá ákveðna peninga. Auðvitað getum við ekki sinnt öllum þessum þörfum en við verjum nú meira til heilbrigðiskerfisins sem samt sem áður er heilmikið gagnrýnt. Við erum sífellt að auka þjónustuna þar. Sífellt fleiri njóta þjónustunnar og mjög margt hefur verið gert til að bæta þjónustuna og það tel ég af hinu góða.