Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:54:05 (2073)

1997-12-12 18:54:05# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Til þess að geta orðið að liði í heilbrigðismálunum þarf pólitíkin, stjórnmálamenn og ríkisstjórnir að koma til og hjálpa og það þarf að byrja á því að spyrja einnar grundvallarspurningar, spyrja að því hver þörfin sé í heilbrigðismálum. Ef við reyndum að átta okkur á því hver þörfin er þá gætum við komið á hlutlægan hátt og orðið að liði við að reyna að meta það hvað þarf af peningum. Það er á engan annan hátt sem við getum orðið að liði. Þessarar spurningar er ekki spurt. Sjúkrahúsin á Íslandi eru fullkomlega sambærileg að öllu leyti við sjúkrahúsin í nágrannalöndunum. Það er ekki hægt að segja það með nokkrum sanni að þau séu dýrari. Það er heldur ekki hægt að segja að við séum að gera aðgerðir hér ódýrari en aðrir. Við eigum að koma og hjálpa hinum góðu heilbrigðisstéttum með því að reyna að átta okkur á því hvað Íslendingar þurfa. Við erum tiltölulega ung þjóð og allur samanburður í kostnaði miðað við verga landsframleiðslu þarf að taka mið af því að um unga þjóð sé að ræða. Menn skulu átta sig á því líka í samanburði við OECD-ríkin að Bandaríkin og Kanada eru svo rosalega há í þessum samanburði að það ruglar þetta allt saman, enda eru þau með allt annað heilbrigðiskerfi en við. En ef við ætlum að bera það saman við Evrópu þá stendur þetta svona. Við erum tiltölulega mjög háir miðað við að þetta er ung þjóð.