1997-12-13 00:35:50# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. minni hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[24:35]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir tveimur brtt. sem ég er 1. flm. að. Fyrri tillagan lýtur að niðurgreiðslu á rafhitun og er lagt til að niðurgreiðslur verði auknar um 60 millj. kr., hækki úr 437 millj. kr. í 497 millj. kr. Á næsta ári er áætlað að tekjur ríkissjóðs vegna arðgreiðslu af eignarhaldi ríkissjóðs í Landsvirkjun nemi 120 millj. kr. og er lagt til að helmingnum af þessum tekjum verði varið til þess að lækka orkureikning þeirra sem búa við hæst orkuverð. Ríkissjóður greiðir niður um 1,38 kr. á kwst., allt að 30 þús. á ári. Auk þess veitir Landsvirkjun afslátt að fjárhæð 47 aurum á kwst. svo samtals nemur niðurgreiðslan um 1,85 kr. á kwst. til 7.900 notenda.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér má ætla að kostnaður ríkissjóðs við að greiða niður um 1,85 kr. 10 þús. kwst. til viðbótar nemi um 60 millj. kr. á ári. Er þá ekki gert ráð fyrir að Landsvirkjun taki þátt í niðurgreiðslunum en ef svo er, þá gæti hlutur ríkissjóðs verið um 45 millj. kr. Til ársins 1990 voru greiddar niður 40 þús. kwst. á ári en þá var þeim fækkað í 30 þús. Tillagan gerir því ráð fyrir að færa niðurgreiðslurnar til fyrra horfs.

Athuganir sem gerðar hafa verið benda til þess að notkun á köldum svæðum eins og norðanverðum Vestfjörðum séu um 40 þús. kwst. á ári en frekari rannsóknir þarf þó að gera ef fullyrða á að þetta sé sú tala sem rétt er.

Algengt er í 20 ára gömlu húsi að 45--50 þús. kwst. þurfi á ári og er athyglisvert að skoða kostnaðinn við að kynda slíkt hús á Vestfjörðum. Af fyrstu 30 þús. kwst. nemur kostnaðurinn um 54 þús. kr. á ári en af 15--20 þús. kwst. sem eru umfram 30 þús. kwst. er kostnaðurinn um 67 þús. kr. 50--60% fleiri kwst. hækka reikninginn um 125%. Greinilegt er að orkunotkun á bilinu 30--40 þús. kwst. er mjög dýr fyrir húseigendur sem flestir nota orku að þessu marki. Gripið var til lækkunar á sínum tíma undir þeim formerkjum að hvetja húseigendur til orkusparandi aðgerða. Staðreyndin er sú að kostnaður við þær er svo mikill að ekki er ráðist í þær nema í nýbyggingum en lítið hefur verið byggt á þessum köldu landsvæðum og húsnæðið að miklu leyti byggt þegar aðrar kröfur voru gerðar um einangrun en nú er. Húsnæðið er heldur ekki orðið það gamalt að komið sé að endurbótum á því. Niðurstaðan verður því að lækkunin á niðurgreiddum kwst. úr 40 þús. í 30 þús. hefur komið fram sem bein hækkun á orkureikningum.

Síðari tillöguna sem ég mæli fyrir er að finna á þskj. 503. Þar er lagt til að hækka fjárveitingar til stofnkostnaðar hjá Ríkisspítölum um 5,2 millj. kr. til að standa straum af tækjakaupum vegna tveggja verkefna á sviði fjarlækninga. Annars vegar er 3 millj. kr. til kaupa á fjarfundabúnaði til flutnings á mynd úr ómskoðun fyrir meðgöngurannsókn milli Landspítala og Sjúkrahúss Suðurlands. Hins vegar er gert ráð fyrir 2,2 millj. kr. til kaupa á myndfundabúnaði við sjúkrahúsin á Patreksfirði og Seyðisfirði. Ráðgert er að koma á samstarfi milli þeirra og Landspítalans um ráðgjöf vegna geðlækninga en Landspítalinn mun leggja til sinn búnað.

Fjarlækningar er nýtt form lækninga sem er að ryðja sér til rúms í kjölfar nýrrar tækni í fjarskiptum. Fyrir nokkru er hafin uppbygging þjónustu vegna sendinga í röntgenmyndum. Er búnaður til slíks á Landspítalnum, í Neskaupstað, í Vestmanneyjum, í Stykkishólmi og á Sauðárkróki og fljótlega bætast við Egilsstaðir og Höfn í Hornafirði. Fjárln. styrkti með framlagi á fjárlögum 1994 einkafyrirtæki til þess að þróa og hanna búnað til slíkra nota. Er lagt til að útvíkka þjónustuna til ómskoðunar og geðlækninga.

Landspítalinn og Sjúkrahús Reykjavíkur eru þátttakendur í samstarfsverkefni nokkurra Evrópulanda vegna fjarlækninga fyrir bráðalækningar, m.a. fyrir sjómenn. Þessi staðreynd hlýtur að hvetja íslensk stjórnvöld til að nýta sér þessa tækni til að bæta þjónustu sjúkrahúsa hér á landi og er því þessi tillaga lögð fram. Umrædd verkefni mundu hefjast á næsta ári og þjónusta með fjarlækningum á þessum sviðum yrði hafin að loknu tveggja ára tímabili.

Að lokum má upplýsa að áform erum um að beita fjarlækningum á fleiri sviðum og má þar nefna húðskoðanir, háls-, nef- og eyrnaskoðun og hjartalækningar.

Herra forseti. Þessar tvær tillögur sem ég hef lagt hér fram á þskj. 503 og 504 liggja hér fyrir og ég vænti þess að þær muni hljóta brautargengi á þessu þingi.