1997-12-13 00:43:03# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[24:43]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 495 sem er flutt af hv. þingkonu Guðnýju Guðbjörnsdóttur auk mín. Tillagan er um framlag til Félags einstæðra foreldra, nýjan lið sem í felst styrkur til endurbóta á húsnæði upp á 9 millj. kr. og vil ég nú aðeins skýra tillöguna.

Félag einstæðra foreldra var stofnað í nóvember 1969 og voru stofnfélagar þá 300 talsins en frá stofnun hafa um 5.000 félagar látið skrá sig í félagið og í dag eru félagar um 1.200. Markmið félagsins er að vinna að hagsmunamálum einstæðra foreldra og barna þeirra, gæta réttar þeirra gagnvart stjórnvöldum og öðrum sem með mál þeirra fara og á allan hátt að vinna að því að bæta uppeldisstöðu þeirra barna sem ekki njóta samvista við báða foreldra.

Í dag eru einstæðir foreldrar um það bil 11 þús., þ.e. foreldrar sem fara með forsjá barna sinna. Um það bil 35% einstæðra foreldra halda ekki sjálfstætt heimili vegna þess að fjárhagsástæður leyfa það ekki. Aðeins helmingur þeirra einstæðu foreldra sem halda sjálfstætt heimili búa í eigin húsnæði. Hinn helmingurinn þarf því að reiða sig á leigumarkaðinn. Það er vitað að fjárhagsstaða einstæðra foreldra, sér í lagi þeirra sem litla eða enga menntun hafa, er með því sem verst gerist í þjóðfélaginu. Félagar í Félagi einstæðra foreldra koma yfirleitt úr þessum tekjulægsta hópi og eru húsnæðismálin brýnasta vandamál þeirra. Þetta eru auðvitað engin ný sannindi, enda hefur Félag einstæðra foreldra allt frá stofnun félagsins lagt sérstaka áherslu á húsnæðimsálin í starfsemi sinni.

[24:45]

Félagið hefur rekið neyðar- og bráðabirgðahúsnæði fyrir einstæða foreldra og börn þeirra í Skeljanesi 6, en það húsnæði var keypt árið 1976, og Öldugötu 11 í Reykjavík. Það húsnæði var keypt árið 1986 og er hægt að hýsa 21 fjölskyldu í einu. Í húsunum eru litlar íbúðir og herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði. Íbúðirnar eru alltaf fullsetnar og eru um 2/3 hlutar umsækjenda á biðlista hverju sinni.

Um síðustu áramót voru 379 umsóknir eftir almennu félagslegu húsnæði og er biðtíminn 2--3 ár. Félag einstæðra foreldra finnur mikið fyrir þessu því að sífellt verður erfiðara að losa íbúðirnar sem það hefur til ráðstöfunar fyrir nýja umsækjendur. Húsnæðið er hugsað sem neyðarhúsnæði, enda allur aðbúnaður miðaður við það. Félagsmálastofnun Reykjavíkur hefur í auknum mæli vísað umsækjendum sínum á biðlista til félagsins og hefur samstarf við stofnunina verið gott. Það hefur auðvitað verið á óskalista Félags einstæðra foreldra að kaupa nýtt húsnæði til að mæta þörf þeirra sem enga úrlausn fá. Ástand húsanna er hins vegar slíkt að allir slíkir draumar verða að bíða um sinn. Ástand margra íbúða er þannig að húsnæðið uppfyllir vart þær kröfur sem heilbrigðiseftirlitið gerir til mannabústaða almennt. Nú er af óhjákvæmilegri nauðsyn hafin viðgerð á húsunum og Félag einstæðra foreldra neyddist til að slá til þess bankalán. En félagið treystir sér ekki í meira en algerar lágmarksviðgerðir til þess að húsnæðið teljist íbúðarhæft. Fyrir hendi er úttekt á ástandi húsanna og kostnaðaráætlun og í samræmi við hana fór Félag einstæðra foreldra fram á 10 millj kr. til reksturs og til bráðnauðsynlegs viðhalds. Það voru sem sagt 10 millj. kr. í beiðni félagsins til fjárln.

Hv. félmn. fékk þetta erindi til umfjöllunar og varð myndarlega við óskum félagsins um framlag til rekstursins. Það samþykkti eina millj. kr. til reksturs félagsins en vísaði erindinu um styrk til viðgerða á húsnæðinu aftur til fjárln. þar sem sú upphæð sem á þurfti að halda rúmaðist engan veginn innan þess liðar sem hv. félmn. hafði til skiptanna.

Þingkonur Kvennalistans telja augljóst að félagið þurfi á myndarlegri fjárveitingu að halda svo að hægt sé að standa straum af viðgerðarkostnaði húsanna. Það er nauðsynlegt svo að Félag einstæðra foreldra geti veitt húsnæðislausum fjölskyldum áframhaldandi þjónustu. Það skal tekið fram að af öllum þeim íbúum sem búið hafa í húsunum hefur um það bil fjórðungur komið utan af landi eða erlendis frá og eins og fram hefur komið hefur aðsóknin verið langt umfram framboð. Við þingkonur Kvennalistans reyndum við afgreiðslu fjárlaga fyrir 1997 að fá samþykkta tillögu á hv. Alþingi um tímabundið framlag til Félags einstæðra foreldra vegna þessara bráðnauðsynlegu viðgerða. Því miður hafnaði hv. Alþingi þessari tillögu en áfram skal mennina reyna og því flytjum við hv. þingkona Guðný Guðbjörnsdóttir tillögu um 9 millj. kr. framlag til Félags einstæðra foreldra í þessu skyni og ég vona að hv. Alþingi taki tillit til þessarar bráðnauðsynlegu beiðni.