1997-12-13 01:48:44# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[25:48]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það mun nú vera komið að lokum 2. umr. um fjárlagafrv., álits meiri og minni hluta fjárln. þar um. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið hér í dag. Hún hefur verið málefnaleg og komið víða við.

Það má segja að sú mynd sem við blasir eftir umræðuna sé á þann veg að hér liggja fyrir tillögur frá stjórnarandstöðunni um 3 milljarða kr. útgjöld til viðbótar við þá 1,5 milljarða sem meiri hluti fjárln. leggur til og stjórnarandstaðan vill afla aukinna tekna frá atvinnulífinu til að jafna þennan mun.

Hér hafa verið haldnar ágætar ræður um hættuna á þenslu og verðbólgu og um háa vexti o.s.frv., af stjórnarandstöðunni. Jafnframt hefur verið fundið að því að of lítið fjármagn væri veitt til ýmissa þjóðþrifamála. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að rekja það. Það er alveg ljóst að við höfum það tæki sem ríkisfjármálin eru í höndunum til að sporna við þenslu og til að sporna við vaxtahækkunum, en til þess verðum við að reka ríkissjóð í jafnvægi. Það verður að halda vel á spöðunum til þess á milli 2. og 3. umr. Það á eftir að ræða um tekjuhlið fjárlaga við 3. umr. og afar áríðandi er að halda því markmiði að reka ríkissjóð hallalausan. Það veldur miklum umskiptum í íslenskum efnahagsmálum og styrkir velferðarkerfið til frambúðar.