Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 14:55:17 (2542)

1997-12-17 14:55:17# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[14:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar eftirlit með gæðum menntunar á háskólastigi, þá er reynsla fengin fyrir því hvernig unnt er að halda uppi slíku eftirliti, bæði varðandi einstakar deildir í Háskóla Íslands, og einnig varðandi kennslu í einstökum háskólagreinum á landinu öllu. Menntmrn. beitti sér fyrir því á síðastliðnu ári að gerð var úttekt á kennslu í viðskipta- og rekstrarfræðigreinum í landinu í fjórum skólum, þ.e. Háskólanum á Akureyri, Tækniskólanum, Samvinnuháskólanum og Háskóla Íslands. Hv. þm. geta kynnt sér hvernig að því var staðið og er til marks um hvernig á að standa að slíkri úttekt og slíku eftirliti af hálfu ráðuneytisins. Því hefur síðan verið fylgt eftir af ráðuneytinu með ábendingum til viðkomandi skóla og óskum um að þeir geri ráðuneytinu grein fyrir því hvernig þeir hyggjast bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslum sem lúta að ytra og innra starfi skólanna.

Í vetur er unnið að úttekt á kennaramenntun í landinu á háskólastigi á svipaðan hátt. Þetta er flókið ferli en það liggur alveg fyrir hvernig unnt er að standa fastmótað að þessu. Aðferðafræðin hefur í sjálfu sér ekki verið gagnrýnd þótt menn geti að sjálfsögðu deilt um niðurstöðuna í slíku mati eins og jafnan er.

Að því er varðar orð hv. þm. um tölvufræði og upplýsingatæknina, þá vil ég aðeins minna á að menntmrn. hefur eitt ráðuneyta gefið út stefnumörkun um notkun upplýsingatækninnar bæði á sviði mennta og menningar í riti sem heitir ,,Í krafti upplýsinga`` og kom út í mars 1996 þannig að stefnan í þeim málum er alveg skýr af hálfu ráðuneytisins.