Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:45:40 (3028)

1999-01-12 11:45:40# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:45]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir með ólíkindum ef hv. þm. og ágætur félagi, Einar Oddur Kristjánsson, hefur ekki heyrt það sem ég sagði. Það er ugglaust vegna þess að hann hefur verið upptekinn af að skrifa eigin ræðu eða ræða um einhver mál í nefndinni sem eru efst á baugi í sjútvn. í dag.

Ég lagði það til og hef lagt það til áður að í stað úthlutunarkerfisins, sem er í dag, verði tekið upp verðmætaúthlutunarkerfi miðað við þorskígildi. Ég fór yfir það mál í örfáum orðum og get gert það aftur á hvern hátt það gerist. Það þýðir varðandi þau úthlutuðu verðmæti í þorski eða aflahlutdeild í þorski, að það verður gert þannig að þetta verður reiknað út í verðmætum og hverjum báti verði heimilt að koma með þau verðmæti að landi í öllum tegundum. Það þýðir að brottkast hættir. Það þýðir nánast að brottkast fisks hverfur. Allur fiskur kemur í land.

Ég hélt að þetta væri svo einfalt að það væri hægt að skilja orð mín. Ég fór yfir þetta í ræðu minni áðan og ég má til með að segja rétt einu sinni enn: Íslenskir sjómenn eru ekki lengur frjálsir menn. Vegna hvers eru íslenskir sjómenn ekki frjálsir menn? Vegna þess að þeir eiga ekkert val. Frjáls maður á val. Í mjög mörgum tilvikum á íslenskur sjómaður ekki val. Hann verður að henda þeim afla í sjóinn aftur sem skilar ekki arði. Ég veit að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er mér sammála um að mjög margir íslenskir sjómenn eru ekki lengur frjálsir. Ég tel mig kunna túlkun á því hvað er frjáls maður, a.m.k. út frá siðferðisvitundinni og líka út frá lögum. Þegar lögin gera mönnum að mega ekki henda í sjóinn en þeir verða að gera það til að komast af, eru menn ekki lengur frjálsir.