Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 12:20:37 (3035)

1999-01-12 12:20:37# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[12:20]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið nú hv. þm. afsökunar. Ég hef tekið rangt eftir. Ég hélt hann væri að spyrja um grásleppufrv. ríkisstjórnarinnar. Hann er sjálfsagt að spyrja um meðaflafrv. sitt um grásleppu. Ég get svarað því strax. Að sjálfsögðu styð ég það. Ég veit að það er alveg hárrétt sem hann heldur fram þar.

Það er erfitt, herra forseti, að svara hvort sjómenn séu siðferðilega frjálsir. Hins vegar hef ég haldið því fram, alveg frá því við hófum umræðu um fiskveiðistjórnina, að menn yrðu að horfast í augu við aðalgalla aflamarkskerfisins, sem er brottkast. Við verðum að horfast í augu við það og tala um það opinskátt því ef við viðurkennum ekki vandamálið þá er engin von til að tekið verði á því. Það að viðurkenna vandamálið er fyrsta skrefið. Ég veit að brottkastið er mjög mismunandi mikið. Það er mjög mismunandi mikið á skipunum vegna þess að þau standa mjög misjafnlega að veiðum. Þau standa mjög misjafnlega að vígi til að stunda útgerðina og menn eru misjafnir eins og við þekkjum.

Ég veit að brottkastið í þessu kerfi er meira en við getum staðið undir. Við verðum að fá breytingar á þessu. Ég hef viðrað nokkrar slíkar breytingar. Ég hef talað um það hér við 1. umr. að við skyldum skoða það að öllu leyti. Ég held t.d., herra forseti, að til greina kæmi að gera tilraunir, t.d. með því að láta ákveðin skip fá svona ruslakvóta og gá hvað gerðist. Ég veit að Hafrannsóknarstofnun hefur rannsakað þetta. Ég veit að uppi í háskóla hafa menn rannsakað og tölurnar sem þeir fá út eru skelfilegar. Við getum ekki lifað við þetta áfram. Ég veit um mjög marga sjómenn sem hafa sagt sínar farir ekki sléttar í þessu og ég skil það mætavel. Það sem þeir segja mér er svo sem misjafnt og misvísandi en ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að við getum ekki látið við svo búið standa. Það verður að grípa til aðgerða.