Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:17:33 (3051)

1999-01-12 14:17:33# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:17]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn kom inn á ákvæði, sem fjallað er um í frv. og breytingartillögum hv. sjútvn., sem varðar heimildir til þess að selja þá veiðidaga sem viðkomandi smábátaútgerðir hafa.

Það er mat manna að hæstaréttardómurinn kalli á þessa heimild. Það verði að vera möguleiki á því að selja allar heimildir, hvort sem einingin er dagur eða tonn. Sú varð niðurstaðan enda er eðlilegt að sömu reglur gildi um allan útveginn. Þetta vildi ég að kæmi sérstaklega fram hér.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi og ég talaði um, skattlagningu á hagnaði af sölu, var ég fyrst og fremst og einungis að tala um þegar aðilar hætta útgerð, fara út úr greininni og selja veiðiheimildir sínar. En ég tók sérstaklega fram að þetta er ekki einfalt mál. Það verða að gilda sömu reglur. Engu að síður tel ég að vegna þess m.a. að það er sérstakt ákvæði um endurskoðun á lögunum að ákveðnum tíma liðnum þurfum við að skoða þetta þannig að fólkið í landinu átti sig á því að við erum að skoða kerfið í heild sinni, einnig kosti þess og galla. Það er því afar mikilvægt að þessi þáttur sé skoðaður eins og allt annað.

Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði mjög skýrt í ræðu minni að ég tel að við þurfum að halda þannig á málum að lögin um stjórn fiskveiða séu í stöðugri endurskoðun, ekki til þess að rústa grundvöll sjávarútvegsins heldur til þess að bæta löggjöfina eins og best verður hverju sinni.