Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:15:53 (3105)

1999-01-13 17:15:53# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:15]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er svolítill kækur upp á síðkastið sem mér finnst vera nýlunda, var a.m.k. ekki svo þegar ég kom hér fyrst inn á þing, að stjórnarandstaðan bregður gjarnan á það ráð þegar henni er mætt með rökum í umræðum að koma upp og halda því fram að nú sé bara verið með útúrsnúninga og ómálefnalegar upphrópanir. Ég man eiginlega ekki eftir upp á síðkastið að stjórnarandstaðan hafi mætt málefnalegum rökum með öðrum hætti en þessum og satt best að segja finnst mér það ekki vera mikil framför í umræðu í þinginu.

Ræða hv. 8. þm. Reykv. var um margt athygliverð. Hann hélt því til að mynda fram sem dæmi um ómálefnaleg viðbrögð af minni hálfu að ég hafi haldið því fram í ræðu minni að stjórnarandstaðan vildi ekki bregðast við dómi Hæstaréttar. Það sem ég benti á var einungis það sem hv. talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa sagt í ræðum sínum og með tillöguflutningi að óþarfi væri að bregðast við dómi Hæstaréttar fyrr en eftir fjögur ár. Ég ætla ekki að endurtaka röksemdir mínar gegn tillögu þeirra. En það var ekki annað sem fólst í ummælum mínum. Ég get ekki séð að stjórnarandstaðan né flm. tillögunnar geti hlaupið frá því að hugmyndir þeirra hafa verið þær að ekki þurfi að bregðast við þessu fyrr en eftir fjögur ár. Mér finnst í því vera fólgið að verið sé að gefa Hæstarétti langt nef. Stjórnarandstaðan getur auðvitað haft á því aðrar skoðanir. Henni er það frjálst en það er mitt mat að svo sé. En annað fólst ekki í orðum mínum og er ekki málefnalegt að koma upp og segja annað.

Ég var hins vegar ekki að gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir að hafa dregið brtt. til baka. Það er mikill misskilningur og hv. þm. stjórnarandstöðunnar mega ekki vera hörundsárir út af því vegna þess að ég var þvert á móti að hæla þeim fyrir að hafa dregið tillöguna til baka. Ég taldi það bera vott um að þeir hafi tekið mark á málefnalegri gagnrýni á tillöguna og mér fannst og finnst enn að þeir séu menn að meiri fyrir að hafa dregið hana til baka. Það er sjaldan sem þeir standa upp og kveinka sér undan hrósi. Ég man eiginlega varla eftir að menn hafi kvartað undan hrósi fyrr en hv. 8. þm. Reykv. gerir það nú.

Hv. 8. þm. sagði svo að stjórnarandstaðan hefði lögfræðina sín megin. Það má vel vera en ég sé engin lögfræðirök í fjögurra ára frestun. Það eru engin lögfræðirök á bak við það að fresta því að taka ákvörðun. Það eru einhver allt önnur rök. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með vangaveltum um það en ég get alveg fullyrt að frestun á því að taka ákvörðun, það er engin lögfræði fólgin í því.

Hv. þm. sagði svo að ekki væri víst að breytingar á 5. gr. einar og sér dygðu til að mæta kröfum Hæstaréttar. Ég skal ekkert fara að lengja umræðuna í deilur um það en ég er alveg klár á því að frestun á því að taka ákvörðun dugar ekki til að mæta kröfum Hæstaréttar.

Það er óþarfi að fara í orðaskak út af því hverjir bera ábyrgð á þessum lögum. Ekki ætla ég að víkja mér undan þeirri ábyrgð. Að vísu stóð svo á að ég greiddi þeim ekki atkvæði á sínum tíma vegna þess að ég og flokkur minn vorum þá ósáttir við það sjóðakerfi sem búið var til í kringum lögin en efnislega var ég fylgjandi því meginstjórnkerfi sem komið var á fót og hef síðan bæði varið það og tekið þrátt í að þróa það. En mér finnst svolítið öfugsnúið þegar einn af þeim hv. þm. sem greiddu þó atkvæði með frv. segir að aðrir sem gerðu það ekki beri dóminn á bakinu og ýjar að því að Hæstiréttur hafi verið að fella dóm yfir ummælum þeirra eða framgöngu sem hafa verið að verja kerfið en ekki lögunum sjálfum sem voru samþykkt með atkvæðum tilgreindra þingmanna á sínum tíma, heldur hafi verið að fella dóm yfir --- ja, ég skildi það helst svo --- ræðum þeirra sem hafa verið að verja fiskveiðistjórnarkerfið. Vel má vera að þetta hafi verið misskilningur en mér fannst það ekki ýkja málefnalegt af hv. þm. sem greiddi þessum lögum atkvæði á sínum tíma að lýsa því yfir að þeir sem ekki greiddu þeim atkvæði bæru hæstaréttardóminn á bakinu öðrum fremur. En finnist hv. þm. þetta málefnalegt framlag í umræðuna á hann það auðvitað við sjálfan sig.

Herra forseti, ég vildi aðeins gera þessar örfáu athugasemdir vegna ræðu hv. 8. þm. Reykv., en aðalatriðið er þó það að tilefni þessara ummæla var að ég var að hæla stjórnarandstöðunni og hrósa henni fyrir að hafa dregið tillöguna til baka.