Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:23:15 (3163)

1999-02-02 16:23:15# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:23]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sambandi við viðmiðunarlínuna er það út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. að í upphafi og kannski framan af vinnutíma nefndarinnar að svæðisskipulagi þá leit hún á þetta sem viðmiðunarlínu. Ég veit ekki hvað hv. þm. á við með því að segja að línan skuli síðan upphefjast því að svæðisskipulagið er kortlagt, ákveðið merkt svæði. Það sem við gerum hér er að taka aðeins sömu viðmiðun. Á þessu stigi hefur ekki verið leitað samþykkis allra sveitarstjórna sem hlut eiga að máli um hvort þau fallist á þá línu sem hér er lögð til. Það hefur ekki verið gert, það er rétt að það komi fram. Hins vegar hefur þetta frv. verið rætt hjá samvinnunefndinni sem var að ljúka störfum, á fundum sem ég sat með henni, bæði í fyrravor og aftur nú þegar hún lauk störfum. Þar var farið yfir efni frv. og gert ráð fyrir að þessi viðmiðun yrði áfram í hinum nýju lögum. Það var athugasemdalaust af nefndarmönnum, jafnt sveitarstjórnarmönnum sem öðrum. Samþykkis hefur ekki verið leitað við þessu einstaka atriði.

Varðandi verkefni nefndarinnar þá sé ég ekki að mikið beri í milli okkar hv. þm. um þau. Það er skýrt að hlutverk nefndarinnar er styrkt. Hún á hér að gera tillögur. Hún var ekki þannig hugsuð í hinu fyrra frv. Það er gert til að árétta verkefni hennar og gera það skýrara. Svæðið sem hún skal vinna á er líka skýrt í frv. eins og við töluðum um áðan. Hins vegar er ekki tekin af sveitarfélögunum, eins og ég sagði áðan, sú ábyrgð að fara með skipulagsmálin. Þessi sérstaka nefnd fær ekki það hlutverk að vera hinn lögskipaði aðili. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði um 13. eða 15. gr. áðan, hæstv. forseti, það var skýrt.