Fjarnám og fjarkennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:44:30 (3237)

1999-02-03 14:44:30# 123. lþ. 58.8 fundur 268. mál: #A fjarnám og fjarkennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:44]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Það er mjög ánægjulegt að þessi fsp. skuli hafa komið fram og mjög ánægjulegt að þessi umræða skuli vera að fara hér fram. Þetta er afskaplega mikilvægt mál eins og hefur komið fram í máli þeirra sem hafa talað í dag.

[14:45]

Menntmrh. hefur með eigin tölvunotkun sýnt að hann hefur mikinn skilning á málefnum netsins. Íslendingar eru í dag ein netvæddasta þjóð í heimi þar sem um 60% Íslendinga hafa aðgang að þessum miðli. Næstnetvæddustu þjóðir Evrópu eru Finnar og Írar en þar eru einungis um 40% sem hafa aðgang að netinu. Aðrar Evrópuþjóðir eru þar langt að baki. Ég veit til þess að Írar ætla sér að vera í fararbroddi í því að nýta þennan miðil í sókn á nýja markaði á næstu öld. Við höfum einnig möguleika á því að vera þar og verðum að líta til þeirrar vinnu sem unnin hefur verið á Írlandi og í Bandaríkjunum til að marka stefnu stjórnvalda í þeim málaflokki. Ég bjó í Bandaríkjunum undanfarið eitt og hálft ár og veit að það var mikil lyftistöng fyrir notkun netsins að bjóða þar upp á fast símgjald fyrir ótakmarkaða símnotkun. Ég vona að slíkt verði í boði hér á landi einnig. Það er mjög mikilvægt til að fólk geti verið tengt eins lengi og hægt er við netið og geti nýtt sér möguleika fjarkennslu og sóknar á nýja markaði með miðlinum.