Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:06:52 (3344)

1999-02-08 17:06:52# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sakna þess að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, Siv Friðleifsdóttir og fleiri úr stjórnarliðinu sem tóku þátt í umræðunni síðastliðið vor skuli ekki vera viðstödd þessa umræðu. Ég held að þau hafi haft nákvæmlega sama skilning á þeim fyrirheitum sem þá voru gefin og ég, að tryggt yrði að skipulag miðhálendisins yrði á einni hendi. Deilt var um hvaða aðilar kæmu að nefndinni sem átti að annast þetta, hvernig hún ætti að vera samansett. Hér er hæstv. umhvrh. að skýra okkur frá því að aldrei hafi staðið til að svipta sveitarfélögin skipulagsvaldinu.

Hver er tilgangur þessara laga? Ég spyr. Er verið að setja á fót eins konar ráðgjafarnefnd fyrir sveitarfélögin? Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ef þetta er aðeins misskilningur minn þá er ég harla undrandi. Ég auglýsi eftir því að fleiri þingmenn sem hafa tjáð sig um þessi mál, t.d. hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, hafi sama skilning og hæstv. ráðherra á þessum málum. Mér finnst komin upp allt önnur staða en var þegar umræða um þessi mál hófst fyrir fáeinum dögum.