Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:39:05 (3708)

1999-02-16 17:39:05# 123. lþ. 66.56 fundur 79. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Frv. þetta hefur verið flutt árlega á yfirstandandi kjörtímabili. Nú flytur það ásamt mér hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Tilgangur frv. er að gera fjármál flokkanna opin og sýnileg og koma í veg fyrir þá leynd sem mörgum finnst hvíla á fjármálum stjórnmálaflokkanna sem einungis er til þess fallin að auka á tortryggni almennings í garð þeirra. Sama má raunar segja um leyndina sem hvílir yfir styrkjum til stjórnmálaflokka frá einstaklingum eða fyrirtækjum. Í slíkum tilvikum getur skapast hætta á hagsmunaárekstrum sem leitt getur til óeðlilegrar afgreiðslu mála í stjórnsýslunni þar sem fáum er hyglað á kostnað heildarinnar.

Áður en ég lagði þetta frv. fram fyrir fjórum árum höfðu áður verið flutt frumvörp sama efnis, t.d. þáltill. flutt af hálfu Kvennalistans ef ég man rétt. Hv. þm. Benedikt Gröndal flutti líka á sínum tíma frv. um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka. Þessu máli hefur því oft og iðulega verið hreyft í þingsölum. En það er, herra forseti, eins og einhver tregða sé á því að þingið afgreiði þetta mál og setji lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna.

Ég held að almennt sé lítið vitað um fjármál stjórnmálaflokkanna hér á landi en þeir eru hvorki framtalsskyldir né skattskyldir, aðeins bókhaldsskyldir. Þó er ljóst, ekki síst í kringum kosningar, að mikið fjármagn fer í gegnum fjárhirslur þeirra en auk frjálsra framlaga eru íslenskir stjórnmálaflokkar fjármagnaðir úr ríkissjóði. Ekki síst það knýr á að sett verði lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og að reikningar þeirra verði birtir opinberlega. Þetta eru einu sinni hátt í 200 millj. sem árlega renna til stjórnmálaflokkanna af skattfé almennings. Skattgreiðendur og þjóðin eiga rétt á því að stjórnmálaflokkar séu skyldaðir til að birta opinberlega ársreikninga sína en efni þessa frv. gengur einmitt út á það.

Frv. er ítarlegt og þar er annars vegar lagt til að settur verði almennur lagarammi um starfsemi stjórnmálasamtaka. Hins vegar er kveðið á um fjárreiður þeirra. Segja má að það sem lýtur að fjárreiðum stjórnmálaflokkanna sé tvíþætt. Í fyrsta lagi að stjórnmálasamtök verði framtalsskyld, þeim verði gert að skila skattframtali og að reikningar þeirra verði endurskoðaðir og birtir opinberlega. Í annan stað verði stjórnmálasamtökum óheimilt að taka við fjárframlögum eða ígildi þeirra frá einstökum aðilum sem fara yfir 300 þús. kr. á ári nema birta nafn þess styrktaraðila opinberlega. Víða í vestrænum löndum hafa verið lögfestar strangar reglur í þessu sambandi til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Ég nefni t.d. Noreg, en mig minnir að um síðustu áramót hafi verið sett lög í Noregi um fjárreiður stjórnmálaflokka, þess efnis að ef framlag frá styrktaraðila nemur meira en 20 þús. norskum krónum þá eigi að geta um nafn hans opinberlega.

Það verður að segjast að þetta frv. hefur ekki fengið neina efnislega umfjöllun í hv. allshn. þingsins, sem hefur fjallað um þetta mál. Fremur lítil umræða hefur jafnframt orðið um það í þingsölum. Ég minnist þess þó að hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, tók til máls um þetta frv. fyrir tveimur árum síðan. Það var mjög gott innlegg í það frv. sem hér er til umræðu. Hann setti fram ýmsar tillögur til úrbóta í þessu efni sem mér fundust allar mjög góðar. Ég hef síðan tekið þær upp í greinargerð minni og bent á það í nefnd þingsins að þau atriði ættu að koma til skoðunar um leið og þetta frv. fengi umfjöllun.

Nefndin hefur hins vegar ekki tekið málið til efnislegrar umfjöllunar þó frv. hafi verið lagt fram á fjórum þingum og vísað fjórum sinnum til allshn. Ástæðan er sú, herra forseti, að hæstv. forsrh. skipaði nefnd árið 1994 til að fjalla um og undirbúa frv. til laga um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og annað sem því tengist. Nefndin hefur verið að störfum allar götur síðan 1994. Ég heyrði síðast af störfum nefndarinnar fyrir nokkrum vikum og frétti að hún hefði skilað af sér niðurstöðu. Ég varð satt að segja mjög undrandi yfir niðurstöðu hennar og tillögum. Nú veit ég ekki hvort allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa áttu í þeirri nefnd standa að þeim drögum að tillögum sem hún lagði fyrir.

[17:45]

Það er nánast ekkert nýtt í tillögum frá þessari stjórnskipuðu nefnd hæstv. forsrh. Það er fyrst og fremst svo, eins og við þekkjum, að sérfræðiaðstoðin hefur haft lagastoð en fjárframlög eða útgáfustyrkirnir hafa einungis haft lagastoð á fjárlögum hverju sinni. Það sem mér finnst að er að þessi nefnd gerir það fyrst og fremst að tillögu sinni að þessir útgáfustyrkir fái ákveðna lagastoð í sérstökum lögum og inn í það verði sérfræðiaðstoðin fléttuð þannig að í því er raunverulega ekki nokkur skapaður hlutur nýr.

Það sem fyrst og fremst er nýtt í tillögum nefndarinnar, og mér finnst mjög athyglisvert, er að í þeirri skýrslu sem ég hef séð og tillögum kom fram að með hliðsjón af almennri jafnræðisreglu leggi nefndin til að sett verði í lög ákvæði er tryggi frambjóðendum til embættis forseta Íslands sambærilegan stuðning þeim sem stjórnmálaflokkar njóta nú í lögum. Það er það eina nýja, að frambjóðendur til embættis forseta Íslands eiga nú að fá stuðning í forsetakosningum á fjárlögum. Þetta er það eina nýja. Þetta er afraksturinn af fjögurra, fimm ára nefndarstarfi á vegum forsrh.

Herra forseti. Ég minnist þess að fyrir tveim árum var á lista þeim sem forsrh. lagði fram um þau mál sem hann mundi flytja á því þingi m.a. að finna frv. til laga um fjárreiður stjórnmálaflokka. Það kom aldrei fram á síðasta þingi og það var ekki að finna í yfirliti því sem forsrh. lagði fram um þau mál sem hann mundi flytja á þessu þingi. Það lifir stutt af þessu þingi, herra forseti, og ekkert bólar á frv. á vegum hæstv. forsrh. Mér segir svo hugur að hann muni ekki efna það loforð sem hann setti fram á sínum tíma, að slíkt frv. yrði lagt fram. Því er það að vonum að ég nefni það, herra forseti, þegar við erum að tala um þingræðið í landinu, að þingmannafrv. fá ekki afgreiðslu á þeirri forsendu að það sé von á slíku frá ríkisstjórninni eða stjórnskipaðri nefnd ráðherra. Síðan stöndum við frammi fyrir því í lok kjörtímabilsins --- það hefur verið mótbára meiri hlutans í allshn. að von væri á þessu frv. og því hefur þetta aldrei fengið efnislega umfjöllun --- að núna í lok kjörtímabilsins, það lifir kannski mánuður af þessu þingi, þá bólar ekki enn á þessu frv. Það er alveg ástæða, herra forseti, til þess að vekja athygli á þessum frumvörpum.

Ég vil í lokin ítreka það að ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að setja þessa löggjöf sem ég mæli fyrir, en samkvæmt upplýsingum stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands er upplýsingaskylda stjórnvalda um fjárreiður undantekingalítið fyrir hendi í nágrannalöndum okkar. Innan stjórnmálafræðinnar er talið nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar geri grein fyrir fjárreiðum sínum hvort sem um er að ræða ráðstöfun fjármuna af opinberu fé eða framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Lagasetning í anda þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir er nauðsynleg til að eyða tortryggni og auka tiltrú almennings á stjórnmálaflokkum og lýðræðislegum stjórnarháttum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta mál. Ég hef gert grein fyrir stærstu efnisþáttum frv. sem er ítarlegt og hef vakið athygli á því að hæstv. forsrh. hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem ég taldi að hann hefði gefið Alþingi á sínum tíma, 1994, um að leggja fram frv. til laga um fjárreiður stjórnmálasamtaka. Því hefur oft verið haldið fram að Sjálfstfl. sé aðallega á móti slíkri löggjöf og mér finnst margt benda til þess að eitthvert sannleikskorn sé til í því þegar hæstv. forsrh. sem hefur haft allan þennan tíma, og við sjáum fyrir endann á þessu kjörtímabili, ætlar ekki að leggja fram þetta frv., a.m.k. sýnist svo vera.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.