Eftirlit með ferðaskrifstofum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:34:08 (3764)

1999-02-17 15:34:08# 123. lþ. 68.10 fundur 432. mál: #A eftirlit með ferðaskrifstofum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er: Hvernig er háttað eftirliti samgönguráðuneytis með ferðaskrifstofum, þ.e. að gæði og þjónusta hótela/hótelíbúða séu í samræmi við auglýsingar?

Ráðuneytið hefur ekki bein afskipti af því hvort gæði og þjónusta hótela eða hótelíbúða séu í samræmi við auglýsingar. Hins vegar hefur verið starfandi kvörtunarnefnd ferðaskrifstofa síðan 1984. Nefndin starfar á grundvelli samþykkta fyrir kvörtunarnefnd Félags ísl. ferðaskrifstofa og Neytendasamtakanna. Kvörtunarnefndina skipa þrír fulltrúar. Einn er valinn af Neytendasamtökunum, einn af Félagi ísl. ferðaskrifstofa og einn er tilnefndur af samgrh. sem skal vera löglærður og jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndinni er ætlað að leysa úr hugsanlegum ágreiningi ferðaskrifstofu og viðskiptavinar. Það hefur m.a. verið verkefni kvörtunarnefndar að taka á kvörtunum neytenda vegna hótelrýmis erlendis sem farþegar hafa talið vera í ósamræmi við upplýsingar í auglýsingum og/eða bæklingum. Skrifstofa Neytendasamtakanna sendir hverja kvörtun til umsagnar viðkomandi ferðaskrifstofu ásamt öllum viðeigandi upplýsingum. Skal ferðaskrifstofunni veittur hæfilegur frestur til að svara kvörtuninni. Náist ekki samkomulag eða svar innan þess tíma tekur nefndin málið til úrskurðar á fyrirliggjandi gögnum.

Spurt er: Hve mörg kærumál og athugasemdir hafa ráðuneytinu borist vegna vanefnda ferðaskrifstofa á sl. fimm árum?

Eins og þegar hefur komið fram fær ráðuneytið slíkar athugasemdir ekki til meðferðar heldur berast þær ofangreindri kvörtunarnefnd ferðaskrifstofa. Nefndin hefur á síðustu fimm árum fengið 14 mál til meðferðar. Ráðuneytið gerir kröfu um að allar ferðaskrifstofur sem eru í rekstri hér á landi leggi fram tryggingu fyrir starfsemi sinni. Komi til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots ferðaskrifstofu skal trygging þessi standa undir heimflutningi farþega erlendis frá og þeim innborgunum sem viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar kunna að hafa greitt inn á ferð sem ekki var farin eftir því sem við á.

Á undanförnum fimm árum hefur ráðuneytið haft til meðferðar fjögur mál þar sem ferðaskrifstofa hefur hætt rekstri og ráðuneytið hefur orðið að grípa til fyrrgreindrar tryggingar. Öll málin eiga rætur sínar að rekja til eldri laga um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, en samkvæmt þeim voru innborganir aðeins endurgreiddar ef afgangur reyndist af tryggingarfé eftir að heimflutningur farþega var greiddur. Umræddar ferðaskrifstofur eru: Bingó-Wihlborg Rejser, er hætti rekstri í maí 1996. Ferðaskrifstofan Ístravel, er lagði inn leyfi sitt í ágúst 1996. Ferðaskrifstofan Ratvís, er lagði inn leyfi sitt í nóvember 1996. Ferðaskrifstofan GCI, er lagði inn leyfi sitt í febrúar 1997.

Spurt er: Hafi kærumál borist, hvernig hefur meðferð þeirra verið og hvernig hefur þeim lyktað?

14 kærumál hafa borist kvörtunarnefnd ferðaskrifstofa á umræddum fimm árum. Átta málum lauk á þann veg að kæranda voru greiddar bætur. Í fjórum tilvikum var ekki fallist á kvörtun kæranda og tveimur málum var lokið án afskipta nefndarinnar. Þegar Bingó-Wihlborg Rejser hætti starfsemi sinni í maí 1996 hafði á annað hundrað farþega hafið ferð á hennar vegum. Ráðuneytið hafði undir höndum tryggingu að upphæð 8 millj. kr. vegna starfseminnar og fór töluverður hluti tryggingarfjárins í greiðslu á heimflutningi farþega. Ráðuneytið auglýsti eftir kröfum í fyrrgreint tryggingarfé og barst umtalsverður fjöldi krafna og voru allar lögvarðar kröfur greiddar að fullu. Málinu lauk með því að allir farþegar voru fluttir til síns heima auk þess að allar lögvarðar kröfur voru greiddar.

Ferðaskrifstofan Ístravel lagði inn leyfi sitt í ágúst 1996 og hafði ráðuneytið 6 millj. kr. tryggingu vegna rekstrar hennar. Mikill fjöldi farþega var enn erlendis á vegum hennar. Brýnasta verkefni ráðuneytisins var að flytja þá farþega aftur til síns heima. Ljóst var að tryggingin hrykki vart til frekari greiðslu en helmings flutnings farþega. Í ljós kom að farþegar erlendis voru 275 og tóku Flugleiðir að sér að flytja þá heim gegn greiðslu 6 millj. kr. Ekki var unnt að greiða aðrar kröfur vegna ferðaskrifstofunnar Ístravel og auglýsti samgrn. ekki eftir kröfum. Engu að síður barst nokkur fjöldi kröfulýsinga til ráðuneytisins og var þeim öllum hafnað. Málinu lauk með því að allir farþegar voru fluttir til síns heima en ekkert fékkst upp í aðrar kröfur.

Herra forseti. Ég á eftir smákafla af svarinu sem ég lýk í síðari ræðu minni.