Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:49:45 (4060)

1999-02-25 15:49:45# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir því hjá Samfylkingunni að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili. Í öðru lagi vill Samfylkingin taka málið á dagskrá til að kynna það og undirbúa að fólk geti tekið afstöðu ef til þess kemur. Þetta sagði Margrét Frímannsdóttir áðan og þetta er nákvæmlega rétt. Í þriðja lagi finnst mér mjög ánægjulegt og það léttir stórum á mínu hjarta, að nú skuli hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vera kominn að þeirri niðurstöðu að í atkvæðagreiðslunni um EES-samninginn á sínum tíma hafi ekki falist afsal á fullveldi vegna þess að hann fullyrti að ef Ísland samþykkti aðildina að EES þá væri landið búið að afsala fullveldi sínu. Ég get ekki skilið hv. þm. öðruvísi núna en að hann sé kominn að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki gerst þá, en það muni gerast ef Ísland tekur fleiri skref. Alveg eins og hv. þm. sagði þá er mjög erfitt að kljúfa þetta niður. Annaðhvort drepur maður mann, svo ég vitni í frægan rithöfund, eða maður drepur ekki mann. Annaðhvort afsalar land sér fullveldi sínu eða það afsalar sér ekki fullveldi sínu. Það er ekki hægt að afsala fullveldi eins lands í þrepum eða með mörgum ákvörðunum og það léttir stórlega (HG: Ertu viss?) áhyggjum mínum, herra forseti, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli nú eftir á, fimm árum síðar, hafa komist að þeirri niðurstöðu að með samþykkt EES-samningsins hafi Ísland ekki afsalað sér fullveldi sínu.