Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:24:16 (4074)

1999-02-25 16:24:16# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:24]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það er kunnugra en frá þurfi að segja að alþýðuflokksmenn hafa verið grimmari við formenn sína en aðrir stjórnmálamenn á Íslandi og hafa ósjaldan fórnað þeim og skorið þá við trog. Þau ræðuhöld sem hafa staðið yfir um kaldastríðshugsunarhátt af hálfu fyrrverandi alþýðuflokksmanna, jafnaðarmanna og núverandi samfylkingarmanna eru mjög sérkennileg. Því er haldið fram að nú sé allt gjörbreytt, nú séu gjörbreyttar áherslur í utanríkismálum og sjálfur utanrrh. hafi komið með ferskan andblæ hingað inn í umræðuna.

En hver skyldi hafa mótað utanríkisstefnuna í fyrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar? Það var ekki Sjálfstfl. sem hélt um stjórn utanríkismála á þeim tíma. Það var sjálfur formaður Alþfl. Allar þær neyðarlegu athugasemdir sem voru látnar fjúka í dag um það hversu illa hefði verið haldið á þessum málum og að notaður hafi verið kaldastríðshugsunarháttur beinast þar af leiðandi að formanni Alþfl. Er best að segja eins og er, að þeim eru alþýðuflokksmenn verstir sem þeir unnu mest. Nú er þessum ágæta manni fórnað við trog. Ekki minnist ég þess að borið hafi nokkurn skugga á samstarf Sjálfstfl. og Jóns Baldvins Hannibalssonar í öryggis- og varnarmálum á meðan þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., áttu samstarf í öryggis- og varnarmálum --- einmitt á þeim tíma, 1991--1995 þegar mjög mikilvægar breytingar voru gerðar á öryggis- og varnarmálum í ljósi nýrra tíma. Þetta er því sérkennilegur vitnisburður um það merka starf sem sá ágæti maður, Jón Baldvin Hannibalsson, sem utanrrh. vann í sambandi við aðlögun NATO að nýjum aðstæðum, að alþýðuflokksmenn skuli ekki bera meiri virðingu fyrir því en þetta.

Sannleikurinn er náttúrlega sá að í fyrri ríkisstjórn fór Alþfl. með stefnumótun í öryggis- og varnarmálum. En þeir flokksmenn Alþfl. sem hafa nú gengið til samstarfs við Samfylkinguna hafa ekki stefnu. Þeir hafa nú svamlað um stund í heldur sérkennilegu farvatni, verður að segjast, sem ber nafnið Ísland og umheimurinn, ný heimsmynd. Þegar það farvatn er skoðað verður að viðurkennast að það er frekar gruggugt, svo ekki sé meira sagt. Þar segir að menn ætli sér sem langtímastefnumark að hætta í hernðarbandalögum og það hefur verið upplýst hér á umræðum á Alþingi að þegar talað er um hernaðarbandalagið þá er fyrst og fremst átt við NATO. Gert er ráð fyrir því að það þurfi að undirbúa brottför varnarliðsins. Þetta er það sérkennilega farvatn sem þingmenn Alþfl. og að sjálfsögðu þingmenn Alþb., þ.e. þeir sem eftir eru í þinginu, hafa verið að svamla í. Það verður að taka það alveg sérstaklega fram að þarna eru allir endar lausir. Engin skýr stefna er í þessu plaggi og við það verður Samfylkingin að búa að hún hefur enga stefnu í þessum málum. Hvað gera þá þessir ágætu menn og konur sem þarna búa við algjört stefnuleysi í öryggis- og varnarmálum? Jú, þeir grípa fegins hendi, eins og drukknandi menn grípa í bjarghring, í fylgiskjal með ræðu utanrrh. um utanríkismál á Alþingi. Þetta er bjarghringurinn. Mér fyndist satt best að segja athyglisvert fyrir þingheim að velta því fyrir sér hvað er letrað á þennan bjarghring. Það er afskaplega auðvelt að lesa það. Það kemur fram bæði í fylgiskjalinu og í ræðu hæstv. utanrrh. að engin grundvallarbreyting verður á NATO-aðildinni né heldur í varnarmálum. Það er áréttað bæði í fylgiskjalinu og í ræðu utanrrh. Hvað stendur með öðrum orðum á bjarghringnum? Það stendur: Ísland í NATO og varnarliðið áfram hér á landi. Þá kann vel að vera að þessum gömlu alþýðuflokksmönnum, sem einu sinni höfðu stefnu í öryggis- og varnarmálum, líði svolítið skár fyrst þeir ríghalda sér í þennan bjarghring sem á stendur: NATO og varnarliðið áfram hér. En ég er ekki viss um að hv. þm. Margréti Frímannsdóttur líði alveg eins vel í þessu kompaníi. Ég er ekki alveg viss um það.

Þessi málflutningur hefur verið með endemum og ótrúlega ómarkviss og í raun og veru ódrengilegur gagnvart Jóni Baldvini Hannibalssyni, þeim manni sem átti þátt í því að laga málefni Atlantshafsbandalagsins að nýjum og breyttum aðstæðum. Ég vil mælast til þess að menn reyni að sýna því verki sem sá ágæti maður starfaði að örlítinn vott af virðingu þó ekki væri meira.

Þegar litið er yfir fylgiskjalið með ræðu ráðherrans kemur í ljós að í c-lið, sem hið örvæntingarfulla lið Samfylkingarinnar hengir sig sem mest á, er talað um að kannaðar verði leiðir til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk einir eða í samstarfi við önnur ríki í vörnum landsins. Hvaða yfirlýsing fylgdi þessum punkti frá hæstv. utanrrh.? Jú, sú yfirlýsing að á engan hátt er gefið í skyn að gerðar verði grundvallarbreytingar á varnarsamstarfinu við Bandaríkin né NATO. Þarna sést því í hvaða ljósi á að lesa þessar yfirlýsingar og þessar hugmyndir. Og það get ég sagt sem sjálfstæðismaður að ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því að Íslendingar taki aukinn þátt í vörnum landsins. Ég fagnaði því þegar Íslendingar tóku aukinn þátt í vörnum landsins og ratsjárstöðvamálið var mjög jákvætt. Að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að skoða áfram hvernig hægt er að stuðla að því að Íslendingar taki meiri þátt í vörnum landsins að því tilskildu að menn hafi stefnu í varnarmálum og öryggismálum og varnar- og öryggismálum okkar sé ekki stefnt í óvissu, eins og Samfylkingin hefur gert.

[16:30]

Þetta er nauðsynlegt að komi hér fram eftir þessa mjög svo sérkennilegu og ómarkvissu umræðu sem alþýðuflokksmenn hafa staðið fyrir og raunar Samfylkingin öll því að mjög töluðu þau nú svipuðum rómi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Sighvatur Björgvinsson og Margrét Frímannsdóttir. Þetta var nauðsynlegt að láta koma fram.

Ég ætla nú aðeins að víkja að þeim fullyrðingum sem komu fram fyrr í dag, að hæstv. utanrrh. hefði ekki kynnt Kyoto-málið fyrir utanrmn. Til að fyrirbyggja allan misskilning í þessu máli verður að taka fram að þann 15. des. 1997 var gerð grein fyrir Kyoto-bókuninni alveg sérstaklega á sameiginlegum fundum umhvn. og utanrmn. Þar var farið yfir stöðuna og hún skýrð í smáatriðum. Síðan, og þá sérstaklega á þessu þingi hefur ekki komið fram sérstök ósk hjá stjórnarandstöðunni um að farið yrði yfir þetta mál. Það er rétt að þetta fylgi umfjöllun málsins hér á þingi.

Ég ætla hins vegar að lokum, af því að ég á örfáar mínútur eftir, að fara yfir allt annan hluta af ræðu hæstv. utanrrh. sem ekki gefst tími til að fjalla um í heild en æskilegt er að geta fjallað þar um einstök málefni eins og margir þingmenn hafa kosið að gera.

Fjallað er lítillega og jákvætt um Norðurskautsráðið. Öllum er ljóst að viðfangsefni Norðurskautsráðsins hafa verið ráðherranum mjög ofarlega í huga. Hann hefur lagt þar gjörva hönd á málið og reynt að þoka þeim málum til betri vegar. Hér er um að ræða mjög athyglisverðan samstarfsvettvang sem snertir mjög mikla grundvallarhagsmuni Íslendinga, þ.e. umhverfið í kringum Ísland, nýtingu auðlinda og sjálfbæra þróun.

Að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á það að starf Norðurskautsráðsins skili sem mestum árangri og það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda frá upphafi. En það verður að segja að áhrif ráðsins hafa ekki orðið eins mikil og við Íslendingar höfðum vænst. Nokkrar ástæður liggja til þessa sem mér finnst rétt að geta um.

Hlutverk Norðurskautsráðsins, eins og það var skilgreint og er skilgreint í Ottawa-yfirlýsingunni, er að vera vettvangur sem framfylgir þeirri umhverfisvernd sem kveðið er á um í Rovaniemi-yfirlýsingunni 1991 og styðja þá umhverfisverndarstefnu sem þar er kveðið á um með því að semja sérstaka áætlun um sjálfbæra þróun. Þessu hefur í raun ekki verið fylgt eftir með áætlanagerð um sjálfbæra þróun og sá ásetningur að koma á slíkri áætlanagerð, sem var ítrekaður í Iqualit hefur ekki breytt þessari stöðu. Það skortir því enn á sameiginlega heildarstefnu í sjálfbærri þróun þeirra svæða sem aðildarríkin ná yfir, stefnu sem gerir grein fyrir helstu forgangsverkefnum og leiðir til þess að starfið allt og fjármagn nýtist sem best. Á það ekki síst við um rannsóknargeirann.

Annað sem hefur háð þessu starfi og nauðsynlegt er að finna einhverja framtíðarlausn á er að það hefur aldrei verið fyllileg eining um það í Norðurskautsráðinu hvernig skuli starfað að verkefnum ráðsins. Bandaríkjamenn hafa lagt áherslu á einstök verkefni, sem í sjálfu sér hafa verið mjög athyglisverð, en aðrar aðildarþjóðir svo til allar hafa lagt áherslu á að tengja einstök verkefni heildarstefnu í málefnum norðursins og Íslendingar fylla þennan flokk. Þátttaka Bandaríkjamanna í starfi Norðurskautsráðsins er hins vegar mjög mikilvæg, bæði vegna hnattrænnar stöðu Bandaríkjanna en þó enn fremur vegna þess hversu mikil áhrif Bandaríkjamenn hafa í alþjóðamálum. Þá eru einnig umhverfissamtök í Bandaríkjum áhrifamikill þrýstihópur og hefur haft talsverð áhrif á stefnu stjórnvalda í umhverfismálum.

Í þriðja lagi hefur það háð störfum Norðurskautsráðsins og þingmannafunda heimskautasvæðanna að það ríki sem á langstærsta heimskautasvæðið og býr við raunar stærstu mengunarvandamál heimskautasvæðanna glímir við mjög alvarlegan efnahagsvanda. Rússland er í raun og veru lamað efnahagslega og það er veikt og ómarkvisst stjórnarfarslega og einnig, því miður, er það vísindalega mjög máttfarið. Í Rússlandi eru jafnframt saman komnar helstu uppsprettur umhverfisvandamála norðursins.

Það er að sjálfsögðu viðfangsefni Norðurskautsráðsins að reyna að finna einhvers konar tvíþátta stefnumörkun sem annars vegar tekur á sérstökum verkefnum en á hinn bóginn tekur á heildarstefnumörkun í sjálfbærri þróun á þann hátt að Bandaríkjamenn geti sætt sig við þá stefnu því að þetta hefur á vissan hátt dregið máttinn úr því starfi sem unnið hefur verið innan Norðurskautsráðsins.

Það er hlutverk Íslendinga að reyna að stuðla að því að koma þessum málum í betri farveg og það er ánægjulegt til þess að vita að sérstakur vinnuhópur, menn kalla þetta nú stundum á íslensku vinnusmiðju, verður settur á laggirnar og heldur hér allmerkilega stefnu, ráðstefnu ef svo má kalla, um einmitt sjálfbæra þróun. Er það tilgangurinn með þessu verki að hægt verði að leggja fram drög að stefnu fyrir Norðurskautsráðið sem nær yfir þau heildarmarkmið sem ráðið setur sér. Þeir sem standa að þessu ráði, fyrir utan alþjóðlegu vísindanefndina fyrir Norðurskautssvæðin, þá er það samstarf háskóla sem gengur undir nafninu Háskólar heimskautasvæðanna, en sú stofnun hefur innan sinna vébanda marga af merkustu og ágætustu háskólum Norðurskautssvæðisins bæði í Kanada, Noregi, Finnlandi og á Íslandi, og síðan stendur að þessu Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Ég leyfi mér að vona að út úr þessu geti komið fyrstu drög að heildarstefnumörkun í sjálfbærri þróun fyrir Norðurskautsráðið.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri um ræðu og skýrslu hæstv. utanrrh. og þau gögn sem lögð hafa verið fram í umræðunni.