Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:59:57 (4151)

1999-02-26 14:59:57# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé eiginlega spurning um út frá hvaða viðhorfum við nálgumst þetta viðfangsefni, eins og t.d. skipan forsn. Hvort við erum að tala um að hún eigi í rauninni að vera hlutfallslega skipað tæki í þinginu eða að hún eigi að vera samstarfsvettvangur þeirra aðila sem hér vinna. Það er mín hugsun. Og þingflokkarnir eru ákveðin starfsleg og skipulagsleg eining, tæki í þinginu, burt séð frá stærð sinni þá er það þannig. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að þeir eigi sér eftir því sem kostur er fulltrúa í forsn. og/eða annars staðar þar sem samráð fer fram um skipulagningu starfanna hér inni. Og þá finnst mér ekki eiga að skipta öllu máli hvort einn á 20 þingmenn og annar fimm eða hvaða hlutföll þarna eru á ferðinni, ef við nálgumst málið svona. Ef við nálgumst það frá hinum sjónarhólnum, þá getur vel farið svo að stærsti flokkurinn nái tveimur eða jafnvel þremur í þessari nefnd. Og er það mjög gáfulegt skipulag að fulltrúar eins þingflokksins sitji þarna hver ofan á öðrum, ef svo má að orði komast, en svo séu tveir eða þrír þingflokkar úti og eigi enga aðild að þessum vettvangi þar sem störfin eru skipulögð? Ég nálgast þetta út frá þessu.

Varðandi forsetann er mín hugsun sú að ef stjórnarandstaðan á hverjum tíma, minni hlutinn, væri styrkt með því að hún legði þinginu til forseta, þá felst í því ákveðið jafnvægi, ákveðið fyrirkomulag sem kallar á samstarf og samráð milli t.d. ríkisstjórnar, framkvæmdarvalds annars vegar og þingsins hins vegar um skipulag starfanna og framgang mála. Að sjálfsögðu ræður meiri hlutinn áfram efnislegri niðurstöðu mála. En þegar kemur að skipulagningu starfanna, þá mundi þetta sjálfkrafa kalla fram samráð um störfin og sterkari stöðu þingsins í samskiptum við framkvæmdarvaldið. Svipuð var hugsun mín um þingnefndirnar. Það kann vel að vera að það gæti skapað vanda að lögfesta það hlutfall en þó að það réðist að einhverju leyti af styrkleikahlutföllum þá væri réttur stjórnarandstöðunnar eða minni hlutans til ákveðinnar stöðu þarna lögfestur. Það er það sem ég er að hugsa um.