Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:11:30 (4200)

1999-03-01 16:11:30# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ekki er annað hægt en lýsa því yfir að það væri fráleitt að hætta við sölu Áburðarverksmiðjunnar eins og nú er komið málum. Einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar væri rúin öllu trausti ef það yrði gert. Það er reyndar búið að fresta sölunni einu sinni vegna þess að það verð sem bauðst var ekki talið nægjanlega gott og það hefur greinilega borið ríkulegan ávöxt eins og kom fram hjá hæstv. landbrh. En að hætta við á þessu stigi málsins væri aldeilis fráleitt.

Ég kannast ekki við neinar samsæriskenningar eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var uppi með og þaðan af síður ætti það að vera nokkur ástæða til að hætta við söluna. En hvað kemur hv. þm. Hjálmari Árnasyni til að segja að kaupandinn hafi hafnað sóknarfærum tengdum vetni? Hann segir það nánast í sama orðinu og hann talar um að athafnamaður hafi lagt fram hæsta tilboðið. Og hvers konar athafnamaður væri það sem hafnaði tækifærum tengdum vetni? Eða hafnaði bara yfirleitt nokkrum tækifærum í sambandi við þá atvinnustarfsemi sem hann er að kaupa? Auðvitað verður málið þannig að ef hagkvæmt er talið að framleiða áburð í verksmiðjunni, þá verður framleiddur áburður þar. Ef hagkvæmt verður að framleiða vetni á einhvern hátt eða rannsaka vetnisframleiðslu, þá verður það gert. Það dettur ekki nokkrum heilvita manni í hug að kaupa verksmiðju upp á 1,3 milljarða án þess að ætla sér að reka þar einhverja hagkvæma starfsemi. Ætlum við að fara að þvinga einhverja óhagkvæma starfsemi upp á kaupendurna, eða ætlaði hv. þm. Hjálmar Árnason að leggja til að við höldum áfram með einhverja ríkisstarfsemi þarna, einhverja aðra en áburðinn? Það væri fráleitt að hætta við sölu þessa fyrirtækis, herra forseti.